2.4.12

Hjólandi nornir á Norðurlandi




 75 konur mynda MC Nornir     --------    Segjast vel geta kallað sig MC-klúbb


MC Nornir er mótorhjólaklúbbur á Norðurlandi sem samanstendur einungis af konum. Klúbburinn var stofnaður 7. janúar 2009 og í dag eru um 75 meðlimir í honum. „Ég tók mótorhjólapróf árið 2007 og var síðan boðið að ganga í klúbbinn,“ segir Hrönn Arnheiður Björnsdóttir, formaður MC Norna.


Allir velkomnir 

Hrönn segir áhuga sinn á mótorhjólum vera ástæðuna fyrir að hún gekk í klúbbinn. Tilgangur klúbbsins er „að koma konum saman og hafa gaman,“ segir Hrönn. „Ég hef alltaf haft áhuga á mótorhjólum en ég var orðin 36 ára þegar ég tók prófið. Þessi klúbbur er hugsaður sem stuðningur fyrir konur sem hafa kannski áhugann en hafa ekki þorað að taka skrefið til fulls, taka próf og fá sér hjól. Síðan er þetta hugsað sem félagsskapur fyrir konur sem eru með próf og hjól til að koma saman.“ Hrönn segir engin skilyrði önnur fyrir inngöngu en þau að viðkomandi hafi áhuga á mótorhjólum. „Hinar sem eru ekki komnar með próf, koma stundum með okkur í ferðir en eru þá bara á bílum eða sitja aftan á hjólum hjá öðrum. Það eru auðvitað allir velkomnir.“


Æfa sig í þrautabrautum

 MC Nornir leggja mikið upp úr forvörnum og njóta stuðnings ökukennara fyrir norðan sem fer reglulega yfir öryggisatriði með konunum. „Við höfum notið góðs af því að Valdimar Þór Viðarsson ökukennari hefur komið til okkar á sérstökum forvarnardegi og sett upp þrautabraut sem við getum fengið að spreyta okkur á og liðkað okkur aðeins fyrir sumarið. Hann aðstoðar okkur og segir okkur til ef þess þarf. Hann hefur einnig verið með okkur einu sinni í viku í um sex skipti í æfingaakstri og þá förum við í sérstaka braut og fáum að æfa okkur.


Bandarískir kvenhjólaklúbbar fyrirmyndir 

Hrönn segist ekki hafa fundið fyrir fordómum að undanförnu eftir að umfjöllun um MC-klúbba á borð við Hells Angels og Outlaws varð hávær, en segir jafnframt að sumir klúbbar hafi fett fingur út í það að þær kalli sig MC-klúbb, en einhverjir vilja meina að það standi fyrir „Mens Club“. „Það er þessi misskilningur um að MC standi fyrir „Mens Club“, en við höfðum samband við AMA eða American Motorcycle Association og þeir sögðu það að MC stæði bara fyrir „Motorcycle Club“ eða mótorhjólaklúbb. Það má segja að við séum búnar að liggja í heimildavinnu frá 2009. Við vitum því að það eru margir bandarískir kvenmótorhjólaklúbbar sem bera MC í sínu nafni, eru með heilt bakmerki og borga sín félagsgjöld. Við teljum þær vera okkar fyrirmyndir.“ 


Vilja bera heilt bakmerki

 MC Nornir bera armmerki á sínum fatnaði sem er þeirra einkennismerki, það er þó hugur í þeim að taka upp heilt bakmerki. „Við höfum hugsað okkur í ár að móta skýrari stefnu í klúbbnum og taka upp bakmerki, en merki klúbbanna segir til um hvernig klúbburinn er uppbyggður. Heilt merki segir til um að þetta sé selskaps eða fjölskylduklúbbur. Svo eru tveggja búta merki sem getur staðið fyrir ýmiss konar uppbyggingu klúbbsins. Loks eru til þriggja búta merki og það bera þessir hefðbundnu mótorhjólaklúbbar, með ströngu reglunum og inntökuskilyrðunum.“ Að sögn Hrannar bera samtök á borð við Hells Angels einsprósentu merki ásamt þriggja bútamerki, en þetta eins prósentu merki merkir að þeir séu útlagar og skeri sig frá öðrum mótorhjólaklúbbum. „Þá erum við komin í það sem misskilningurinn liggur í því það eru yfirleitt bara „Mens Club“.