4.11.11

Á 215 km hraða á hádegi í BolungarvíkurgöngumÍbúum Ísafjarðar og Bolungarvíkur stendur ógn af hópi ungra ökumanna sem ekur á yfir 200
kílómetra hraða í gegnum Bolungarvíkurgöng. Vegagerðin hefur mælt 24 farartæki á yfir 170 frá
því göngin voru opnuð og trúa starfsmenn vart eigin augum. Það gerir löggan, þekkir hópinn en
nær ekki því hópurinn vaktar ferðir löggunnar fyrir ógnarhraðaksturinn.

Ungir ökumenn stunda að aka um Bolungarvíkurgöng á ofsahraða. Þeir fylgjast með ferðum
lögreglunnar og tilkynna félögum sínum hvenær óhætt sé að fara í gegn, segir Önundur Jónsson, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum. Mælingar vegagerðarinnar í göngunum mældu vélhjól á 215 kílómetra hraða á klukkustund í göngunum í mars. Hjólið fór um göngin 24 mínútur í tólf á hádegi á þriðjudegi. Vegagerðin mældi níu ferðir á yfir 170 kílómetra hraða á klukkustund á tæpum tuttugu
mínútum. Ekið var fram og til baka, á öfugum vegarhelmingi og réttum, þennan dag. Hjólin gætu því hafa verið fleiri en eitt.

Trúa vart eigin gögnum 

Vegagerðin tók tölurnar saman eftir fyrirspurn Fréttatímans. Friðleifur Ingi Brynjarsson, verkefnastjóri umferðardeildar Vegagerðarinnar, rengdi  þær. „Þetta getur ekki verið.“ Margar mælinganna sýni að ógnarakstur sé stundaður um miðjan dag, þegar nokkur umferð ætti að vera í göngunum og lítið rými til frjáls hraða. „Því verðum við að draga þá ályktun, að svo komnu, að um ótrúverðug gögn sé að ræða,“ segir hann.   Önundur Jónsson, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, finnst gögnin hins vegar trúverðug. Hann viti ekki nákvæmlega hver ók í gegnum göngin á þessum hraða en hafi ákveðinn hóp drengja í huga. „Það skiptir þá engu máli þótt það sé bullandi umferð, bara ef þeir komast í gegnum göngin. Við þekkjum þennan hraðakstur og verðum varir við þetta á einkabílum okkar,“ segir hann og að lögreglan eigi við hópinn dags daglega.

Allt í botn milli hraðamyndavéla 

Önundur segir að vegna þess hve sönnunarbirgðin sé þung þegar umferðarlagabrot eru annars vegar sé lítið hægt að eiga við strákana. „Og það þótt þeir séu vel yfir flugtakshraða Fokker-véla, sem er um 150 km á klukkustund.“ Bolungarvíkurgöngin eru 5,4 kílómetrar á lengd. Um mitt sumar voru settar upp tvær hraðamyndavélar og hefur Vegagerðin ekki mælt hraðakstur yfir 170 frá því á síðasta degi júlímánaðar. „Nú er botngefið og stoppað á milli
myndavélanna,“ segir Önundur. Hraðaksturinn sé því enn til staðar.
Gunnhildur Arna Gunnardóttir
gag@frettatiminn.is