ÍTALSKI mótorhjólaframleiðandinn Aprilia hefur nú lært ýmislegt af framleiðslu skellinaðra og ákveðið að bjóða mótorhjól sem gæti heldur betur hleypt lífi í mótorhjólamarkaðinn. Um er að ræða sjálfskipt mótorhjól sem ætti að hafa drjúgt notagildi þar sem það er líka með „skotti“.
Aflið gert aðgengilegt
Það er Aprilia Mana sem mun fást með þessum sjaldgæfa búnaði – í mótorhjólum í það minnsta. Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem mótorhjól fæst sjálfskipt því bæði Honda og Moto Guzzi hafa smíðað mótorhjól með sjálfskiptum gírkassa – árin 1979 og 1975. (Þá má geta þess að nýverið kynnti Honda nýja gerð sjálfskiptingar sem lesa má nánar um á bls. 2 í blaðaukanum.)
Sjáfskipting verður stillanleg á þrjá vegu; með sport, touring og regnstillingu en einnig er handskiptimöguleiki fyrir hendi, líkt og á fínustu lúxusbílum.
Góðir dómar
Mörgum kann að lítast illa á þá hugmynd að hafa mótorhjól sjálfskipt og hafa þannig t.d. ekki stjórn á skiptingum í beygjum en mótorhjólið hefur nú þegar verið tekið til prófunar hjá breska veftímaritinu Telegraph.co.uk og fékk þar mjög góða dóma og var sjálfskiptingin með öllu hrekklaus.
Hjólið er útbúið 75 hestafla vél, 840 cc, tveggja strokka V-vél með 8 ventlum og er aflið yfirdrifið fyrir sjálfskiptinguna og í raun hentar sjálfskiptingin vel þar sem hröðun úr beygjum og úr lítilli ferð verður snurðulaus.
Helstu mínusarnir þóttu vera mikill titringur og sú staðreynd að með sjálfskiptingu er vélarhemlun nánast úr sögunni.