28.7.07

Smitaður af Ducati áhuga.


Sigurbergur Kristjánsson er einlægur aðdáandi ítölsku Ducati-hjólanna. „Ég fékk áhuga á mótorhjólum þegar ég var þrettán ára og hef verið forfallinn Ducati-áhugamaður í nákvæmlega fjörutíu ár. Eldri bróðir minn var á kafi í mótorhjólum og smitaði mig af þessari bakteríu,“ segir Sigurbergur Kristjánsson, mótorhjólaeigandi og meðlimur í félagi Ducati-eigenda á Íslandi. 

    Fyrstu hjólin hans Sigurbergs voru skellinöðrur sem síðan breyttust í stærri hjól og þá helst Ducati. „Ég hef átt hjól nánast óslitið síðan ég var þrettán ára. Nema á baslárunum þegar maður var að byggja þá gat maður ekki leyft sér það. Nú á ég þrjú hjól og einn bíl,“ segir Sigurbergur sem á tvö sígild sýningarhjól árgerð 1974 og 1978 ásamt Ducati-draumahjólinu. „Ég keypti Ducatihjólið á Íslandi í fyrra og lét upp í annað sem ég hafði flutt inn erlendis frá þremur árum áður. Nýja hjólið er árgerð 2007, GT 1000-retró útgáfa af Ducati árgerð 1978, sem var GT 750,“ segir Sigurbergur. Hann hefur ferðast gífurlega mikið á hjóli, bæði erlendis og hérlendis og margoft keyrt hringinn með fjölskylduna aftan á. „Ég á þrjá krakka og hef farið með þau öll hringinn svona um fermingu. Þetta voru æðislegar ferðir þar sem ég var bara einn með krökkunum á hjólinu úti í náttúrunni. Síðan höfum ég og konan mín ferðast mikið um Ísland, farið öll Norðurlöndin og nú síðast þjóðveg 66 frá Chicago til Santa Monica í Bandaríkjunum,“ segir Sigurbergur sem segist þó nota hjólið æ minna dags daglega. 
    „Umferðin hefur breyst svo mikið í Reykjavík. Hún er orðin þyngri og maður er mest keyrandi á milli ljósa. Í þau skipti sem ég fer á því í vinnuna nota ég tækifærið og fer lengri leiðina um Seltjarnarnes og Heiðmörk heim í Grafarvoginn,“ segir Sigurbergur sem segist taka eftir auknum áhuga á mótorhjólum á Íslandi. 
     „Ég held að aukið fjármagn í landinu sé ein af ástæðum fyrir aukinni mótorhjólaeign landsmanna. Síðan eru margir sem ég þekki að láta gamlan draum rætast á efri árum.
Þar sem ég hef rekist á marga sem eru að kaupa svokölluð hippamótorhjól. En það er ekkert fyrir mig " segir Sigurbergur.