4.12.12

Sameinað norrænt mótorhjólafólk

Sameinað norrænt mótorhjólafólk

Sjö samtök norræns mótorhjólafólks hafa tekið höndum saman og mótað sameiginlega stefnu í umferðaröryggismálum og komið henni á framfæri við ríkisstjórnir og vegamálayfirvöld hvert í sínu landi. Löndin eru Svíþjóð, Danmörk, Noregur Finnland og Ísland.

Í skjalinu sem mótorhjólafólkið hefur sent yfirvöldum umferðarmála eru m.a. ákveðnar tillögur sem samtökin telja að muni auka öryggi mótorhjólafólks í umferðinni og hugmyndir um hvernig best verði að haga samstarfi þvert yfir landamæri, svo að sem mest gagn verði að fyrir öryggi mótorhjólafólks. 

Sá sameiginlegi vettvangur sem norrænu mótorhjólasamtökin hafa með sér nefnist Nordiskt MotorSykkel Råd, NMR. NMR var stofnað um miðjan áttunda áratuginn. Tilefnið var það að til stóð að setja miklar takmarkanir á stærð, hraðagetu og vélarafl mótorhjóla. Mótorhjólafólk vildi einfaldlega hafa eitthvað um þá framvindu að segja.

Þau samtök sem starfa saman innan NMR eru Sniglar Íslandi, Danske Motorcykelklubbers Råd (DMC) Danmörku, MC Touring Club (MCTC), Danmörku, Norsk Motorcykkel Union (NMCU), Noregi, Moottoripyöräkerho 69 (MP 69) og Suomen Motoristit r.y (SMOTO), Finnlandi og Sveriges MotorCyklister (SMC), Svíþjóð.
04.12.2012
https://www.fib.is/is/um-fib/frettir/sameinad-norraent-motorhjolafolk

12.10.12

Haustógleði 2012

Daginn öll


Við vildum bara minna á skráningu á Haustógleðina 2012 sem haldin verður næstkomandi laugardagskvöld í sal Lindu Steikhús á Akureyri.
Húsið opnar klukkan 20:00 og reiknað með að borðhald hefjist um klukkan 20:30.

Skráning fer fram í síðasta lagi í dag, föstudag, á tian@tian.is eða með því að hringja í síma 869-3332
Verðinu er stillt í hóf, eða aðeins 3500 krónur á mann.

Um leið viljum við líka vekja athygli á því að þar sem Ógleðin er haldin á vínveitingahúsi þá er óleyfilegt að koma með eigin drykki með sér. Hins vegar er sértilboð á bjór (300kr glasið!) og öðrum vínveitingum á staðnum.

Með kveðju
Stjórn Tíunnar

6.9.12

Sum Hjól eiga ekkert erindi utanvega

 Vélabásinn

Vélknúin farartæki henta misvel til smölunar:
Létt klifurhjól og léttustu fjórhjólin henta best – Sum tæki eiga alls ekkert erindi á gróið land 

GASGAS TX 125 Randonee


Umhverfisstofnun sendi frá sér fréttatilkynningu þann 27. ágúst undir fyrirsögninni „Göngum vel um landið í leit að fé“. 
Tilkynningunni er beint til smala á vélknúnum ökutækjum. Í niðurlagi hennar kemur fram að heimilt sé að aka utan vega vegna starfa við landbúnað á landi utan miðhálendisins, sem sérstaklega er nýtt sem landbúnaðarland, að því tilskildu að ekki hljótist af því náttúruspjöll. Það er vissulega þörf á að minna á slíkan utanvegaakstur og að bændur sem aðrir leggi sig fram um að ganga vel um landið. Ég hefði þó viljað sjá í þessari tilkynningu frá Umhverfisstofu góð ráð um notkun ökutækja við smölun en reyni að bæta aðeins úr því hér. 

Prófun á klifurhjóli til að sannreyna fullyrðingar 

Þann 18. ágúst 2011 var auglýst í Bændablaðinu mótorhjól undir fyrirsögninni „Nýjung í smalamennsku, létt klifurhjól“. Það átti ekki að skemma land og vera umhverfisvænt. Þrátt fyrir að hafa keyrt mótorhjólí 30 ár var þetta það mikil nýjung fyrir mig að ég taldi mig þurfa að prófa hjólið í smalamennsku til
að sannreyna þessar fullyrðingar í auglýsingunni. Þann 15. september 2011 skrifaði ég smalasöguna og að hjólið hefði staðist prófið. Það var umhverfisvænt, tætti ekki upp gróður og var gott til smölunar.  Ég skrifaði ekki allt sem ég reyndi á þessu hjóli því þar var ég að bera hjólið saman við fjórhjól, sexhjól og hesta sem voru með mér í þessum göngum. Hvað gróðurvernd varðar tel ég persónulega að klifurhjólið hafi haft vinninginn í samanburði við öll önnur tæki og líka hesta. Skömmu eftir þessi skrif mín í Bændablaðinu kom að máli við mig bóndi og spurði hvort ég gæti  ekki miðlað af þekkingu minni til bænda í von um betri umgengni til gróðurvemdar í tengslum við  tvíhjól og fjór/ sexhjól. Hér að neðan eru nokkur veigamikil atriði sem gætu hugsanlega hjálpað notendum slíkra tækja að vernda gróður eins og mögulegt er.  Byltingarkenndar tækninýjungar Tækninýjungar í fjöðrun og hjólbörðum á klifurhjólum eru svo byltingarkenndar að enginn trúir hvernig þau eru í akstri á grónu landi nema að sjá það með eigin augum. Fyrir nokkru voru ráðunautum í jarðrækt hjá Bændasamtökunum kynnt svona hjól. Jarðræktarráðunautarnir trúðu varla ökumönnunum sem kynntu hjólin og vildu meina að einhver brögð hlytu að vera í tafli við kynninguna. Að lokum sannfærðust þeir þó og gátu fallist á að mótorhjól væri ekki bara mótorhjól, þessi klifurhjól væru öðruvísi.

Sum tæki eiga alls ekkert erindi á gróið land

 Þegar ég prófaði klifurhjólið í göngunum á síðasta ári var það ekki í fyrsta sinn sem ég smalaði á mótorhjóli, og reynsla mín er að sum tæki eigi alls ekkert erindi á gróið land sökum uppbyggingar. Tökum t.d. „motocrosshjól“. Þau eru hönnuð til keppnisaksturs á sérútbúnum brautum og eru mjög óhentug til smalamennsku. Gírkassi er ekki gerður fyrir hæga ferð, vélinni er ætlað að vera á miklum snúningi og ef hún er það ekki getur hún ofhitnað. Fjöðrunin er of stíf og hentar hvorki í miklu grjóti né þúfum. Motocrosshjól eru að öllu jöfnu með 19 tommu afturdekk og mjúk 19 tommu dekk eru einfaldlega ekki flutt til landsins. Svokölluð „endurohjól“ eru svipuð og motocrosshjól og eru endurohjól sem flutt eru hingað til lands oftast með stóra vél. Ef hjólið er með minni vél en 400 cc og afturdekk undan klifurhjóli má notast við svoleiðis hjól við smalamennsku á ýmsum stöðum, þó að til séu undantekningar um stærð hjólanna.

 Sexhjólin verri en fjórhjólin 

Hvað varðar fjórhjól og sexhjól, þá geta sexhjólin verið mjög notadrjúg til smalamennsku. Þau þola samt illa mikinn skak-akstur og vilja liðast í sundur. Einnig vilja sexhjól tæta upp gróður og skilja eftir sig mikil för eftir öftustu hásinguna ef beygt er harkalega. Til að lágmarka þann skaða er best að vera með sem sléttust  dekk á öftustu hásingunni á sexhjólum. Mitt persónulega mat er að sexhjól skemmi gróður mun meira en fjórhjól. Spurningin er þó hvort ekki mætti taka fremri afturdekkin undan sexhjólunum við  smalamennsku til að lágmarka gróðurskemmdir. Ef keypt eru ný dekk undir sexhjól er mjög gott að geyma gömlu slitnu dekkin til að geta sett undir öftustu hásinguna þegar ekið er í viðkvæmum gróðri.

Kraftlitlu og léttustu fjórhjólin henta vel 


Fjórhjól undir 500cc eru sennilega þau hjól sem henta einna best og þá á fínmunstruðum dekkjum. Þessi litlu fjórhjól eru yfirleitt um 100- 200 kg léttari en stóru 800+ cc hjólin, fljóta því mjög vel og eru oftast með minni þunga á hvern fersentimetra á jörðinni en sexhjól, þótt hjólin á jörðinni séu aðeins fjögur.

 Engin þörf á drulluspyrnudekkjum í smalamennsku

Engin þörf er á að vera á einhverjum drulluspyrnudekkjum í smölun því í raun henta gömlu hálfslitnu dekkin best og marka minnst í gróið land. Ef landið er blautt er hætta á að það vaðist upp í drullu. Því verður einfaldlega að reyna að krækja fyrir viðkvæmustu staðina. Sé verið að krækja fyrir blautan  stað vegna hættu á að festa sig er nánast alltaf betra að fara upp fyrir blauta staðinn ef sá kostur er fyrir hendi. Þá losna menn við að skemma gróðurinn fyrir neðan.

Stóru og kraftmiklu fjórhjólin oft miklir skaðvaldar 

Stóru og þungu 800 cc fjórhjólin eru oftast óttalegir skaðvaldar fyrir gróið land því að í hvert sinn sem gefið er í er krafturinn og þunginn svo mikill að smá spól mynda sár, en litlu hjólin eru svo mátulega kraftlaus og létt að þau spóla síður.

Létt klifurhjól henta best

 Ef ég væri að fara í göngur í dag og mætti velja mér vélknúinn fararskjóta mundi ég hiklaust velja klifurhjól af gerðinni GasGas TX 125 Randonee frá JHM Sport á Stórhöfðanum. Það er ekki nema 85 kg og er að mínu mati sérhannað fyrir smalamennsku. Hjólið er létt og mjúk dekkin fara vel með gróður. Það er með fjögurra lítra bensíntank og nægan kraft án þess að hætta sé á spóli og er sérstaklega hannað til að klifra á mjög hægri ferð. Þá er það með rafstarti og kostar ekki nema 625.000 krónur fyrir utan virðisaukaskatt. Ég hef tröllatrú á klifurhjólum og tel mikla framtíðarmöguleika í notkun þeirra við búskap. Eftir að hafa prófað þetta GasGas hjól verð ég að segja að það er ótrúlega notadrjúgt og gott til brúks.
Bændablaðið 6.09.2012
http://timarit.is/

23.8.12

Fuglasafn Sigurgeirs og Mótorhjólasafnið á Akureyri

 Mörg athyglisverð söfn á Íslandi:

Fuglasafn Sigurgeirs fær hæstu einkunn

- Safn Ólafs á Þorvaldseyri og fjölskyldu hans fylgir þar fast á eftir


Í sumarfríi mínu settist ég upp á mótorhjól og ók stóran hring í kringum Ísland. Á ferðalaginu heimsótti ég nokkur af fjölmörgum söfnum sem urðu á vegi mínum og vert er að benda fólki á að skoða.

Fyrst ber að nefna safn Ólafs á Þorvaldseyri og fjölskyldu hans, sem nefnist Eyjafjallajökull. Frábært
framtak og vel upplýsandi um hamfarirnar þegar Eyjafjallajökull gaus í apríl fyrir rúmum tveim árum. Þó safnið sé ekki stórt eru bæði aðkoma og snyrtimennska til fyrirmyndar og vel staðið að öllu er við kemur safninu. Á safninu er súynd stuttmynd sem er aðallega samansett úr fréttamyndum. Þegar ég var á ferðinni var verið að sýna útgáfu myndarinnar með þýsku tali, en það kom ekki að sök, þessar myndir sögðu allt sem segja þurfti og mögnuð upplifun að vera á staðnum þar sem þessar
hamfarir dundu yfir í svona fallegu umhverfi svo stuttu eftir gosið. Það var einstaklega fræðandi að bera saman útsýnið að gosstöðinni í sumar og myndina, sem tekin var þar sem safnið stendur, þegar fjölskyldan var að flýja heimilið við upphaf goss. Þetta er safn sem enginn má láta framhjá sér fara.
   Næst var það sérstakt safn í Löngubúð á Djúpavogi, en þar eru í raun þrjú söfn; skáldastofa,  Eysteinsstofa Eysteins Jónssonar ráðherra og yfir öllu loftinu í þessu langa húsi er mikið safn gamalla
muna sem eru aðallega frá síðustu öld og flestir þekkja frá barnæsku. Hins vegar mætti leggja smá vinnu í að merkja gripina betur og segja frá því hvaða ár þessir munir voru almennt í notkun. Þarna var lægsti aðgangseyririnn, en aðeins kostaði 500 krónur inn á öll söfnin þrjú.

Fuglasafn Sigurgeirs fær hæstu einkunn

Fuglasafn Sigurgeirs er í YtriNeslöndum við Mývatn. Ég á erfitt með að lýsa hrifningu minni á þessu
safni með öðrum orðum en að þarna hefur systkinum og vinum Sigurgeirs Stefánssonar frá Ytri-Neslöndum tekist frábærlega að reisa safn utan um þetta mikla fuglasafn sem Sigurgeir hafði komið sér upp áður en hann lést í slysi á Mývatni. 
   Þarna hefði ég getað verið allan daginn. Uppsetningin á safninu er þannig að allir fuglar eru í glerbúrum en fyrir framan hvern fugl er lítill takki. Sé ýtt á takkann kviknar lítið ljós við fætur fuglsins og fyrir ofan mann heyrist hljóð úr viðkomandi fugli. Sé ýtt aftur á takkann sér maður á korti hvert fuglinn fer yfir vetrartímann. Það eru ekki bara fuglar í safninu því þarna má einnig sjá lifandi kúluskít og fullyrði ég að þetta sé eini staðurinn þar sem hægt er að sjá kúluskít lifandi á safni. Í húsi við hlið safnsins er lítið bátaskýli og þar er sögð saga veiði í Mývatni. Ég verð, að öllum öðrum söfnum ólöstuðum, að gefa þessu safni hæstu einkunn og
í mínum huga er það eitt besta safn sem ég hef komið á hingað til.

Mótorhjól og falleg listaverk Mótorhjólasafn Íslands er á Akureyri

og reist í minningu Heiðars Þ Jóhannssonar sem lést í mótorhjólaslysi sumarið 2006. Vissulega mætti
aðkoman að safninu vera betri, en hvorki er búið að malbika planið né klæða húsið að utan. Inni í safninu er búið að opna neðri hæðina, en þar eru um 80 mótorhjól og nokkur mjög sjaldgæf, bæði gömul og „alíslensk nýsmíði“, en það sem sjaldnast er nefnt við þetta safn eru hin fjölmörgu listaverk sem Heiðar smíðaði (sennilega er hans þekktasta listaverk minnismerki um fórnarlömb bifhjólaslysa, sem stendur við Varmahlíð og heitir Fallið). 
   Flest þessi listaverk gaf Heiðar vinum og ættmennum við hátíðleg tækifæri. Þegar safnið var opnað tóku þessir vinir og ættmenni sig saman og gáfu safninu listaverkin sem eru höfð í sérstöku herbergi er nefnist Heiðarsstofa. Þar eru uppáhalds mótorhjól Heiðars ásamt bikarasafni hans úr ýmsum keppnum í mótorsporti. Ýmislegir munir eru þarna á safninu er tengjast mótorhjólum eins og sérstakt leyfisbréf til að keyra mótorhjól, munir sem tengjast Sniglunum o.fl. Það sem mest er að þessu safni er aðkoman, en að bæta hana og klæða húsið að utan væri safninu mikils virði.

Mætti vera meira um veiðisögu og nytjar á Selasafni

 Selasetur Íslands er á Hvammstanga og er ágætlega uppsett safn um hina fallegu ímynd selsins, en fyrir mig, afkomanda manns sem skaut sel í matinn um hávetur og gerði að honum í brunagaddi svo að börn hans fengju eitthvað að borða, fannst mér alveg vanta að lýsa nytjum á sel. 
   Þarna mætti alveg segja frá veiðiaðferðum og verkunaraðferðum á árum áður (myndir af verkun á sel hefði dugað mér). Hins vegar fannst mér sniðugt hvernig litlu kassarnir eru settir upp með spurningunum utan á. Þegar maður opnar dyrnar er svarið inni í skápnum. Þetta var vel gert og sérstaklega hvernig hæðin á kössunum er hugsuð til að henta bæði börnum og fullorðnum.


Gaman að koma á Hákarlasafnið

Mér fannst gaman að koma í Hákarlasafnið í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi þó það sé svolítið  sundurlaust.  Þarna er samansafn af  ýmsum áhöldum, veiðarfærum, verkfærum o.fl. sem aðallega var notað snemma á síðustu öld, en einnig eru þarna uppstoppuð dýr s.s. fuglar, refir, minkar o.fl.
Á safnið vantar sárlega meiri lesningu til að útskýra safnhlutina (hversu gamlir þeir voru og til hvers þeir voru notaðir á sínum tíma).
    Margir athyglisverðir gripir eru á safninu og góðar myndir sem sýna verkunarferli á hákarli, næstum allt frá bryggju að þorrablóti. Á þetta safn var gaman að koma, aðkoman góð og móttökurnar voru góðar og alúðlegar. 

Ef ég væri beðinn að raða þessum söfnum í 1. til 6. sæti mundi ég setja Fuglasafn Sigurgeirs í fyrsta sæti, í annað sæti Eyjafjallajökulssetur Ólafs á Þorvaldseyri og síðan get ég ekki gert upp á milli næstu þriggja safna sem eru mislangt komin í  uppbyggingu og eiga eflaust eftir að batna mikið á komandi árum. 
HLJ 
Bændablaðið | 
 23.8 2012

26.7.12

BMW G650 Sertao mótorhjól (2012)

BMW G650 Sertao Fullbúið með töskum
og upphitiuðum handföngum. Myndir / HLJ

 Með fyrirmyndar ABS bremsubúnaði


Fátt finnst mér skemmtilegra en að keyra gott mótorhjól á góðviðrisdögum og ekki hefur það verið afleitt sem af er sumri, enda hef ég verið duglegur að „mótorhjólast“.
Mótorhjólainnflytjandinn Reykjavík Motor Center bauð mér
að prófa nýtt mótorhjól af gerðinni BMW G650 Sertao, en það er með 652 cc einsstrokks vél sem á að skila 48 hestöflum og er 175 kg (fullt af
bensíni 192 kg.). Hjólið er með 21 tommu framgjörð og 17 tommu afturgjörð sem gerir það jafnvígt á malarvegum og á malbiki.


ABS bremsubúnaður til fyrirmyndar


Hjólið sem ég prófaði var að fara sem leiguhjól til Biking Viking hjólaleigunnar og var því útbúið með farangurstöskum og veltigrind sem aukabúnaði. Ég ók hjólinu um 80 km við misjafnar aðstæður og fátt sem kom mér á óvart, þó verð ég að hæla tæknimönnum hjá BMW fyrir hversu langt þeir eru komnir í þróuninni á ABS bremsubúnaðinum í hjólinu. BMW var einn af fyrstu  framleiðendum mótorhjóla til að koma með ABS bremsubúnað í mótorhjól í kringum 1992. Fyrst virkaði þetta einfaldlega ekki í beygjum og á möl, en nú 20 árum seinna má rífa í frambremsu í lausamöl án þess að eiga á hættu að splundrast beint á hausinn. Ég gerði nokkrar tilraunir á þessu á mismunandi hraða og alltaf var útkoman svipuð. Ég tók ABS bremsurnar af og prófaði að bremsa
með og án þeirra og á 30 km hraða stoppaði ég 11 fetum fyrr án ABS en með því (ég vil benda á að ég tel mig hafa þokkalega kunnáttu til mótorhjólaaksturs og bremsuhæfileika eftir 30 ár á mótorhjóli). ABS bremsur eru góðar á þessu hjóli, sérstaklega fyrir byrjendur, en þegar maður venst hjólinu mæli ég með því að ökumaðurinn reyni sig áfram án þeirra (sérstaklega á möl).

Grófur gangur

Gangurinn er svolítið grófur í mótornum, enda 1650 cc stimpill sem skilar tæpum 50 hestöflum og minnir hljóðið í mótornum í hægagangi óneitanlega á gamla Deutz d15 traktorinn sem til var í minni sveit þegar ég var strákur. Að keyra mótorhjól með svona stórar töskur er í fyrstu svolítið skrítið, en venst strax. Þó getur verið leiðigjarnt að vera með topptöskuna í miklum vindi ef maður er einn á
hjólinu, en með farþega og topptösku er betra að keyra hjólið.

Stillanleg fjöðrun

Fjöðrunin er stillanleg og hægt að breyta stillingu á afturdemparanum á ferð, sem er gott ef fram undan er malarkafli.

Eyðir um 4-5 lítrum á hundraðið 

Bensíneyðslan er ekki mikil, en mér sýndist ég hafa farið með innan við 4 lítra af bensíni á þessum 80
km sem ég keyrði hjólið og gæti trúað að meðaleyðslan á 100 km væri nálægt 4-5 lítrum á hundraðið. Lokaniðurstaða er að BMW G650 Sertao er ekta hjól til brúks fyrir flesta vegi í íslensku vegakerfi,
semsagt mótorhjól til að nota

Góð kaup

Verðið á Sertao er lægra en ég bjóst við, en án taskna er það um 2.100.000. Ég mæli þó eindregið
með því að menn kaupi töskur og veltigrind undir mótorinn og bæti þar með tæpum 200.000 krónum við, en hjólið sem ég prófaði var með
svoleiðis útbúnaði og kostar rétt um 2,3 „millur“ (persónulegt mat: góð kaup á mótorhjóli til almenns brúks).


Bændablaðið 
26.07.2012

20.6.12

Lögreglan leitar ökumanns sem stakk af

Ökumaður sem flúði vettvang þegar lögreglumaður féll af bifhjóli í gær er enn ófundinn.

 Lögreglan leitar vitna að atvikinu sem varð skömmu fyrir klukkan hálffjögur. Þar var lögreglumaður á bifhjóli að veita ökumanni á svörtu mótorhjóli eftirför. Lögreglumaðurinn, sem var á norðurleið, missti stjórn á hjólinu sínu á móts við Kópavogslæk og hafnaði utan vegar, austanmegin. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar en reyndist ekki alvarlega slasaður.

Þeir sem urðu vitni að slysinu, og/eða geta veitt upplýsingar um ökumann svarta mótorhjólsins, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 en einnig má senda upplýsingar í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is.

Ökumaður svarta mótorhjólsins er hvattur til að gefa sig fram. Talið er að hjólið (racer) sem hann var á sé mögulega af gerðinni Yamaha R1 árgerð 2004-2008 eða Kawasaki ZX-10R Ninja árgerð 2006 eða 2007. Á því eru líklega rauðar strípur eða stafir. Ökumaðurinn var í túbugalla, sennilega svörtum að lit.
Vísir 

20. júní 2012 

28.5.12

Mótor­hjóla­menn fjöl­menntu í messu


Mótor­hjóla­menn fjöl­menntu í messuÞað var tals­vert annað yf­ir­bragð yfir messu í Digra­nes­kirkju í kvöld en venju­lega, en þar fór fram svo­kölluð mótor­hjóla­messa. Í kirkj­unni voru leður­klædd­ir mótor­hjóla­menn og utan við kirkj­una var röð glæsi­legra mótor­hjóla.

Mótor­hjóla­messa hef­ur verið hald­in í Digra­nes­kirkju síðustu ár. Séra Gunn­ar Sig­ur­jóns­son er áhugamaður um mótor­hjól, en hann átti frum­kvæði að þess­um mess­um.

Í frétta­til­kynn­ingu frá Digra­nes­kirkju seg­ir að mess­an sé al­vöru messa, með pré­dik­un og alt­ar­is­göngu. „Það er ekk­ert slegið af í helgi­hald­inu, þó svo um­búnaður­inn sé sveipaður létt­leika og prest­arn­ir (sem verða að vera mótor­hjóla­fólk) eru bún­ir sama klæðnaði.“  Leður og Gor­etex sé því „viðeig­andi” klæðnaður.

Mótor­hjóla­mess­an er einnig sam­starfs­verk­efni Þjóðkirkju og Hvíta­sunnu­kirkj­unn­ar og hafa prest­ar frá báðum þess­um kirkju­deild­um ann­ast helgi­hald.

Mótor­hjóla­mess­an hófst í Digra­neskirkju árið 2006 þegar 115 manns komu til messu á 55 vélfák­um. Mótor­hjóla­mess­unni hef­ur auk­ist fylgi milli ára. Árið 2007 komu 240 manns á 170 hjól­um. Árið 2008 yf­ir­fyllt­ist kirkj­an (sem tek­ur 320 manns) með 380 ridd­ur­um göt­unn­ar á 230 fák­um. Ári síðar (2009) komu 402 mótor­hjóla­menn í messu þannig að þetta stefn­ir í stórviðburð á þessu ári enda löngu búið að sprengja allt rými sem ann­ars hæf­ir fyr­ir venju­leg­ar mess­ur.

 mbl | 28.5.2012 | 21:56 | 
23.4.12

MÓTORHJÓL ER SJÁLFSAGÐUR HLUTUR


Verslunin Nítró er með umboð fyrir Kawasaki-vélhjól og selur úrval aukabúnaðar og fylgihluta. Nýlega opnaði Nítró verslun í Garðabæ. Áhugi almennings á mótorhjólum hefur aukist síðustu árin.

Verslunin Nítró er með umboð fyrir Kawasaki-vélhjól og býður upp á mikið úrval aukabúnaðar og fylgihluta fyrir eigendur mótorhjóla og fjórhjóla. Nýlega opnaði Nítró glæsilega verslun í rúmgóðu og björtu húsnæði í Kirkjulundi 17 í Garðabæ. Ragnar Ingi Stefánsson, sölustjóri hjá Nítró, segir nýja húsnæðið rúmgott og skemmtilegt þar sem viðskiptavinir geti nú skoðað mikið úrval hjóla og fylgihluta í þægilegu umhverfi. „Fyrst og fremst erum við umboðsaðili fyrir Kawasaki-hjól af öllum stærðum og gerðum, auk þess höfum við umboð fyrir sæþotur frá Kawasaki. Znen-vespurnar hafa verið áberandi á götunum en vinsældir þeirra hafa verið miklar síðustu árin. Einnig er Nítró með umboðið fyrir HiSun-fjórhjól frá Kína en þar er verðið sölupunkturinn. Við bjóðum einnig upp á
mikið úrval af göllum, hjálmum, skóm auk vara- og aukahluta fyrir flestar hjólategundir.“
Hann segir áhuga almennings á mótorhjólum hafa aukist mikið undanfarin tíu til fimmtán ár. „Það hefur orðið mikil hugarfarsbreyting meðal Íslendinga á síðasta áratug. Í dag viðurkenna flestir þetta sem sjálfsagðan hlut, að eiga mótorhjól, fjórhjól eða vespu svo dæmi séu tekin. Enda hefur fjöldi vélknúinna hjóla aukist mjög mikið á þessum tíma. Við sjáum það til dæmis á sölutölum yfir vespur en við seljum hundruð vespa á hverju ári sem bæði ganga fyrir bensíni og rafmagni. Vespurnar ná 25 km hraða og þær þarf ekki að skrá né taka próf á og svo bjóðum við öflugri 45 km vespur og enn stærri fyrir þá sem það vilja. “


Öll hefðbundin þjónusta


Ragnar segir þróunina í hugarfari hérlendis vera í sömu átt og víða erlendis. „Það að vera á mótorhjóli þykir bara sjálfsagður hlutur en ekki bara fyrir þröngan hóp fólks. Nú þykir flestum sjálfsagt að ferðast um á vespum, mótorhjólum og fjórhjólum um landið.“ Nítró býður upp á fjölbreytt úrval slithluta í mótorhjól, fjórhjól og farartæki en er einnig með umboð fyrir fleiri þekkt og öflug vörumerki eins og til dæmis Givi-töskur, gler- og veltigrindur. „Við erum auðvitað eina búðin hérlendis sem selur orgínal vara- og slithluti í Kawasaki. Síðan bjóðum við upp á gott úrval vara-, slit- og aukahluta fyrir flest önnur hjólamerki. Hingað geta eigendur flestra hjóla sótt alla hefðbundna
þjónustu.“ Nýjasta tryllitækið hjá Nítró er ZZR 1400 Kawasakimótorhjól sem er hraðskreiðasta mótorhjólið í heiminum í dag að sögn Ragnars. „Um er að ræða 200 hestafla græju frá Kawasaki. Hámarkshraði hjólsins er vel yfir 300 km á klukkustund. Við munum afhenda fyrsta hjólið eftir nokkra daga.“ Viðgerðarþjónusta Nítró er mjög öflug og skipuð góðum og vel þjálfuðum starfsmönnum. „Við verðum með fjóra menn á verkstæðinu í sumar og getum þannig veitt eigendum ólíkra tegunda vélknúinna hjóla, ekki bara Kawasaki-hjóla, úrvalsþjónustu. Að sama skapi erum við með auka- og slithluti fyrir öll merki. Þú kemur bara með hjólið í hús og við græjum málið.“Nánari upplýsingar um vörur Nítró má finna www.nitro.is og á Fésbókinni.
DV 23. apríl 2013

28.3.12

Norn­ir segj­ast ekki karla­klúbb­ur

Ein­kenn­is­tákn MC. Norna. Logo/​MC. Norn­ir
Formaður MC. Norna sem er mótor­hjóla­klúbb­ur kvenna á Norður­landi er ósátt­ur við orð Helga Gunn­laugs­son­ar, pró­fess­ors í fé­lags­fræði, á morg­un­verðar­fundi Fé­lags­fræðinga­fé­lags Íslands. Þar sagði hann að MC stæði í raun fyr­ir karla­klúbb en ekki mótor­hjóla­klúbb. Formaður­inn seg­ir þetta al­geng­an mis­skiln­ing.


Frétta­vef­ur Morg­un­blaðsins, mbl.is, greindi frá því fyrr í dag að Helgi nefndi á fund­in­um að þó svo skil­greind glæpa­sam­tök á borð við Vít­isengla, Útlag­ana, Bandidos og Mon­g­ols ein­kenndu sig með stöf­un­um MC fyr­ir vél­hjóla­sam­tök (e. motorcycle club) stæðu þeir í raun fyr­ir annað, nefni­lega karla­klúbb (e. mens club). Þá mætti finna mikla og áber­andi kven­fyr­ir­litn­ingu inn­an um­ræddra sam­taka. Kon­ur fengju ekki inn­göngu nema sem fylgi­hlut­ir, svo­nefnt hnakka­skraut, eða sem eign meðlima.

Hrönn A. Björns­dótt­ir, formaður MC. Norna, sendi af þessu til­efni blaðamanni bréf þar sem hún seg­ir Norn­ir hafa staðið í stappi við ansi marg­an karlpen­ing­inn vegna þessa mis­skiln­ings. Hún seg­ir 1% sam­tök, þ.e. glæpa­sam­tök, karla­klúbba en það hafi ekk­ert með MC skamm­stöf­un­ina að gera, sem áfram standi fyr­ir vél­hjóla­sam­tök.

Þá vís­ar hún í færslu sína á sam­fé­lagsvefn­um Face­book þar sem hún árétt­ar þenn­an mis­skiln­ing. „Hvernig ætla þeir þá t.d. að út­skýra all­an þann fjölda af kven-mótor­hjóla­klúbb­um sem hafa MC í nafn­inu sínu í hinni stóru Am­er­íku?“ spyr Hrönn og bæt­ir við að formaður Lands­sam­taka lög­reglu­manna hafi sjálf­ur í viðtali sagst líta svo á.
mbl 28.3.2012

8.3.12

MEÐ MÓTORHJÓLIÐ AÐ ÁHUGAMÁLI

Enginn vafi leikur á því að samfélagið vill taka höndum saman í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Það birtist í ýmsum myndum. Á Alþingi hafa þingmenn allra flokka lýst vilja til samstöðu í þessari baráttu og mér virðast fjölmiðlar einnig hafa vaknað til lífsins en sumir þeirra áttu til að birta "hetjuviðtöl" við stórhættulega brotamenn. Úr þessu hefur dregið, enda á maður sem meiðir annað fólk ekkert skylt við hetju.

Einn glæpahópanna, sem hefur verið hvað mest til umræðu, notar mótorhjól sem eitt ef sínum kennitáknum. En þótt þessir menn séu á mótorhjólum er ekki þar með sagt að allt mótorhjólafólk sé af sama sauðahúsi. Þvert á móti þá hefur fjöldi fólks ástríðufullan áhuga á mótorhjólum og hefur bundist samtökum við sína líka um þetta áhugamál. Þannig eru margir mótorhjólaklúbbar í landinu. Þeir sem fylla þeirra raðir vilja ekkert af hrottum og glæpamönnum vita og svíður sárt að vera ruglað saman við misindismenn.

Mér var sagt af einum slíkum klúbbi sem var að skipuleggja sumarferðina og panta gistingu fyrir hópinn. Þegar á daginn kom að um mótorhjólaklúbb var að ræða var dyrum lokað. Enga gistingu að fá!

Þetta kann að vera einangrað tilvik en segir okkur tvennt. Annars vegar er þetta vitninsburður um að fólk vill ekkert með þá hafa sem hugsanlega tengjast glæpum og er það vel. Hins vegar - og er það verra - getur sú hætta skapast að fólk sé haft fyrir rangri sök. Það má alls ekki gerast og er mikilvægt að á sama tíma og við gefum þeim rauða spjaldið sem meiða annað fólk, gætum við þess að setja ekki undir sama hattinn heiðarlegt fólk sem ekki má vamm sitt vita. Það á við um þorra þess fólks sem hefur mótorhjólið að áhugamáli.
Fimmtudagur, 8. mars 2012

29.2.12

Varð ástfanginn af fyrsta hjólinu sextán ára

 

Jón Ásgeir Hreinsson hefur hafið útgáfu mótorhjólatímarits

Þetta er ákveðinn kúltúr sem tengist svokölluðum kaffi-racerum og strætisrökkum, eins og við köllum Street Tracker á íslensku,“ segir Jón Ásgeir Hreinsson sem hafið hefur útgáfu mótorhjólatímaritsins Kickstart. „Á þessum hjólum er það ekki endilega aflið sem skiptir máli heldur útlitið og „performansinn“. Þarna eru menn á 400 til 600 kúbika hjólum í staðinn fyrir 1.000 til 1.200 kúbika. Svo er stíllinn í kringum þessi hjól mjög skemmtilegur. Rockabilly tengist þessu mikið og þetta er svona pínu afturhvarf til fortíðar en samt gert á fallegri máta en gert var á sjöunda áratugnum þegar þessi stíll varð vinsæll. Þetta er kúltúr sem lítið hefur farið fyrir hér heima en maður hefur fylgst meðerlendis og mig langaði að kynna betur.“
Fyrsta tölublað Kickstart er komið út, 74 blaðsíður af fjölbreyttu efni sem tengist hjólunum. „Þetta verða þrjú blöð á ári,“segir Jón Ásgeir " í febrúar, júní og október. júníblaðið kemur út 16. júní og verður með léttu „patríót“- þema.“
Jón Ásgeir segist alltaf hafa verið með hjóladellu en hann hafi hins vegar ekki haft efni á því að kaupa sér hjól fyrr en um fimmtugt. „Mótorar og mótorhjól hafa alltaf heillað mig. Fyrsta hjólið sem ég varð ástfanginn af sá ég sextán ára gamall. Það var Harley Davidson Sporter og þegar ég varð fimmtugur keypti ég mér þannig hjól. Það er nefnilega oft þannig að menn eru að láta gamlan draum rætast um miðjan aldur þegar þeir loksins hafa fjárráð til að leyfa sér það.“
Snýst allt lífið meira og minna um mótorhjól? „Nei, nei, ekki alveg. Ég er grafískur hönnuður og sit við tölvu alla daga, endalaust að reyna að finna  upp á einhverju nýju og fara ótroðnar slóðir, en með mótorhjólinu heima í skúr kemst maður í hálfgerða hugleiðslu. Þar er mekanismi sem einungis er hægt að setja saman á einn veg, annars virkar hann ekki. Það er svakaleg hvíld.“
Þessi hugleiðing Jóns Ásgeirs leiðir óhjákvæmilega hugann að hinni frægu bók Zen and the Art of Motorcycle Maintenance en hann segist þó aldrei hafa lesið hana enda sé hún drepleiðinleg. „Hins vegar er önnur bók, sem ég fjalla einmitt um í Kickstart, Jupiter‘s Travels eftir Ted Simon sem lýsir frábærlega vel hugarástandinu sem maður kemst í. Þetta er pínulítið eins og að vera á hestbaki, nema hvað þú ræður algjörlega för. Það er alveg á hreinu að hjólið tekur ekki af þér völdin.“
Meðal annars efnis í Kickstart má nefna ferðasögu fjögurra félaga sem fóru á mótorhjólum frá Berlín til Prag og aftur til baka. „Þetta var óskaplega skemmtilegt ferðalag og pottþétt að maður á eftir að  gera þetta aftur,“ segir Jón Ásgeir. „Þetta var dálítill riddarafílingur. Það fara fjórir karlar af stað á hjólunum sínum og eiga heiminn. Í næsta blaði verður líka ferðasaga þar sem Árni Jónsson, sem
býr í Kaliforníu, lýsir ferðalagi sem hann fór um Argentínu.“
 Meðal annars efnis í blaðinu má nefna ítarlegar kynningar á kaffi-racerum og strætisrökkum, viðtöl við tónlistarmanninn Smutty Smiff og myndlistarmanninn Erling T. V. Klingenberg og fleira og fleira. Hægt er að gerast áskrifandi á heimasíðunni kickstart.is eða kaupa blaðið í Kickstart, Vesturgötu 12 í Reykjavík eða í Mótorhjólasafninu á Akureyri. 
fridrikab@frettabladid.is

Fréttblaðið
29.02.2012

28.2.12

Konur á Mótorhjólum

Áhugi kvenna á mótorhjólaakstri hefur aukist mikið hér á landi. Konurnar eru á öllum aldri og margar þeirra hittast reglulega yfir sumartímann og hjóla saman um landið. Starfsemi klúbbanna er þó virk allt árið þar sem konurnar hittast einu sinni í mánuði og sumar oftar.
Tvö félög mótorhjólakvenna eru starfandi í Reykjavík, Skutlurnar og Harley Davidson skvísurnar sem flestar eru eiginkonur karla í Harley Davidson klúbbnum. Þær kalla sig Mafíu Dóru frænku eða MDF. 
Skutlurnar hafa verið starfandi frá árinu 2005 en félagið var stofnað af Ásthildi Einarsdóttur. 36 konur eru skráðar í félagið.
Konur eru einnig virkar á landsbyggðinni, á Akureyri og í Keflavík.
Á síðasta ári opnaði mótorhjólasafn á Akureyri. Hugmyndin með safninu er að varðveita 100 ára sögu mótorhjóla á Íslandi. Gott er að hafa í huga fyrir þá sem vilja eignast mótorhjól að hlífðarfatnaður er nauðsynlegur öllum þeim sem ferðast um á bifhjóli. Samkvæmt vef Umferðarstofu þarf hlífðarfatnaðurinn að vera slitsterkur og inni í fatnaðinum eða innan undir honum þurfa að vera svokallaðar brynjur sem draga úr höggi og alvarlegum meiðslum. Stígvél fyrir mótorhjólaakstur þurfa að vera með stífum ökkla til að minnka líkur á ökklabroti. Hlífðarbúnaður skal vera merktur samkvæmt stöðlum um öryggi.
Fréttablaðið 28.02.2012

16.2.12

Spólað og slett á strigann

Slettur Listamaðurinn gefur hjólinu inn í
galleríinu og lætir liti vaða á strigann.
Hann málaði með nokkrum litum

 Spólað og slett á strigann

Erling Klingenberg tengir tvenns konar gamla þráhyggju á sýningu sinni í Kling & bang galleríi.   Notaði öflugt mótorhjól í stað pensils  

„Ég gerði mikið af því að spóla svona sem unglingur“


Þessa dagana stendur yfir sýning Erlings T.V. Klingenberg myndlistarmanns í Kling & bang galleríi á Hverfisgötu 42.
Á sýningunni eru málverk eftir Erling sem óhætt er að segja að máluð séu af miklum krafti – enda vélhjóli beitt við verkið. „Það er ekki að ástæðulausu að ég kalla sýninguna Kraftmikil kúnst,“ segir Erling. Annars vegar sýnir hann málverk þar sem litnum var spólað upp á strigann, og
hinsvegar verk þar sem vélhjól spólaði á máluðum flötum. „Undirtitill sýningarinnar er síðan „Þráhyggja – frumleiki“ og í sýningunni birtist tvenns konar þráhyggja sem hefur fylgt mér lengi. Annars vegar eru það mótorhjól og hins vegar listin. Eldri bróðir minn keppti mikið á mótorhjólum og ég fékk oft að fara með honum, og hreifst af þessum heimi. Þrettán ára eignaðist ég síðan mitt fyrsta mótorhjól.“

Vissi ekki hvað myndi gerast

 Erling hefur á liðnum árum getið sér orð fyrir frumlega nálgun í myndlistinni, oft æði íróníska, og hefur í því ferli beitt ýmsum miðlum. „Ég útskrifaðist samt úr málaradeild í Myndlista- og handíðaskólanum,“ segir hann og það útskýrir ef til vill efnisvalið á þessari sýningu, málningu og striga. „Með tímanum hvarf ég frá málverkinu en þessi tvenns konar þráhyggja mætist þó núna, málverkið og mótorhjólið.“
Spólað Ungur vélhjólakappi aðstoðaði Erling
 við spólverkin í Kling & bang, þar sem spólandi
 hjólið reif upp nokkur litalög og teiknaði á gólfið
.
 Við gerð verkanna á sýningunni notaði Erling hjólið sem áhald og lætur það líka standa í salnum. „Í stað pensils eða spaða notaði ég þetta verkfæri. Ég vissi ekki fyrirfram hvað myndi nákvæmlega gerast. Ég hafði hugmyndir um það, og maður hefur einhverja stjórn á því hvernig liturinn leggst og blandast, en samt ekki. Það tengist líka hugmyndum listamanna sem kenndir eru við abstrakt-expressjónisma. En ferlið er háð ákveðnum eðlisfræðilögmálum.“
 Erling sat sjálfur á hjólinu sem „málaði“ á strigann, með því að spóla upp mismunandi litum úr málningarbökkum sem settir voru undir afturdekkið og einnig var  spólað yfir gólf gallerísins, í gegnum nokkur lög af ýmsum litum.
„Ég gerði mikið af því að spóla svona sem unglingur, þá lékum við vinirnir okkur að því að reykspóla á stéttum og malbiki, svona eiginlega teikna með hjólunum. Þegar ég var að læra í Frankfurt 1995 fór ég að skissa teikningu eins og við vorum að gera ungir á mótorhjólunum. En ég fékk ungan snilling til að aðstoða mig við teikninguna á gólfi gallerísins.“
Málunartækni abstraktexpressjónistanna, eins og Jacksons Pollocks, er iðulega kennd við frelsi
og öll höft voru afnumin þar sem þeir slettu á strigann og beittu líkamanum af krafti við að mála verkin. „Ein helsta hetjan mín þegar ég var í námi var þýski myndlistarmaðurinn Bernd Koberling, sem hefur mikið unnið hér á landi, en hans fyrstu verk voru ekkert svo ósvipuð því sem varð til þegar stóru verkin á sýningunni fæddust. Það sá ég eftir á og þótti það skemmtileg tilviljun,“ segir Erling.

Útlagar í samfélaginu 

Mótorhjól eru iðulega tengd ákveðinni karlmennskuímynd. Erling segir að hjólum hafi fjölgað mikið hér á landi síðasta áratuginn og sumir eigendur þeirra leggi mikið upp úr því að eiga réttu merkin. „Sumir nota hjólið til að skreyta egóið, sem stöðutákn, en ég trúi því samt að sannir mótorhjólamenn horfi fram hjá vörumerkjum og sjái þetta frelsi sem felst í mótorhjólinu,“ segir Erling. Hann hugsar sig um og bætir svo við: „Það sama má reyndar sjá í myndlistinni. Sumir sjá bara nafn þess sem er skrifaður fyrir verkinu en ekki um hvað verkið fjallar í raun og veru.
Svo er annað; er ekki algengt að litið sé á myndlistarmenn og mótorhjólamenn sem útlaga í samfélaginu? Það er mislangsótt hugmynd en þó sé ég ýmsar tengingar þar. Ég vil samt benda á að konum hefur fjölgað mikið í þessu sporti og þær eru margar helv. … góðir ökumenn,“ segir hann og hlær.
Það þarf varla að spyrja, en á Erling ekki mótorhjól sjálfur? „Jú, ég á götuhjól og langar mikið í
fjallahjól,“ svarar hann. Auk þess að beita hjóli við málunina hefur Erling einnig tekið fjölda ljósmynda af mótorhjólum og sýnir nokkur þeirra „portretta“.
 Sýning Erlings í Kling & bang stendur til sunnudags og er opin milli 14 og 18 alla dagana. Óhætt er að hvetja áhugamenn um myndlist, og vélhjól, að líta inn.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is
16.02.2012

31.1.12

Þorrablót Tíunnar 2012

Daginn

Við vildum bara minna á að frestur til að skrá sig á Þorrablót Tíunnar, sem haldið verður laugardaginn 4. febrúar næstkomandi, rennur út á hádegi föstudaginn 3. febrúar.
Hægt er að skrá sig með því að senda póst á tian@tian.is eða hringja í síma 869-3332
Verð fyrir greidda félaga er kr 3500 en kr 4000 fyrir ógreidda.

Nánari upplýsingar er hægt að sjá á www.tian.is

Með kveðju
Stjórn Tíunnar