8.11.11

Hann er svolítið lifandi strákurinn


 Mótorhjólasafn Íslands var opnað 15.mai 2011 á afmælisdegi Heiðars Þ. Jóhannssonar en hann lést í vélhjólaslysi 2006. Sá sem öðrum fremur á heiðurinn af safninu er Jóhann Freyr Jónsson 43ára oftast kallaður Jói rækja á Akureyri. Um 3000 vinnustundir liggja í sjálboðavinnu í smíði safnsins og námu styrkir til verkefnisins hátt í 100 milljónum. Það meira er: þessu grettistaki var lyft í miðri kreppu.
Hver er þessi kraftaverkamaður, Jói rækja?
 Ætli Jói rækja sé ekki fyrst og fremst maður með ástríðu fyrir lífinu og þá ekki síst mótorhjólum.
Hvaðan fær hann viðurnefnið ?

" Viðurnefnið kviknaði þegar ég var að vinna í Slippnum fyrir langalöngu. Það var rækjuréttur í matinn sem ég ekki borðaði og þá sagði ég upphátt svo allir heyrðu: Oj, rækja! svo festist þetta bara við mig.

Hræðist fátt.

Jói er fæddur og uppalinn Akureyringur. Hann bjó í 10 ár í Reykjavík en fluttist aftur norður upp úr aldamótunum. Hann vann mikið á skemmtistöðum hér áður fyrr og hefur starfað við mótorhjól sem fátt eitt sé nefnt. "Ég hef aldrei hræðst að prófa nýja hluti, þess vegna hef ég stokkið í allann fjandann og hef fyrir vikið dálítið breytt svið að baki".
Hann býr með syni sínum við Grundargötu. Á kærustu en þau búa ekki saman. Glottir og segir svo "Það er kannski ekki auðvelt að búa með manni sem notar eldhúsið til að gera við mótorhjól."
Og viti menn. Þegar blaðamaður litast um í eldhúsinu hjá Jóa sem viðtalið fór fram, kemur í ljós mótorhjól í öðrum enda vistarverunar. Reyndar eru mótorhjól eða ummerki um mótorhjól út um allt á heimilinu og fyrir framan húsið hellingur af vespum sem Jói ætlar að leigja út í sumar " En það hefur ekki unnist tími til þess," segir hann og kímir.

Reif allt í sundur

Mótorhjólaástríðan kviknaði þegar Jói var tíu ára gamall.  Þá leyfði Heiddi (Heiðar Jóhannsson föðurbróðir heitinn) honum að prófa mótorhjól í fyrsta skipti.  Þar með var teningunum kastað.
" Ég var litli óþolandi frændinn, tækjaóður ,breytti reiðhjólunum mínum og bara öllu. Ef ég eignaðist eitthvað þá reif ég það strax í sundur því ég vildi vita hvernig það virkaði."
Hann fann síðar hvað hann fittaði vel inn í  samfélag mótorhjólamanna og æ síðan fundist félagskapurinn einstakur, hann játar aðspurður að mótorhjólafólk hugsi oft meira um andleg mál en gengur og gerist en minna um hið veraldlega, þá sé hjálpsemi mótorhjólamanna einstök. Ef einn lendir í vanda þá eru hinir fljótir að koma til bjargar. Hann segir að auðvitað séu til svartir sauðir til í öllum félagskap en telur að umburðalyndi gagnvart mótorhjólafólki mætti vera betra.

Það er til endalaus orka

Litli óþolandi frændinn hans Heidda sem allt reif í sundur átti eftir að verða einn af bestu vinum hans.Og í dag er vinahópurinn stór enda Jói rækja sagður eiga erfitt með að neita fólki um greiða. Sólahringurinn endaoftlangur hjá honumog margar hendur á lofti. " það er allt í lagi. ég er ofvirkur þannig að ég þarf ekki að sofa neitt mikið" segir hann.
Lítur hann á það sem blessun að vera ofvirkur? " Já ég lít á það sem blessun að hafa fæðst árið 1968 áður en þeir fundu upp rítalínið. Mamma sagði einfaldlega: Hann er svolítið lifandi strákurinn og ég væri ekki sá maður sem ég væri í dag ef búið væri að þjappa mér saman með lyfjum alla ævi"
Engir gallar við þetta ástand?
"jú þetta er kannski að sumu leyti svolítið erfitt en það er alveg yndislegt að geta hamast, það er til endalaus orka."
Hvað er erfiðast? "Svefnleysið. Ég á það til að taka andvökur en það er eitthvað sem bara venst. Maður venst bara því að glápa upp í loftið á nóttunni".

Aukin einstaklingshyggja

Við ræðum nánar vináttu og greiðasemi. Jóa finnst einstaklingshyggja fara vaxndi í samfélaginu, í æ ríkari mæli hugsi hver aðeins um sjálfan sig. Á Akureyri sé ástandið þó skárra en í Reykjavík. "Hér eimir enn að þessari vinahugsun, að menn komi og segi: mig vantar hjálp. Einn reddar öðrum og fær greiða í staðinn, svona vinnuskiptahjálpsemisdæmi. En hér hafa líka orðið miklar breytingar. þegar ég var ungur þá voru götupartý í flestum götum hér a.m.k. einu sinni á ári en þau eru orðin mjög sjaldgæf. Bara svo eitt dæmi sé tekið"
Við ræðum heima og geyma og iðulega ber frændann á góma sem fallinn er frá, en hefur verið reistur glæstur minnisvarði og minningu hans haldið á lofti. Jói man mjög skýrt hvernig honum varð við að fregna andlátið. "Ég ók rútu en hann fór á undan og lendir svo í slysinu og deyr. Ég var ekki í símasambandi lengi og vissi ekkert en svo brjáluðust allir farsímar í rútunni. Ég hugsaði þá bara um að halda áfram að keyra, þorði ekki að stoppa heldur ók og ók sem leið lá þangað til ég komst til vinkonu minnar þar sem ég brotnaði saman. Þetta var ólýsanlegt."

Öllu skellt í hrærivélina

Heiddi hafði sjálfur verið að leita að húsnæði fyrir mótorhjólin sín og Jói og fjölskylda hans ákvað strax að honum gengnum að draumur hans fengi að rætast. " Að koma upp þessu safni var spurning um ástríðu, þrjósku, ofvirkni, og þrautsegjuog þegar því var öllu skellt saman í hrærivél gekk þetta upp."
Jói frábiður sér þó að honum sé þakkað einum.Fjölmargir eigi heiður og þakklætiskilið, enda muni hann varla eftir að hafa fengið neitun hjá nokkrum þeim sem beðinn var um hjálp. 
"Og þetta er rétt að byrja. Næst er að taka eftri hæðina á safninu í notkun. Það gæti orðið með vorinu 2012,"segir Jói eækja með kaffibollann sinn og góðaskapið.
Akureyri BÞ

4.11.11

Á 215 km hraða á hádegi í BolungarvíkurgöngumÍbúum Ísafjarðar og Bolungarvíkur stendur ógn af hópi ungra ökumanna sem ekur á yfir 200
kílómetra hraða í gegnum Bolungarvíkurgöng. Vegagerðin hefur mælt 24 farartæki á yfir 170 frá
því göngin voru opnuð og trúa starfsmenn vart eigin augum. Það gerir löggan, þekkir hópinn en
nær ekki því hópurinn vaktar ferðir löggunnar fyrir ógnarhraðaksturinn.

Ungir ökumenn stunda að aka um Bolungarvíkurgöng á ofsahraða. Þeir fylgjast með ferðum
lögreglunnar og tilkynna félögum sínum hvenær óhætt sé að fara í gegn, segir Önundur Jónsson, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum. Mælingar vegagerðarinnar í göngunum mældu vélhjól á 215 kílómetra hraða á klukkustund í göngunum í mars. Hjólið fór um göngin 24 mínútur í tólf á hádegi á þriðjudegi. Vegagerðin mældi níu ferðir á yfir 170 kílómetra hraða á klukkustund á tæpum tuttugu
mínútum. Ekið var fram og til baka, á öfugum vegarhelmingi og réttum, þennan dag. Hjólin gætu því hafa verið fleiri en eitt.

Trúa vart eigin gögnum 

Vegagerðin tók tölurnar saman eftir fyrirspurn Fréttatímans. Friðleifur Ingi Brynjarsson, verkefnastjóri umferðardeildar Vegagerðarinnar, rengdi  þær. „Þetta getur ekki verið.“ Margar mælinganna sýni að ógnarakstur sé stundaður um miðjan dag, þegar nokkur umferð ætti að vera í göngunum og lítið rými til frjáls hraða. „Því verðum við að draga þá ályktun, að svo komnu, að um ótrúverðug gögn sé að ræða,“ segir hann.   Önundur Jónsson, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, finnst gögnin hins vegar trúverðug. Hann viti ekki nákvæmlega hver ók í gegnum göngin á þessum hraða en hafi ákveðinn hóp drengja í huga. „Það skiptir þá engu máli þótt það sé bullandi umferð, bara ef þeir komast í gegnum göngin. Við þekkjum þennan hraðakstur og verðum varir við þetta á einkabílum okkar,“ segir hann og að lögreglan eigi við hópinn dags daglega.

Allt í botn milli hraðamyndavéla 

Önundur segir að vegna þess hve sönnunarbirgðin sé þung þegar umferðarlagabrot eru annars vegar sé lítið hægt að eiga við strákana. „Og það þótt þeir séu vel yfir flugtakshraða Fokker-véla, sem er um 150 km á klukkustund.“ Bolungarvíkurgöngin eru 5,4 kílómetrar á lengd. Um mitt sumar voru settar upp tvær hraðamyndavélar og hefur Vegagerðin ekki mælt hraðakstur yfir 170 frá því á síðasta degi júlímánaðar. „Nú er botngefið og stoppað á milli
myndavélanna,“ segir Önundur. Hraðaksturinn sé því enn til staðar.
Gunnhildur Arna Gunnardóttir
gag@frettatiminn.is

13.10.11

VEGUR DRAUMA OG VONA


63JA ÁRA GAMALL FYRRUM LÖGREGLUMAÐUR LÉT DRAUM RÆTAST OG ÓK Á MÓTORHJÓLI ÞVERT YFIR BANDARÍKIN UM ÞJÓÐVEG 66. VEGUR VONA, SEGIR FERÐALANGURINN

Sævar Ingi Jónsson er dálítill ævintýramaður. Hann er fyrrverandi lögreglumaður til langs tíma, fjölskyldumaður og hefur starfað hjá Vegagerðinni seinni ár. Sævar hefur skipst á að búa á Akureyri og í Reykjavík en kom sér fyrir nokkrum árum endanlega fyrir í hinu bjarta norðri og er sáttur. Eða hvað? Kannski var hann pínulítið ósáttur við eitt. Hann hafði nefnilega gengið með draum í maganum um langan tíma, að aka frægasta þjóðveg heims, Route 66, frá austri til vesturs í Bandaríkjunum og var orðinn úrkula vonar um að draumurinn ætti eftir að rætast. En þá heyrði hann af nokkrum lögreglumönnum sem voru að spá í svipaða hluti. Sævar setti sig í samband við þá og til að gera langa sögu stutta sneri hann nýverið alsæll heim til Akureyrar eftir að hafa ekið 4.444 kílómetra á amerískri grundu – á Harley Davidson mótorhjóli. 

Stórkostlegt, þetta var stórkostlegt, ég er stoltur að hafa látið til skarar skríða. Loksins! Jafnframt afar þakklátur eiginkonu og fjölskyldu fyrir stuðninginn við að gera þetta mögulegt“ segir Sævar og fær sér sæti á skrifstofu blaðamanns.
Hann tekur upp tölvu og sýnir blaðamanni hundruð mynda úr ferðinni. En hvert var upphaf þess að 63ja ára gamall maður ók mótorhjóli yfir þjóðveg 66?

Steinbeck áhrifavaldur

„Draumurinn kviknaði fyrir mörgum, mörgum árum eftir að ég hafði lesið Þrúgur reiðinnar eftir John Steinbeck. Mér fannst, eftir lestur þeirrar bókar, í hjarta mínu að þjóðvegur 66 væri táknrænn, að hann væri tákn fyrir drauma, vonina og ósk um betra líf. Þetta var vegurinn þar sem heilu fjölskyldurnar tóku allt sitt hafurtask, hrúguðu því inn í bílinn og létu vaða, allt fram til ársins 1950. Þá var vegurinn formlega tekinn af skrá,“ segir Sævar. 
En hvernig fór ferðalagið með hann? Er svona ferð ekki að einhverju leyti bæði andleg og líkamleg þrekraun? Hann brosir við og viðurkennir með semingi að glíman við veginn hafi stundum tekið á. Hann ferðaðist í 12 manna hópi sem í voru 11 karlar og ein kona og voru Íslendingarnir stundum „afar þreyttir að kvöldi dags“ eins og hann orðar það. Ýmsar óvæntar uppákomur töfðu líka ferð en gerðu með sama hætti ævintýrið eftirminnilegra. Sem dæmi þurfti hópurinn að bíða eftir leiguhjólunum. Sum hjólanna voru líka „hálfgerðar druslur“ og ekki í samræmi við samninginn. Einn daginn rigndi svo mikið að ferðalangarnir komust hvorki lönd sé strönd og vitaskuld komu upp bilanir eins og gengur. „Eiginlega fór allt skipulag úr böndunum og við máttum hafa okkur öll við að að komast þessa vegalengd á 11 sólarhringum eins og við þurftum að gera. Sumir dagarnir urðu þess vegna lengri akstursdagar en nokkur sá fyrir, mest fórum við á sjöunda hundrað kílómetra á einni dagleið.“ 

Ónotað krossgátublað

Sævar var langelstur íslensku ferðalanganna og segir hann að mikil orka hafi farið í að halda fullri athygli á akstrinum jafnframt því að fylgjast með umhverfinu. Líkamlega taki svona ferð líka lúmskt á. „Ég keypti krossgátublað í Fríhöfninni til að dunda mér við fyrir svefninn. En eftir að ég kom heim sá ég að þeir voru ekki margir stafirnir sem ég hafði skrifað. Maður datt út um leið og höfuðið nam við koddann á kvöldin.“
„Ferðin um þjóðveg 66 reyndi mikið á samvinnu,“ segir Sævar, „og ýmsar félagslegar lausnir. Einu sinni var svo þröngt með gistingu að margir þurftu að sofa saman í herbergi. Þá er það eitt nokkur kúnst að verða ekki viðskila við hópinn þegar menn ferðast um á mótorhjóli á götum alheimsins.“ Hann segir Bandaríkjamenn hafa verið afskaplega hjálplega í umferðinni, þeir hafi gefið séns vinstri, hægri og komið þægilega á óvart. „Tillitssemin var alveg einstök og gætum við Íslendingar lært margt af Könum í því efni.“ 

Fjöldi draugabæja

Spurður um eftirminnilega upplifun segir vegagerðarmaðurinn að það hafi verið sérstakt að aka fram hjá fjölda draugabæja á leiðinni. Sumir þeirra minntu hann á Haganesvík þar sem byggð lagðist af eftir að vegurinn var færður til. Þar sem áður hafi staðið urmull af bensínstöðvum og alls konar þjónustu við ferðalanga ríki nú víða auðnin ein
Ýmsar skemmtilegar uppákomur urðu í ferðinni eins og gengur og voru ferðafélagarnir afar samstíga í því að njóta ferðalagsins og hafa gaman af. Til stóð að lögreglumennirnir í hópnum myndu hitta kollega sína í Chicago og endaði það með því að þeir buðu öllum hópnum í mat kvöldið fyrir brottför. „Við hittum líka í nokkrum tilfellum á ferð okkar lögreglumenn á vakt og áttum við þá skemmtileg og ánægjuleg samskipti.“ Spurður um samanburðinn á því að vera íslenskur eða amerískur lögreglumaður segir Sævar að fyrir tækja- og dellukarl eins og sig hafi ekki verið leiðinlegt að skoða amerísku lögreglubílana. „Hjá þeim eru allir bílarnir sérsmíðaðir fyrir notkun þeirra. Bíll sem er notaður í vegaeftirlit er til dæmis með mjög öfluga vél og hemla auk þess sem hann er sérstaklega innréttaður fyrir hlutverk sitt. Bíll sem notaður er í fangaflutninga er sérútbúinn með öðrum hætti. Hér á landi er þetta hins vegar þannig að það fer fram útboð, svo er samið, keyptur kannski einhver fjölskyldubíll, hann merktur og svo er skellt á hann sírenu og ljósum“, segir Sævar.

 Með haglabyssu á mótorhjólinu 

En hvað með vopnaburðinn? „Við hittum meðal annars lögreglumann með haglabyssu á mótorhjólinu. Það er nú kannski ekki alveg það sem maður vildi sjá hér,“ segir Sævar og hlær að tilhugsuninni, sem væntanlega er framandi í huga flestra friðsamra Íslendinga
 „Það eina sem ég sé eftir er að hafa ekki farið þessa ferð fyrr. Mín hvatning til þeirra sem eiga sér óuppfyllta drauma er einfaldlega að láta vaða, stökkva frekar en hrökkva. Það að takast á við krefjandi verkefni gefur lífinu ómetanlegt gildi,“ segir Sævar hress og þýtur út af skrifstofu blaðamanns til starfa fyrir Vegagerðina. Hann setur bifreiðina sína í gang og ekur af stað Þórunnarstrætið til norðurs – en af svipnum af dæma er hugurinn enn bundinn við þjóðveg 66. Veg draumanna. Veg vonarinnar.

Akureyri 13. OKTÓBER 2011

15.9.11

Létt mótorhjól í smalamennsku


  Í Bændablaðinu þann 18. ágúst sl. var auglýst mótorhjól sem „nýjung í smalamennsku“. Létt klifurhjól, tætir ekki upp gróður, umhverfisvænt. Með þessari auglýsingu opnaðist heit umræða um smalamennsku á vélknúnum tækjum og utanvegaakstur.Flest mótorhjól eiga ekkert erindi í smalamennsku

Ég er á þeirri skoðun að motocrossmótorhjól eigi ekkert erindi í smalamennsku þar sem gróður er. Þau eru sérsmíðuð keppnistæki til aksturs á motocross-brautum, en öðru gegnir með svo kölluð enduro-hjól, sem eru aðeins mýkri, en samt í flestum tilfellum óhentug til smalamennsku. Það er því vissulega fagnaðarefni ef þessi klifurhjól geta verið notendavæn í smölun og alltaf ber að fagna
nýjungum. Af hverju mættu bændur ekki nýta sér nýjustu tækni eins og aðrir? Mér fannst ég knúinn til að kanna málið. Ég hafði samband við umboðið og bað Kristján eiganda þess að lána mér hjólið til prufuaksturs við smalamennsku. Hann varð við bón minni og lánaði mér hjólið, fór ég með það í
Húnavatnssýsluna á kerru og smalaði í tvo daga

Sætislaus Sherco
Mótorhjólið heitir Sherco, er með 272cc tvígengismótor og kemur með götuskráningu, þannig að það
má keyra í almennri umferð. Fyrri daginn fór ég á því keyrandi (standandi alla leiðina) 20 km fram
á Grímstunguheiði í Öldumóðuskála þar sem bændur voru að leggja upp í smalamennsku. Ég kynnti mig fyrir gangnaforingjanum og spurði hvort hann hefði einhver not fyrir mig. Hann svaraði: Það fer einn á sexhjóli niður slóðann hjá Refkelsvatni, fylgdu honum og hann segir þér hvað þú átt að gera. Ég fór vegslóðann á eftir sexhjólinu, rétt eins og hundur sem fylgir húsbónda sínum. Ég reyndi að gera eins og mér var sagt, en mér var ætlað að smala blautasta svæðið á leiðinni niður heiðina á milli tveggja vatna þar sem illfært er gangandi, ríðandi eða á sexhjóli.

Markaði ekki í jarðveginn
Sennilega kom það mér mest á óvart hvað hjólið hafði lítið fyrir þessu og rann þarna ofan á jarðveginum án þess að marka neitt í jörðina, nema hvað grasið lagðist á hliðina rétt á meðan ekið var yfir það, ekki eitt spól og engin drulla. Þegar ég var kominn yfir labbaði ég til baka til að færa sönnur á þetta með mynd. Í þeim göngutúr held ég að hafi markað meira eftir mig og mína hörðu skó en klifurhjólið á fínmunstruðum, mjúkum dekkjunum.

Erfitt að geta ekki setið
Eftir um 70 km akstur fyrri daginn hafði ég eytt rétt innan við fimm lítrum af bensíni. Seinni daginn
smalaði ég fjallshlíð hjá bónda sem ég þekki í Vatnsdalnum og hlíðin er brött, enda heitir fjallið Brattafjall. Hjólið skilaði mér upp og niður hlíðina með lítilli fyrirhöfn, á aðeins einum stað sá ég u.þ.b. meters kafla þar sem ég hafði beygt harkalega og rifið upp mosa, en stærstu mistökin hjá mér í þessum prufuakstri voru að ég æfði mig ekkert á hjólinu fyrir þessa smalamennsku og vitandi það
að geta ekki sest niður á hjólinu var ég ekki í neinu líkamlegu formi til að gera það sem ég gerði þessa helgi á Sherco-klifurhjólinu. Sherco-hjólið gat einfaldlega gert miklu meira heldur en ég gat.

Sporar minna en hross
Tvímælalaust mæli ég með þessu hjóli til smalamennsku og er það mitt mat að hjólið skemmi minna en maður með þrjá hesta. Sama hver fer um landið, það verða alltaf eftir spor og er þá ekki eðlilegt að nota þann fararmáta sem sporar minnst út?
Lokaorð mitt er að auglýsingin stenst;  þetta er umhverfisvænasta hjól sem ég hef keyrt. Mér tókst með mikilli lagni að tæta upp einn meter af mosa með því að gera það á ferð í beygju, hjólið er svo létt að það markar varla í jörð. Sherco-hjólið sem ég prófaði kostar 1.100.000 krónur en nánari
upplýsingar um hjólið má finna á vefsíðunni www.mxsport.is.


Kostir:
Létt (69 kg), kraftmikið, lágvært, götuskráning, mjúk dekk, gott í gang, eyðir litlu (í vinnu einum lítra á klukkutíma), hátt undir lægsta punkt, æðislegt leiktæki (finnst mér allavega).

Ókostir:
Tel að flestir byrjendur vildu hafa sæti (tiltölulega lítið mál að útbúa festingu fyrir reiðhjólahnakk á hjólið en þetta hjól sem ég prófaði er meira keppnistæki í klifuríþróttum, en til eru svipuð hjól með sætum), það þarf að æfa sig á hjólinu fyrir smalamennsku (ég er að drepast úr strengjum), mæli ekki
með hjólinu fyrir þyngri menn en 90 kg (persónulegt mat).


Bændablaðið 
 15. september 2011

27.8.11

Ferðalag um Afríku á mótorhjólum

 Á rúmlega þriggja mánaða ferðalagi ferðuðust þau Kristbjörg Sigurðardóttir og Magnus Johansson vítt og breitt um Afríku á mótorhjólum. Á ferðalagi sínu kynntust þau nýrri menningu og sáu ótal marga fallega staði.
Hjónin Kristbjörg Sigurðardóttir og Magnus ferðuðust alls 22.000 km á mótorhjólum í mikilli ævintýraferð um Afríku í fyrra. Alls tók ferðin þrjá og hálfan mánuð en þau lögðu upp frá Namibíu þar sem Magnus Johansson hafði verið við störf. 

Skipulag og sveigjanleiki 

   „Í Namibíu er gott skipulag á hlutunum og öll nútíma þægindi að finna. Þaðan keyrðum við um SuðurAfríku og gáfum okkur góðan tíma þar til að venjast umhverfinu, hitanum og hjólunum og gera allt klárt. Við vissum að ferðin yrði snúnari þegar við færum norður austurströndina en aukahlutir í hjólin fást til að mynda bara í Suður-Afríku. Á austurströndinni var þó ekki jafn erfitt að finna gististaði, góðan mat, vatn og bensín eins og við héldum enda eyddi ég næstum hálfu ári í að undirbúa og skipuleggja ferðina á ótal vefsíðum. Þannig höfðum við hugmynd um einhverja gististaði í hverju landi sem er mjög mikilvægt.
Yfirleitt eru gististaðirnir afgirt tjaldstæði með allri helstu aðstöðu. Þeir eru reknir af fólki frá Suður Afríku, Þýskalandi og Bretlandi. Suður-Afríkubúar eru vanir slíkum gististöðum að heiman og þar sem þeir ferðast mikið um Kenýa hefur slík ferðaþjónusta byggst upp þar og víðar. En þrátt fyrir nauðsynlegan undirbúning fær fólk líka góð ráð frá öðrum ferðalöngum og því er nauðsynlegt að vera svolítið sveigjanlegur. Einhver segir þér kannski að þennan tilekna veg sé ómögulegt að keyra af einhverjum ástæðum og þá tekur þú annan betri,“ segir Kristbjörg og Magnus bætir við að helmingur undirbúningsins fari fram fyrirfram en á móti því verði fólk að taka réttar ákvarðanir á ferðalaginu

Tveggja daga heljarreið 

   Kristbjörg og Magnus ákváðu að áætla sér rúman tíma til ferðalagsins svo þau hefðu sveigjanleika. Það reyndist góð ákvörðun en þau þurftu t.d. að bíða í heila viku í Nairobi eftir vegabréfsáritun til að komast inn í Eþíópíu. Áritunina hafði þeim verið sagt að auðvelt væri að fá en þegar þau bar að garði hafði nýr ráðunautur ákvörðunina í hendi sér og var þeim tjáð að engir ferðamenn færu þangað. Kristbjörg segir hann einfaldlega hafa verið í svoleiðis skapi þann daginn að honum fannst ekki að þau ættu að fá leyfið. Magnus segir að fólk verði að skilja að allt fyrir neðan Kenýa sé „létt“ Afríka, eins og hann orðar það. Á leiðinni frá Kenýa til Eþíópíu tekur hins vegar allt annað við en leiðin þangað er þekkt undir nafninu „Hellroad“. Sú leið liggur um eyðimörkina fyrir norðan Nairobi þar sem fólk keyrir stanslaust í tvo daga í miklum hita en aðeins einn áfangastaður er á leiðinni. Þegar komið er að landamærunum er þar aðeins lítil landamærastöð en enginn fær að fara lengra nema hann sé með nákvæmlega rétta pappíra. Pappírarnir skipta miklu en þau Kristbjörg og Magnus þurftu bæði að hafa vegabréfsáritanir fyrir sig fyrir hvert land sem þau heimsóttu og sérstakt leyfi fyrir hjólin.

Æfði sig úti í skógi 

  Þau Magnus og Kristbjörg eru sammála um að það sé skemmtilegur og öðruvísi ferðamáti að ferðast á þennan hátt. Enda sjái fólk allt sem fyrir augu þess ber mjög nálægt. Þau ferðuðust um á sérstaklega útbúnum enduro-hjólum. Slík hjól eru mjög vinsæl í Suður-Afríku og sérætluð í slíkar ferðir.
  Hægt er að bæta ýmsum aukahlutum við hjólin og keyptu þau hjónin sérstök dekk sem reyndist vel því um leið og þau komu inn í Mosambique urðu vegirnir mjög slæmir. Eðlilegt þykir að á slíkri ferð springi allt að tíu sinnum hjá fólki en það gerðist aðeins einu sinni hjá þeim Magnusi og Kristbjörgu. Þá gerðu þau samning við bifvélavirkja í Suður-Afríku um að senda sér aukahluti ef eitthvað vantaði. Það kostaði sitt en borgaði sig þar sem slíka þjónustu er ekki að fá á austurströndinni. Magnus hefur nokkra reynslu af mótorhjólum en Kristbjörg tók próf árið 2007 og hefur síðan þá keyrt götuhjól. Hún fékk lánað enduro-hjól Magnusar áður en þau lögðu af stað og æfði sig úti í skógi í Svíþjóð. Hún segist þó hafa verið dálítið óörugg til að byrja með en það vildi til að flestir vegir í Afríku eru malbikaðir þó þeir séu ekki endilega góðir. Kristbjörg segist þó frekar vilja keyra um í Afríku heldur en í Asíu. Í Afríku sé mikið um fólk og dýr á vegunum en ekki jafn mikil bílaumferð og í Asíu. Þau leggja áherslu á að mikilvægt sé að pakka eins litlu niður og hægt er því að nauðsynlegt er að taka með sér aukahluti, tjald og prímus.

Spennandi fótboltaleikur 

    Magnus hafði látið sig dreyma um slíka ferð í nokkurn tíma og tók Kristbjörg vel í hugmyndina þó að áður hefði henni ekki dottið í hug að fara slíka ferð á hjólum. Magnus og Kristbjörg heimsóttu alls tíu lönd en segja Súdan hafa komið sér einna mest á óvart. Þar séu mjög fallegar strendur niðri við Rauðahafið og náttúran stórbrotin. Þar er einnig hægt að skoða píramída líkt og í nágrannalandinu Egyptalandi en Súdan hafi það fram yfir að þar sé mun minna um ferðamenn. Einna besta matinn í ferðinni segja þau hafa verið hefðbundinn eþíópískan mat. Þar er venjan að bera fram ýmiskonar kjöt og grænmeti á stórri pönnuköku sem fólk notar síðan til að rúlla matnum inn í. „Þeir taka lífinu rólega í Afríku og er nokkuð sama um næsta dag svo lengi sem þeir eiga eitthvað að borða. Það er góð reynsla fyrir okkur Vesturlandabúana, sem erum alltaf í stressi, að kynnast slíku og gætum við lært mikið af þeim. Margir eru vissulega fátækir í þessum löndum en njóta samt lífsins eftir bestu getu,“ segir Magnus.

María Ólafsdóttir maria@mbl.is
28.7.2011

23.8.11

Haustógleði 2011

Jæja gott fólk, þá er komið að því.
 Haustógleði Tíunnar verður haldin laugardaginn 8. október.

 Nú í lok hjólavertíðarinnar er tilvalið að hittast, borða og hafa gaman saman. Í ár verður Haustógleðin haldin í Vélsmiðjunni og opnar húsið kl 19:00 og hefst borðhaldið um kl 20.

Verð á Ógleðina er 2500kr fyrir greidda félagsmenn en 3500kr fyrir aðra gesti.
 Söng- og dansolíu verður hver að koma með fyrir sig.
 Eftir matinn verða síðan ýmsar uppákomur og lifandi tónlist þar sem allir ættu að geta dansað af sér ra***atið. Og nú er spurt: hvernig fer ég að því að skrá mig á þessa frábæru skemmtun?

 Svarið er einfalt: Þú sendir tölvupóst á tian@tian.is og málið er dautt. Síðasti dagur til að skrá sig er fimmtudagurinn 6. október.

 Með haustkveðju, Óli Pálmi #208

15.7.11

Hér er allt gert af ástríðuMargir glæstir mótorfákar eru á götum Akureyrar um þessa helgi því þar standa yfir Hjóladagar 2011.

Jóhann Freyr Jónsson tekur þátt í þeim, bæði sem einstaklingur og safnstjóri Mótorhjólasafns Íslands.


Spyrnt verður á sporthjólum, hippum, fornhjólum, krossurum og vespum á Akureyri síðdegis í dag að afloknum hópakstri í Samgönguminjasafnið að Ystafelli. Hvort tveggja er á dagskrá  Hjóladaga 2011 sem lýkur með veislu og dansleik í Sjallanum á morgun með Sniglabandinu og Myrká.

Mótorhjólaklúbburinn Tían heldur utan um Hjóladagana. Tían er líka hollvinafélag  Mótorhjólasafns Íslands sem var opnað á Akureyri í byrjun sumars og á mörg fágæt hjól og fjölda mynda. „Hér eru hjól sem erfitt er að finna í dag og eru í raun einstök,“ segir safnvörðurinn Jóhann Freyr og bendir á eitt sem innan við tíu eintök eru til af í heiminum og annað með  framleiðslunúmerið 9 af þeim 60 sem framleidd voru í sérútgáfu árið 1975. 

Mótorhjólasafnið var byggt í minningu Akureyringsins Heiðars Þ. Jóhannssonar sem lést sumarið 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi. Hann hafði dreymt um að opna safn enda átti hann mörg merkileg hjól og hluti tengda þeim og sérstök deild er helguð gripum hans.

„Bræður Heiðars hafa líka verið rausnarlegir við okkur og flutt inn mörg sjaldgæf hjól til að gefa safninu. Hér er allt gert af ástríðu,“ tekur Jóhann Freyr fram og segir sýningargripina til dæmis handpússaða með Mjallarbóni.

Sjá www. motorhjolasafn.is 

gun@frettabladid.is
Fréttablaðið 15.07.2011

11.7.11

Á Mótorfáki Fráum

 Fjöldi kvenna stundar enduro-hjólamennsku og motocross. Sumar hjóla nokkrum sinnum í viku á sumrin og nokkrar keppa erlendis. Útiveran, spennan og félagsskapurinn eru á meðal þess sem heillar Teddu og Bryndísi Einarsdóttur

Maðurinn minn, Haukur Þorsteinsson, fór í mótorhjólasportið árið 2000, dró síðan börnin okkar, sem þá voru 9 og 10 ára, í þetta líka og lét líka öllum illum látum í mér,“ segir Tedda sem heitir fullu nafni Theodóra Björk Heimisdóttir.
   „Ég var frekar treg en prófaði þetta skíthrædd árið 2004 en mér fannst þetta skemmtilegt. Ég hef gaman af að taka áhættu; ég er svolítið ýkt í því sem ég geri. Ég veit ekkert skemmtilegra en að fara í erfiðan enduro-túr þar sem er blóð, sviti og tár og ég fæ ógeðslega mikið út úr því.
    Ógeðslega mikið út úr því.“ Tedda segir að það sem heilli sig við þetta sport sé frjálsræðið, útiveran og einfaldlega það að hjóla. „Adrenalínið flæðir, þessu fylgir samvera með fjölskyldunni, maður tekur á og þetta er skemmtilegt sport.“ 
   Hún segist hjóla fjórum til fimm sinnum í viku á sumrin. „Þetta er svo mikil áskorun. Ég þarf að hafa fyrir öllum framförum og tek hænuskref. Ég hjóla allan veturinn á meðan vinkonur mínar í sportinu hjóla lítið á þeim tíma. Ég er fegin að stelpurnar eru ekki að æfa mikið á veturna því þá næ ég að hanga pínu í þeim, þær eru allar svo miklu yngri en ég og þurfa ekki að hafa eins mikið fyrir því.“
    Hvers vegna að hjóla á veturna þegar fæstir gera það? „Ætli ég sé ekki hjólafíkill.

Í keppnisskapi

    Tedda segist hafa hjólað um þrisvar sinnum fyrsta árið og tók hún þátt í keppni í motocross í fyrsta skipti ári síðar. „Ég var langsíðust en ég var svo ánægð með að komast hringinn. Það var svo mikið afrek að meika það. Ég held ég hafi ekki sleppt neinni motocross-keppni síðan þá en um er að ræða sex til sjö keppnir á ári.“
   Hún byrjaði í enduro þremur árum síðar. Hún segir að það sé erfiðara heldur en motocross. „Enduro er svo krefjandi. Í motocross felst meðal annars að þora að stökkva yfir palla en ekkert mál að keyra bara yfir þá en í enduro er maður að brölta upp brekkur og fara yfir risagrjót, læki, drullupytti og mýri og maður kemst ekkert hjá því. Þetta eru mikil líkamleg átök.“
   Tedda hefur keppt í enduro og motocross-keppnum bæði hér á landi og í útlöndum svo sem í Bandaríkjunum, Bretlandi og Svíþjóð.
   „Ég er fyrsta amman sem keppi í motocross og enduro á Íslandi. Ég var líka fyrsta fertuga konan sem keppti á Íslandi og ég stefni á að vera fyrsta fimmtuga konan; sjáum til hvort það takist.“
    Tedda segist halda utan um stelpuhópinn í enduro og motocross. „Félagsskapurinn er svo mikið atriði fyrir mig. Ég hef séð um námskeið fyrir stelpurnar, er með árlegar enduroferðir og hef skipulagt hitting bæði í bænum og heima hjá mér. Ég vil endilega að fleiri stelpur kynnist þessu sporti hvort sem það er motocross eða enduro. Ég er búin að leyfa fullt af stelpum að prófa en svo er auðvitað undir viðkomandi komið hvort tími og aðstæður henti í þetta sport.
    Það er allavega algjör misskilningur að þetta sé bara strákasport, þetta er fyrir alla. Þetta er svo skemmtilegt. Við stelpurnar reynum að hjóla saman því að það er ekki það sama að hjóla með strákunum eða stelpunum; við erum ekki alveg á sama hraða og þeir. Þetta er svo yndislegur hópur.“
    Vélhjólaíþróttaklúbbur Reykjavíkur er með aðstöðu í Bolöldu og segir Tedda að þar sé bæði flott motocross-braut og enduro-braut og þar hjóli þær mikið. Eins er klúbburinn með flotta motocrossbraut í Álfsnesi.

Tedda 64

Tedda hefur ekki bara farið í hjólaferðir til útlanda til að keppa heldur líka eingöngu til að hjóla. „Ég fór einu sinni með níu strákum til Kaliforníu í enduro-ferð; ég skil ekkert í því að þeir skyldu leyfa mér að koma með. Það var æðislegt. Það var hjólað allan daginn og ég þurfti að hafa mig mikið við til að reyna að hanga í þeim því að strákar hjóla yfirleitt hraðar en stelpur en þeir voru voða góðir við mig.“
   Hún segir að eftirminnilegasta ferð hér á landi sé um 12 tíma ferð úr Mývatnssveit suður í Kistufell og til baka um Dyngjufjalladal sem þau hjónin fóru með vinafólki sínu. Hún segir að þau hafi þurft að fara yfir á og fólk hafi verið upptekið við að fylgjast með einum hjólamanninum sem ákvað að fara yfir á öðrum stað.
   „Ég hjólaði út í ána, var frekar klaufsk, stoppaði og þá fór hjólið að halla. Ég kallaði á mann sem stóð á móti mér hinum megin við ána en það var ekki séns að hann tæki eftir mér af því að hann var svo upptekinn af að horfa á gæjann í ánni þannig að ég missti hjólið niður. Það þurfti síðan að setja hjólið mitt á hvolf og tæma það en sem betur fer voru góðir mekkar með í för. Þetta var bara ævintýri. Í mínum huga gerði þetta ferðina bara skemmtilegri.“
   Tedda hefur oftar lent í vatni ef svo má að orði komast. Hún var einhverju sinni að keppa í motocrosskeppni. Hún hjólaði út úr brautinni og var í vandræðum með að komast upp á hana aftur. Fyrir framan hana var pollur og sá hún fyrir sér að hún gæti hjólað þar yfir og komist aftur upp á brautina. 
   „Ég settist á hjólið, gaf allt í botn og hjólaði út í vatnið sem var örlítið dýpra en ég bjóst við. Það náði mér upp í mitti. Til að kóróna það var þetta drulludý þannig að ég sökk dýpra í hvert skipti sem ég hreyfði mig. Mér fannst þetta mjög fyndið. Stelpurnar, sem voru að keppa, sáu mig en þær voru uppteknar í keppninni enda hvatti ég þær til að halda áfram. Mér var svo hjálpað þegar henni var lokið en þá hafði maðurinn minn fengið tilkynningu um að Tedda væri að drukkna. Það þurfti mannskap til að draga mig og hjólið upp því ég var pikkföst og það sást nánast ekkert í hjólið þegar björgunin barst.“
    Númerið á hjólinu: Tedda 64. Hún er líka merkt Tedda 64 í keppnum en hún fæddist árið 1964. „Ég telst nú vera frekar gömul í þessu sporti, var 39 ára þegar ég byrjaði að hjóla og er nú 46. Ég keppi við stelpur frá 15 ára og upp úr og það er meðal annars það skemmtilega við þetta sport að það skiptir ekki máli á hvaða aldri maður er.“
    Tedda segist elska það að vera úti. „Það er tvennt ólíkt að fara á bíl út í náttúruna eða á hjóli því maður er bara úti og fær einvern veginn allt í æð. Maður fer á aðra staði en ella en því fylgir mikið frelsi. Maður skynjar umhverfið allt öðruvísi.“
    Hvað er Ísland í huga Teddu? Hvað er íslensk náttúra í huga hennar? „Hún er æðisleg. Ég er búin að hjóla víða um heim og mér finnst Ísland vera einstakt. Náttúran hérna er svo fjölbreytileg.“

„Þetta er svo svakalegt“

„Ég átti heima í Svíþjóð þegar ég var lítil og þar rétt hjá var skemmtigarður þar sem voru lítil mótorhjól. Ég prófaði fyrst að hjóla þegar ég var sex ára og fór nokkra hringi. Frá því langaði mig í mótorhjól,“ segir Bryndís Einarsdóttir. Faðir hennar eignaðist mótorhjól og fór hún oft með honum á keppnir. Það leið ekki á löngu þar til hún fékk líka hjól en hún var þá 12 ára.
   Ári síðar varð Bryndís Íslandsmeistari í 85 kúbikka kvennaflokki þar sem eru stelpur á aldrinum 12– 15 ára og sama ár hélt hún til Spánar þar sem hún fór í æfingabúðir hjá tíföldum heimsmeistara í motocross; hún segist hafa eytt öllum fermingarpeningunum í ferðina. Bryndís hefur farið fjórum sinnum í þessar æfingabúðir en þar eru meðal annars nokkrir atvinnumenn í motocross sem keppa í heimsmeistarakeppninni. Hún er einn fárra unglinga sem fara í þessar æfingabúðir. Skipt er í tvo hópa. Hún var í „hægari hópnum“ í fyrstu þrjú skiptin en síðast var hún komin í „hraðari hópinn“
   „Það er allt annað að hjóla í útlöndum en á Íslandi. Brautirnar eru allt öðruvísi og umgjörðin allt önnur. Það er rosalega mikið grjót í brautunum á Íslandi miðað við úti.“

Þarf virkilega að æfa

Bryndís er 17 ára. Hún hefur tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari í motocross og tekið þátt í fjölda keppna í útlöndum svo sem heimsmeistarakeppnum.
    „12 ára er frekar gamalt til að byrja. Allar stelpurnar sem keppa á móti mér í heimsmeistarakeppninni byrjuðu í motocross þegar þær voru fjögurra til fimm ára. Maður þarf að vera 12 ára á Íslandi til að fá að keppa en maður þarf að vera 15 ára til að fá að keppa í heimsmeistarakeppninni.“
   „Adrenalínið fer allt í gang; ég get ekki lýst tilfinningunni. Þetta er svo svakalegt. Þetta er svolítið hættulegt og erfitt. Þetta snýst ekki bara um að sitja á hjólinu og gefa í; það þarf að æfa tæknina og stílinn, maður þarf að vera agressívur, halda einbeitingu, fara í ræktina, hlaupa og synda og ég hjóla líka á reiðhjóli. Það þarf að gera þetta allt til þess að ná upp þoli til að halda út þann tíma sem maður er að keppa.
   Fólk áttar sig kannski ekki á því hvað það þarf virkilega að æfa til þess að keppa í motocross. Mér finnst þetta ótrúlega skemmtilegt og ég vil verða betri; ég vil virkilega leggja mig fram um að verða best. Markmiðið er sett á heimsmeistaratitilinn.“
    og batni eftir því sem hún hjóli hraðar. „Það þarf að læra samhengið á milli kúplingarinnar, gírkassans, þegar bremsað er, gefið í og stöðuna á hjólinu. Þetta spilar allt saman.“
    Hún talar líka um stílinn. „Ég er mjög slök; ég er mjög afslöppuð þegar ég er á hjólinu. Það lítur ekki út eins og það sé mjög erfitt að hjóla þegar ég hjóla. Maður nær þessu ef maður er slakur. Það fer allt í rugl ef maður er stífur.“
   Bryndís segir brautirnar vera ólíkar. „Það er hægt að fara í harðar brautir, það er hægt að fara í mjúkar brautir eins og moldarbrautir og svo er hægt að fara í sandbrautir. Það verður að keyra á ólíkan hátt eftir því hvernig brautirnar eru. Það getur verið sleipt í hörðu brautunum; það myndast ekki margar línur í beygjunum sem hægt er að fylgja og maður þarf að hugsa eins og maður sé að keyra á götu.
    Í mjúku brautunum verður að setja í réttan gír á hverjum stað, vera í réttri stöðu á hverjum stað og það þarf að bremsa á réttum stað. Það er yfirleitt sagt að sandbrautirnar séu erfiðastar. Svo eru mismunandi pallar á brautunum og beygjurnar geta verið ólíkar. Sumum hentar betur að vera með fleiri beygjur og sumum hentar betur að vera með fleiri stökkpalla. Mér finnst langskemmtilegast í sandinum en þar get ég gefið meira í.“

Keppir við stráka

Bryndís er í motocross af svo mikilli alvöru að í hittifyrra var hún í útlöndum vegna þess frá apríl þangað til í september. Faðir hennar fer með henni í þessar ferðir og það árið voru þau aðallega í Svíþjóð þar sem Bryndís keppti á sænska meistaramótinu.
    „Svo prófaði ég heimsmeistarakeppnina, þrjár keppnir af sex sem voru haldnar í Þýskalandi, Svíþjóð og Hollandi. Ég vildi taka lítil skref í einu og athuga fyrst hvernig þetta myndi ganga. Besti árangurinn var í Hollandi en ég lenti í 16. sæti af 40 keppendum.
   ppendum. Bryndís var í fyrra í Belgíu frá byrjun mars og kom ekki heim fyrr en í lok september. Faðir hennar fór heim í einn mánuð og þá fór móðir hennar út. Í fyrra keppti Bryndís í Hollandi, Þýskalandi og í heimsmeistarakeppninni sem var haldin í Búlgaríu, Portúgal, Spáni, Frakklandi, Þýskalandi, Tékklandi og Ítalíu. Ákveðið var að Bryndís keppti mest á Íslandi í ár. Þess má geta að hún hefur verið í fjarnámi á framhaldsskólastigi undanfarin ár.
   „Ég vann Íslandsmeistaratitla 2007 og 2008. Ég hefði getað verið á Íslandi og keppt um Íslandsmeistaratitilinn 2009 og 2010 en mig langaði í meiri reynslu. Mig langaði að fá meiri æfingu út úr þessu. Ég keppi til dæmis núna með strákunum. Þeir eru ekkert rosalega sáttir að ég sé að keppa við þá; þeir vilja ekki tapa fyrir stelpu. Mér finnst skemmtilegra að keppa á móti strákum; maður verður aggressívari og í raun sterkari.“

Verður glöð

   Verður glöð Bryndís sagði að motocross væri svolítið hættulegt og hefur hún fengið að kenna nokkrum sinnum á því og hafa nokkur óhappanna haldið henni frá æfingum. „Ef læknirinn segir að það taki tvær vikur að jafna mig þá eru það tvær vikur og þá er það búið. Þá fer ég til sjúkraþjálfara og vinn í því að styrkja mig.“ Bryndísi finnst hjólamennskan þess virði þrátt fyrir óhöpp. „Þetta er skemmtilegt og áhugavert. Þetta er allt. Allt sem maður getur beðið um.“
    Hún segir nauðsynlegt að foreldrar styðji krakka sem eru í þessu sporti. „Það er ekki hægt að keyra krakka út á braut og skilja þá þar eftir með bensínbrúsa og fara svo. Maður þarf að hafa einhvern með sér sem styður mann og hjálpar eins og foreldrar mínir eru búnir að gera.“ 
    Bryndís er tilbúin til að fórna miklu til að geta stundað motocross. Þetta er tímafrek íþrótt og það getur tekið nokkra klukkutíma að fara að hjóla í hvert skipti; komast á staðinn, hjóla, fara heim og svo þarf að þrífa hjólið.
   „Ég verð glöð þegar ég fer að hjóla. Þetta er það sem ég elska.“

 Svava Jónsdóttir
DV 11.07.2011
8.7.11

Dagskrá Hjóladaga 2011

Fimmtudagur 14. júlí
Hittst á Ráðhústorgi kl 19:30. Hópakstur þaðan sem endar á Mótorhjólasafni Íslands. Hjóladagar 2011 settir. Vöfflur og lifandi tónlist.

Föstudagur 15. júlí
Hittst á Ráðhústorgi kl 12:30. Hópakstur í Ystafell þar sem samgönguminjasafnið verður skoðað.
Hjólaspyrna á svæði Bílaklúbbs Akureyrar þar sem keppt verður í mörgum flokkum, s.s. sporthjólum, hippum, fornhjólum, krossurum, vespum, o.fl. Dagskráin hefst kl 18:00 á svæði Bílaklúbbsins. Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á ba@ba.is, en skráningu líkur miðvikudaginn 13. Júlí kl 23:59. Það sem fram þarf að koma er nafn ökumanns, tegund hjóls, flokkur og upplýsingar um akstursíþróttafélag. Allar nánari upplýsingar er að finna á www.ba.is

Laugardagur 16. júlí
Dagskrá hefst á Ráðhústorgi kl 13:00. Þar mun fara fram keppni í þrautabraut á hjólum, pylsuát, o.fl. Markaðstorg verður á staðnum þar sem fjöldi aðila verða með mótorhjólatengdar vörur til sölu og kynnis. Swap-meet verður einnig á staðnum og hvetjum við fólk til að taka til í skúrnum hjá sér og mæta með dót sem það þarf að losna við. Umsjónaraðili verður með swap-meet og fólk þarf því aðeins að mæta með vöruna og verðhugmynd og mun umsjónaraðilinn sjá um að selja vöruna 
Um kvöldið verður síðan slegið upp heljarinnar veislu í Sjallanum þar sem svangir gestir hjóladaga geta gætt sér á grilluðum kræsingum. Þar verður einnig verðlaun afhent fyrir hjólaspyrnuna og Hjóladögum 2011 síðan formlega slitið. Hljómsveitin Sniglabandið mun síðan halda uppi stemningu fram á rauða nótt. Verð í matinn með dansleik er 5000 kall. Húsið opnar fyrir matargesti kl 20:00 en fyrir dansþyrsta ballgesti opnar á miðnætti.

7.7.11

Hetja sem ríður um héruð 2011


Njáll ökukennari við nýju Triumph hjólin sem mótorhjólaleigan
hans Biking Viking var að fá.

Njáll Gunnlaugsson skrifar bækur og kennir á vélhjól

Upphaflega fór ég í ökukennsluna til að kenna á mótorhjól en í dag kenni ég líka á fólksbíla,“ segir Njáll Gunnlaugsson, ökukennari og bifhjólamaður. Árið 1998 byrjaði Njáll að kenna á mótorhjól og hefur sinnt því í þrettán ár. Áhugi hans á mótorhjólum hófst snemma á unglingsárunum. „Mótorhjólaáhuginn byrjaði með skellinöðru og svo kaupi ég fyrsta götuhjólið mitt tvítugur og þá var ekki aftur snúið. Fyrst var ég að leika mér á Honda MB og MT sem ég fékk hjá vinum mínum á unglingsárunum og síðan þróaðist þetta út í götuhjólin.“ Njáll segir að frá því hann fékk sér sitt fyrsta
hjól hafi hann alltaf átt mótorhjól. „Ég keypti mér í vetur fyrsta hjólið sem ég átti og ætla að gera það upp á næstu mánuðum en það er kawasaki GPz 550 Þá fjárfesti ég líka í Honda MB svona til gamans og til að rifja upp gamla og góða tíma. Það hjól er nú komið til systursonar míns sem er að taka sínu fyrstu skref á mótorhjóli“

BMW í uppáhaldi

„Ætli það séu ekki að verða 30 til 40 hjól sem ég hef átt yfir ævina. Við hjónin eigum í dag 12 hjól og síðan rek ég mótorhjólaleigu og er með kennsluhjól þar að auki,“ segir Njáll og bætir við að BMW-hjól séu í miklu uppáhaldi hjá sér. „Ég er búinn að eiga og á nokkur BMW-hjól og hef gaman af þeim. Þeir kunna að smíða skemmtileg og flott mótorhjól og þau eru oft hátæknivædd með  skemmtilegum nýjungum.“ Gífurleg aukning á sölu mótorhjóla var um miðjan síðasta áratug í uppsveiflunni en eftir hrun hefur sala á hjólum dregist verulega saman. „Þegar mest var í  uppsveiflunni voru flutt inn nærri 1.500 hjól á ári en í fyrra voru flutt inn 150 hjól. Nýliðun er því minni í dag,“ segir Njáll sem bætir við að mikil sprenging hafi verið í sölu á rafmagnsvespum og augljóst að fólk sé að leita að ódýru farartæki til að komast á milli staða. „Rafmagnsvespurnar eru flokkaðar í sama flokk og reiðhjól ef þær komast ekki yfir 25 km á klukkustund. Menn hafa ekki gert ráð fyrir þessu og það vantar reglur um þetta og jafnvel stíga og annað, bæði fyrir hjól og vespur. Þetta er viðvarandi vandamál á Íslandi í dag. Sá fjöldi sem nú er kominn á rafmagnsvespu getur þó
seinna meir skilað sér á götuhjólin og þannig stækkað flóruna og aukið nýliðun í mótorhjólaheiminum.“


Með mótorhjólið í forgangi

Þó Njáll kenni hvoru tveggja á mótorhjól og fólksbíl er ekki hægt að segja annað en að hann hafi mótorhjólið í forgangi. Þau eiga hug hans allan. „Ég hef lengi safnað gömlum myndum af
mótorhjólum og svo vatt þetta upp á sig og endaði á því að ég gaf út bók um 100 ára sögu mótorhjólsins á Íslandi,“ segir Njáll sem seldi Mótorhjólasafni Íslands upplag af bókinni vel
undir kostnaðarverði til að styrkja byggingu safnsins á Akureyri. „Ég þekkti vel til Heidda, sem safnið er meðal annars reist til minningar um og Jóa, sem rekur safnið. Mér fannst því rétt að styrkja safnið með þessum hætti.“ Bókin, sem heitir Þá riðu hetjur um héruð – 100 ára saga mótorhjólsins á Íslandi, er til sölu hjá Mótorhjólasafni Íslands og er skemmtilegt ágrip um sögu mótorhjólsins á Íslandi.

Ímyndin um hörkutólið 

Það loðir oft við mótorhjólin ímyndin af uppreisnarseggjum í leðurjökkum að þeysast um götur borgarinnar á ógnarhraða. „Það er svo mikil gróska í mótorhjólamenningunni í dag. Það eru allir á mótorhjóli, hvort sem það er ráðherra eða ruslakall. Þegar það eru svona margir á mótorhjólum þá eru alltaf til einhverjir sem vilja greina sig frá fjöldanum, hvort sem fólk gerir það með hjólunum eða klúbbnum sem það er í. Þannig er nú bara mannlífið,“ segir Njáll sem telur að hluti af  ýmyndarvandanum sé ekki síst umfjöllun í fjölmiðlum sem einblíni oftar á slæmu hlutina. Njáll segir vélhjólamenn almennt vera meðvitaða um umferðaröryggi, hvort sem það snýr að þeim sjálfum eða öðrum. „Við í Sniglunum förum á hverju vori út á göturnar til að minna fólk á mótorhjólin á vegunum
og auðvitað líka til að bæta ímyndina.Við keyrum umferðarátak á hverju ári og erum til að mynda í góðu samstarfi við vegagerðina um betra vegumhverfi fyrir mótorhjólafólk, en árangur þessa samstarfs má sjá með tilraunavegriðum á Hafnarfjarðarveginum og mun sjást enn frekar í framtíðinni.“
vilhjalmur@mbl.is
Morgunblaðið
7.7.2011

Eiga hátt í Hundrað Mótorhjól

Lesa greinina HQ PDF

25.6.11

Skutlast í hringferð um landið á hjólunum

Skutlurnar, eini kvenbifhjólaklúbbur landsins, lögðu af stað á mótorhjólum sínum í gær í hringferð um landið. Í hópnum eru um 40 konur en í hringferðina að þessu sinni tóku þær maka sína með og hópurinn því allstór.


Skutlurnar, eini kvenbifhjólaklúbbur landsins, lögðu af stað á mótorhjólum sínum í gær í hringferð um landið. Í hópnum eru um 40 konur en í hringferðina að þessu sinni tóku þær maka sína með og hópurinn því allstór.
Margar Skutlur aka um á Harley Davidson-hjólum en annars eru hjólin af ýmsum tegundum og gerðum. Lagt var af stað frá Shell við Vesturlandsveg í blíðviðri í gærmorgun. Klúbburinn var stofnaður árið 2005 og hefur meðlimum fjölgað jafnt og þétt. Stofnfélagar voru 14 en félagsmenn eru orðnir hátt í 30 talsins. Nálgast má upplýsingar um klúbbinn á www.skutlur.is.
— Morgunblaðið/Ernir

8.6.11


STÓRVIÐBURÐUR HJÓLAFÓLKS Á ÍSLANDI

Hjóladagar á Akureyri 


14.júlí til 17.júlí 2011
                                        HÖFUM GAMAN SAMAN!
Hjóladagar á Akureyri hafa nú verið nær árlegur viðburður frá árinu 2006, meðal þeirra stærstu hérlendis. Þar mætir mótorhjólafólk af öllu landinu til Akureyrar til sýna sig og sjá aðra, hjóla saman, borða og njóta skemmtidagskrár þessa daga ásamt því að sækja uppákomur, kynningar og sölusýningar fyrirtækja og einstaklinga tengdum þessum geira. Í ár verða dagarnir með stórkostlegasta móti, lengri en vanalega, nú frá fimmtudegi til sunnudags. Sá hluti sem snýr að sölubásum, kynningum og þrautabrautum fer nú fram í miðbæ Akureyrar í göngugötu og á Ráðhústorgi í samstarfi við Akureyrarstofu og Bílaklúbb Akureyrar en klúbburinn mun annast hjólaspyrnur þar sem keppt verður á nýju og glæsilegu aksturssvæði klúbbsins fyrir ofan Akureyri.

Tían, Bifhjólaklúbbur Norðuramts hefur nú dagana alfarið í sínum höndum, en segja má með sanni að Hjóladagar sé uppákoma sem sé komin til að vera.

Við viljum sjá sem flest mótorhjólafólk hér á Hjóladögum 2011, og því langar okkur að biðja þig að láta orðið út ganga, auk þess sem gaman væri að fá að vita af hópferðum klúbba til Akureyrar fyrir hátíðina, svo við getum tekið á móti ykkur, og jafnvel fylgt ykkur í bæinn og leitt hópinn að setningu dagana.

Ef þú eða klúbburinn þinn sjáið ykkur mögulegt að mæta, væri sannarlega gaman að fá ykkur, og ef þið hafið fyrirspurnir eða skemmtilegar hugmyndir varðandi dagana, er hægt að hafa samband við okkur með því að senda tölvupóst á tian@tian.is 

Þessa dagana stendur yfir skipulagsvinna, en þegar dagskrá daganna liggur endanlega fyrir munum við birta hana á www.tian.is

Með vinsemd frá AkureyriStjórn Tíunnar, Bifhjólaklúbbs Norðuramts

2.6.11

Skemmtilegt framtak hjá Drullusokkunum 2011

 Mótorhjólaklúbburinn Drullusokkar hélt mótorhjólasýningu í stóra sal íþróttamiðstöðvarinnar á laugardag. Þar voru sýnd mótorhjól af öllum stærðum og gerðum eins og sjá má á myndunum en gríðarlegur fjöldi mótorhjóla er til í Eyjum. Auk þess að geta barið dýrðina augum, var gestum boðið upp á pylsur og gos sem mæltist vel fyrir en fjölmargir sóttu sýninguna.Eyjafréttir 
2.6.2011

26.5.11

Kínversk mótorhjól:Asiawing LD 450 er álitlegur kostur


Undanfarin þrjú ár hef ég farið í landgræðsluferð með ferða- og útivistarfélaginu Slóðavinum á Vaðöldu upp undir Sultartangalóni. Í þessum landgræðsluferðum höfum við notast við fjórhjól, sexhjól og tvíhjól til að komast illfæra slóðana upp á Vaðöldu þar sem landgræðslan fer fram.


Í ár mætti formaður Slóðavina, Ásgeir Örn, sem vinnur sem þjónustustjóri hjá N1, en hann sýndi
þarna þjónustu sem þjónustustjóra sæmir og mætti með nýtt mótorhjól sem Nitro hefur nýlega hafið sölu á (Nitro er hluti af N1). Ásgeir sagði mér að spara mitt hjól, en í staðinn færði hann mér að ferðaþjónustunni Hólaskógi glænýtt hjólið til prufuaksturs með kveðju frá Ragnari Inga  verslunarstjóra Nitro.

Álitlegur kostur 

Asiawing LD 450 heitir hjólið og er álitlegur kostur fyrir þá sem vilja eiga kost á að keyra mótorhjól jafnt á malarvegum, vegslóðum eða á bundnu slitlagi. Hjólið er með 449 rúmsentimetra vél, er skráð 25kw við 7500 snúninga og er 120 kíló. Hjól sem byrjendur mega keyra sem fyrsta mótorhjól (17-19 ára). Í byrjun var ég hálf ragur að vera á svona glænýju hjóli sem ég átti ekki, en vitandi að malarvegurinn frá Hólaskógi er ekki sá besti á landinu var ég frekar kvíðinn, og eftir að hafa skoðað hjólið vel setti ég í gang og prófaði. Fyrstu metrarnir voru frekar óþægilegir og eftir um 300 metra akstur heyrði ég ljótt hljóð fyrir aftan hjólið, snarstoppaði og leit við. Þetta var bara skráningarnúmeraplatan sem var þarna skoppandi í grjótinu (einhver hefur gleymt að festa númerið tryggilega). Ég rölti til baka, tók númeraplötuna og setti í bakpokann. Næstu tveir kílómetrarnir voru frekar óþægilegir enda var vegurinn mjög grófur, en eftir um 10 km akstur fann ég hvernig hjólið var
að mýkjast smátt og smátt (ég var greinilega löngu búinn að gleyma hvernig nýju hjólin mín voru fyrstu 30-50 km, en síðast keyrði ég svona nýtt mótorhjól fyrir 15 árum). 

Bæði með sparkstart og rafstart 

Fínmunstruð dekkin gripu betur en ég hafði fyrirfram búist við, þrátt fyrir of mikinn loftþrýsting á grófu yfirborði vegarinns, en á malbikinu voru dekkin algjör draumur, enginn hristingur né titringur og loftmagnið rétt fyrir malbiksakstur. Asiawing er bæði með sparkstart og rafstart (fyrir hægri löpp og er mjög auðvelt að sparka hjólinu í gang verði rafgeymirinn eitthvað slappur). Start takkinn er á stýrinu fyrir hægri þumal. (Ég er vanur að þurfa að sparka torfæruhjólum í gang með startsveif utan á mótornum og oft þarf að sparka nokkrum sinnum. Startaratakkinn er oft nefndur hamingjutakki af þeim sem hafa lengi átt hjól sem þarf að sparka í gang.) Vinstra megin á stýrinu er svo innsogið. Sá ókostur er við innsogið að maður verður að halda því inni með vísifingri og sleppa ekki á meðan vélin er að volgna, en ef maður sleppir fer innsogið af. Þjöppuhlutfall vélarinnar er 11:1 og því nóg að nota 95 oktan bensín á hjólið, en persónulega mæli ég með því að ef þjöppuhlutfall vélar fer yfir 11,5 á móti 1 þá sé skynsamlegt að nota 98 oktan bensín.  Bensíntankurinn tekur ekki nema 8,5 lítra, sem ætti að skila manni á bilinu 100-140 km, en flest önnur hjól af svipaðri stærð eru með svona litla bensíntanka (ég vil að hjól séu með það stóra bensíntanka að maður komist á þeim a.m.k. 200 km).

Hentar best sem innanbæjar

„snatthjól“ Eftir rúmlega 100 km akstur var ég vel sáttur með hjólið sem ferðahjól á íslenskum malarvegum og á bundnu slitlagi er hjólið mjög gott. Hjólið tel ég að henti best sem innanbæjar
„snatthjól“ og í stuttar malarvegaferðir, en þetta er að mínu mati ekki keppnishjól nema með nokkrum
breytingum s.s. grófari dekkjum, snarpari blöndungi o.fl., en þeir hjá Nitro geta breytt hjólinu  (persónulega mundi ég ekki breyta neinu, því hjólið uppfyllir allar mínar þarfir eins og það er).
Asiawing kostar 799 þúsund, skráning innifalin og Nitro/N1 býður upp á ýmsa lánamöguleika,
t.d. bílalán, N1 hjólalán og kortalán vaxtalaus til 6 mánaða (nánar á www.nitro.is).
Bændablaðið  
26. maí 2011

Mótorhjólasafn Íslands á Akureyri var opnað fyrr í mánuðinum

Stefnan að safnið sé lifandi stofnun

Mótorhjólasafn Íslands á Akureyri var formlega opnað 15. maí sl. Safnið er til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson sem lést sumarið 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi í Öræfasveit, á leið heim af landsmóti Sniglanna.

Mótorhjólasafn Íslands á Akureyri var formlega opnað 15. maí sl. Safnið er til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson sem lést sumarið 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi í Öræfasveit, á leið heim af landsmóti Sniglanna. Safnið var opnað á afmælisdegi Heiðars, sem hefði orðið 57 ára ef hann hefði lifað. Húsið var sérstaklega byggt undir safnið og stendur við Krókeyri inn undir flugvelli.
Jóhann Freyr Jónsson safnstjóri segir að kostnaðurinn við uppbyggingu safnsins nálgist nú 80 milljónir króna. „Húsið er um 800 fermetrar að stærð og við höfum tekið í notkun helminginn, neðri hæðina. Á efri hæðinni verður kaffistofa, sýningarsalur og ráðstefnusalur og við stefnum að því að húsið verði að fullu komið í notkun á næsta ári. Safnið er gjöf til íslensku þjóðarinnar og gaman er að segja frá því að það er skuldlaust í dag. Margir hafa lagt hönd á plóginn, fyrirtæki, einstaklingar, stofnanir og síðast en ekki síst fjölskylda Heiðars Þ. Jóhannssonar.“

Vantaði slíkt safn á Íslandi

Ísland og Grænland hafa verið einu löndin í Evrópu þar sem ekki hefur verið sérstakt mótorhjólasafni. Þörfin hefur því verið sannarlega brýn, enda er saga mótorhjólsins hér á landi um margt merkileg og spannar eina öld. Safninu er ætlað það hlutverk að sýna og varðveita söguna, auk þess að varðveita minningu Heiðars og þau spor sem hann skildi eftir sig í hjólamenningu landsins. Hann hafði um margra ára skeið safnað mótorhjólum og munum tengdum þeim. Heiðar átti sér þann draum að opna sérstakt mótorhjólasafn og því segja aðstandendur safnsins ánægjulegt að opna hafi mátt safnið á afmælisdegi hans.
„Hér er sérstakur salur sem er tileinkaður Heiðari,“ segir Jóhann safnstjóri og bætir við fjölmargir hafi skoðað safnið frá því það var opnað, fyrstu helgina hafi gestir verið á bilinu 500 til 600.

„Við erum með til sýnis nærri fimmtíu hjól en safnið á hátt í eitt hundrað hjól. Ýmsir munir bætast við nánast daglega, þannig að það verður hægt að skipta út munum reglulega. Sjálf mótorhjólin eru af öllum stærðum og gerðum. Við erum til dæmis nokkur bresk hjól sem eru mjög sjaldgæf og koma án efa til með að vekja verðskuldaða athygli. Við erum rétt að klára að setja saman fyrsta stóra lögregluhjólið sem notað var á Akureyri. Þetta er Motoguzzi, ítalskur gæðagripur og við erum óskaplega stoltir yfir því að geta sýnt þetta fræga hjól.“

Mikill áhugi


Meðalaldur hjólafólks hefur hækkað verulega á undanförnum árum og hjólum hefur fjölgað gríðarlega. Áhuginn hefur klárlega aukist. Ég hlýt því að vera þokkalega bjartsýnn á framtíð safnsins. Hér verður athvarf fyrir hjólafólk, heimamenn og aðra þá sem eru á ferð um landið. Hér verður væntanlega umferðarfræðsla í boði í framtíðinni og ýmis námskeið. Okkar stefna er að safnið verði lifandi stofnun og mér sýnist sú verði raunin, enda margir tilbúnir til að leggja safninu lið,“ segir Jóhann Freyr Jónsson safnstjóri Mótorhjólasafnsins á Akureyri.
karlesp@simnet.is
26.5.2011

15.5.11

Lög Tíunar eldri

Lög Bifhjólasamtök Norðuramts Tían.  2011 (úrelt)

1. Nafn og heimili

Nafn klúbbsins er Tían, Bifhjólaklúbbur Norðuramts. Heimili og varnarþing klúbbsins er á Akureyri.
Tían er klúbbur áhugafólks um bifhjól af öllum gerðum.

2. Markmið félagsins.
*       Efla samstarf bifhjólaáhugafólks á Norðurlandi.
*       Vera öðrum bifhjólaökumönnum fyrirmynd.
*       Vera í forsvari fyrir bifhjólafólk á Norðurlandi.
*       Að stuðla að tilurð og framgangi bifhjólasafns í minningu Heiðars nr #10
*       Sjá til þess að bifhjólafólk skemmti sér annað slagið ("getum við ekki látið eins og hálfvitar")

3. Merki
Merki félagsins er mynd af Fallinu, listaverki eftir Heidda #10. Myndin er hvít á svörtum bakgrunni, og er nafn félagsins skrifað með gylltum stöfum. Taumerki skal borið ofan mittis.

4. Inntökuskilyrði.

Að umsækjandi sé orðinn fullra 18 ára og teljist þess verður að bera merki félagsins að mati stjórnar. Hafi umsækjandi ekki náð 18 ára aldri getur hann skráð sig í klúbbinn með skriflegu samþykki forráðamanns og telst hann ungliði. Ungliðar eru ekki rukkaðir um félagsgjöld og eru ekki atkvæðisbærir á aðalfundi, en færast sjálfkrafa upp þegar þeir hafa náð 18 ára aldri. Við inngöngu fær viðkomandi úthlutað félagsnúmeri.
Félagsnúmerum er ekki endurúthlutað.

5. Refsingar og brottrekstur.

Refsing við brotum á lögum klúbbsins er Voff. Hafi félagi fengið þrjú voff skal hann gerður brottrækur.
Hægt er að vísa félaga úr klúbbnum hafi hann sannanlega sýnt að hann sé ekki þess verður að bera merki klúbbsins. Til að gera félaga brottrækann þarf skrifleg rök frá 20 fullgildum félögum.

5.1. Um Voff

Prófmissir vegna ofsaaksturs 1 Voff
Prófmissir vegna ölvunnaraksturs 2 Voff
Slæm hegðun á viðburðum í nafni klúbbsins (Að mati 5 félaga) 1 Voff
Drykkjulæti á Aðalfundi 1 Voff
Opinbert nýð um klúbbinn eða einstaka félaga 1 Voff
Stjórn getur ákveðið að Voffa á félaga ef meirihluti stjórnar er samþykkur.
Voff skulu fyrnast á einu ári.

6. Tekjur
Tekjur klúbbsins byggjast að mestu á félagsgjöldum. Félagsgjöld hvers árs skulu ákveðin af stjórn fyrir 15. febrúar.
Félagsgjöld notast í framleiðslu á merkjum og leigu á húsnæði og annan kostnað í þágu allra félaga. Félagsgjöld skulu að öllu jöfnu notuð í skemmtanir og er klúbbnum frjálst að taka hóflegt gjald fyrir einstaka viðburði á vegum hans.

Félagi telst fullgildur og atkvæðisbær, greiði hann félagsgjald ár hvert.


7. Aðalfundur
Haldinn skal aðalfundur sem næst 15. Maí ár hvert. Þar skulu fara fram venjuleg aðalfundarstörf og reikningar síðasta árs lagðir fram.
Dagskrá fundar skal vera nokkurn vegin eftirfarandi.

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Stjórn og nefndir gefa skýrslu um starfsemi liðins árs.
3. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga liðins árs.
4. Lagabreytingar.
5. Kosning stjórnar.
6. Kosning nefnda.
7. Skipun skoðunarmanna reikninga.
8. Önnur mál.8. Stjórn

Stjórn klúbbsins skipa sjö menn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, fjölmiðlafulltrúi auk tveggja meðstjórnenda.
Stjórnin skal kosin skriflega á aðalfundi, til tveggja ára í senn sem hér segir:  Annað árið skulu fjórir stjórnarmenn kosnir, en þrír hitt árið.
Stjórnin skiptir með sér verkum og skal því lokið eigi síðar en tveimur vikum eftir aðalfund.
Í allar fastar nefndir skal kjósa á aðalfundi. Ennfremur skal skipa tvo skoðunarmenn reikninga.
Öllum Löggildum meðlimum klúbbsins, er heimilt að bjóða sig fram til stjórnarsetu.
Framboðum til stjórnarsetu skal skilað inn til stjórnar eigi síðar en tveimur vikum fyrir boðaðann aðalfund.

Ef ekkert mótframboð kemur við sitjandi stjórn, telst hún sjálfkjörin.


9. Slit.

Klúbburinn verður aðeins leystur upp á aðalfundi og til þess þarf samþykki 3/4 hluta fullgildra félaga.
Leysist klúbburinn upp, ganga allar eignir klúbbsins til Mótorhjólasafns Íslands.

Samþykkt 9. okt 2006.

Undirritað:
Jóhann Freyr Jónsson
Valgeir Sverrisson
Baldvin Ringsted
Helga Sigríður Helgadóttir
Gunnar MöllerBreytingar samþykktar á aðalfundi Tíunnar 14. maí 2011

MÓTORHJÓLASAFN ÍSLANDS VAR FORMLEGA OPNAÐ Í DAG


Mótorhjólasafn Íslands var formlega opnað í dag sunnudaginn 15. maí, á afmælisdegi Heiðars Þ. Jóhannssonar, en Heiddi hefði orðið 57 ára í dag. Mótorhjólasafnið var stofnað í lok árs 2007 til minningar um Heidda sem lést sumarið 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi í Öræfasveit á leið heim af landsmóti Snigla. Heiddi var af flestum bifhjólamönnum talinn mesti hjólamaður á landinu, jafnvígur á hvaða hjól sem er. 


Að undanförnu hefur verið unnið hörðum höndum við undirbúining fyrir opnunina í dag og uppstillingu safnsins. Jóhann Freyr Jónsson safnstjóri segir að safnið eigi hátt í 100 hjól en ekki eru þau öll komin á safnið og mörg þeirra á eftir að gera upp og lagfæra. Jóhann hafði ekki tölu yfir fjölda hjóla á safninu en lang flest þeirra hjóla sem eru til sýnis eru í eigu safnsins. Safnið hefur verið  um tvö ár í byggingu en fyrstu skóflustungurnar voru teknar á Hjóladögum 2008. Heiddi hafði safnað mótorhjólum og hjólatengdum munum í mörg ár og hafði lengi átt sér þann draum að opna mótorhjólasafn. Hann lét eftir sig vel á þriðja tug hjóla og mikið magn bifhjólatengdra hluta. Á safninu er sérstök deild tengd Heidda, þar sem er að finna hjól og muni sem voru í hans eigu. Mótorhjólasafni Íslands er ætlað að sýna og varðveita sögu mótorhjóla á Íslandi í máli, munum og myndum ásamt því að varðveita minningu Heidda og það spor sem hann skyldi eftir sig á hjólamenningu landsmanna.
15. maí, 2011 - 14:54 Þröstur Ernir Viðarsson

13.5.11

Fjölmargir mættu á opnun Mótorhjólasafn Íslands


Sunnudaginn 15. maí var nýbygging Mótorhjólasafns Íslands opnað formlega en safnið var stofnað í árlok 2007 til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson sem lést í bifhjólaslysi í Öræfasveit. Heiðar hafði til margra ára safnað mótorhjólum og munum tengdum þeir og átti sér þann draum að opna mótorhjólasafn. Að sögn Jóhanns Frey Jónssonar safnstjóra komu á milli 500-600 manns á safnið opnunardaginn og var það mun meira en menn bjuggust við og viðtökurnar verið framar vonum. Jóhann sagði að almennt hafi fólk verið mjög hissa á stærð hússins og hrifist mjög að safnmunum.

Auglýsing frá 2011
Í dag á safnið um 100 mótorhjól, mikið magn ýmissa muna þeim tengdum sem og yfir 1000 ljósmyndir sem spanna sögu mótorhjólsins. Safninu er ætlað það hlutverk að sýna og varðveita sögu mótorhjóla hér á landi auk þess að varðveita minningu Heiðars og það spor sem hann skyldi eftir sig í hjólamenningu landsins.  Í safninu verður minjagripasala, veislusalur og ráðstefnusalur, en meining er m.a. að bjóða þar upp á umferðarfræðslu, námskeið og fundi, í húsinu verður vetrargeymsla fyrir hjól og þar verður einnig kaffihús. Húsið er 800 fermetrar að stærð, á tveimur hæðum. Margir hafa komið að þessu verkefni og væri þetta ógerlegt án þeirrar samstöðu og velvilja allra sem hjálpað hafa. Fyrirtæki, klúbbar og einstaklingar hafa lagt þessu lið með sjálfboðavinnu, efnisgjöfum og fjárframlögum. Hollvinafélag safnsins Tían telur í dag 365 félaga og sjálfboðavinna í húsinu er að nálgast 3000 tíma. Safnið (húsið og allir safnmunir) er gjöf til Íslensku þjóðarinnar og er sjálfseignastofnun. Í bygginguna eru komnar hátt í 80 milljónir og stendur hún skuldlaus. Fyrsta skóflustungan var tekin 19. Júlí 2008 og framkvæmdir byrjuðu 20. janúar 2009

Safnið verður opið alla daga í sumar frá 12.00 til 18.00. Hópar eru velkomnir allt árið. Áætlað er að opna efri hæð vorið 2012.
Skrifað 17. maí 2011 af Páll Jóhannesson

17.4.11

Aðalfundur Tíunnar 2011

Ágætu félagar

Þann 14.maí kl 13:00 höldum við lögboðinn aðalfund okkar í Sjallanum.
Efni fundarins er:
  • 1. Kosning fundarstjóra og ritara.
  • 2. Stjórn og nefndir gefa skýrslu liðins árs.
  • 3. Reikningar liðins árs lesnir og lagðir fram.
  • 4. Lagabreytingar lagðar fram til samþykktar. Lagabreytingarnar er hægt að sjá í meðfylgjandi viðhengi.
  • 5. Kosning stjórnar.
  • 6. Kosning nefnda.
  • 7. Önnur mál.


Kaffi og meðlæti á fundinum.


Hópakstur verður að loknum fundi þar sem við endum á nýopnuðu Mótorhjólasafni Íslands.


En deginum er ekki lokið því um kvöldið blásum við til sumarfagnaðar í boði Tíunnar í húsnæði MC.SKÁL. Húsið verður opið frá kl 21 og frameftir. Félagar mega sjálfir koma með drykkjarföng kjósi þeir svo.


Stjórn Tíunnar minnir á að framboðsfrestur til stjórnarsetu rennur út 30. apríl.
Áhugasamir sendi póst á irisb69@gmail.com.
Einungis greiddir félagar eru gjaldgengir og verður hægt að greiða á staðnum.


Fh. stjórnar Íris Björk #93 formaður Tíunnar.

2.2.11

Markaðurinn er hruninn


Innflutningur á nýskráðum mótorhjólum hefur hrapað á síðustu mánuðum sökum verðhækkunar og ofmettunar á markaði. Talið er að breytingar á tollalögum gætu hleypt nýju blóði í innflutninginn.


„Þetta eru alveg ótrúlegar tölur, niðursveiflan hefur ekki verið svona mikil í mörg ár,“ segir Einar Magnússon hjá Umferðarstofu, um innflutning á götuskráðum mótorhjólum sem hefur dregist verulega saman undanfarna mánuði og hefur ekki verið minni síðan 2002.
    Fjöldi innfluttra, götuskráðra mótorhjóla var 150 á síðasta ári, en kringum 100 talsins árið 2002. Mesta uppsveiflan í innflutningi mótorhjóla á þessu tímabili var hins vegar árið 2007 eða samtals 1.532 hjól, og er það margföld aukning miðað við 2002. Nú er innflutningurinn hins vegar innan við tíu prósent af því sem hann var 2007. Einar segir þó ósanngjarnt að bera þetta tvennt saman þar sem ástandið í þjóðfélaginu hafi ekki verið beinlínis eðlilegt í góðærinu svokallaða.
    Hann segir það ekki breyta þeirri staðreynd að munurinn sé mikill ef horft er til áranna 2003 og 2004, þegar meira jafnvægi ríkti ef svo má segja, en þá voru að meðaltali 258 mótorhjól flutt til landsins. Full ástæða sé líka til að hafa áhyggjur af snarminnkandi innflutningi á nýjum mótorhjólum út frá öryggissjónarmiðum.
    „Umferðarstofa hefur áhyggjur af því að ekki sé nægileg endurnýjun á mótorhjólum sem og öðrum ökutækjum og því sé öryggi ökumanna ekki tryggt sem skyldi. Úti er ör þróun í öryggisbúnaði ökutækja og minni innflutningur á þeim þýðir að við erum að verða eftirbátar annarra í þeim efnum og hætta á slysum eykst.“
    Í því samhengi vísar Einar í tölur frá Frumherja sem sýna að útgáfu nýrra bifhjólaréttinda, sem endurspeglar fjölda nýliða á bifhjólum, hefur ekki fækkað að sama marki og innflutt mótorhjól. Þar kemur fram að tæplega helmingi færri mótorhjólaréttindi voru gefin út árið 2010 miðað við þegar mest lét árið 2007, eða úr 1.274 í 652 réttindi. Það eru 652 ný réttindi á móti 150 innfluttum mótorhjólum árið 2010. „Af því má draga þá ályktun að nýgræðingar kaupi frekar eldri hjól. Einnig skal haft í huga að sum af þeim hjólum sem hafa verið flutt inn af einstaklingum og verið nýskráð hér á landi eru í einhverjum tilfellum ekki nýjasta árgerð.“


    Ástæðurnar fyrir minnkandi innflutningi á mótorhjólum má helst rekja til hækkandi verðlags, auk þess sem ofmettun á markaði spilar inn í, að sögn Njáls Gunnlaugssonar, sem situr í umferðarnefnd Sniglanna. Hann telur að hæglega mætti liðka til fyrir sölu á nýjum hjólum með breytingu á tollalögum.
    „Eins og staðan er núna eru há vörugjöld á mótorhjólum eða allt að þrjátíu prósent, nema reyndar á keppnishjólum en vörugjöld á þeim voru felld niður. Sniglarnir lögðu hins vegar til að þau yrðu lækkuð út frá vistvænum sjónarmiðum líkt og gert var við sparneytna bíla. Á þá er lagt allt frá engu og upp í tíu prósenta vörugjöld þar sem þeir losa lítið af kolefnum. Með sömu rökum mætti lækka vörugjöld á mótorhjólum sem losa minni koltvísýring en smábílar og valda minna svifryki en bifreiðar almennt. Við stungum upp á fimmtán prósenta vörugjaldi á línuna en fengum engin viðbrögð.“
roald@frettabladid.is


https://timarit.is/files/40754714#search=%22%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%20m%C3%B3torhj%C3%B3lum%20%C3%A1%20%C3%A1%20%C3%A1%20m%C3%B3torhj%C3%B3lum%20%C3%A1%22