4.12.12

Sameinað norrænt mótorhjólafólk

Sameinað norrænt mótorhjólafólk

Sjö samtök norræns mótorhjólafólks hafa tekið höndum saman og mótað sameiginlega stefnu í umferðaröryggismálum og komið henni á framfæri við ríkisstjórnir og vegamálayfirvöld hvert í sínu landi. Löndin eru Svíþjóð, Danmörk, Noregur Finnland og Ísland.

Í skjalinu sem mótorhjólafólkið hefur sent yfirvöldum umferðarmála eru m.a. ákveðnar tillögur sem samtökin telja að muni auka öryggi mótorhjólafólks í umferðinni og hugmyndir um hvernig best verði að haga samstarfi þvert yfir landamæri, svo að sem mest gagn verði að fyrir öryggi mótorhjólafólks. 

Sá sameiginlegi vettvangur sem norrænu mótorhjólasamtökin hafa með sér nefnist Nordiskt MotorSykkel Råd, NMR. NMR var stofnað um miðjan áttunda áratuginn. Tilefnið var það að til stóð að setja miklar takmarkanir á stærð, hraðagetu og vélarafl mótorhjóla. Mótorhjólafólk vildi einfaldlega hafa eitthvað um þá framvindu að segja.

Þau samtök sem starfa saman innan NMR eru Sniglar Íslandi, Danske Motorcykelklubbers Råd (DMC) Danmörku, MC Touring Club (MCTC), Danmörku, Norsk Motorcykkel Union (NMCU), Noregi, Moottoripyöräkerho 69 (MP 69) og Suomen Motoristit r.y (SMOTO), Finnlandi og Sveriges MotorCyklister (SMC), Svíþjóð.
04.12.2012
https://www.fib.is/is/um-fib/frettir/sameinad-norraent-motorhjolafolk

12.10.12

Haustógleði 2012

Daginn öll


Við vildum bara minna á skráningu á Haustógleðina 2012 sem haldin verður næstkomandi laugardagskvöld í sal Lindu Steikhús á Akureyri.
Húsið opnar klukkan 20:00 og reiknað með að borðhald hefjist um klukkan 20:30.

Skráning fer fram í síðasta lagi í dag, föstudag, á tian@tian.is eða með því að hringja í síma 869-3332
Verðinu er stillt í hóf, eða aðeins 3500 krónur á mann.

Um leið viljum við líka vekja athygli á því að þar sem Ógleðin er haldin á vínveitingahúsi þá er óleyfilegt að koma með eigin drykki með sér. Hins vegar er sértilboð á bjór (300kr glasið!) og öðrum vínveitingum á staðnum.

Með kveðju
Stjórn Tíunnar

6.9.12

Sum Hjól eiga ekkert erindi utanvega

 Vélabásinn

Vélknúin farartæki henta misvel til smölunar:
Létt klifurhjól og léttustu fjórhjólin henta best – Sum tæki eiga alls ekkert erindi á gróið land 

GASGAS TX 125 Randonee


Umhverfisstofnun sendi frá sér fréttatilkynningu þann 27. ágúst undir fyrirsögninni „Göngum vel um landið í leit að fé“. 
Tilkynningunni er beint til smala á vélknúnum ökutækjum. Í niðurlagi hennar kemur fram að heimilt sé að aka utan vega vegna starfa við landbúnað á landi utan miðhálendisins, sem sérstaklega er nýtt sem landbúnaðarland, að því tilskildu að ekki hljótist af því náttúruspjöll. Það er vissulega þörf á að minna á slíkan utanvegaakstur og að bændur sem aðrir leggi sig fram um að ganga vel um landið. Ég hefði þó viljað sjá í þessari tilkynningu frá Umhverfisstofu góð ráð um notkun ökutækja við smölun en reyni að bæta aðeins úr því hér. 

Prófun á klifurhjóli til að sannreyna fullyrðingar 

Þann 18. ágúst 2011 var auglýst í Bændablaðinu mótorhjól undir fyrirsögninni „Nýjung í smalamennsku, létt klifurhjól“. Það átti ekki að skemma land og vera umhverfisvænt. Þrátt fyrir að hafa keyrt mótorhjólí 30 ár var þetta það mikil nýjung fyrir mig að ég taldi mig þurfa að prófa hjólið í smalamennsku til
að sannreyna þessar fullyrðingar í auglýsingunni. Þann 15. september 2011 skrifaði ég smalasöguna og að hjólið hefði staðist prófið. Það var umhverfisvænt, tætti ekki upp gróður og var gott til smölunar.  Ég skrifaði ekki allt sem ég reyndi á þessu hjóli því þar var ég að bera hjólið saman við fjórhjól, sexhjól og hesta sem voru með mér í þessum göngum. Hvað gróðurvernd varðar tel ég persónulega að klifurhjólið hafi haft vinninginn í samanburði við öll önnur tæki og líka hesta. Skömmu eftir þessi skrif mín í Bændablaðinu kom að máli við mig bóndi og spurði hvort ég gæti  ekki miðlað af þekkingu minni til bænda í von um betri umgengni til gróðurvemdar í tengslum við  tvíhjól og fjór/ sexhjól. Hér að neðan eru nokkur veigamikil atriði sem gætu hugsanlega hjálpað notendum slíkra tækja að vernda gróður eins og mögulegt er.  Byltingarkenndar tækninýjungar Tækninýjungar í fjöðrun og hjólbörðum á klifurhjólum eru svo byltingarkenndar að enginn trúir hvernig þau eru í akstri á grónu landi nema að sjá það með eigin augum. Fyrir nokkru voru ráðunautum í jarðrækt hjá Bændasamtökunum kynnt svona hjól. Jarðræktarráðunautarnir trúðu varla ökumönnunum sem kynntu hjólin og vildu meina að einhver brögð hlytu að vera í tafli við kynninguna. Að lokum sannfærðust þeir þó og gátu fallist á að mótorhjól væri ekki bara mótorhjól, þessi klifurhjól væru öðruvísi.

Sum tæki eiga alls ekkert erindi á gróið land

 Þegar ég prófaði klifurhjólið í göngunum á síðasta ári var það ekki í fyrsta sinn sem ég smalaði á mótorhjóli, og reynsla mín er að sum tæki eigi alls ekkert erindi á gróið land sökum uppbyggingar. Tökum t.d. „motocrosshjól“. Þau eru hönnuð til keppnisaksturs á sérútbúnum brautum og eru mjög óhentug til smalamennsku. Gírkassi er ekki gerður fyrir hæga ferð, vélinni er ætlað að vera á miklum snúningi og ef hún er það ekki getur hún ofhitnað. Fjöðrunin er of stíf og hentar hvorki í miklu grjóti né þúfum. Motocrosshjól eru að öllu jöfnu með 19 tommu afturdekk og mjúk 19 tommu dekk eru einfaldlega ekki flutt til landsins. Svokölluð „endurohjól“ eru svipuð og motocrosshjól og eru endurohjól sem flutt eru hingað til lands oftast með stóra vél. Ef hjólið er með minni vél en 400 cc og afturdekk undan klifurhjóli má notast við svoleiðis hjól við smalamennsku á ýmsum stöðum, þó að til séu undantekningar um stærð hjólanna.

 Sexhjólin verri en fjórhjólin 

Hvað varðar fjórhjól og sexhjól, þá geta sexhjólin verið mjög notadrjúg til smalamennsku. Þau þola samt illa mikinn skak-akstur og vilja liðast í sundur. Einnig vilja sexhjól tæta upp gróður og skilja eftir sig mikil för eftir öftustu hásinguna ef beygt er harkalega. Til að lágmarka þann skaða er best að vera með sem sléttust  dekk á öftustu hásingunni á sexhjólum. Mitt persónulega mat er að sexhjól skemmi gróður mun meira en fjórhjól. Spurningin er þó hvort ekki mætti taka fremri afturdekkin undan sexhjólunum við  smalamennsku til að lágmarka gróðurskemmdir. Ef keypt eru ný dekk undir sexhjól er mjög gott að geyma gömlu slitnu dekkin til að geta sett undir öftustu hásinguna þegar ekið er í viðkvæmum gróðri.

Kraftlitlu og léttustu fjórhjólin henta vel 


Fjórhjól undir 500cc eru sennilega þau hjól sem henta einna best og þá á fínmunstruðum dekkjum. Þessi litlu fjórhjól eru yfirleitt um 100- 200 kg léttari en stóru 800+ cc hjólin, fljóta því mjög vel og eru oftast með minni þunga á hvern fersentimetra á jörðinni en sexhjól, þótt hjólin á jörðinni séu aðeins fjögur.

 Engin þörf á drulluspyrnudekkjum í smalamennsku

Engin þörf er á að vera á einhverjum drulluspyrnudekkjum í smölun því í raun henta gömlu hálfslitnu dekkin best og marka minnst í gróið land. Ef landið er blautt er hætta á að það vaðist upp í drullu. Því verður einfaldlega að reyna að krækja fyrir viðkvæmustu staðina. Sé verið að krækja fyrir blautan  stað vegna hættu á að festa sig er nánast alltaf betra að fara upp fyrir blauta staðinn ef sá kostur er fyrir hendi. Þá losna menn við að skemma gróðurinn fyrir neðan.

Stóru og kraftmiklu fjórhjólin oft miklir skaðvaldar 

Stóru og þungu 800 cc fjórhjólin eru oftast óttalegir skaðvaldar fyrir gróið land því að í hvert sinn sem gefið er í er krafturinn og þunginn svo mikill að smá spól mynda sár, en litlu hjólin eru svo mátulega kraftlaus og létt að þau spóla síður.

Létt klifurhjól henta best

 Ef ég væri að fara í göngur í dag og mætti velja mér vélknúinn fararskjóta mundi ég hiklaust velja klifurhjól af gerðinni GasGas TX 125 Randonee frá JHM Sport á Stórhöfðanum. Það er ekki nema 85 kg og er að mínu mati sérhannað fyrir smalamennsku. Hjólið er létt og mjúk dekkin fara vel með gróður. Það er með fjögurra lítra bensíntank og nægan kraft án þess að hætta sé á spóli og er sérstaklega hannað til að klifra á mjög hægri ferð. Þá er það með rafstarti og kostar ekki nema 625.000 krónur fyrir utan virðisaukaskatt. Ég hef tröllatrú á klifurhjólum og tel mikla framtíðarmöguleika í notkun þeirra við búskap. Eftir að hafa prófað þetta GasGas hjól verð ég að segja að það er ótrúlega notadrjúgt og gott til brúks.
Bændablaðið 6.09.2012
http://timarit.is/

28.5.12

Mótor­hjóla­menn fjöl­menntu í messu


Mótor­hjóla­menn fjöl­menntu í messuÞað var tals­vert annað yf­ir­bragð yfir messu í Digra­nes­kirkju í kvöld en venju­lega, en þar fór fram svo­kölluð mótor­hjóla­messa. Í kirkj­unni voru leður­klædd­ir mótor­hjóla­menn og utan við kirkj­una var röð glæsi­legra mótor­hjóla.

Mótor­hjóla­messa hef­ur verið hald­in í Digra­nes­kirkju síðustu ár. Séra Gunn­ar Sig­ur­jóns­son er áhugamaður um mótor­hjól, en hann átti frum­kvæði að þess­um mess­um.

Í frétta­til­kynn­ingu frá Digra­nes­kirkju seg­ir að mess­an sé al­vöru messa, með pré­dik­un og alt­ar­is­göngu. „Það er ekk­ert slegið af í helgi­hald­inu, þó svo um­búnaður­inn sé sveipaður létt­leika og prest­arn­ir (sem verða að vera mótor­hjóla­fólk) eru bún­ir sama klæðnaði.“  Leður og Gor­etex sé því „viðeig­andi” klæðnaður.

Mótor­hjóla­mess­an er einnig sam­starfs­verk­efni Þjóðkirkju og Hvíta­sunnu­kirkj­unn­ar og hafa prest­ar frá báðum þess­um kirkju­deild­um ann­ast helgi­hald.

Mótor­hjóla­mess­an hófst í Digra­neskirkju árið 2006 þegar 115 manns komu til messu á 55 vélfák­um. Mótor­hjóla­mess­unni hef­ur auk­ist fylgi milli ára. Árið 2007 komu 240 manns á 170 hjól­um. Árið 2008 yf­ir­fyllt­ist kirkj­an (sem tek­ur 320 manns) með 380 ridd­ur­um göt­unn­ar á 230 fák­um. Ári síðar (2009) komu 402 mótor­hjóla­menn í messu þannig að þetta stefn­ir í stórviðburð á þessu ári enda löngu búið að sprengja allt rými sem ann­ars hæf­ir fyr­ir venju­leg­ar mess­ur.

 mbl | 28.5.2012 | 21:56 | 
8.3.12

MEÐ MÓTORHJÓLIÐ AÐ ÁHUGAMÁLI

Enginn vafi leikur á því að samfélagið vill taka höndum saman í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Það birtist í ýmsum myndum. Á Alþingi hafa þingmenn allra flokka lýst vilja til samstöðu í þessari baráttu og mér virðast fjölmiðlar einnig hafa vaknað til lífsins en sumir þeirra áttu til að birta "hetjuviðtöl" við stórhættulega brotamenn. Úr þessu hefur dregið, enda á maður sem meiðir annað fólk ekkert skylt við hetju.

Einn glæpahópanna, sem hefur verið hvað mest til umræðu, notar mótorhjól sem eitt ef sínum kennitáknum. En þótt þessir menn séu á mótorhjólum er ekki þar með sagt að allt mótorhjólafólk sé af sama sauðahúsi. Þvert á móti þá hefur fjöldi fólks ástríðufullan áhuga á mótorhjólum og hefur bundist samtökum við sína líka um þetta áhugamál. Þannig eru margir mótorhjólaklúbbar í landinu. Þeir sem fylla þeirra raðir vilja ekkert af hrottum og glæpamönnum vita og svíður sárt að vera ruglað saman við misindismenn.

Mér var sagt af einum slíkum klúbbi sem var að skipuleggja sumarferðina og panta gistingu fyrir hópinn. Þegar á daginn kom að um mótorhjólaklúbb var að ræða var dyrum lokað. Enga gistingu að fá!

Þetta kann að vera einangrað tilvik en segir okkur tvennt. Annars vegar er þetta vitninsburður um að fólk vill ekkert með þá hafa sem hugsanlega tengjast glæpum og er það vel. Hins vegar - og er það verra - getur sú hætta skapast að fólk sé haft fyrir rangri sök. Það má alls ekki gerast og er mikilvægt að á sama tíma og við gefum þeim rauða spjaldið sem meiða annað fólk, gætum við þess að setja ekki undir sama hattinn heiðarlegt fólk sem ekki má vamm sitt vita. Það á við um þorra þess fólks sem hefur mótorhjólið að áhugamáli.
Fimmtudagur, 8. mars 2012

28.2.12

Konur á Mótorhjólum

Áhugi kvenna á mótorhjólaakstri hefur aukist mikið hér á landi. Konurnar eru á öllum aldri og margar þeirra hittast reglulega yfir sumartímann og hjóla saman um landið. Starfsemi klúbbanna er þó virk allt árið þar sem konurnar hittast einu sinni í mánuði og sumar oftar.
Tvö félög mótorhjólakvenna eru starfandi í Reykjavík, Skutlurnar og Harley Davidson skvísurnar sem flestar eru eiginkonur karla í Harley Davidson klúbbnum. Þær kalla sig Mafíu Dóru frænku eða MDF. 
Skutlurnar hafa verið starfandi frá árinu 2005 en félagið var stofnað af Ásthildi Einarsdóttur. 36 konur eru skráðar í félagið.
Konur eru einnig virkar á landsbyggðinni, á Akureyri og í Keflavík.
Á síðasta ári opnaði mótorhjólasafn á Akureyri. Hugmyndin með safninu er að varðveita 100 ára sögu mótorhjóla á Íslandi. Gott er að hafa í huga fyrir þá sem vilja eignast mótorhjól að hlífðarfatnaður er nauðsynlegur öllum þeim sem ferðast um á bifhjóli. Samkvæmt vef Umferðarstofu þarf hlífðarfatnaðurinn að vera slitsterkur og inni í fatnaðinum eða innan undir honum þurfa að vera svokallaðar brynjur sem draga úr höggi og alvarlegum meiðslum. Stígvél fyrir mótorhjólaakstur þurfa að vera með stífum ökkla til að minnka líkur á ökklabroti. Hlífðarbúnaður skal vera merktur samkvæmt stöðlum um öryggi.
Fréttablaðið 28.02.2012

31.1.12

Þorrablót Tíunnar 2012

Daginn

Við vildum bara minna á að frestur til að skrá sig á Þorrablót Tíunnar, sem haldið verður laugardaginn 4. febrúar næstkomandi, rennur út á hádegi föstudaginn 3. febrúar.
Hægt er að skrá sig með því að senda póst á tian@tian.is eða hringja í síma 869-3332
Verð fyrir greidda félaga er kr 3500 en kr 4000 fyrir ógreidda.

Nánari upplýsingar er hægt að sjá á www.tian.is

Með kveðju
Stjórn Tíunnar