21.6.84

AC þríhjól Grein frá(1984)

Bílaprófun Vikunnar
Myndir: Ragnar Th. og Friðsteinn Stefánsson Texti: Hörður 

Honda ATC 250 R

Upplagt farartæki fyrir bændur?

Venjulega finnst manni að þríhjól sé eitthvað rautt, með þremur hjólum, sæti á miðjunni og knúið áfram með tveimur fótstigum á hjólinu að framan. Vikan ákvað fyrir stuttu að prófa eitt slíkt nema hvað þetta þríhjól var knúið áfram af vél undir sætinu og komst miklu hraðar en fyrrnefnda hjólið.

ÚPS! 

Við fyrstu sýn virðist hjólið ekki líklegt til stórræðanna, fremur lágt og einhvern veginn eins og barnaleikfang. Annað kom svo sannarlega á daginn. Við fyrstu keyrslu virtist hreinlega ómögulegt að ráða nokkuð við hjólið. Maður hafði alltaf á tilfinningunni að maður væri að detta og sökum þess var vald manns yfir hjólinu ansi takmarkað og leiddi það óneitanlega til skringilegra akstursleiða. Ekki bætti úr skák að hjólið er ógnarkraftmikið og minnsta snerting á bensíngjöfinni, sem stjórnað er með þumalfingri eins og á vélsleða, hreinlega þeytti hjólinu áfram. Maður reyndi náttúrlega aö hanga á hjólinu með því að grípa eins fast og maður gat um handföngin. Þessar kreistingar leiddu svo til þess að maður kreisti bensíngjöfina um leið — og hjólið tók algerlega völdin og þaut með mann þangað sem því sýndist. Sem betur fer vandist þetta því annars væri Vikan einum starfsmanni fátækari.   

EHEM, JÆJA 

Þegar þessum byrjunarörðugleikum lauk var svo hægt að fara að keyra hjólið af einhverju viti og kanna hvernig það hagaði sér í raun og veru. Aðallega var ekið í umhverfi Mosfellssveitar, vegir, slóðar, hestaleiðir, fjörur, drullupyttir, ár og mýrar voru farnar og reynt að finna hvar svona hjól eru nothæf. Því miður vantaði snjó en næstum öruggt er að hjólið kemst leiðar sinnar við slikar aðstæður því að í reynsluakstrinum kom aldrei upp sú staða að hjólið gæti ekki meir. Þetta er ótrúlegt en satt. Þetta hjól kemst næstum því allt og það sem meira er, hjólið veldur sama og engum landspjöllum. Ástæða þess eru hin breiðu dekk, nánast belgir, sem valda því að hjólið flýtur yfir jafnvel blautustu mýrar án þess að nokkuð sjáist. Á tímum landgræðslu og landverndar er vert að taka þetta til athugunar þegar menn ætla að velja sér farartæki til að þeysa á um holt og móa.  

AÐ AKA HONDU 

Allur akstur á hörðu undirlagi er auðveldur og nánast þægilegur. Lítið loft er haft í dekkjunum og þegar maður keyrir yfir steina og aðrar smáar misfellur í veginum gleypa dekkin hreinlega allt í sig. Þar ofan á er fjöðrunin verulega slagstór og hjólið hegðar sér sérlega vel í alls kyns meiriháttar ójöfnum. Það er helst á mikilli ferð sem hjólið vill skoppa svolítið þegar maður fer í lítil og djúp hvörf. Reyndar er það með ólíkindum hversu lítið þessa gætir. Að framan er hjólið eins útbúið og hvert annað mótorhjól, tveir vökvafylltir gafflar, en að aftan er svokólluð Pro-Link fjöðrun. Þessi útbúnaður var upphaflega hannaður með mótorhjól í huga og byggir hann á einum dempara í stað tveggja. Í tilfelli þríhjólsins er búið að færa demparann þar sem afturhjólið er á mótorhjólum, milli tveggja gaffla, og síðan kemur öxullinn heill í gegnum gafflana fyrir aftan demparann. Þetta er, eins og reyndar hjólið allt, mjög traustlega gert.
Í akstri í vatni er það alltaf sama sagan: Það er hreinlega ómögulegt að ofbjóða hjólinu með vatni. Miklu meiri líkur eru til þess að ökumaöurinn drukkni löngu áður en hjólið hefur fengið nóg. Einu verður maður samt að passa sig á. Dekkin eru svo breið að hjólið á það til að hreinlega fleyta kerlingar á vatnsfletinum ef ekið er hratt og þá þarf að passa sig á að hafa jafnvægispunktinn á hárréttum stað því annars getur annar endi hjólsins stungist á kaf og illa farið. Að öðru leyti er hægt að komast hvert sem maður þorir á hæfilegum hraða. 
Í drullu er, eins og áður sagði, mjög auðvelt að komast yfir pytti án þess að sökkva. En í tilfellum þar sem pytturinn er nánast kviksyndi er ekki um neitt annað að ræða en að draga andann djúpt halda honum í sér og gefa í. Í flestum tilfellum æðir hjólið yfir með látum og drulluaustri en í örfá skipti, þegar drullan er akkúrat svo þunn að hjólið flýtur ekki en hefur talsverða fyrirstöðu fyrir framdekkið, getur verið erfiðleikum bundið að komast leiðar sinnar án einhverra tilfæringa. Í akstri sem þessum er eins gott fyrir ökumann að hafa einhverja hlíf fyrir vitum sínum og augum því að á vissri ferð, þegar hjólið spólar sig áfram, moka dekkin beinlínis yfir mann jarðveginum og olli það í nokkur skipti því að blaðamaður fékk ókeypis smökkun á hinum ýmsu jarðvegstegundum Íslands. 

EFTIRÁ AÐ HYGGJA. . .

 Eftir frábæran dag hér og þar í nágrenni Mosfellssveitar varð þó að skila hjólinu til réttra eigenda. Allan tímann hugsaði maður sér þetta sem leikfang, en eftir á að hyggja fór maður nú að hugsa: Er eitthvað hægt að gera við hjólið annað en að leika sér að því? Í ljósi fenginnar reynslu var svarið auðvelt. Þetta er eitt það sniðugasta sem bændur gætu notað við hin margvíslegu störf á bújörðum sínum.
Hagsmunir þeirra eru að geta farið sem mest án þess að valda landspjöllum og þetta hjól gerir minna að því en hvaða farkostur sem er, jafnvel hestar. Einnig er þetta vel nothæft fyrir veiðiverði hvers konar, þar sem oft barf að komast hratt yfir ýmiss konar ófærur. Þessi hjól gefa kost á skemmtilegri ferðamáta en flest annað þannig að ferðafrík og sportveiðimenn hvers konar geta vel notað hjólið. Mælingamenn, landkönnuðir, vísindafólk, jarðvinnufólk og jafnvel skíðafólk getur notað hjólið og svona er lengi hægt að telja, notagildið er ótrúlegt.   

UTBUNAÐUR 

Til síns brúks er hjólið mjög vel útbúið. Engir mælar eru á hjólinu enda er þeirra ekki þörf. 60 vatta ljós er að framan með háum og lágum geisla og einnig er aftur- og bremsuljós þannig að maður ætti að sjá og sjást. Hugsað hefur verið fyrir ýmsu, til dæmis er handbremsa á hjólinu og varnargrind yfir ljósinu. Að neðan er hjólið einnig mjög vel varið, sterklegar hlífðarplötur bæði undir vél og undir tannhjólinu og bremsudiskinum að aftan. Sætið er stórt, mjúkt og nær upp á tankinn en auðvelt er að rispa afturbrettin, "sem eru úr plasti, þegar menn leggjast út á hlið í hraðakstri. 

GALLAR?

 Veikir punktar hjólsins eru fáir. Í akstri ber helst að varast að fara of brattar brekkur því hjólið hefur það gott grip að maður steypist beinustu leið aftur yfir sig og það er ekkert grín að ætla að redda málunum veltandi niður brekku. Þegar startað er sparkar maður startsveifinni fram á við og óvanir gætu auðveldlegatognað með því að reka hælinn í fótstigið. Þessu hefði verið hægt að bjarga með því að smella fótstiginu upp en það er ekki hægt. Varast ber ennfremur að styðja sig með fótunum í akstri því að þá hreinlega keyrir maður bara yfir sig. Afturhjólin eru nefnilega rétt fyrir aftan fætur manns og renna upp á hælinn um leið og maður rekur fæturna niður, sem er óþarfi því hjólið er mjög stööugt.

TÆKNILEGAR UPPLÝSINGAR

 Vél og drif: Tvígengis. Einn strokkur, loftkældur, 247 cm', 26 hestöfl við 6500 snúninga á mínútu. Snúningsseigla: 3,33 kg-m við 6000 snúninga á mínútu. Magnetukveikja. 5 gírar. Keðjudrif. Hemlar: Einn gataður diskur að framan og aftan. Vökvaátak. Fjöðrun: Framan: Loft-og vökvafylltir gafflar. Slaglengd: 22 cm. Aftan: Stillanlegur gasfylltur þrýstings- og fráslagsdempari (Pro-Linkj. 
Mál og vog: Hæð; 1,09 metrar. Lengd: 1,86 metrar. Breidd: 1,1 metri. Eigin þyngd: 133 kíló. Hæð undir lægsta punkt: 12 sentímetrar. Tankrúmtak: 10,5 lítrar af 5% olíublönduðu bensíni. Verð: 126.300 krónur. Umboð: Vatnagörðum24. 

18.5.84

Hætti í Apótekinu og hóf að senda leigubíla hingað og þangað.


Margir í Keflavík hafa þekkt LínU Kjartansdóttur sem ,,snaggaralegu stúlkuna í apótekinu sem þeysist um á mótorhjólum." Hún er menntaöur lyfjatæknir. En eftir rúmlega tíu ára starf í apótekinu í Keflavík sagði hún þar skyndilega upp. Ekki að henni leiddist. Hún vildi bara breyta til. 
Nú vinnur hún í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.  Eina stúlkan á Íslandi sem gegnir starfi slökkviliðsmanns. Hún hóf þar störf 14. nóvember síðastliðinn.
 
Varla var hægt að hefja rabbið án þess að spyrja hvernig karlmennirnir hefðu tekið því að fá konu í slökkviliðið? 
,,Jú, jú, þeir hafa bara tekið mér vel. Þetta er góður vinnustaður og mér hefur liðið ágætlega hér," svaraði hún að bragði og hressilega. 
— En hvernig bar það til að hún fór að vinna sem slökkviliðsmaður? 
„Ég sá starfið auglýst og sótti um. Og í framhaldi af því var ég ráðin."


Úr apótekinu í prins póló

Leið Línu lá þó ekki beint úr apótekinu og í slökkvilið. Þegar hún sagði upp í apótekinu réði hún sig á Aðalstöðina í Keflavik. Þar fór hún að selja sælgæti, meðal annars þjóðarréttinn sjálfan, kók og prins póló. Og þá fólst starfið í því að senda leigubila hingað og þangað.
„Eftir þetta færði ég mig yfir í bensínið, ef svo má segja, fór að afgreiða bensín. Þar var ég í níu mánuði eða þar til ég fór í slökkviliðið." Við fórum aðeins að gantast með níu mánuðina. „Já, er það ekki gjaldgengur tími, hvar sem er?" var strax svarað. 

Nú ert þú þekkt fyrir að þeysa um á mótorhjólum. — Hvenær fékkstu mótorhjóladelluna?
Fékk skellinöðruleyfi 14 ára  Ég fékk áhugann snemma. Eldri bræður mínir áttu skellinöðrur og þannig kviknaði neistinn. Þeir höfðu sig hins vegar aldrei upp úr skellinöðrunum." „Það var svo þegar ég var 14 ára sem ég fékk æfingaleyfi á skellinöðru. Síðan tóku mótorhjólin við. En ég hef einnig átt bíla inn á milli. Eg segi oft í gríni að ég hafi byrjað i 50 kúbíkunum og fikrað mig upp í 750 kúbíkin." 

Óhætt er að taka undir þau orð hennar. Þvi fyrsta hjólið var Honda 50. Siðan komu Hondu-mótorhjólin hvert af öðru. Þau fyrstu voru 350 kúbíka og þá tóku 500 kúbíkin við. 
„Það síðasta sem ég átti var Honda 750, en ég seldi það á siðasta ári er ég fjárfesti í nýjum bíl."

Saknar 750 kúbitanna


— Saknarðu 750 kúbíkanna?
„Já, það geri ég. Það er viss tegund af frelsi að aka um á mótorhjólum. Maður tekur meira eftir umhverfinu við að ferðast þannig. Það er eins og vera ein í heiminum."
— En nú eru hættumar margar og mörg mótorhjólaslysin ? 
„Það er vissulega rétt. En aðalatriðið á mótorhjólum er það að treysta engum. Treysta engum öðrum í umferðinni. Það er númer eitt." 

Það hafa margir orðið hissa að sjá Línu þeysast um á mótorfákunum, ekki síst þegar hún er með Tönju Tucker með sér. „Tanja er hundurínn minn, skírð í höfuðið á kántrísöngkonunni. Þetta er lítill poodle." 

Tanja Tucker á bögglaberanum

— Hvar kemurðu henni fyrir á hjólinu?
 „Ég hef hana innan á mér og læt höfuðið standa upp úr. Það þýðir ekkert annað en leyfa henni að njóta útsýnisins."
 — Hvað um að binda hana á bögglaberann ?
„Nei, það held ég að gangi ekki upp.  Eigum við ekki að segja að hún tolli illa þar."
— Ertu í Hundavinafélaginu? ,
,Já, það dugir ekkert annað. Eg er hverfastjórí hundavinafélagsins í Keflavík.  Reyndar hef ég mikinn áhuga á að fara út i að læra hundatamningar i framtiðinni. Það eru góðir hundatamningaskólar í Bandaríkjunum og Englandi sem ég reikna með að sækja um inngöngu í. Það er bara verst að þeir vilja ekki nema hermenn og lögreglur í þessa skóla." 

Og áhugamálin eru fleiri.  Lína er i Skotíþróttafélagi Keflavíkur, þá er hún i skíðasportinu og hefur stundað dans, jassballett og likamsrækt.

Að finna sér tíma fyrir áhugamálin


— Ekkert vandamál að finna tíma?  
„Það er með mig eins og marga aðra, að ég hef stundum orð á því að
sólarhringurínn dugi ekki. En aðalatriðið er bara að finna sér tíma. Þetta gengur allt saman einhvern veginn upp, hafi maður áhuga á því." Talið barst næst að Keflavíkinni, hvernig væri að búa þar og svo
framvegis.
Í rælni spurði ég sisvona hvort hún væri ættuð úr Keflavik?
„Ekki beinlinis. Ég er  strandaglópur. Steig min fyrstu skref á Vansleysuströndinni en hef lengst af búið í borginni suður með sjó." 


Blæs á móti á Suðurnesjum


— Hvað með rokið umtalaða? 
„Það blæs jú oft vel á móti, það er rétt. ,  Sumir Suðurnesjabúar segjast reyndar merkja við á almanakinu, sjái  þeir logn hér á veðurkortinu í sjónvarpinu. En hér er gott að búa og fullt af skemmtilegu fólki." Undir þessu síðustu orð Linu gátum við tekið. Vel að merkja, svo framarlega sem hún er dæmigerður Keflvíkingur. 
-JGH.
DV. MIÐVIKUDAGUR18. APRIL1984.



https://timarit.is/page/2489137?iabr=on#page/n9/mode/2up/search/%C3%81%20M%C3%B3torhj%C3%B3lum

1.4.84

Sniglarnir Stofnaðir

Bifhjólasamtök Lýðveldisins Sniglar voru stofnaðir vorið 1984 og urðu strax öflugur málsvari mótorhjólafólks, ört fjölgaði í hópnum og þegar haldið var upp á ársafmælið voru meðlimir um hundrað talsins,.

Fjölbreytileiki mótorhjóla



Jón S. Halldórsson
Það gera allir sér ljóst að bílar flokkast undir ýmsa notkunarhópa og tegundirnar eru næstum óteljandi. En hér á íslandi gætir meiri þröngsýni í garð mótorhjólanna sem eiga reyndar miklu betra skilið. Hjólið var jú framleitt á undan bílnum og má segja að bíllinn sé hannaður upp úr hjólinu. Hjólið sjálft hefur gengið í gegnum mörg breytingaskeið og má líkja þróuninni við ættartré  mannkynsins. Fyrst kom þetta einfalda, tveggja hjóla, fótstigna apparat með gríðarstórt framhjól sem síðan hefur getið af sér: götuhjól, enduro hjól, móto-cross hjól, þríhjól, kvartmíluhjól, stríðsframleiðsluhjól og svo framvegis, en þessar megingerðir flokkast svo enn betur í tegundir og gerðir frá hinum ýmsu framleiðsluþjóðum.

SKELLINAÐRA
Þetta eru létt og meðfærileg hjól með 50 cc vél sem skilar ekki miklu afli, komast yfirleitt í um 60 km hraða. Það eru hins vegar margargerðir til af hjólum sem flokkast undir skellinöðru en það er sameiginlegt þeim öllum að vélin er ekki stærri en 50 rúmcentimetrar. Slík stærð getur þó skilað hestöflum alveg frá 1 og upp í ca. 15 sem þó er mjög sjaldgæft. Skellinaðra er til í götuhjóla, torfæru, búðarsnatt og keppnishjóla útgáfu. Kemur sem sagt inn á öll svið mótorhjóla en er bara minnkuð útgáfa.   Hérlendis hafa notkunarmöguleikar hjóla ekki verið eins miklir og erlendis aðallega vegna veðursins, en upp á síðkastið hefur nokkrum gerðum fjölgað verulega og mætt mikilli andspyrnu fólks sem takmarkaða þekkingu hefur á hjólum og dæmt þau öll „stórhættuleg farartæki sem helst ætti að banna". Þetta er ekki réttlátt og er meiningin með þessari grein að skyggnast örlítið inn í frumskóg mótorhjóla og sýna fram á réttileika þeirra.
En fyrst verður fólk að gera sér ljóst. 
„Það er ekkert farartæki hættulegt, heldur hegðun einstaklingsins."
 Á þetta við um flugvélar, bíla, báta,
hjól og alla aðra dauða hluti. Mótorhjól gæta hins vegar örlítillar sérstöðu vegna þess að þeim stýra  yngstu einstaklingarnir sem oft hafa hvorki þroska né kunnáttu til þess. En þeirra er ekki sökin.
Fullorðnir hafa séð um þessa lélegu kennslu og þeir hinir sömu sýna vítavert gáleysi gagnvart hjólunum í umferðinni. Og það merkilegasta við þetta allt saman er að það ber meira á þessu hér
á íslandi heldur en erlendis einfaldlega vegna þess að hér ríkja alltof mörg boð og bönn. Það er bannað að snerta skellinöðru fyrr en 15 ára aldri er náð. Það er hvergi til æfingasvæði fyrir hjól né
annað nema ef vera skyldi að einhver kallaði göturnar æfingasvæði. Það eru framleidd mótorhjól og vélsleðar fyrir krakka niður í um það bil 8 ára aldur. Þannig tæki er ekki hægt að flytja inn til Íslands með góðu móti og sá sem það myndi gera væri eflaust álitinn snargeggjaður. Reyndin er hins vegar sú að hjól og bílar eru nauðsynleg farartæki og því fyrr sem barnið fær að kynnast þeim, því betra. Erlendis eru barnamótorhjólin mjög vinsæl og er keppt á þeim í nokkrum aldurshópum. Það er stórfurðulegt að hjá annarri eins bílaþjóð skuli nöldurhóparnir hafa náð að drepa niður þessa byrjunarkennslu en afleiðing þess er einmitt það sem allir kvarta yfir, slysin. Farartæki eru nauðsynleg bæði sem hlutur til að koma fólki frá stað A til B og einnig til þess að njóta þeirra sem leikfangs eða jafnvel hálfgerðrar mublu.

TORFÆRUHJÓL
Undir þennan flokk teljast enduro, trial og móto-cross hjól. Þau síðasttöldu eru fyrir hinar frægu móto-cross keppnir sem fara fram á lokuðum erfiðum brautum. Hjólin eru létt, spræk og með geysilanga fjöðrun. Keppt er í fjórum stærðarflokkum: 50-125-250 og 500 cc. Trial hjól eru mestu torfæruhjólin. Gerð til að klöngrast hægt yfir hinar ótrúlegustu torfærur. Góður lágsnúningskraftur, hátt undir lægsta punkt og mjög létt. Hvorug þessara hjólgerða eru notuð óbreytt til götuaksturs. Enduro hjólin eru milligerð þessara tveggja keppnishjóla og eru hugsuð fyrir þá sem vilja bæði hjóla á götunni og utan vega.

ÞRÍHJÓL
Undir þennan hóp má telja mótorhjól með hliðarvagn svo og hina nýju gerð þríhjóla sem hafa mjög breið kubbadekk og komast léttilega yfir mýrlendi, snjó og aðrar torfærur. Fara inn á svið vélsleða en koma einnig að gagni á auðu landi. Auðveld í notkun og er vaxandi eftirspurn eftir þeim sem  vinnuþjarki fyrir bændur, fjölskylduleikfangi eða bara sem farartæki í öllum veðrum.

KVARTMÍLUHJÓL
Eru sérbyggð venjulega upp úr stærri götuhjólum. Vonandi verður þessi grein til þess að opna augu einhverra gagnvart mótorhjólinu og notkunarmöguleikum þeirra. Þau eru ekki eingöngu fyrir  kolvitlausa krakkaglanna. Og að endingu lesandi góður, næst þegar þú ekur fram á mótorhjól í umferðinni, hugsaðu hlýlega til ökumanns hjólsins.

BFÖ blaðið 12 árg. 1.4.1984

24.11.83

'MÓTORHJÓLAFÁRIÐ' í Vestmannaeyjum


Undanfarna mánuði hafa lesendabréf birst í bæjarblöðum af og til, þar sem lesendur hafa lýst áhyggjum sýnum yfir ástandi umferðar mála hér í bæ. Mest hefur borið á bréfum þar sem kvartað er yfir ógætilegum akstri ökumanna vélhjóla og hafa lesendur ítrekað krafið ráðamenn svara um úrbætur í þessum efnum. Til að varpa ljósi á málið höfðum við tal af Kristjáni Torfasyni bæjarfógeta. Hvaða ráðstafanir hefur lögreglan gert til að sporna við gáleysisakstri hér í bænum? Þctta mál er mun erfiðara en það virðist við fyrstu sýn. Fyrir það fyrsta, þá hef ég gefið fyrirmæli um, að lögreglan eigi ekki að elta þessa ökumenn mótorhjólanna, því að slíkt skapar mjög aukna slysahættu, auk þess sem þeim er í lófa lagið að stinga af eftir stígum og krókum sem lögreglan getur ekki lagt leið Við gætum mælt hraðann á ökutækinu, og tekið niður númerið á því, en þá er eftir að sanna hver það hali verið sem ók hjólinu. Yfirleitt eru þessir ökumenn með hjálma sem gera þá ill-þekkjanlega, svo að okkur er ómögulegt að sekta einn eða neinn. Hafið þið haft afskipti af ökumönnu m mótorhjóla hér í bæ? Já, og yíirleitt hefur því lokið með dómssátt, nema í einu tilfelli þar sem dómur var felldur og viðkomandi var sviptur ökuleyfinu. Við höfum einnig reynt að tala um fyrir þessum unglingum og því miður höfum við oft rekið okkur á skilningsleysi frá foreldranna hálfu í okkar garð, þegar við höfum reynt að tala um fyrir þeim. Þaðeru nokkuð einkennileg viðbrögð gagn vart þeim sem vilja aðeins reyna að bjarga þessum piltum frá því að fara sér að voða. Nú hefur nokkuð verið um alvarleg umferðarslys hér í Eyjum vegna mótorhjóla. Hafið þið orðið varir við að það drægi úr glannaakstri eftir þau? Svona fyrst eftir slysin urðum við varir við það, en það féll fljótlega aftur í sama farið. Hvernig er lögreglan í stakk búin til að mæla ökuhraða ökutækja? Við erum illa búnir af svoleiðis tækjum, við fengum sent rangt tæki í sumar sem við notuðum til hraðamælinga. Það átti að fara til Snæfellsness og sendum við það þangað. Við eigum nú í vændum nýja radarbyssu sem gerir okkur kleift að mæla hraða ökutækja með svo til engri fyrirhöfn.  Eru þetta baldnir unglingar sem eiga mótorhjól? Það er ósköp upp og ofan, líklegast eru þeir eins og fólk er flest, þeir fá bara eitthvað út úr því að hafa  svona mörg hestöfl á milli fótanna. Nú er bílaeign hér í Eyjum minni en á sambærilegum stöðum víðs vegar um landið. Hvernig er slysatíðni háttað hér miðað við landsmeðaltal ? Það er rétt, við höfum færri bíla hér en annars staðar miðað við fólksfjölda. Það er hins vegar sorgleg staðreynd, að hér er tíðni umferðarslysa jafnhá og annars staðar á landinu, þrátt fyrir færri ökutæki.

___________________________________________________________________


Þetta er dellubær



Það er ekki hægt að skilja svo við þetta mál, að kynna ekki viðhorf mótorhjólapiltanna sjálfra.


Tryggvi Sigurðsson leit hér inn í stutt spjall og kynnti sín viðhorf. Hann tók það fram að hann væri alls enginn fulltrúi allra hinna , en í Vestmannaeyjum eru nú 48 stór mótorhjól.

Sú gagnrýni , sem komið hefur fram á akstursmáta ykkar hér í bænum , finnst þér hún réttmæt ? Að mörgu leyti er hún það og að öðru leyti ekki. Við erum misjafnir í hátterni og skoðunum. Þeir sem eiga mótorhjól hér í Eyjum eru á bilinu 17-35 ára. Og þar á meðal eru bæði löghlýðnir og ólöghlýðnir einstaklingar, en ég held að mér sé óhætt að fullyrða það, að það er aldrei kappakstur hér í bænum. Slíkt fer fram inni á bryggju. A u k þess vildi ég benda á, að það sést ekki mótorhjól hérna meirihluta ársins, því við afskráum þau að hausti.

Af hverju keyrið þið þá svon a hratt í bænum ? Þessi hjól eru mjög kraftmikil og hágíruð, en bremsurnar á þeim eru mjög góðar og hemlunarvegalengdir eru mjög stuttar, miðað við hraða .
Af þessum 48 hjólúm, sem til eru í Eyjum, eru 75% tveggja ára og yngri. Og það er varla hægt að kvarta um hávaða í þeim, því að verksmiðjurnar, sem framleiða þessi hjól, hafa fengið fyrirskipunum að minnka hávaðann í þeim, vegna laga setninga þar um víðs vegar um heiminn.


Hafið þið haft í hótunum við lögregluna um , að láta ykkur í friði  annars hafi þeir verra af ?
Ekki mér vitanlega. Ég held ég geti fullyrt að við virðum að mestu settar umferðarreglur. Það kemur fyrir að hraðinn er of mikill, en þá er lögreglunnar að grípa í taumana .

Hefur þú lent í umferðaróhappi ?
 Já , það hafa tvisvar keyrt bílar í veg fyrir mig á mótorhjólinu, og var ég í rétti í bæði skiptin. Svo slasaðist ég einu sinni illa er ég var farþegi í Moskowitch bíl, sem valt undir Eyjafjöllum.

Af hverju eru svona mörg hjól í Eyjum ?
 Eyjamenn hafa alltaf sóst í það að vera mestir í öllu, sem þeir taka sér fyrir hendur. Þetta er mesti „dellubær " á Íslandi.
Eyjafréttir

24.11.1983

30.9.83

Við eigum fullt erindi í þessa kalla

„Ég var gjörsamlega búinn eftir fyrri umferðina.
hendurnar voru illa farnar ... " sagði Heimir Barðason,
sem hér sést kreista lúnar hendurnar eftir keppni
í Norðurlandameistaramótinu í Danmörku.
— sagði Heimir Barðason sem keppti í Norðurlandameistaramótinu i Moto Cross

„ÞETTA var erfiðasta braut sem ég hef nokkurn tímann keppt á í Moto Cross. Hún var varla hjólum bjóðandi, en það var mjög gaman og jafnframt lærdómsríkt að taka þátt í þessu," sagði Heimir Barðason, sem ásamt Þorvarði Björgúlfssyni og Þorkeli Magnússyni tók þátt í Norðurlandameistaramótinu í Moto Cross, sem fram fór í Danmörku á sunnudaginn.

„Strax í æfingaakstrinum sáum við að brautin yrði erfið, en hún var einn og hálfur kílómetri að lengd og ekin í 2x45 mínútur. Andstæðingarnir voru líka gífurlega leiknir. Brautin var mjög hörð og skemmdi mörg hjól illilega. í keppninni.
Það var svo mikill hristingur að allar skrúfur í hjólum okkar losnuðu," sagði Heimir. „í fyrri umferðinni af tveimur náði Þorkell á Kawazaki góðu starti og var í sjöunda sæti af 23 keppendum.
Þorvarður var á Hondu, var einnig nokkuð framarlega, en ég sat eftir á mínu Hansa-hjóli. Í einni beygjunni féllu 7—8 keppendur hver um annan þveran, og Þorvarður var einn af þeim. Ég komst framúr þessari kös og náði mér upp í fimmtánda sæti. Þorkell varð að hætta fljótlega þegar keðjan slitnaði á hjóli hans, en Þorvarður náði að halda áfram og var kominn í sextánda sæti þegar gírkassinn brotnaði og einnig sprakk að aftan hjá honum. Varð hann því að hætta keppni í fyrri umferðinni," sagði Heimir. „Ég var alveg í spaði, gjörsamlega búinn líkamlega eftir að hafa klárað fyrri umferðina," sagði Heimir.
„Hendurnar voru illa farnar, ég gat varla hreyft vinstri hendina. Grjótið hafði kastast svo mikið yfir mann, því við höfðum engar hlífar á hjólunum. Ég ákvað því að lána Þorvarði hjólið mitt, því hann átti nóg eftir í seinni umferðina. í startinu var Þorkell óheppinn,
Þorvarður Björgúlfsson ekur hér grimmt á
 Norðurlandameistaramótinu. Hann náði sjötta sæti,
 en féll af hjóli sínu og missti á tímabili
 alla framúr sér. Ljósmyndir Mbl. Otto Einarsson.
hann festist og varð strax aftastur, en með hörku tókst honum að fara framúr þrem keppendum, en þá sprakk að aftan hjá honum. Hann hætti þó ekki fyrr en dekkið var komið af felgunni!
Þorvarði tókst vel upp í byrjun og var kominn í sjötta sæti, eftir tvo hringi, en þá ofkeyrði hann og datt. Var hann þar með kominn í átjánda sæti, en náði framúr þremur keppendum áður en yfir lauk," sagði Heimir.

„Við erum nokkuð sáttir við hvernig þetta fór, þó okkur hafi ekki tekist að klára. Við sáum að við eigum fullt erindi í þessa kalla. Margir þeirra voru atvinnumenn og tóku þetta gífurlega alvarlega. Ég held að þessum bestu hafi varla stokkið bros fyrir keppni," sagði Heimir og hló.
„Sigurvegari í einstaklingskeppninni varð Finninn Jukka Sintonen á Yamaha, en Sören Mortensen varð annar einnig á Yamaha. í landsliðskeppninni vann Finnland, Svíþjóð varð í öðru sæti og Danir þriðja," sagði Heimir að lokum. 
G.R Morgunblaðið  30.9.1983 

15.9.83

Bíll Mánaðarins

Hvað er mótorhjól eiginlega að gera hér í þættinum "Bíll mánaðrins"?
Mótorhjól eða bíll, það er spurningin sem menn varða bara að svara sjálfir.
Þessi þáttur er ekki engöngu ætlaður bílum, heldur öllum athyglisverðum tækjum hérlendis og svo sannarlega flokkast þríhjól Ólafs Þórs Gíslasonar frá Akranesi þar með. Þessi þríhjólamenning er mjög vinsæl erlendis en hér sjáum við fyrsta alvöru þríhjólið á Íslandi sem sameinað er úr bíl og mótorhjóli.
Ólafur sem er 17 ára skagamaður á heiðurinn af þessu glæsilega farartæki en naut þó dyggrar aðstoðar " gamla mannsins" föður síns sem dundaði við að "rétta stráknum verkfærin"! Hugmyndin var fengin í bandarísku mótorhjólablaði fyrir rúmu ári síðan og þá var drifið í að panta yfirbygginguna ásamt framhjólabrettinu, ljósi og rafkerfi.
Framfjöðrunin er dálítið sérstök vegna langra gaffla og fór mikill tími í þá smíði. Afturendi þríhjólsins er úr VW bjöllu, en þannig útbúnaður er hvað vinsælastur í alls konar gerðir  "kit kar" bíla og þríhjóla og hægt að fá nánast allt sem hugurinn girnist. Í dag er 1300cc vél og beinskipting í þríhjólinu hans Ólafs en fljótlega hyggs hann láta stærri vél ásamt sjálfskiptingu og læstu drifi í gripinn og ætti hann þá að geta spriklað tölvert því hjólið vegur ekki nema 250 kg. Þrátt fyrir að 2000 vinnustundir séu að baki og hjólið tilbúið að öllu leyti til aksturs þá hafa þeir ekki enn getað glatt augu áhugasamra Skagamanna.
Ástæðan?
  Jú blessað Bifreiðaeftirlitið!  Áttu ekki allir von á því?  En einmitt vegna hræðslu við að leggja út í kostnað og heilmikla vinnu og eiga það svo á hættu að bifreiðaeftirlitið segi svo bara þvert "Nei", hafa þessi vinsælu þríhjól ekki fyrr sést hérlendis. Ólafur á því heiður skilinn fyrir kraftinn og áræðnina sem nú virðist ætla að bera árangur því viðbótarkröfur Bifreiðaeftirlitsins eru ekki óyfirstíganlegt vandamál. Hliðar og breiddarljós fyrir umferð á móti er sjálfsagður hlutur en handbremsa er nú dálítið vafamál. Þá kom einnig athugasamd að þríhjólið  "myndi ekki henta íslenskum vegum" en sú athugasemd er svo gjörsamlega út í hött þar eð þessi tæki eru eingöngu notuð innanbæjar og á malbiki. Í framhaldi af því mætti svo endalaust ræða hvort öll skráð ökutæki henti íslenskum vegum eða ekki.  Það eru því góðar líkur á því að Ólafur og VW Scorpion þríhjólið hans fari að sjást á götum Akranes og kannski líka Reykjavíkur því stutt er nú yfir að fara.
Fyrir skemmstu hélt Kvartmíluklúbburinn bílasýningu í Reykjavík og var þríhjól Ólafs einn af verðlaunagripum sýningarinnar enda mjög vel til verksins vandað eins og myndirnar sýna glöggt.
Við kveðjum svo þá feðga og óskum þeim til hamingju með árangurinn.

Motorsport 1983
1.tb. 4 árg.

8.7.83

HJÓLIÐ HENTIST FJÖRUTÍU METRA

 

Frá slysstað á gatnamótum Rauðarárstígs og Flókagötu í gærdag. Bifhjólið ók áfram eftír ákeyrsluna,
þeyttist yfír limgerði og staðnæmdist ekki fvrr en um fjörtíutíu metra frá gatnamótunum.

Ungur maður á bifhjóli slasaðist er hann ók á kaðal sem lá strengdur aftan úr dráttarvél á gatnamótum Rauðarárstígs og Flókagötu um klukkan hálftvö í gærdag. Maðurinn kastaðist i götuna en bifhjólið hélt áfram um fjörutíu metra og staðnæmdist inni i garði hússins númer 17 við Flókagötu. 

Bifhjólinu var ekið norður eftir Rauðarárstignum. Samtímis var verið að leggja rafmagnskapal meðfram Flókagötunni í vesturátt.  Kapalinn var festur kaðall sem aftur var tengdur í dráttarvélina. 

Dráttarvélin var komin þvert yfir Rauðarárstiginn og var strekkt á kaðlinum, þegar bifhjólið lenti á honum. Lítil umferð var og hafði ökumaður dráttarvélarinnar þvi farið yfir götuna. ökumaður bifhjólsins var fluttur á Borgarspitalann þar sem hann liggur nú á gjörgæsludeild. -JGH. 
DV 8.7.1983

19.8.82

Æfingasvæði eina lausnin




 segir Októ Einarsson hjá Vélhjólaíþróttaklúbbnum

„Við erum búnir að ræða þetta mál fram og til baka undanfarin ár og höfum komist að þeirri niðurstöðu að eina ráðið sé að skapa okkur afmarkað svæði utan vega”, sagði Okto Einarsson,Vélhjólaiþróttaklúbbnum, en hann er jafnframt fulltrúi hans i akstursiþróttaráði Landssambands islenskra akstursiþróttafélaga. „Það er vitað mál að margir sem eiga svona torfæruhjól aka á þeim hér á götum bæjarins og við sem stundum þetta sem iþrótt erum þeirrar skoðunar að ekki verði komið i veg fyrir slikt fyrr en aðstaða er sköpuð til að stunda þessa iþrótt á þar til gerðu svæði. Fyrr hvefur ekki aksturinn hér á götunum sem auðvitað veldur margvislegum vandræðum”. 

— Tryggingafélögin hafa ekki fengist til að tryggja þessi hjól?

 — Nei, og af eðlilegum ástæðum þar sem þau eru ekki skráð. í þessari iþrótt sem á erlendu máli hefur verið kölluð mótor-cross en á islensku „hólakapp” (!) er beinlinis talið hættulegt fyrir ökumenn hjólanna að á þeim sé aukabúnaður eins og útstandandi speglar og ljós. Þess vegna teljum við útilokað að skrá hjólin og þar með tryggja eftir venjulegum leiðum. 

— En hvað með torfærukeppnirnar?

— Þær eru haldnar eftir að við höfum aflað okkur leyfis frá dómsmálaráðuneyti, lögreglu og viðkomandi bæjarlélagi. islensk endurtrygging hefur selt okkur tryggingu meðan á keppni stendur en þó eftir að við höfum undirritað sérstakt bótaalsal þannig að við fáum ekki bætur nema fyrir örkuml eða dauða. Samt þurfum við i dag að greiða um það bil 10.000 krónur i tryggingar fyrir eina slika keppni. — Hafið þið itrekað beðið um sérstök æfingasvæði? — Já, það er vist óhætt aö segja það. Áður en okkar landssamband var stofnað vorum við i Félagi Íslenskra bifreiðaeigenda. FIB sendi bréf til borgarstjórnar Reykjavikur og bað um æfingasvæði fyrir okkur á torfæruhjólunum. Ekkert kom út úr þvi. Við sendum svo bréf til borgaryfirvalda fyrir tveimur árum og svar við þvi bréfi hefur ekki einu sinni borist ennþá. — Og þið hafið þá i raun hvergi getað æft? — Við höfum haft bráöabirgðaleyfi fyrir svæði upp við Rauðavatn og auk þess er okkar aðalsvæði suður við Grindavikurafleggjara, rétt hjá Keflavikurveginum. Þar höfum við svæði á s.k. Broad-street en þangað er alllangt að fara fyrir allan þann fjölda sem býr hér á Reykjavikursvæðinu þannig að þar er aðeins um bráðabirgðalausn að ræða einnig. Það sem þarf til að koma er að við fáum aímarkað æfingasvæði sem við mundum sjá algerlega um sjálfir. Þá fyrst væri möguleiki á að útrýma að mestu þeim torfæruakstri sem sifellt er að aukast hér á götum bæjarins, sagði Októ Einarsson að lokum.

 Þjóðviljinn 19.ágúst 1982

17.4.82

Þrælskemmtileg þríhjól 1982



Motorsport 4.tb. 3 árg.82

Það er ekki mörg ár síðan framleiðsla svokölluðu  ,,Three wheeler" hjólana hófst. Það má segja að þetta sé milligerð vélsleða og mótorhjóls, jafnvígt á auðu og í snjó, þægilegt í meðförum og alveg tilvalið fyrir þjóðir eins og íslendinga. Það er því meiningin með þessari grein að kynna fyrir ykkur lesendur góðir, kosti og galla þessara hjóla og fyrir hverja hjólin eru heppileg. Að vísu er einstaklingbundið hvort viðkomandi hafi hug á leikfangi eða vinnutæki eða hvoru tvekkja. En víkjum fyrst að smíði þeirra og uppbyggingu.
Eins og með flest tæki þá var byrjunarframleiðslan tilraun ein. Ekkert var vitað hvernig móttökur fyrirbærið fengi, hvort það yrði einfaldlega skellihlegið:  ,, Þríhjól fyrir fullorðna, ekki nema það þó" eða hvort það mundi slá í gegn. Og sú varð reyndar raunin. Þetta sannaði enn frekar góða kenningu um hver munurinn væri á leikföngum barnaog fullorðinna. Aðeins verðmunur leikfanganna!

Vinsældir þessara hjóla hafa aukist svo hratt að annað eins þekkist ekki í nokkuri annari mótorsportgrein. Nú þegar eru háðar hinar hörðustu keppnir í svipuðum dúr og móto-cross vélhjóla eða cross-country, og þróun fjöðrunar hefur notið góðs af áratuga langri þróun vélhjólafjöðrunar.
Einhföldustu gerðir þríhjólanna hafa ekki þörf fyrir nokkra aðra fjöðrun en þá sem í breiðu dekkjunum felst. Það eru ekki nema 2-3 punda loftþrýstingur og vaggar hjólið skemmtilega á þeim í torfærum. Þær gerðir hafa vanalega allt drifkerfið lokað svo ekki komast nein óhreinindi að. Það má bjóða þeim nánast allt. Svo eru vitanlega framleiddar ýmsar gerðir sem koma til móts við margvíslegar óskir manna og þar á meðal um hestaorku. Erlendis hafa bændur sem búa við erfið landslagsskilyrði tekið hjólunum fegins hendi. Þau eru góð í snjó fljóta vel yfir votlendi, einkar heppileg á þurru og komast alveg ótrúlega mikiðí torfærum.


Enn sem komið er eru japönsku stórfyrirtækin Honda, Suzuki, Yamaha og Kawasaki ásamt Sænska Husquarna nær einu framleiðslufyrirtækin,  Hingað til lands eru komnar gerðir frá Honda Yamaha og Kawasaki og fengum við þá Eirík Kolbeinsson, Markús Guðmundsson og Guðjón Sigurðsson til liðs við okkur , en þeir eiga allir sitt hjólið hver. Þess skal getið strax að grein þessi er ekki hugsuð sem samanburðarreynsluakstur tegunda heldur eingöngu sem kynning á þríhjólafyrirbærinu,

Hjólin sem félagarnir eiga eru óskráð og verða þer því að flytja þau milli á kerru eða þá að hjóla utan vegar. Það er þó ekkert vandamál að fá þau skráð, einungis þarf að bæta við flautu, háa geislanum í framljósið og koma fyrir aurhlífum svo að Bifreiðaeftirlitsmenn verði ánægðir. Eflaust munu margir af tilvonandi eigendum slíkra hjóla fara þá leið og geta ferðast jafnt á vegum sem vegleysum æi hvernig færð sem er.

Þeir Eiríkur , Markús og Guðjón tóku blaðamann Mótorsports með í eina skemmtireisu nú fyrir stuttu. Lagt var af stað frá Morfellsveitinni og haldið sem leið liggur að hafravatni og síðan beint upp í fjöll. Það gætu kannski sumir farið að bölva núna í þessum eilífu utanvegafarartækjum sem gera lítið annað en að stórskemma náttúruna, en því fer fjarri með þríhjólin. Dekkin eru það breið og hjólið létt að ekki einu sinni í mosagrónu landi vottar fyrir skemmdum. 

Eftir smá æfingu geta menn farið að gera ýmsar kúnstir á hjólunum.
 Ein aðalreglan að stíga aldrei niður fæti því þá er hætta á að lenda í afturdekkinu.
 Þess í stað verður maður að halla sér vel í öfuga átt við halla hjólsins
og eru þau þá alls ekki völt eins og margir halda.
Við ókumyfir stokka og steina en héldum okkur þó mest á harðfenninu. Þar eru hjólin einstaklega skemmtileg og hægt að leika hinar ýmsu listir á þeim eins og meðfylgjandi myndir bera með sér. Þetta tæki sem erú mjög einföld í meðförum og henta svo að segja öllum. Húsmæðurnar hafa líka látið freistast og skemmt sér konunglega. Þeir félagar hafa ferðast töluvert á hjólunum og láta vel af þeim í alla staði. Einn fór síðasta sumar yfir dý sem var svo botnlaust að gangandi manni var gjörsamlega útilokað að komast þar yfir. Í ám og vötnum eru hjólin seig svo lengi sem straumurinn er ekki mikill. Þegar vatnshæðin er komin yfir dekkin þá verða þau mjög létt vegna alls loftsins í dekkjunum, Ef stigið er af því þá hreinlega lyftist afturendinn upp frá botninum. En allur gusugangurinn truflar ganginn ekki hið minnsta. 

Skemmtilegasta landslagið sem þeir geta hugsað sér sru sandar og hólar eins og á leiðinni frá Höfnum til Grindavíkur. En að sjálfsögðu eru þríhjólin ekki fullkomin að allra mati. Þetta er milligerð vélsleða og mótorhjóls og nær ekki öllum eiginleikum þeirra. Vélsleðarnir eru í dag flestir miklu hraðskreiðari og kraftmeiri. Sumir hverjir eru með yfir 100 hestöfl og ná hámarkshraða yfir 150 km/klst. En þannig sleðar kosta líka dágóðann skilding eða álíka og góður nýr bíll. Og fyrir utan kraft og hraðaþá slá vélsleðarnir þríhjólunum ekki við í lausamjöll. Hinu er þó ekki að neita og þá sérstaklega fyrir sunnanmenn, að þríhjólin hafa meira notagildi og meiri möguleika. Mótorhjólin hins vegar eru yfirleitt með meiri kraft og hærri hámarkshraða, en eru ekki eins meðfærileg í öllum aldurshópum og dugleg í votlendi og víðar. Verðið á þríhjólunum er á við venjulegt torfæruhjól eða um 60 þúsund. Það er þó eitthvað breytilegt eftir tegundum og gerðum, en okkur sýnist sem það sé hægt að eyða peningunum í margt vitlausara.
Hvað er skemmtilegra en að leika sér fjarri mannabyggðum í harðfenni eða sandi er vel viðrar? 
Það má líka ferðast um allt á hjólunum og vekja þau hvarvetna gífurlega athygli.

Þeir Eiríkur og Markús eru á Kawasaki hjólunum sem eru af árgerð 1982, en Guðjón eri á Hondunni sem er ári eldra. KAwasaki hjólin eru með 250cc. fjórgegngismótor sem skilar 18 hestöflum og hefur óvenju mikinn togkraft. Þetta telst ekki há hestaflatala úr þessari stærð af mótor en dugir samt vel til að ná 95 km hraða. En aðaltrompið er bensíneyðslan, sem hemur öllum jafn mikið á óvart. Miðað við að hamast á hjólunum á bornsnúning í klukkutíma þá fer eyðslan ekki yfir 1,5 lítra. Þetta má færa yfir á venjulega eyðslumátann ca. 1,6-1,8 lítrar/100 km. Og til staðfestingar getum við tekið umræddan fjögurra tíma túr þar sem eyðslan var ekki meiri en 3 lítrar. Hjólin eru einnig mjög sterkbyggð og gangviss. Auðvitað kenur fyrur ap men ofkeyri sig í leikaraskapnum, fari á hlið, aftur fyrir sig eða jafnvel alveg á toppinn og haf þa´brotnað bæði ljós og hanföng. Eina bilunin hefur hins vegar verið keðjustrekkjarinn sem greinilega er ekki rétt hannaður á þessari árgerð.

Honda hans Guðjóns er aðeins kraftminni en Kawasakihjólin og af einfaldari gerð. Saknar hann þar helst framdempara eins og á Kawasaki hjólunum en að öðru leyti er uppbyggingin svipuð. Hondaumboðið kynnti fyrt þessi hjól hérlendis í sumar en stór sending væntanleg frá þeim svo og öðrum þríhjólainnflytjendum sem eru Bílaborg með Yamaha og Sverrir Þóroddson með Kawasaki. Er þessum hjólum spáð mikilli velgengni hér á Íslandi, bæði fyrir almenning til leiks, bændur og aðra sem búa við erfið samgönguskilyrði svo og björgunarsveitir. Verður gaman að fylgjast með þróuninni og án efa mun í kjölfarið fylgja einhverskonar keppni , annaðhvort í trial eða cross-country formi.
Og í lokin þökkum við þeim þremenningum klega fyrir þræskemmtilegan dag og vonumst til að sjá þá sem oftast á hjólunum.
JSB
Mótorsport
1982















14.2.82

Próflausum strákum fjölgar


„Próflausum strákum á mótorhjólum fjölgar ört"


- segir Þorvarður Björgúlfsson, sem tvívegis hefur orðið íslandsmeistari i Motorcrosskeppninni


■ Þeir sem áhuga hafa á mótorhjólum sem leiktækjum eða sporti fylgjast sennilega með Mótor Cross keppnum sem haldnar eru með vissu millibili. Mér fannst þvi tilvalið að ræða við Þorvarð Björgúlfsson sem unnið hefur islandsmeistaratitilinn tvisvar í Mótor Cross keppnum.

Hvað varstu gamall þegar þú fékkst fyrst áhuga á mótorhjólum?
— Ég var 13 ára, þá voru strákarnir að byrja að fá sér hjól og maður varð alveg sjúkur þegar þeir voru tætandi hjólin upp og niður göturnar próflausir og fannst náttúrlega óréttlátt að þeir fengu að keyra um, en ekki ég. 

Hvers vegna varst þú ekki lika á hjóli?
— Það var.númer eitt af þvi að foreldrar minir sögðu þvert nei við þvi að ég væri á hjólinu próflaus. Svo spilaði peningaleysið einnig inn í, ég átti náttúrlega ekki pening fyrir hjóli þegar ég var 13 ára gutti. Þá fór dellan i lægð i smá tima, en þegar ég var aö verða 15 ára keypti ég mér fyrsta hjólið, og var þá búinn aö aura saman öllum þeim pening sem ég náöi I. Upp úr þvi varö ég bitinn og kokgleyptur af dellunni. Frá 15 til 17 ára aldurs er mótorhjól eina löglega farartækið sem unglingar mega vera á, fyrir utan reiðhjól, maður veröur mjög fljótt háður þessu farartæki, þaö er létt og lipurt og maður nennir hreinlega ekki að labba neitt eftir aö maður verður háður þeim, þetta er nákvæmlega það sama og hendir bileigendur.

 Er mikið um það að krakkar keyri hjólin próflaus?
— Já mjög mikið, það má segja að flestir sem hafa áhuga á mótorhjólum komist yfir hjól á aldrinum 13-14 ára. Ég held ég geti sagt að aukningin á próflausum strákum á mótorhjólum hafi byrjað fyrir svona 5-6 árum og siðan hefur þeim fjölgað ört.

Foreldrar kaupa sér frið 

— Hvers vegna? 
— Krakkar hafa miklu meiri pening handa á milli i dag en áður tiðkaðist, foreldrarnir eru of uppteknir af sjálfum sér og skipta sér takmarkað að þessu og jafnvel kaupa sér friðinn. Lögreglan tekur ekki nógu hart á þvi að krakkar séu að keyra próflausir, þegar hún tekur próflausan einstakling þá er farið með hjólið niður á stöð og foreldrarnir látnir sækja það, og síðan er smá peningasekt. Þetta getur endurtekið sig aftur og aftur.

Hverja telur þú skýringuna á þvi að færri stelpur eru á mótorhjólum en strákar? 
— Ég tel að það geti verið margar ástæður fyrir þvi, þær hafa yfirleitt mikið minni pening handa á milli en strákar, sem stafar fyrst og fremst af þvi hve þærfá verr launaða vinnu og einnig hversu erfitt er fyrir þær að fá vinnu á sumrin. Nú svo, ef þær eignast einhvern pening, þá kjósa þær yfirleitt frekar að eyða honum i eitthvað annað. Ástæðan gæti lika verið þessi gamla, þekkta um hlutverkaskiptin. Svo getur það lika verið almenningsálitið, ég man eftir þvi þegar ég var að byrja, þá voru nokkrar sem fengu sér hjól, þær misstu fljótlega samband við hinar stelpurnar, sem voru ekki á hjólum, en komust ekki alveg inn i hóp strákanna, sem voru á hjólum, þær urðu þvi mjög oft einar og á milli hópa, og yfirleitt fengu þær viðurnefni af hjólinu. En sem betur fer er þeim alltaf að fjölga og ég get bætt þvi við að strákar liti frekar upp til stelpna sem eru á hjólum.

— Hvenær byrjar þú svo i Mótor Cross? 
— Dellan fyrir torfæruhjólunum kviknaði i gryfjunum. Félagslifið er venjulega mjög mikið þar og þangað getur maður farið og fengið útrás á hjólinu þ.e. tætt upp og niður hæðir og dali, prjónað og stokkið, óáreittur af lögreglunni. Upp frá þessu gerðist ég félagi i Mótor Cross klúbbnum.

Reynir á þol og hugsun


Hvað er Mótor Cross? 
— Mótor Cross er fyrst og fremst sport, þetta er keppnisgrein og önnur erfiðasta íþróttagreinin. Þegar maður er i keppni eða að æfa þá reynir þetta bæði á þol og hugsun. Maður þarf að vera fljótur að hugsa og taka ákvarðanir um það hvernig og hversu mikið á að halla hjólinu i beygjum, hvar eigi að bremsa og hvar eigi að vinna upp hraðann. Til gamans má geta þess að þeir sem æfa þrekæfingar reglulega eru gjörsamlega búnir eftir einn góðan túr á torfæruhjóli. Þessi iþróttagrein er mjög fjölbreytt maður kemst um allt bæði á vetrum og sumri.

Fer gróðurinn ekki illa á þvi þegar þið tætið upp og niöur fjallshliðar og fjöll?
 — Það er útbreiddur misskilningur að við tætum upp allan gróður um þær slóðir sem við förum, þvi i þeim ferðum sem ég hef farið i, þá hafa verið tætt upp fjöll, sem eru gróðursnauð, en við förum um göngustiga á þeim stöðum sem eru grónir, leiðirnar eru alltaf valdar i gróðri og passað er upp á að eyðileggja ekkert.

— Eru margir félagar í Mótor Cross klúbbnum?
 — Nei það eru ekki margir félagar i klúbbnum. Þessi grein fær mjög litla kynningu i fjölmiölum og er þá hægt að nefna sjónvarpið sérstaklega. Bjarni Felixson hefur marg oft lofað að koma og láta taka myndir en alltaf svikið það. Þetta er mjög slæmt þvi við þurfum bara góða kynningu, það hefur marg oft komið fyrir að fólk slysast til að koma á keppni, það verður undantekningalaust mjög hrifið, og þakkar okkur fyrir góða og spennandi keppni. Fólk hefur oft orð á, að það hefði ekki trúað, að það gæti verið svona gaman á keppnum.

Munar oft mjóu að maður sé hreinlega keyrður niður


 Finnst þér vera tekið tillit til fólks á mótorhjólum i umferðinni? 
— Nei alls ekki, það kom oft fyrir að það munaði mjóu, að maður væri hreinlega keyrður niður, þvi ökumenn bifreiða reikna aldrei með því að mótorhjól eða aðrir farkostir en bílar séu í umferðinni. 

Hvað mundir þú ráðleggja unglingum á mótorhjólum i umferðinni að varast? 
— Ég myndi segja að maður mætti aldrei trúa á náungann, taka verður fáránlegustu viðbrögð með í reikninginn. Mitt motto er að ef maður ætlar að lifa það af að vera á mótorhjóli á götunni, þá verður maður að vera eins og einstaklingur sem haldinn er ofsóknarbrjálæði!
 
Tíminn 14.2.1982

Ég berst á fáki fráum! 1982

Frá vinstri Þorsteinn, Hugi, Haraldur og Kjartan.

— Unglingasíðan ræðir við þrjá mótorhjólatryllara


■ ,, Honda", „Yamaha", „Suzuki" „allirstrákarnir fá hjól!" Hver kannast ekki við þennan frasa?
Þetta viröíst vera visst skeið á þroskaferli flestra stráka / að dást að þessum mikla krafti sem þeir geta hamið milli fóta sér. En hvers vegna eru yfirleitt bara strákar á mótorhjólum? Ég hef litla trú á því að þetta sé einungis karlkyns íþrótt, alla vega hef ég séð ófáar stelpur sitja aftan á mótorhjólum, æpandi kannski af „æsing" eða „hræðslu". Þetta er kannski endurvakning rómantíkurinnar i nútímalegum búningi/ sem sagt að það sé karlmannlegt að vera á mótorhjólí, þvi þar fá strákarnir tækifæri til að sýna listir sínar og þor með ýmsum brögðum. Einnig gæti svarið falist í undirtektum foreldra, jú það er i lagi þó strákurinn fái hjól, það er bara eðlilegt. En stelpan! Hvað hefur hún að gera með það? hún er kolrugluð! En hvað um það.flestir sem ætla sér komast yfir mótorhjól og keyra það jafnvel próflausir. Foreldrar virðast standa ráðalausir gagnvart þessum vanda, og hafa kannski þurft að horfa upp á börn sín limlestast eða að þau haf i hlotið varanlegan andlegan skaða af völdum slyss á mótorhjólinu. Ég náði tali af þrem 15 ára Garðbæíngum sem allir eiga og hafa áhuga á mótorhjólum. Þeir heita Kjartan Björgvinsson, Hugi Ingibjartsson og Haraldur Grétarsson.

K: Ég rændi fyrsta mótorhjólinu frá bróður minum þegar ég var 13 ára það er að segja ég borgaði ekkert út og afganginn eftir minni. En blessuð ekki skrifa það þvi þá rukkar hann mig!
Hu.: Ég vann 500.000.- gamlar krónur i happdrætti þegar ég var 14 ára og fyrir þann pening keypti
ég mér hjól.
Ha.: Mamma og pabbi hjálpuðu mér að kaupa hjól þegar ég  var 14 ára það er að segja þau
borguðu útborgunina og ég einhvern slatta. — Nú fáið þið ekki próf á hjólin fyrr en 15 ára keyrðuð þið próflausir til að byrja með?
K.: Já blessuð vertu það gera flestir, ég fékk hjólið 13 í ókeyrsluhæfu ástandi. Ég gerði við það í snatri og byrjaði að nota það.
Hu: Ég átti að horfa á hjólið inni i bílskúr þangað til ég yrði 15 ára og fengi prófið, en auðvitað
freistaðist maður, og til að byrja með mátti maður keyra fram og aftur götuna heima en maður
varð fljótt þreyttur á þvi svo þetta þróaðist fljótlega út í það að maður var farinn að keyra um
allan Garðabæinn.
— Hvað sögðu foreldrar ykkar við þvi að þið væruð að keyra próflausir á hjólunum?
Ha.: Þeir „sungu" i fyrstu!
K.: Þeim var nátturulega mjög illa við það, en hvað gátu þau gert við vorum komnir með hjólin í
hendurnar.

Notaði aukalyklana þegar löggan tók hina

Hu.: Ég var tekinn einu sinni, löggan tók lyklana af hjólinu minu og ætlaðist til að mamma
myndi geyma þá og ábyrgjast að ég myndi ekki snerta hjólið fyrr en ég fengi prófið. Mamma
treysti sér ekki til þess að ábyrgjast þetta svo löggan fór með lyklana mina, en ég notaði auðvitað
aukalyklana af hjólinu!
K.: Löggan reyndi oft að ná mér og vinum minum en tókst það aldrei við stungum hana alltaf af.
— Hvernig?
K.: Við þræddum alla göngustigana og stundum slökktum við ljósin á hjólunum ef það var myrkur og keyrðum ljóslausir, við gátum alltaf stungið hana af.
— Hver er tilgangurinn með þvi að eiga mótorhjól?
Ha.: Hjólið er mjög gott samgöngutæki maður er miklu fljótari i ferðum en annars.
K.: Svo er það lika leiktæki.
— Hvað meinarðu með leiktæki?
K.: Nú það er hægt að nota það til að stinga lögguna af! svo er lika mjög gaman að fara i sandgryfjurnar og tæta þar upp og niður.
— Eruð þið í einhverjum mótorhjólaklúbb?
K.: Já ég er i V.í.K. sem er skammstöfun fyrir Vélhjólaiþrótttaklúbbinn. Þetta er klúbbur fyrir áhugamenn um Motor Cross hjól, en það eru torfæruhjól sem maður notar ekki á götuna, klúbbmeðlimir hittast einu sinni i mánuði á Hótel Loftleiðum og rabba saman en á sumrin er oft farið i ferðir út á land.

Stoppaðar buxur, járnslegnir skór, brynja og hjálmur

— Þarf ekki vissan útbúnað ef maður er á torfæruhjólum?
K.: Jú ég á buxur sem eru allar stoppaðar, svo er ég i járnslegnum skóm, siðan er maður i brynju
sem sett er yfir bringuna og siðast en ekki síst hjálmur.
— Á hvernig hjólum eruð þið?
Ha.: Við erum allir á 50 kúbbiga Hondum, en Kjartan á lika Yamaha torfæruhjól.
— Hafið þið ferðast eitthvað út á land á hjólunum?
K.: Ég fór i fyrrasumar til Selfoss.
Hu.: Við förum litið út á land á þessum hljólum, þetta eru aðallega samgöngutæki innanbæjar.
— Stefnið þið að þvi að fá ykkur stórt götuhjól og ferðast til útlanda á þeim?
Hu.: Nei alls ekki, það er ekkert gaman að þeim, ég ætla miklu heldur að fá mér stórt torfæruhjól, maður kemst svo æðislega margt á þeim. Það væri t.d. fint fyrir bændur að smala á þeim, það er hægt að klifra upp flest fjöll og komast yfir flestar ár.

Ferlega dýrt

— Hvernig stendur á þvi, að miklu færri stelpur en strákar eru á mótorhjólum?
K.: Það er eiginlega okkur eiginlegt að hafa kraftinn á milli fótanna — AhahaA! —
Ha.: Þær vilja kannski nota peningana I annað, þetta er dýrt sport, fyrst þarf maður að kaupa
hjólið og svo er það bensinið maður! Þó að hjólin eyði litlu þá er þetta ferlega dýrt.
— Hvernig farið þið að þvi að reka hjólin?
K.: Ég vinn með skólanum i Garðshorni.
Ha.: Karlinn og kerlingin  borga það yfirleitt.
Hu.: Það er yfirleitt hægt að redda pening.
— Breyttist vinahópurinn með tilkomu mótorhjólanna?
K.: Maður kynnist nátturulega fullt af krökkum i kringum hjólin.
Hu.: Það eru svo margir sem nenna ekki að ganga!
Ha.: Vinahópurinn breytist ekki þannig að maður hætti að vera með gömlu vinunum þó þeir eigi ekki hjól, hópurinn stækkar frekar, það er að kunningjunum fjölgar.
— Finnst eða fannst ykkur flott að vera á mótorhjólum?
K.: Fyrst fannst manni þetta æðislegt, svo kemst maður fljótt að þvi hversu þægilegt þetta er.
Ha.: Maður notar hjólin mikið vegna þess hve fljótur maður er á milli staða.
K.: — og maður litur ekki eins á hjólin i dag eins og maður gerði t.d. fyrir 2 árum. Þetta er meira
til þæginda.
— Er þá ekki næsta skref að fá sér bilhræ til að liggja yfir eða undir og keyra siðan próflaus i
einhvern tima?
K.: Ha! Nei, ertu vitlaus!
— Er tekið tillit til ykkar i umferðinni?
Hu.: Það er misjafnt, stundum og stundum ekki.
— Hvað komist þið hratt á hjólunum?

Það rífa allir innsiglin af

Hu.: Við eigum ekki að komast Í yfir 50 km hraða á klst. vegna þess að hjólin eru innsigluð, en
maður tekur auðvitað innsiglið af og þá kemst maður yfir 100 km hraða á klst.
K.: Það rifa allir undantekningalaust innsiglin af.
— Hafið þið þá aldrei verið teknir fyrir of hraðan akstur?
Hu.: Jú ég var tekinn á 105 km hraða á Hafnarfjarðarveginum, en þrætti fyrir það,sagðist vera á
85 km hraða og löggan samþykkti það.
— Þegar þú varst tekinn á þessum hraða gerði lögreglan ekki athugasemd út af þvi að innsiglið var farið af hjólinu?
Hu.: Nei, hún skipti sér ekkert af þvi, hún gerir það aldrei, maður fær bara sekt.
— Hafið þið lent i slysi á hjólunum?
Hu.: Ég var keyrður niður um daginn, en var i 100% rétti, ég marðist aðeins, og fékk allt borgað úr tryggingunum.
— Hafið þið einhver önnur áhugamál?
K.: Já ég er mikið á skiðum.
Hu.: Ég veit ekki, ekkert held ég, jú! Ég á talstöð og ligg oft yfir henni.
Ha.: Ég æfi iþróttir.
— Þegar þið hugsið til baka finnst ykkur ekki glæfralegt að hafa verið á hjólunum próflausir?
K.: Jú sérstaklega vegna þess að maður hafði ekki umferðarreglurnar á hreinu, eins og t.d.
hver ætti réttinn þegar maður kom að gatnamótum, maður gerði bara eitthvað. Lika vegna
þess að maður var i gjörsamlegum órétti t.d. ef maður hefði slasað einhvern þá þyrfti maður að
borga sjálfur skaðabætur til hins slasaða, úr eigin vasa.
Ha.: Það sama skeður ef eitthvað kæmi fyrir þann, sem maður reiðir þó maður hafi próf.
Hu.: — maður er alltaf i órétti þegar maður reiðir.
— Gerið þið ykkur grein fyrir þeim slysahættum sem geta stafað af þessum hjólum?
Ha.: Já, já.
Hu.: Þetta er ekkert ofsalega hættulegt maður keyrir venjulega bara hratt á steyptum, beinum vegi, hvað ætti að geta komið fyrir?
K.: Góði, það hafa mörg slys einmitt skeð við þannig aðstæður!
— Að lokum voru þeir sammála um það að slysin gera ekki boð á undan sér og að þau geta jafnvel
átt sér stað á beinum, steyptum vegi.
Sigriður Pétursdóttir.
Tíminn 14.2.1982