26.7.12

BMW G650 Sertao mótorhjól (2012)

BMW G650 Sertao Fullbúið með töskum
og upphitiuðum handföngum. Myndir / HLJ

 Með fyrirmyndar ABS bremsubúnaði


Fátt finnst mér skemmtilegra en að keyra gott mótorhjól á góðviðrisdögum og ekki hefur það verið afleitt sem af er sumri, enda hef ég verið duglegur að „mótorhjólast“.
Mótorhjólainnflytjandinn Reykjavík Motor Center bauð mér
að prófa nýtt mótorhjól af gerðinni BMW G650 Sertao, en það er með 652 cc einsstrokks vél sem á að skila 48 hestöflum og er 175 kg (fullt af
bensíni 192 kg.). Hjólið er með 21 tommu framgjörð og 17 tommu afturgjörð sem gerir það jafnvígt á malarvegum og á malbiki.


ABS bremsubúnaður til fyrirmyndar


Hjólið sem ég prófaði var að fara sem leiguhjól til Biking Viking hjólaleigunnar og var því útbúið með farangurstöskum og veltigrind sem aukabúnaði. Ég ók hjólinu um 80 km við misjafnar aðstæður og fátt sem kom mér á óvart, þó verð ég að hæla tæknimönnum hjá BMW fyrir hversu langt þeir eru komnir í þróuninni á ABS bremsubúnaðinum í hjólinu. BMW var einn af fyrstu  framleiðendum mótorhjóla til að koma með ABS bremsubúnað í mótorhjól í kringum 1992. Fyrst virkaði þetta einfaldlega ekki í beygjum og á möl, en nú 20 árum seinna má rífa í frambremsu í lausamöl án þess að eiga á hættu að splundrast beint á hausinn. Ég gerði nokkrar tilraunir á þessu á mismunandi hraða og alltaf var útkoman svipuð. Ég tók ABS bremsurnar af og prófaði að bremsa
með og án þeirra og á 30 km hraða stoppaði ég 11 fetum fyrr án ABS en með því (ég vil benda á að ég tel mig hafa þokkalega kunnáttu til mótorhjólaaksturs og bremsuhæfileika eftir 30 ár á mótorhjóli). ABS bremsur eru góðar á þessu hjóli, sérstaklega fyrir byrjendur, en þegar maður venst hjólinu mæli ég með því að ökumaðurinn reyni sig áfram án þeirra (sérstaklega á möl).

Grófur gangur

Gangurinn er svolítið grófur í mótornum, enda 1650 cc stimpill sem skilar tæpum 50 hestöflum og minnir hljóðið í mótornum í hægagangi óneitanlega á gamla Deutz d15 traktorinn sem til var í minni sveit þegar ég var strákur. Að keyra mótorhjól með svona stórar töskur er í fyrstu svolítið skrítið, en venst strax. Þó getur verið leiðigjarnt að vera með topptöskuna í miklum vindi ef maður er einn á
hjólinu, en með farþega og topptösku er betra að keyra hjólið.

Stillanleg fjöðrun

Fjöðrunin er stillanleg og hægt að breyta stillingu á afturdemparanum á ferð, sem er gott ef fram undan er malarkafli.

Eyðir um 4-5 lítrum á hundraðið 

Bensíneyðslan er ekki mikil, en mér sýndist ég hafa farið með innan við 4 lítra af bensíni á þessum 80
km sem ég keyrði hjólið og gæti trúað að meðaleyðslan á 100 km væri nálægt 4-5 lítrum á hundraðið. Lokaniðurstaða er að BMW G650 Sertao er ekta hjól til brúks fyrir flesta vegi í íslensku vegakerfi,
semsagt mótorhjól til að nota

Góð kaup

Verðið á Sertao er lægra en ég bjóst við, en án taskna er það um 2.100.000. Ég mæli þó eindregið
með því að menn kaupi töskur og veltigrind undir mótorinn og bæti þar með tæpum 200.000 krónum við, en hjólið sem ég prófaði var með
svoleiðis útbúnaði og kostar rétt um 2,3 „millur“ (persónulegt mat: góð kaup á mótorhjóli til almenns brúks).


Bændablaðið 
26.07.2012