Margir glæstir mótorfákar eru á götum Akureyrar um þessa helgi því þar standa yfir Hjóladagar 2011.
Jóhann Freyr Jónsson tekur þátt í þeim, bæði sem einstaklingur og safnstjóri Mótorhjólasafns Íslands.
Spyrnt verður á sporthjólum, hippum, fornhjólum, krossurum og vespum á Akureyri síðdegis í dag að afloknum hópakstri í Samgönguminjasafnið að Ystafelli. Hvort tveggja er á dagskrá Hjóladaga 2011 sem lýkur með veislu og dansleik í Sjallanum á morgun með Sniglabandinu og Myrká.
Mótorhjólaklúbburinn Tían heldur utan um Hjóladagana. Tían er líka hollvinafélag Mótorhjólasafns Íslands sem var opnað á Akureyri í byrjun sumars og á mörg fágæt hjól og fjölda mynda. „Hér eru hjól sem erfitt er að finna í dag og eru í raun einstök,“ segir safnvörðurinn Jóhann Freyr og bendir á eitt sem innan við tíu eintök eru til af í heiminum og annað með framleiðslunúmerið 9 af þeim 60 sem framleidd voru í sérútgáfu árið 1975.
Mótorhjólasafnið var byggt í minningu Akureyringsins Heiðars Þ. Jóhannssonar sem lést sumarið 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi. Hann hafði dreymt um að opna safn enda átti hann mörg merkileg hjól og hluti tengda þeim og sérstök deild er helguð gripum hans.
„Bræður Heiðars hafa líka verið rausnarlegir við okkur og flutt inn mörg sjaldgæf hjól til að gefa safninu. Hér er allt gert af ástríðu,“ tekur Jóhann Freyr fram og segir sýningargripina til dæmis handpússaða með Mjallarbóni.
Sjá www. motorhjolasafn.is
gun@frettabladid.is
Fréttablaðið 15.07.2011
Fréttablaðið 15.07.2011