7.7.07

Sprenging í hjólasportinu


Karl Gunnlaugsson, eigandi Moto, segir gríðarlega söluaukningu hafa orðið á mótorhjólum að
undanförnu.


„Það hefur algjör sprenging orðið í sportinu, sem sést meðal annars á gríðarlegri söluaukningu á hjólum,“ segir Karl Gunnlaugsson, eigandi Moto, sérverslunar með mótorhjól og fylgibúnað, sem er til húsa að Rofabæ 7. „Til marks um það seldust í kringum fjörutíu mótorhjól árið 2001 þegar við opnuðum. Í dag seljast yfir 200 hjól á ári.“
Karl segir ýmsar ástæður fyrir auknum áhuga á mótorhjólum á Íslandi. Hann rekur hann meðal annars til þess að félög eins og Vélíþróttaklúbburinn, sem annast keppnishald, og Mótorhjóla- og sleðasamband Íslands, sérsamband sem var stofnað í fyrra innan Íþróttasambands Íslands, haldi úti öflugu starfi.
Karl segir ennfremur að bættum skilningi yfirvalda sé að þakka, þar sem þau hafi úthlutað Vélíþróttaklúbbnum sérstöku svæði við Litlu kaffistofuna fyrir þremur árum. Með því móti hafi félagsmeðlimir loks getað iðkað íþróttina á löglegu svæði en ekki utan vega, sem hefur sætt harðri gagnrýni. „Svæðið og verslanir eins og Moto hafa átt sinn þátt í að gera íþróttina, búnaðinn og þekkinguna aðgengilegri og skemmtilegri fyrir almenning,“ útskýrir Karl. „Íþróttin hefur þar af leiðandi smám saman breyst úr einkaíþrótt ungra manna yfir í fjölskyldusport.“ Máli sínu til stuðnings bendir Karl á að kúnnahópur Moto hafi tekið snörpum breytingum á undanförnum árum. Til hans leiti sífellt fleiri konur, börn, ungmenni og fólk alveg upp í sjötugt. „Við höfum brugðist
við breytingunni með auknu vöruúrvali. Til dæmis með því að taka inn sérstakan hlífðarbúnað. Eins
stærri ferðahjól og búnaðinn sem þeim fylgir, svo sem töskur og GPS-tæki. Enda allt gert til að kúnninn fari héðan ánægður.“
roald@frettabladid.is
Fréttablaðið 7.7.2007