29.9.07

Þetta er toppurinn

Fjórtán ára gamall eignaðist Halldór Rúnar Magnússon sitt fyrsta mótorhjól, Hondu SS50. Á henni brunaði hann um Laugarneshverfið þar til næsta hjól tók við og síðan hafa fleiri bæst við.

 Í dag rekur Halldór, betur þekktur sem Dóri, verslunina Motors ásamt félaga sínum Merði Ingólfssyni, en hún stendur á horni Nóatúns og Laugavegs 168. 

Í Motors eru fyrst og fremst stór og kraftmikil mótorhjól frá Bandaríkjunum, flest af Harley Davidson-gerð, en þeir félagar stefna að innflutningi á fleiri tegundum.
     „Við eigum til dæmis mjög glæsilegan Triumph, eitt Ducati og svo sérsmíðuð hjól eins og Big Dog Mastiff. Þá eigum við eitt stykki Ultra Cycle Groundpounder sem er líka „chopper“ eins og Big Dog Mastiff,“ segir Dóri og bætir því við að sjálfur myndi hann helst vilja eiga það síðarnefnda. „Big Dog Mastiff er alveg svaðaleg græja með 1.753 kúbiksentimetra vél, sex gíra Baker-gírkassa og „rake“ upp á 39 gráður. Flest hjólin sem við erum með eru í stærri kantinum og gríðarleg orka í þeim,“ segir hann.

Spurður að því hvort hann kjósi mótorhjólið umfram bílinn segir Dóri svo vera. „Það er þessi ólýsanlega frelsistilfinning sem gerir það að verkum að ég vil fremur vera á hjóli og því keyri ég það allan ársins hring svo lengi sem aðstæður leyfa. Á mótorhjóli þarf maður samt alltaf að hafa varann á. Bílar eru morðingjar sem maður þarf að forðast og það er ekkert til sem heitir að eiga réttinn. Ef maður ætlar að nýta sér réttinn þá getur maður eins verið dauður,“ segir Halldór og bætir því við að lokum að best sé að fara á hjólinu út í íslenska sveit. 

„Það er ekkert sem toppar það að bruna um þjóðvegi Íslands á góðu mótorhjóli,“ segir Dóri að lokum og ljóst er að hann meinar hvert orð. 

Fréttablaðið 29.09.2007