11.8.07

Komnir heim

Mótorhjólaferðalagi bræðranna Einars og Sverris Þorsteinssona umhverfis jörðina lauk með móttökuathöfn í gær




MÓTORHJÓLABRÆÐURNIR

Einar og Sverrir Þorsteinssynir eru komnir heim eftir að hafa hjólað á mótorhjólum sínum í kringum hnöttinn. Óku þeir síðasta legginn, frá Keflavík til Reykjavíkur, í gærmorgun og var að því loknu sérstök móttaka þeim til heiðurs hjá MotorMax, umboðsaðila Yamaha-mótorhjóla sem framleiddi farartækin.
Einar og Sverrir sögðu í samtali við fréttavef Morgunblaðsins í gær að ólýsanleg tilfinning fylgdi því að koma aftur heim til Íslands. Þá voru þeir hálforðlausir yfir þeim móttökum sem þeir fengu við heimkomuna. Þegar þeir voru spurðir út í það hvað stæði upp úr eftir langferðina
sagði Sverrir það vera Mongólíu. Hún hefði reynst virkilegt ævintýri. Hvað varðar sambúðina allan þennan tíma segja þeir hana hafa verið góða. Þegar á hafi reynt hafi þeir staðið saman sem einn maður. „
Við töluðum bara íslensku, ensku, innlensku eða útlensku. Tungumálin voru ekki vandamál. Auðvitað var erfitt á köflum að geta ekki spjallað við fólk, okkur langaði mikið til að spjalla. En við lentum hvergi í þeirri stöðu að tungumálið skapaði mikil vandamál,“ sagði Einar spurður út í það hvort ólík tungumál í löndunum þrettán sem þeir heimsóttu hafi verið nokkur hindrun.
Ferðalagið hófst 8. maí síðastliðinn á sama stað og því lauk í gær. Eru þeir Einar og Sverrir fyrstir Íslendinga til að ljúka slíkri langferð. Þeir lögðu að baki ríflega 32.000 kílómetra og völdu ekki auðförnustu leiðina. Hún lá að stórum hluta utan alfaraleiða um torfærar slóðir og fjarri byggð, að því er fram kemur á heimasíðu MotorMax. Óku þeir m.a. um Norðurlöndin, Eystrasaltslöndin, Rússland, Síberíu, fáfarna slóða Mongólíu, Japan og N-Ameríku.

11.8.2007
Morgunblaðið