Slettur Listamaðurinn gefur hjólinu inn í galleríinu og lætir liti vaða á strigann. Hann málaði með nokkrum litum |
Spólað og slett á strigann
Erling Klingenberg tengir tvenns konar gamla þráhyggju á sýningu sinni í Kling & bang galleríi. Notaði öflugt mótorhjól í stað pensils
„Ég gerði mikið af því að spóla svona sem unglingur“
Þessa dagana stendur yfir sýning Erlings T.V. Klingenberg myndlistarmanns í Kling & bang galleríi á Hverfisgötu 42.
Á sýningunni eru málverk eftir Erling sem óhætt er að segja að máluð séu af miklum krafti – enda vélhjóli beitt við verkið. „Það er ekki að ástæðulausu að ég kalla sýninguna Kraftmikil kúnst,“ segir Erling. Annars vegar sýnir hann málverk þar sem litnum var spólað upp á strigann, og
hinsvegar verk þar sem vélhjól spólaði á máluðum flötum. „Undirtitill sýningarinnar er síðan „Þráhyggja – frumleiki“ og í sýningunni birtist tvenns konar þráhyggja sem hefur fylgt mér lengi. Annars vegar eru það mótorhjól og hins vegar listin. Eldri bróðir minn keppti mikið á mótorhjólum og ég fékk oft að fara með honum, og hreifst af þessum heimi. Þrettán ára eignaðist ég síðan mitt fyrsta mótorhjól.“
Vissi ekki hvað myndi gerast
Erling hefur á liðnum árum getið sér orð fyrir frumlega nálgun í myndlistinni, oft æði íróníska, og hefur í því ferli beitt ýmsum miðlum. „Ég útskrifaðist samt úr málaradeild í Myndlista- og handíðaskólanum,“ segir hann og það útskýrir ef til vill efnisvalið á þessari sýningu, málningu og striga. „Með tímanum hvarf ég frá málverkinu en þessi tvenns konar þráhyggja mætist þó núna, málverkið og mótorhjólið.“Spólað Ungur vélhjólakappi aðstoðaði Erling við spólverkin í Kling & bang, þar sem spólandi hjólið reif upp nokkur litalög og teiknaði á gólfið. |
Erling sat sjálfur á hjólinu sem „málaði“ á strigann, með því að spóla upp mismunandi litum úr málningarbökkum sem settir voru undir afturdekkið og einnig var spólað yfir gólf gallerísins, í gegnum nokkur lög af ýmsum litum.
„Ég gerði mikið af því að spóla svona sem unglingur, þá lékum við vinirnir okkur að því að reykspóla á stéttum og malbiki, svona eiginlega teikna með hjólunum. Þegar ég var að læra í Frankfurt 1995 fór ég að skissa teikningu eins og við vorum að gera ungir á mótorhjólunum. En ég fékk ungan snilling til að aðstoða mig við teikninguna á gólfi gallerísins.“
Málunartækni abstraktexpressjónistanna, eins og Jacksons Pollocks, er iðulega kennd við frelsi
og öll höft voru afnumin þar sem þeir slettu á strigann og beittu líkamanum af krafti við að mála verkin. „Ein helsta hetjan mín þegar ég var í námi var þýski myndlistarmaðurinn Bernd Koberling, sem hefur mikið unnið hér á landi, en hans fyrstu verk voru ekkert svo ósvipuð því sem varð til þegar stóru verkin á sýningunni fæddust. Það sá ég eftir á og þótti það skemmtileg tilviljun,“ segir Erling.
Útlagar í samfélaginu
Mótorhjól eru iðulega tengd ákveðinni karlmennskuímynd. Erling segir að hjólum hafi fjölgað mikið hér á landi síðasta áratuginn og sumir eigendur þeirra leggi mikið upp úr því að eiga réttu merkin. „Sumir nota hjólið til að skreyta egóið, sem stöðutákn, en ég trúi því samt að sannir mótorhjólamenn horfi fram hjá vörumerkjum og sjái þetta frelsi sem felst í mótorhjólinu,“ segir Erling. Hann hugsar sig um og bætir svo við: „Það sama má reyndar sjá í myndlistinni. Sumir sjá bara nafn þess sem er skrifaður fyrir verkinu en ekki um hvað verkið fjallar í raun og veru.Svo er annað; er ekki algengt að litið sé á myndlistarmenn og mótorhjólamenn sem útlaga í samfélaginu? Það er mislangsótt hugmynd en þó sé ég ýmsar tengingar þar. Ég vil samt benda á að konum hefur fjölgað mikið í þessu sporti og þær eru margar helv. … góðir ökumenn,“ segir hann og hlær.
Það þarf varla að spyrja, en á Erling ekki mótorhjól sjálfur? „Jú, ég á götuhjól og langar mikið í
fjallahjól,“ svarar hann. Auk þess að beita hjóli við málunina hefur Erling einnig tekið fjölda ljósmynda af mótorhjólum og sýnir nokkur þeirra „portretta“.
Sýning Erlings í Kling & bang stendur til sunnudags og er opin milli 14 og 18 alla dagana. Óhætt er að hvetja áhugamenn um myndlist, og vélhjól, að líta inn.
Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
16.02.2012