23.4.12

MÓTORHJÓL ER SJÁLFSAGÐUR HLUTUR


Verslunin Nítró er með umboð fyrir Kawasaki-vélhjól og selur úrval aukabúnaðar og fylgihluta. Nýlega opnaði Nítró verslun í Garðabæ. Áhugi almennings á mótorhjólum hefur aukist síðustu árin.

Verslunin Nítró er með umboð fyrir Kawasaki-vélhjól og býður upp á mikið úrval aukabúnaðar og fylgihluta fyrir eigendur mótorhjóla og fjórhjóla. Nýlega opnaði Nítró glæsilega verslun í rúmgóðu og björtu húsnæði í Kirkjulundi 17 í Garðabæ. Ragnar Ingi Stefánsson, sölustjóri hjá Nítró, segir nýja húsnæðið rúmgott og skemmtilegt þar sem viðskiptavinir geti nú skoðað mikið úrval hjóla og fylgihluta í þægilegu umhverfi. „Fyrst og fremst erum við umboðsaðili fyrir Kawasaki-hjól af öllum stærðum og gerðum, auk þess höfum við umboð fyrir sæþotur frá Kawasaki. Znen-vespurnar hafa verið áberandi á götunum en vinsældir þeirra hafa verið miklar síðustu árin. Einnig er Nítró með umboðið fyrir HiSun-fjórhjól frá Kína en þar er verðið sölupunkturinn. Við bjóðum einnig upp á
mikið úrval af göllum, hjálmum, skóm auk vara- og aukahluta fyrir flestar hjólategundir.“
Hann segir áhuga almennings á mótorhjólum hafa aukist mikið undanfarin tíu til fimmtán ár. „Það hefur orðið mikil hugarfarsbreyting meðal Íslendinga á síðasta áratug. Í dag viðurkenna flestir þetta sem sjálfsagðan hlut, að eiga mótorhjól, fjórhjól eða vespu svo dæmi séu tekin. Enda hefur fjöldi vélknúinna hjóla aukist mjög mikið á þessum tíma. Við sjáum það til dæmis á sölutölum yfir vespur en við seljum hundruð vespa á hverju ári sem bæði ganga fyrir bensíni og rafmagni. Vespurnar ná 25 km hraða og þær þarf ekki að skrá né taka próf á og svo bjóðum við öflugri 45 km vespur og enn stærri fyrir þá sem það vilja. “


Öll hefðbundin þjónusta


Ragnar segir þróunina í hugarfari hérlendis vera í sömu átt og víða erlendis. „Það að vera á mótorhjóli þykir bara sjálfsagður hlutur en ekki bara fyrir þröngan hóp fólks. Nú þykir flestum sjálfsagt að ferðast um á vespum, mótorhjólum og fjórhjólum um landið.“ Nítró býður upp á fjölbreytt úrval slithluta í mótorhjól, fjórhjól og farartæki en er einnig með umboð fyrir fleiri þekkt og öflug vörumerki eins og til dæmis Givi-töskur, gler- og veltigrindur. „Við erum auðvitað eina búðin hérlendis sem selur orgínal vara- og slithluti í Kawasaki. Síðan bjóðum við upp á gott úrval vara-, slit- og aukahluta fyrir flest önnur hjólamerki. Hingað geta eigendur flestra hjóla sótt alla hefðbundna
þjónustu.“ Nýjasta tryllitækið hjá Nítró er ZZR 1400 Kawasakimótorhjól sem er hraðskreiðasta mótorhjólið í heiminum í dag að sögn Ragnars. „Um er að ræða 200 hestafla græju frá Kawasaki. Hámarkshraði hjólsins er vel yfir 300 km á klukkustund. Við munum afhenda fyrsta hjólið eftir nokkra daga.“ Viðgerðarþjónusta Nítró er mjög öflug og skipuð góðum og vel þjálfuðum starfsmönnum. „Við verðum með fjóra menn á verkstæðinu í sumar og getum þannig veitt eigendum ólíkra tegunda vélknúinna hjóla, ekki bara Kawasaki-hjóla, úrvalsþjónustu. Að sama skapi erum við með auka- og slithluti fyrir öll merki. Þú kemur bara með hjólið í hús og við græjum málið.“Nánari upplýsingar um vörur Nítró má finna www.nitro.is og á Fésbókinni.
DV 23. apríl 2013