Mótorhjólamenn fjölmenntu í messu
Það var talsvert annað yfirbragð yfir messu í Digraneskirkju í kvöld en venjulega, en þar fór fram svokölluð mótorhjólamessa. Í kirkjunni voru leðurklæddir mótorhjólamenn og utan við kirkjuna var röð glæsilegra mótorhjóla.
Mótorhjólamessa hefur verið haldin í Digraneskirkju síðustu ár. Séra Gunnar Sigurjónsson er áhugamaður um mótorhjól, en hann átti frumkvæði að þessum messum.
Í fréttatilkynningu frá Digraneskirkju segir að messan sé alvöru messa, með prédikun og altarisgöngu. „Það er ekkert slegið af í helgihaldinu, þó svo umbúnaðurinn sé sveipaður léttleika og prestarnir (sem verða að vera mótorhjólafólk) eru búnir sama klæðnaði.“ Leður og Goretex sé því „viðeigandi” klæðnaður.
Mótorhjólamessan er einnig samstarfsverkefni Þjóðkirkju og Hvítasunnukirkjunnar og hafa prestar frá báðum þessum kirkjudeildum annast helgihald.
Mótorhjólamessan hófst í Digraneskirkju árið 2006 þegar 115 manns komu til messu á 55 vélfákum. Mótorhjólamessunni hefur aukist fylgi milli ára. Árið 2007 komu 240 manns á 170 hjólum. Árið 2008 yfirfylltist kirkjan (sem tekur 320 manns) með 380 riddurum götunnar á 230 fákum. Ári síðar (2009) komu 402 mótorhjólamenn í messu þannig að þetta stefnir í stórviðburð á þessu ári enda löngu búið að sprengja allt rými sem annars hæfir fyrir venjulegar messur.
mbl | 28.5.2012 | 21:56 |