30.6.06

Harley Davidson opnar mótorhjólaleigu á Íslandi 2006


Fimm góðir hlutir til að gera þegar Harley Davidson mótorhjól er fengið að láni


Í FYRSTA skipti á Íslandi er hægt að leigja sér Harley Davidson-mótorhjól. Dulúðinni hefur því verið létt af þessu fræga merki og það er ekki lengur þörf á því að vera vítisengill til að vera við stjórnvölinn á Harley Davidson.
Davidson. Bílablað Morgunblaðsins fékk lánað Harley Davidson Road King Classic-hjól. Blaðamaður nýtti sér því tækifærið og gerði þá fimm hluti sem hann hefur alltaf langað að gera ef hann einhvern tímann kæmist yfir Harley Davidson.
Númer eitt er að skella sér í mótorhjólagallann, finna viðeigandi og töff klút um hálsinn, keyra svo heim sem leið liggur og sýna fjölskyldunni hvað maður er flottur á Harley Davidson. Þú uppskerð eins og þú sáir og það er aldrei að vita nema það eigi eftir að koma sér vel hafa unnið dálítið í ímyndinni. Það er heldur varla hægt annað en nánast að rifna úr stolti þegar rennt er á þessum risastóra fák, með tilheyrandi drunum, í innkeyrsluna hjá vinum og vandamönnum.
Númer tvö er að fara á rúntinn. Í óteljandi skipti hefur blaðamaður staðið sem barn væri og dáðst að mótorhjólunum við planið sem áður var hallæris en er nú torg Ingólfs. Loksins er maður „einn af þeim“ og hefur nú tækifæri til að vera hinum megin við glerið, ef svo má segja, og njóta athyglinnar sem er fylgifiskur krómaða vélfáksins.
Númer þrjú er verðugt viðfangsefni en það snýst um að heimsækja þá sem líklegastir eru til að smitast af mótorhjólaveirunni. Þá skiptir öllu að það líti út fyrir að maður hafi aldrei gert neitt annað en að aka Harley Davidson. Það er mesta furða hve mótorhjólið er lipurt, reyndar er það algjör engill, svo mikill engill að maður furðar sig ekkert á því mótvægi sem vítisenglarnir telja sig þurfa að veita mótorhjólinu. Það reyndist líka auðvelt að smita þá sem voru með veikt ónæmiskerfi fyrir, að sjálfsögðu, enda sá mótorhjólið sjálft um að heilla alla sem nálægt því komu. Það skipti engu hvort um var að ræða hraðafíkla, listamenn, listasmiði, blaðamenn, bankamenn eða forstjóra; öll, alveg sama hve ólík þau voru, hrifust af „hallanum“, titringurinn þegar sest var í söðulinn ruggaði hverjum sem er sem í draumalandi væri.
Að sjálfsögðu má ekki skilja vinnufélagana út undan og því var fjórða atriðið á listanum yfir það sem maður verður að gera þegar maður fær Harley Davidson-mótorhjól lánað að kíkja á þá og hneppa þá sömuleiðis í ánauð. Það gekk að sjálfsögðu mjög vel. Innan skamms tíma var komin ágætur hópur í kringum hjólið. Það er dálítið skrýtið hve fólk getur haft ólíkar skoðanir á mótorhjólum en samt sameinast um að vera hrifið af Harley Davidson.
Fimmta atriðið var svo þess eðlis að líklega er annað hvort þörf á vænum skammti af heppni eða hreinlega að eiga Harley Davidson, því það síðasta sem blaðamaður gerði, skömmu eftir miðnætti, var að keyra inn í blóðrautt sólarlagið á fallegu sumarkvöldi í Reykjavík. Að sjá himininn endurspeglast í króminu var draumi líkast og minnti á einskonar nútímaútgáfu af baksíðu Lukku-Láka-bókanna, þegar Lukku-Láki reið á móti sólsetrinu í lok bókar. Fákurinn var kannski ekki holdi klæddur eins og Léttfeti en reiðmanninum leið svo sannarlega eins og hetju.

Engin þörf á að láta sig dreyma lengur

Það er hins vegar engin þörf á að láta sig dreyma lengur því Harley Davidson-umboðið býður nú upp á leigu á mótorhjólum þar sem hægt er að leigja fjórar gerðir af mótorhjólum, Sportster 1200C fyrir 16 þúsund krónur á daginn, Dyna Sport fyrir 20 þúsund, Road King Classic eins og blaðamaður prófaði á 24 þúsund og síðast en ekki síst Ultra Classic á 28 þúsund krónur fyrir daginn. Innifalin í verðinu eru hjálmur, regngalli og bráðabirgðageymslupláss. Því þarf ekkert annað en að mæta á staðinn. Þetta er því auðveld leið til að kynnast því hvernig það er að eiga Harley Davidson. Það má einnig geta þess að Harley Davidson-umboðið býður upp á ferðir um landið með leiðsögumanni, nokkuð sem gæti verið mjög spennandi fyrir erlenda ferðamenn. Leigutaki þarf að uppfylla nokkur skilyrði til að geta leigt sér stórt og þungt Harley Davidson-mótorhjól. Hann verður að vera orðinn 26 ára og hafa leyfi til að aka stóru bifhjóli. Sömuleiðis þarf leigutaki að hafa reynslu af stórum mótorhjólum og eiga kreditkort. Ef öll þessi skilyrði eru uppfyllt þá stendur ekkert í vegi fyrir því að bregða sér í Harley Davidson-umboðið og velja þann fák sem mest heillar.




https://timarit.is/files/42357984#search=%22%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%81%20%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%22