Vélabásinn
Vélknúin farartæki henta misvel til smölunar:
Létt klifurhjól og léttustu fjórhjólin henta best – Sum tæki eiga alls ekkert erindi á gróið land
GASGAS TX 125 Randonee |
Umhverfisstofnun sendi frá sér fréttatilkynningu þann 27. ágúst undir fyrirsögninni „Göngum vel um landið í leit að fé“.
Tilkynningunni er beint til smala á vélknúnum ökutækjum. Í niðurlagi hennar kemur fram að heimilt sé að aka utan vega vegna starfa við landbúnað á landi utan miðhálendisins, sem sérstaklega er nýtt sem landbúnaðarland, að því tilskildu að ekki hljótist af því náttúruspjöll. Það er vissulega þörf á að minna á slíkan utanvegaakstur og að bændur sem aðrir leggi sig fram um að ganga vel um landið. Ég hefði þó viljað sjá í þessari tilkynningu frá Umhverfisstofu góð ráð um notkun ökutækja við smölun en reyni að bæta aðeins úr því hér.
Prófun á klifurhjóli til að sannreyna fullyrðingar
Þann 18. ágúst 2011 var auglýst í Bændablaðinu mótorhjól undir fyrirsögninni „Nýjung í smalamennsku, létt klifurhjól“. Það átti ekki að skemma land og vera umhverfisvænt. Þrátt fyrir að hafa keyrt mótorhjólí 30 ár var þetta það mikil nýjung fyrir mig að ég taldi mig þurfa að prófa hjólið í smalamennsku tilað sannreyna þessar fullyrðingar í auglýsingunni. Þann 15. september 2011 skrifaði ég smalasöguna og að hjólið hefði staðist prófið. Það var umhverfisvænt, tætti ekki upp gróður og var gott til smölunar. Ég skrifaði ekki allt sem ég reyndi á þessu hjóli því þar var ég að bera hjólið saman við fjórhjól, sexhjól og hesta sem voru með mér í þessum göngum. Hvað gróðurvernd varðar tel ég persónulega að klifurhjólið hafi haft vinninginn í samanburði við öll önnur tæki og líka hesta. Skömmu eftir þessi skrif mín í Bændablaðinu kom að máli við mig bóndi og spurði hvort ég gæti ekki miðlað af þekkingu minni til bænda í von um betri umgengni til gróðurvemdar í tengslum við tvíhjól og fjór/ sexhjól. Hér að neðan eru nokkur veigamikil atriði sem gætu hugsanlega hjálpað notendum slíkra tækja að vernda gróður eins og mögulegt er. Byltingarkenndar tækninýjungar Tækninýjungar í fjöðrun og hjólbörðum á klifurhjólum eru svo byltingarkenndar að enginn trúir hvernig þau eru í akstri á grónu landi nema að sjá það með eigin augum. Fyrir nokkru voru ráðunautum í jarðrækt hjá Bændasamtökunum kynnt svona hjól. Jarðræktarráðunautarnir trúðu varla ökumönnunum sem kynntu hjólin og vildu meina að einhver brögð hlytu að vera í tafli við kynninguna. Að lokum sannfærðust þeir þó og gátu fallist á að mótorhjól væri ekki bara mótorhjól, þessi klifurhjól væru öðruvísi.
Sum tæki eiga alls ekkert erindi á gróið land
Þegar ég prófaði klifurhjólið í göngunum á síðasta ári var það ekki í fyrsta sinn sem ég smalaði á mótorhjóli, og reynsla mín er að sum tæki eigi alls ekkert erindi á gróið land sökum uppbyggingar. Tökum t.d. „motocrosshjól“. Þau eru hönnuð til keppnisaksturs á sérútbúnum brautum og eru mjög óhentug til smalamennsku. Gírkassi er ekki gerður fyrir hæga ferð, vélinni er ætlað að vera á miklum snúningi og ef hún er það ekki getur hún ofhitnað. Fjöðrunin er of stíf og hentar hvorki í miklu grjóti né þúfum. Motocrosshjól eru að öllu jöfnu með 19 tommu afturdekk og mjúk 19 tommu dekk eru einfaldlega ekki flutt til landsins. Svokölluð „endurohjól“ eru svipuð og motocrosshjól og eru endurohjól sem flutt eru hingað til lands oftast með stóra vél. Ef hjólið er með minni vél en 400 cc og afturdekk undan klifurhjóli má notast við svoleiðis hjól við smalamennsku á ýmsum stöðum, þó að til séu undantekningar um stærð hjólanna.Sexhjólin verri en fjórhjólin
Hvað varðar fjórhjól og sexhjól, þá geta sexhjólin verið mjög notadrjúg til smalamennsku. Þau þola samt illa mikinn skak-akstur og vilja liðast í sundur. Einnig vilja sexhjól tæta upp gróður og skilja eftir sig mikil för eftir öftustu hásinguna ef beygt er harkalega. Til að lágmarka þann skaða er best að vera með sem sléttust dekk á öftustu hásingunni á sexhjólum. Mitt persónulega mat er að sexhjól skemmi gróður mun meira en fjórhjól. Spurningin er þó hvort ekki mætti taka fremri afturdekkin undan sexhjólunum við smalamennsku til að lágmarka gróðurskemmdir. Ef keypt eru ný dekk undir sexhjól er mjög gott að geyma gömlu slitnu dekkin til að geta sett undir öftustu hásinguna þegar ekið er í viðkvæmum gróðri.Kraftlitlu og léttustu fjórhjólin henta vel
Fjórhjól undir 500cc eru sennilega þau hjól sem henta einna best og þá á fínmunstruðum dekkjum. Þessi litlu fjórhjól eru yfirleitt um 100- 200 kg léttari en stóru 800+ cc hjólin, fljóta því mjög vel og eru oftast með minni þunga á hvern fersentimetra á jörðinni en sexhjól, þótt hjólin á jörðinni séu aðeins fjögur.
Engin þörf á drulluspyrnudekkjum í smalamennsku
Engin þörf er á að vera á einhverjum drulluspyrnudekkjum í smölun því í raun henta gömlu hálfslitnu dekkin best og marka minnst í gróið land. Ef landið er blautt er hætta á að það vaðist upp í drullu. Því verður einfaldlega að reyna að krækja fyrir viðkvæmustu staðina. Sé verið að krækja fyrir blautan stað vegna hættu á að festa sig er nánast alltaf betra að fara upp fyrir blauta staðinn ef sá kostur er fyrir hendi. Þá losna menn við að skemma gróðurinn fyrir neðan.Stóru og kraftmiklu fjórhjólin oft miklir skaðvaldar
Stóru og þungu 800 cc fjórhjólin eru oftast óttalegir skaðvaldar fyrir gróið land því að í hvert sinn sem gefið er í er krafturinn og þunginn svo mikill að smá spól mynda sár, en litlu hjólin eru svo mátulega kraftlaus og létt að þau spóla síður.Létt klifurhjól henta best
Ef ég væri að fara í göngur í dag og mætti velja mér vélknúinn fararskjóta mundi ég hiklaust velja klifurhjól af gerðinni GasGas TX 125 Randonee frá JHM Sport á Stórhöfðanum. Það er ekki nema 85 kg og er að mínu mati sérhannað fyrir smalamennsku. Hjólið er létt og mjúk dekkin fara vel með gróður. Það er með fjögurra lítra bensíntank og nægan kraft án þess að hætta sé á spóli og er sérstaklega hannað til að klifra á mjög hægri ferð. Þá er það með rafstarti og kostar ekki nema 625.000 krónur fyrir utan virðisaukaskatt. Ég hef tröllatrú á klifurhjólum og tel mikla framtíðarmöguleika í notkun þeirra við búskap. Eftir að hafa prófað þetta GasGas hjól verð ég að segja að það er ótrúlega notadrjúgt og gott til brúks.
Bændablaðið 6.09.2012
http://timarit.is/
http://timarit.is/