26.5.11

Kínversk mótorhjól:



Asiawing LD 450 er álitlegur kostur


Undanfarin þrjú ár hef ég farið í landgræðsluferð með ferða- og útivistarfélaginu Slóðavinum á Vaðöldu upp undir Sultartangalóni. Í þessum landgræðsluferðum höfum við notast við fjórhjól, sexhjól og tvíhjól til að komast illfæra slóðana upp á Vaðöldu þar sem landgræðslan fer fram.


Í ár mætti formaður Slóðavina, Ásgeir Örn, sem vinnur sem þjónustustjóri hjá N1, en hann sýndi
þarna þjónustu sem þjónustustjóra sæmir og mætti með nýtt mótorhjól sem Nitro hefur nýlega hafið sölu á (Nitro er hluti af N1). Ásgeir sagði mér að spara mitt hjól, en í staðinn færði hann mér að ferðaþjónustunni Hólaskógi glænýtt hjólið til prufuaksturs með kveðju frá Ragnari Inga  verslunarstjóra Nitro.

Álitlegur kostur 

Asiawing LD 450 heitir hjólið og er álitlegur kostur fyrir þá sem vilja eiga kost á að keyra mótorhjól jafnt á malarvegum, vegslóðum eða á bundnu slitlagi. Hjólið er með 449 rúmsentimetra vél, er skráð 25kw við 7500 snúninga og er 120 kíló. Hjól sem byrjendur mega keyra sem fyrsta mótorhjól (17-19 ára). Í byrjun var ég hálf ragur að vera á svona glænýju hjóli sem ég átti ekki, en vitandi að malarvegurinn frá Hólaskógi er ekki sá besti á landinu var ég frekar kvíðinn, og eftir að hafa skoðað hjólið vel setti ég í gang og prófaði. Fyrstu metrarnir voru frekar óþægilegir og eftir um 300 metra akstur heyrði ég ljótt hljóð fyrir aftan hjólið, snarstoppaði og leit við. Þetta var bara skráningarnúmeraplatan sem var þarna skoppandi í grjótinu (einhver hefur gleymt að festa númerið tryggilega). Ég rölti til baka, tók númeraplötuna og setti í bakpokann. Næstu tveir kílómetrarnir voru frekar óþægilegir enda var vegurinn mjög grófur, en eftir um 10 km akstur fann ég hvernig hjólið var
að mýkjast smátt og smátt (ég var greinilega löngu búinn að gleyma hvernig nýju hjólin mín voru fyrstu 30-50 km, en síðast keyrði ég svona nýtt mótorhjól fyrir 15 árum). 

Bæði með sparkstart og rafstart 

Fínmunstruð dekkin gripu betur en ég hafði fyrirfram búist við, þrátt fyrir of mikinn loftþrýsting á grófu yfirborði vegarinns, en á malbikinu voru dekkin algjör draumur, enginn hristingur né titringur og loftmagnið rétt fyrir malbiksakstur. Asiawing er bæði með sparkstart og rafstart (fyrir hægri löpp og er mjög auðvelt að sparka hjólinu í gang verði rafgeymirinn eitthvað slappur). Start takkinn er á stýrinu fyrir hægri þumal. (Ég er vanur að þurfa að sparka torfæruhjólum í gang með startsveif utan á mótornum og oft þarf að sparka nokkrum sinnum. Startaratakkinn er oft nefndur hamingjutakki af þeim sem hafa lengi átt hjól sem þarf að sparka í gang.) Vinstra megin á stýrinu er svo innsogið. Sá ókostur er við innsogið að maður verður að halda því inni með vísifingri og sleppa ekki á meðan vélin er að volgna, en ef maður sleppir fer innsogið af. Þjöppuhlutfall vélarinnar er 11:1 og því nóg að nota 95 oktan bensín á hjólið, en persónulega mæli ég með því að ef þjöppuhlutfall vélar fer yfir 11,5 á móti 1 þá sé skynsamlegt að nota 98 oktan bensín.  Bensíntankurinn tekur ekki nema 8,5 lítra, sem ætti að skila manni á bilinu 100-140 km, en flest önnur hjól af svipaðri stærð eru með svona litla bensíntanka (ég vil að hjól séu með það stóra bensíntanka að maður komist á þeim a.m.k. 200 km).

Hentar best sem innanbæjar

„snatthjól“ Eftir rúmlega 100 km akstur var ég vel sáttur með hjólið sem ferðahjól á íslenskum malarvegum og á bundnu slitlagi er hjólið mjög gott. Hjólið tel ég að henti best sem innanbæjar
„snatthjól“ og í stuttar malarvegaferðir, en þetta er að mínu mati ekki keppnishjól nema með nokkrum
breytingum s.s. grófari dekkjum, snarpari blöndungi o.fl., en þeir hjá Nitro geta breytt hjólinu  (persónulega mundi ég ekki breyta neinu, því hjólið uppfyllir allar mínar þarfir eins og það er).
Asiawing kostar 799 þúsund, skráning innifalin og Nitro/N1 býður upp á ýmsa lánamöguleika,
t.d. bílalán, N1 hjólalán og kortalán vaxtalaus til 6 mánaða (nánar á www.nitro.is).




Bændablaðið  
26. maí 2011