30.6.06

Stormur kynnir Victory mótorhjól



 Það er viðeigandi að söluumboð Victory-mótorhjólanna, Stormur ehf., hefji sölu á þessum lítt þekktu mótorhjólum 4. júlí, þjóðhátíðardag Bandaríkjanna en þá eru átta ár liðin frá því merkinu var hleypt af stokkunum í Bandaríkjunum. „4. júlí er átta ára afmæli Victory-mótorhjóla fagnað í Bandaríkjunum og því full ástæða til að fagna sömuleiðis opnun fyrsta sjálfstæða umboðsins fyrir Victory-hjól utan Bandaríkjanna,“ segir Skúli Karlsson, framkvæmdastjóri Storms ehf.

Skúli ætlar að bjóða öllum mótorhjólaáhugamönnum að fagna áfanganum með sér í húsakynnum Storms að Kletthálsi 15 og bjóða upp á veitingar á staðnum.
Til sýnis verða fimm gerðir Victory-mótorhjóla, á verði frá 1.851 þúsund til 2.301 þúsund, en það eru gerðirnar Vegas, Vegas 8 ball sem er ódýrasta mótorhjólið, Jackpot sem er dýrasta mótorhjólið, Hammer og Kingpin – einu hjólin sem vantar úr framleiðslulínu Victory eru Jackpot Ness Signature og Victory Touring Cruiser en þau mun þurfa að sérpanta.

„Ég er ekki að selja þetta vegna verðsins, ég sel þetta vegna þess að þetta eru langflottustu hjólin á markaðnum,“ segir Skúli sem fékk verðlaun fyrir fallegasta mótorhjólið á sýningu Bílaklúbbs Akureyrar helgina 16. til 18. júní en þar vöktu hjólin mikla athygli.

Victory hefur náð góðum árangri í Bandaríkjunum sem „hitt“ bandaríska mótorhjólamerkið en söluaukning síðustu ár hefur verið mjög mikil og telja framleiðendur Victory að það stafi að stórum hluta af því að þeir fylgja ekki hefðum og eru ungt fyrirtæki í mótorhjólaframleiðslu sem leitar nýrra leiða.

Flest Victory mótorhjól eru með 100 rúmtommu vél, eða sem svarar rúmlega 1,6 lítra vél og því ljóst að þessi mótorhjól eru ekki vélarvana en jafnan eru mjög stórir og öflugir mótorar notaðir í þær gerðir mótorhjóla sem flestir kalla orðið „hippa“ hér heima.

Morgunblaðið 30.6.2006