Í Bændablaðinu þann 18. ágúst sl. var auglýst mótorhjól sem „nýjung í smalamennsku“. Létt klifurhjól, tætir ekki upp gróður, umhverfisvænt. Með þessari auglýsingu opnaðist heit umræða um smalamennsku á vélknúnum tækjum og utanvegaakstur.
Flest mótorhjól eiga ekkert erindi í smalamennsku
Ég er á þeirri skoðun að motocrossmótorhjól eigi ekkert erindi í smalamennsku þar sem gróður er. Þau eru sérsmíðuð keppnistæki til aksturs á motocross-brautum, en öðru gegnir með svo kölluð enduro-hjól, sem eru aðeins mýkri, en samt í flestum tilfellum óhentug til smalamennsku. Það er því vissulega fagnaðarefni ef þessi klifurhjól geta verið notendavæn í smölun og alltaf ber að fagnanýjungum. Af hverju mættu bændur ekki nýta sér nýjustu tækni eins og aðrir? Mér fannst ég knúinn til að kanna málið. Ég hafði samband við umboðið og bað Kristján eiganda þess að lána mér hjólið til prufuaksturs við smalamennsku. Hann varð við bón minni og lánaði mér hjólið, fór ég með það í
Húnavatnssýsluna á kerru og smalaði í tvo daga
Sætislaus Sherco
Mótorhjólið heitir Sherco, er með 272cc tvígengismótor og kemur með götuskráningu, þannig að það
má keyra í almennri umferð. Fyrri daginn fór ég á því keyrandi (standandi alla leiðina) 20 km fram
á Grímstunguheiði í Öldumóðuskála þar sem bændur voru að leggja upp í smalamennsku. Ég kynnti mig fyrir gangnaforingjanum og spurði hvort hann hefði einhver not fyrir mig. Hann svaraði: Það fer einn á sexhjóli niður slóðann hjá Refkelsvatni, fylgdu honum og hann segir þér hvað þú átt að gera. Ég fór vegslóðann á eftir sexhjólinu, rétt eins og hundur sem fylgir húsbónda sínum. Ég reyndi að gera eins og mér var sagt, en mér var ætlað að smala blautasta svæðið á leiðinni niður heiðina á milli tveggja vatna þar sem illfært er gangandi, ríðandi eða á sexhjóli.
Markaði ekki í jarðveginn
Sennilega kom það mér mest á óvart hvað hjólið hafði lítið fyrir þessu og rann þarna ofan á jarðveginum án þess að marka neitt í jörðina, nema hvað grasið lagðist á hliðina rétt á meðan ekið var yfir það, ekki eitt spól og engin drulla. Þegar ég var kominn yfir labbaði ég til baka til að færa sönnur á þetta með mynd. Í þeim göngutúr held ég að hafi markað meira eftir mig og mína hörðu skó en klifurhjólið á fínmunstruðum, mjúkum dekkjunum.
Erfitt að geta ekki setið
Eftir um 70 km akstur fyrri daginn hafði ég eytt rétt innan við fimm lítrum af bensíni. Seinni daginn
smalaði ég fjallshlíð hjá bónda sem ég þekki í Vatnsdalnum og hlíðin er brött, enda heitir fjallið Brattafjall. Hjólið skilaði mér upp og niður hlíðina með lítilli fyrirhöfn, á aðeins einum stað sá ég u.þ.b. meters kafla þar sem ég hafði beygt harkalega og rifið upp mosa, en stærstu mistökin hjá mér í þessum prufuakstri voru að ég æfði mig ekkert á hjólinu fyrir þessa smalamennsku og vitandi það
að geta ekki sest niður á hjólinu var ég ekki í neinu líkamlegu formi til að gera það sem ég gerði þessa helgi á Sherco-klifurhjólinu. Sherco-hjólið gat einfaldlega gert miklu meira heldur en ég gat.
Sporar minna en hross
Tvímælalaust mæli ég með þessu hjóli til smalamennsku og er það mitt mat að hjólið skemmi minna en maður með þrjá hesta. Sama hver fer um landið, það verða alltaf eftir spor og er þá ekki eðlilegt að nota þann fararmáta sem sporar minnst út?
Lokaorð mitt er að auglýsingin stenst; þetta er umhverfisvænasta hjól sem ég hef keyrt. Mér tókst með mikilli lagni að tæta upp einn meter af mosa með því að gera það á ferð í beygju, hjólið er svo létt að það markar varla í jörð. Sherco-hjólið sem ég prófaði kostar 1.100.000 krónur en nánari
upplýsingar um hjólið má finna á vefsíðunni www.mxsport.is.
Kostir:
Létt (69 kg), kraftmikið, lágvært, götuskráning, mjúk dekk, gott í gang, eyðir litlu (í vinnu einum lítra á klukkutíma), hátt undir lægsta punkt, æðislegt leiktæki (finnst mér allavega).
Tel að flestir byrjendur vildu hafa sæti (tiltölulega lítið mál að útbúa festingu fyrir reiðhjólahnakk á hjólið en þetta hjól sem ég prófaði er meira keppnistæki í klifuríþróttum, en til eru svipuð hjól með sætum), það þarf að æfa sig á hjólinu fyrir smalamennsku (ég er að drepast úr strengjum), mæli ekki
með hjólinu fyrir þyngri menn en 90 kg (persónulegt mat).
Bændablaðið
15. september 2011