Slysið varð vorið 2007 á gatnamótum við Reykjanesbraut og var dæmigert að mörgu leyti, þar sem ökumaður gerir ekki ráð fyrir mótorhjóli og ekur fyrir það. Algengasta tegund mótorhjólaslysa eru árekstrar á gatnamótum, samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknarnefnd umferðarslysa, og í langflestum tilfellum lendir þar saman hjóli og bíl. Vandinn liggur því ekki síður hjá ökumönnum bíla, þegar þeir gleyma að taka tillit til mótorhjóla í umferðinni.
Tilgangslaust að vera reiður
Þórarinn tvíkjálkabrotnaði, viðbeinsbrotnaði og handleggsbrotnaði báðum megin. Mjaðmakúlan vinstra megin fór í gegnum mjaðmagrindina og vinstri ökklinn fór í sundur. Rifbein sem brotnuðu stungust í gegnum lungun á honum og slagæð fór í sundur. Þórarni var haldið sofandi í öndunarvél í rúmar þrjár vikur og útskrifaðist 6 mánuðum eftir slysið eftir þrotlausa endurhæfingu á Grensásdeild, en rætt var við sjúkraþjálfara þar sem unnu með Þórarni á Mbl.is í gær.
Áverkarnir sem Þórarinn hlaut voru svo alvarlegir að ótrúlegt má heita að hann lifi, enda segist Þórarinn þakklátur fyrir að vera á lífi og ekki tjái að velta sér upp úr því sem hann hafi misst. „Það er endalaust hægt að vera sár og reiður út í lífið, en maður tapar sjálfum sér og öðrum á því að gera það. Slysin gerast og aumingja maðurinn sem lenti í því að fara fyrir hjól og gera mann örkumla, það er á samviskunni hans allt hans líf."
Breyttur maður vegna heilaskaða
Þórarinn hefur náð markverðum bata eftir slysið, en mun hinsvegar aldrei ná sér að fullu. Hann er með lamaða hægri hönd og með stöðuga verki, en þeir áverkar sem erfiðast hefur reynst að læra að lifa með sjást þó ekki utan á honum, því þeir urðu inni í höfðinu á honum. Þórarinn segist hafa grínast með heilaskaðann fyrst og ekki gert sér grein fyrir hvað hann háir honum mikið.
Hann á erfitt með að skipuleggja, muna hluti, finna orð og tala í samhengi. Hann segist í fyrsta skipti hafa kynnst því að til sé nokkuð sem heiti andleg þreyta. „Að gera ekkert er leiðinlegt, en svo ef maður fer að reyna að rembast og segja „ég get þetta alveg" þá kemst maður að því að það er ekki svoleiðis. Raunveruleikinn er ekki að geta, heldur að takast á við lífið eins og það er. En það var svolítið erfitt fyrir mig fyrst að biðja um hjálp." Skaði á framheila olli persónuleikabreytingum, sem hann skynjar að vísu ekki sjálfur, en hans nánustu hafa sagt honum það. Hann hefur í kjölfarið m.a. starfað með Hugarfari, félagi fólks með áunninn heilaskaða.
Mun fleiri mótorhjól í umferðinni
Margfalt fleiri mótorhjól eru í umferðinni í dag en fyrir áratug. Þannig voru 2.279 mótorhjól skráð árið 2000, en árið 2011 voru þau 9.922 talsins. Það er 440% aukning. Á sama tíma fjölgaði mótorhjólaslysum um 230%, samkvæmt tölum frá Umferðarstofu. 32 slösuðust eða létust á mótorhjóli árið 2000, en 107 árið 2008 sem var metár að þessu leyti. Sem betur fer hefur þó dregið úr alvarlegustu slysunum, og í fyrra voru þau 74 talsins. Hér má sjá kort yfir öll banaslys í umferðinni á Íslandi undanfarin 5 ár.
Árið 2007, þegar Þórarinn varð fyrir slysinu, urðu margir mótorhjólamenn fyrir samskonar slysum. Tveir þeirra létu lífið. Þetta varð til þess að Umferðarstofa réðst í auglýsingaherferðina „Fyrirgefðu, ég sá þig ekki", til að hvetja til meiri aðgátar gagnvart mótorhjólum. Síðan hefur dregið úr alvarlegustu slysunum. Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu, segir að reynsla og viðhorf hafi áhrif og árangurinn megi m.a. þakka því að vegfarendur séu nú orðnir vanari mótorhjólum í umferðinni.
Dýrkeypt að gleyma sér eitt augnablik
Þórarinn telur þó að fólk mætti vera enn meðvitaðra. „Þegar þetta er komið í praksis og maður er í umferðinni, þó að viðhorfið sé að líta tvisvar og allt það þá koma þessi tilfelli, að fólki vilji drífa sig til að ná rauða ljósinu. Það eru alltaf svona smá augnablik í umferðinni þar sem fólk gleymir sér eða er bara í sínum eigin heimi."
Þórarinn var á mótorhjóli á leið í grillveislu þegar ekið var í
veg fyrir hann. Ljósmynd/Þórarinn Karlsson
Þessi litlu augnablik geti verið dýr, eins og Þórarinn fékk sjálfur að reyna. „Ég skildi ekki hvað slys og áhætta er fyrr en ég var sjálfur búinn að lenda í þessu. Það er í sjálfu sér ekki slysið sjálft, það tekur bara einhverjar sekúndur, en það eru afleiðingarnar sem fólk er að berjast við í mörg, mörg ár. Og það er ekki bara manneskjan sem slasast sem lendir í þessu, heldur allt fólkið í kring sem upplifir þetta með manni."
Þórarinn bendir á að umferðarslys séu eins og öfugt lottó. Nokkuð sem enginn vilji lenda í, en enginn reikni heldur með því. Hann telur að besti hugsunarhátturinn í umferðinni sé eins og annars staðar, að koma fram við náungann eins og sjálfan sig. Enginn breytt hegðun fólks nema það sjálft. „Ég breyti þér ekki, þú breytir þér."
Þórarinn var á mótorhjóli á leið í grillveislu þegar ekið var í veg fyrir hann. Ljósmynd/Þórarinn Karlsson
Margfalt fleiri mótorhjól eru í umferðinni í dag en fyrir áratug og árið 2007 urðu mörg samskonar slys og Þórarinn varð fyrir.
Mbl.is/Elín Esther
4.7.2012