26.5.11

Mótorhjólasafn Íslands á Akureyri var opnað fyrr í mánuðinum

Stefnan að safnið sé lifandi stofnun

Mótorhjólasafn Íslands á Akureyri var formlega opnað 15. maí sl. Safnið er til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson sem lést sumarið 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi í Öræfasveit, á leið heim af landsmóti Sniglanna.

Mótorhjólasafn Íslands á Akureyri var formlega opnað 15. maí sl. Safnið er til minningar um Heiðar Þ. Jóhannsson sem lést sumarið 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi í Öræfasveit, á leið heim af landsmóti Sniglanna. Safnið var opnað á afmælisdegi Heiðars, sem hefði orðið 57 ára ef hann hefði lifað. Húsið var sérstaklega byggt undir safnið og stendur við Krókeyri inn undir flugvelli.
Jóhann Freyr Jónsson safnstjóri segir að kostnaðurinn við uppbyggingu safnsins nálgist nú 80 milljónir króna. „Húsið er um 800 fermetrar að stærð og við höfum tekið í notkun helminginn, neðri hæðina. Á efri hæðinni verður kaffistofa, sýningarsalur og ráðstefnusalur og við stefnum að því að húsið verði að fullu komið í notkun á næsta ári. Safnið er gjöf til íslensku þjóðarinnar og gaman er að segja frá því að það er skuldlaust í dag. Margir hafa lagt hönd á plóginn, fyrirtæki, einstaklingar, stofnanir og síðast en ekki síst fjölskylda Heiðars Þ. Jóhannssonar.“

Vantaði slíkt safn á Íslandi

Ísland og Grænland hafa verið einu löndin í Evrópu þar sem ekki hefur verið sérstakt mótorhjólasafni. Þörfin hefur því verið sannarlega brýn, enda er saga mótorhjólsins hér á landi um margt merkileg og spannar eina öld. Safninu er ætlað það hlutverk að sýna og varðveita söguna, auk þess að varðveita minningu Heiðars og þau spor sem hann skildi eftir sig í hjólamenningu landsins. Hann hafði um margra ára skeið safnað mótorhjólum og munum tengdum þeim. Heiðar átti sér þann draum að opna sérstakt mótorhjólasafn og því segja aðstandendur safnsins ánægjulegt að opna hafi mátt safnið á afmælisdegi hans.
„Hér er sérstakur salur sem er tileinkaður Heiðari,“ segir Jóhann safnstjóri og bætir við fjölmargir hafi skoðað safnið frá því það var opnað, fyrstu helgina hafi gestir verið á bilinu 500 til 600.

„Við erum með til sýnis nærri fimmtíu hjól en safnið á hátt í eitt hundrað hjól. Ýmsir munir bætast við nánast daglega, þannig að það verður hægt að skipta út munum reglulega. Sjálf mótorhjólin eru af öllum stærðum og gerðum. Við erum til dæmis nokkur bresk hjól sem eru mjög sjaldgæf og koma án efa til með að vekja verðskuldaða athygli. Við erum rétt að klára að setja saman fyrsta stóra lögregluhjólið sem notað var á Akureyri. Þetta er Motoguzzi, ítalskur gæðagripur og við erum óskaplega stoltir yfir því að geta sýnt þetta fræga hjól.“

Mikill áhugi


Meðalaldur hjólafólks hefur hækkað verulega á undanförnum árum og hjólum hefur fjölgað gríðarlega. Áhuginn hefur klárlega aukist. Ég hlýt því að vera þokkalega bjartsýnn á framtíð safnsins. Hér verður athvarf fyrir hjólafólk, heimamenn og aðra þá sem eru á ferð um landið. Hér verður væntanlega umferðarfræðsla í boði í framtíðinni og ýmis námskeið. Okkar stefna er að safnið verði lifandi stofnun og mér sýnist sú verði raunin, enda margir tilbúnir til að leggja safninu lið,“ segir Jóhann Freyr Jónsson safnstjóri Mótorhjólasafnsins á Akureyri.
karlesp@simnet.is
26.5.2011