28.2.12

Konur á Mótorhjólum

Áhugi kvenna á mótorhjólaakstri hefur aukist mikið hér á landi. Konurnar eru á öllum aldri og margar þeirra hittast reglulega yfir sumartímann og hjóla saman um landið. Starfsemi klúbbanna er þó virk allt árið þar sem konurnar hittast einu sinni í mánuði og sumar oftar.
Tvö félög mótorhjólakvenna eru starfandi í Reykjavík, Skutlurnar og Harley Davidson skvísurnar sem flestar eru eiginkonur karla í Harley Davidson klúbbnum. Þær kalla sig Mafíu Dóru frænku eða MDF. 
Skutlurnar hafa verið starfandi frá árinu 2005 en félagið var stofnað af Ásthildi Einarsdóttur. 36 konur eru skráðar í félagið.
Konur eru einnig virkar á landsbyggðinni, á Akureyri og í Keflavík.
Á síðasta ári opnaði mótorhjólasafn á Akureyri. Hugmyndin með safninu er að varðveita 100 ára sögu mótorhjóla á Íslandi. Gott er að hafa í huga fyrir þá sem vilja eignast mótorhjól að hlífðarfatnaður er nauðsynlegur öllum þeim sem ferðast um á bifhjóli. Samkvæmt vef Umferðarstofu þarf hlífðarfatnaðurinn að vera slitsterkur og inni í fatnaðinum eða innan undir honum þurfa að vera svokallaðar brynjur sem draga úr höggi og alvarlegum meiðslum. Stígvél fyrir mótorhjólaakstur þurfa að vera með stífum ökkla til að minnka líkur á ökklabroti. Hlífðarbúnaður skal vera merktur samkvæmt stöðlum um öryggi.
Fréttablaðið 28.02.2012