Sýnir færslur með efnisorðinu Fróðleikur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Fróðleikur. Sýna allar færslur

8.5.20

Prjónbekkur sem lokaverkefni


Hrannar Ingi smíðaði vagn til að æfa prjón á mótorhjóli sem lokaverkefni í Verkmenntaskólanum.



„Þetta byrjaði á YouTube-myndbandi sem ég sá af Rússum sem voru búnir að smíða svona græju,“ sagði Hrannar Ingi Óttarsson um tilurð þess að hann smíðaði vagn með mótorhjólagrind til prjónæfinga sem lokaverkefni sitt hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri. „Verkstjórinn minn hló bara og sagði að ég væri ruglaður en var samt mjög opinn fyrir þessu og fannst þetta spennandi.“
   Hrannar Ingi fékk svo rennismið með sér í verkefnið og græjan fór smátt og smátt að verða til.     
 Smíðin er þó ekki einföld því að hjólið þarf bókstaflega að keyra í gír á föstu kefli og þarf því mótorhjólið að vera kyrfilega fast ofan á þessu öllu saman, en samt geta risið að framan. Knapinn stjórnar svo risinu með inngjöf og temprar það með afturbremsunni. Græjan hans Hrannars er því mjög góð til að sýna fólki hvað gerist við prjón á kraftmiklu hjóli og hvernig er best að ná stjórn á því aftur.

 Bannað á götum úti 


Samkvæmt nýju umferðarlögunum er bannað að lyfta viljandi framdekki í akstri en þar sem mótorhjólið er kyrrstætt ætti það ekki að koma að sök í þessu tilviki. „Við ætlum að vera með hjólið á svæði Bílaklúbbs Akureyrar í sumar en það er æfingasvæði. Jafnvel sýnum við græjuna á hjóladögum í sumar og kíkjum jafnvel suður. Áður en það er gert þarf samt að setja öryggisbelti á hjólið sem er fest við stýrið svo að óvanir detti ekki af hjólinu,“ sagði Hrannar Ingi sem greinilega vill hafa
græjuna eins örugga og hægt er.
    Hrannar vildi koma á framfæri sérstöku þakklæti fyrir hjálpina sem hann fékk við smíðina hjá vinnufélögunum í Slippnum á Akureyri. Einnig var hann ánægður með að kennari hans skyldi gefa honum grænt ljós á svona verkefni sem ekki allir átta sig á hvað er. Svona græja sést ekki á hverjum degi þótt einhverjir hafi kannski séð svona í útlöndum.
 Hver veit nema við fáum að sjá meira af græjunni hans Hrannars í sumar einhvers staðar á landinu, ef COVID lofar.




Fréttablaðið
bls 20


7.5.20

Nýjungar í rafhjóli frá Kawasaki

Það er ekkert leyndarmál að Kawasaki er að þróa nýtt rafmagnshjól og framleiðandinn hefur nýlega sett á netið myndbönd af hjólinu. 

Þau sýna hjólið í akstri og sundurtekið og gefa meiri hugmynd um hvernig endanleg útgáfa þess verður.
Það sem er athyglisvert er að hjólið virðist búið fjögurra gíra kassa og með keðju í stað beltis sem er algengast í rafhjólum. Skiptingin er líklegast hraðaskipting þar sem að það er engin kúpling.
Hjólið virðist að mestu byggt á grunni Z650-hjólsins en með meiri hlífum eins og sporthjól. Rafmótorinn er neðstur en rafgeymirinn er þar sem vélin er venjulega, og hleðslubúnaður þar sem bensíntankurinn var.
Rafmótorinn er sagður vera 26 hestöfl en engar upplýsingar eru enn þá um tog hans, en það eru tölur sem skipta meira máli í rafmótorum. Hjólið hefur fengið nafnið Endeavor en engar dagsetningar um frumsýningu þess eða hvenær það muni koma á markað eru fyrir hendi.

Fréttablaðið 

6.5.20

Ætla með hjólin sín á sýninguna í Köln


Bikevík er nýtt fyrirtæki í Njarðvík sem sérhæfir sig í breytingum mótorhjóla. Blaðamaður Fréttablaðsins heimsótti það á dögunum til að skoða betur mótorhjólin sem það var um það bil að afhenda, en þau eru flest af BMW-gerð.


Arnar Steinn Sveinbjörnsson varð fyrir svörum. „Við byrjuðum á þessu fyrir um þremur árum síðan en fram að því hafði maður ekki haft tíma til að gera þetta, sem manni finnst svo skemmtilegt. Fyrsta hjólið sem Bikevík breytti var Kawasaki ER500 hjól sem var breytt á tveimur vikum og tókst bara vel,“ segir Arnar. Fljótlega þróaðist áhuginn á að breyta BMW-hjólum vegna áhuga á BMW-bílum og K-hjólin voru einföld að gerð og auðvelt að breyta þeim á ýmsa vegu. Hefur Bikevík breytt þeim meðal annars í Cafe Racer hjól og líka í Scrambler hjól. „Nýjasta BMW-hjólið sem breytt er í Cafe Racer hefur fengið töluverða athygli á heimasíðum sem sérhæfa sig í breyttum mótorhjólum og eins og annar mótorhjólasmiður orðaði það, var gaman að sjá eitthvað nýtt, en það gladdi okkur mikið,“ segir Arnar.

Hafa breytt 10 mótorhjólum 

Blaðamaður Fréttablaðsins fékk að prófa nokkra gripi og kom það á óvart hversu skemmtileg þau voru í akstri og í raun og veru léttari að keyra heldur en hjólin óbreytt. Fyrirtækið er nú búið að breyta 10 mótorhjólum og er meðal annars að klára Ducatimótorhjól sem vakið hefur athygli erlendis. „Einnig erum við að klára Triumph-mótorhjól svo að BMW er ekki lengur það eina sem við gerum þótt vissulega slái hjartað þar,“ segir Arnar. Bikevík áætlar að fara með öll hjólin sem það hefur breytt á Intermot-mótorhjólasýninguna í Köln í október. Eins er á teikniborðinu að breyta nýju Kawasaki-hjóli svo að spennandi verður að sjá hvað kemur næst á götuna frá Bikevík.
Fréttablaðið 

5.5.20

Þú hittir aldrei mótorhjólamann í fýlu

Hjörtur L. Jónsson og Ólafur í ísakstri.

Hjörtur Jónsson er einn af elstu meðlimum Sniglanna. „Ég er snigill númer 56, kom inn á fyrsta árinu, haustið 1984, og búinn að vera þar síðan. Ég var aðlaður rétt fyrir aldamótin, ’97 minnir mig. Var þá gerður að heiðursfélaga fyrir vel unnin störf fyrir félagið. Ég hef verið mikið í ýmsum viðburðastjórnum, sá um landsmót, sá um tíu ára afmæli Sniglanna, á sínum tíma héldu þeir kvartmílukeppnir og Enduro-keppnir, ég sá um þetta allt saman. Ég hef verið mikið í skipulagningu og viðburðastjórnun af ýmsu tagi og þess háttar.“

   Áhugi Hjartar kviknaði eftir kynni hans af skellinöðrum. „Ég keyrði fyrst skellinöðru ’72, tólf ára gamall. Svo eignast ég skellinöðru ’76 og síðan ’83 hef ég alltaf átt eitt eða fleiri mótorhjól. Þetta var alltaf draumur, maður sá þetta í blöðum og fannst þetta spennandi. En mér er sagt að þegar ég var smágutti, 3-4 ára, þá hafi ég grátið af hræðslu þegar þetta keyrði fram hjá.“
   Er eitthvað sem stendur upp úr eða er sérstaklega eftirminnilegt?
     „Vonda minningin kemur oft fyrst upp í hugann, þegar maður missti fyrsta mótorhjólafélagann í mótorhjólaslysi. Það situr lengst og er erfiðast að vinna í. Af öllum viðburðunum, þá var það ekki beint tengt Sniglunum en þegar mótorhjól á Íslandi áttu aldarafmæli árið 2005 var haldin stór hátíð á Sauðárkróki, Hundrað ára afmæli mótorhjólsins. Ég skipulagði hana og fékk til liðs við mig þrettán mótorhjólaklúbba til að standa að hátíðinni. Það er eitt af því sem gefur mér alltaf gæsahúð vegna þess hvað allt tókst vel, fyrir utan veðrið, það var hundleiðinlegt. Hátíðin fór með eindæmum vel fram og ekki einn einasti maður tekinn með fíkniefni eða brennivín eða fyrir hraðakstur.“ Dregið hefur verulega úr alvarlegum mótorhjólaslysum undanfarinn áratug og nefnir Hjörtur nokkur atriði sem hafa haft áhrif.
„Fyrstu tíu ár Snigla létust fimmtán í mótorhjólaslysum en næstu tíu ár létust aðeins sjö. En það má þakka því að gallarnir eru betri, hjólin betri, með betri bremsum og svoleiðis. Þetta eru alltaf að verða öruggari og öruggari farartæki. Svo er skítakuldi hér, hávaðarok og ausandi rigning og allir mótorhjólamenn eiga svo góða galla þannig að ef þeir fljúga á hausinn þá eru þeir ágætlega varðir.“

Prestur eða morðingi 

   Það ríkir mikil virðing milli mótorhjólamanna. „Mótorhjólamaður er alltaf mótorhjólamaður, þegar ég mæti honum þá veifa ég honum. Það er mikil virðing borin fyrir samherjanum, við heilsum alltaf. Þetta er svona úti um allan heim, þú veist ekkert hvort þú ert að mæta prestinum eða fjöldamorðingjanum.“
  Þá er lífsgleðin áberandi. „Það eru allir glaðir, það er enginn í fýlu. Þú hittir aldrei mótorhjólamann í fýlu. Mótorhjólafólk laðast hvert að öðru, líkur sækir líkan heim. Það er svo mikil vinátta í þessu samfélagi og samheldni, ef það bilar hjá einum þá hjálpast allir að við að koma honum áfram svo að allir komist heim.“
  Hjörtur hefur líka starfað sem leiðsögumaður. „Hálendi Íslands er stærsta paradísin af þeim öllum. Það er það skemmtilegasta sem ég geri. Ég hef verið leiðsögumaður með túristum í fimmtán ár fyrir fyrirtæki sem leigir út hjól. Þekktasti maðurinn er væntanlega gítarleikarinn í Guns N' Roses, Richard Fortus. Við erum vinir á Facebook, ég fékk vinabeiðni og var ekki alveg að kveikja. Þetta eru 150 túristar sem ég er búinn að taka hringinn í kringum landið.“
  Óhætt er að fullyrða að Sniglarnir hafi mótað líf Hjartar sem kynntist konu sinni í samtökunum. „Það var á landshátíð Sniglanna árið 1987 í Húnaveri sem við duttum saman. Við vorum búin að þekkjast lengi. Hún er númer 248.“


Fyrsta ferðin endaði ofan í skurði


Sonur Hjartar, Ólafur Hjartarson, er 23 ára og segja má að hann hafi alist upp innan um mótorhjól.
  „Fjölskyldan hefur alltaf verið í þessu, ég hef aldrei munað eftir öðru. Ég hef örugglega farið á mótorhjól þegar ég verið 2-3 ára en ég keyrði fyrst á sex ára afmælisdaginn minn. Það endaði ofan í skurði og ég fékk ör á kinnina.“
  Ólafur var með eina ósk þegar hann gekk til liðs við Sniglana. „Ég bað sérstaklega um að númerið mitt myndi enda á 56, af því að það er númerið hjá pabba. Það eru 2.400 manns á milli okkar.“
  Móðurafi Ólafs hjólar líka enn reglulega, orðinn 76 ára. „Foreldrar mínir kynntumst í gegnum Sniglana og svo er afi minn líka með hjól, honum datt það í hug þegar hann var sextugur. Hann var á skellinöðru í gamla daga, þroskaðist upp úr því en keypti sér svo Harley.“
   Feðgarnir Hjörtur og Ólafur hafa átt margar gæðastundir á hjólunum. „Ég hjóla allt árið, legg götuhjólinu kannski í nóvember en ég tek þá út torfæruhjólið og þá förum við pabbi að keyra á ís, eins og á Hafravatni og upp í fjöll.“
   Líkt og margir, nefnir Ólafur einnig frelsið sem helsta aðdráttaraflið. „Það er bara frelsið, það tala allir um þetta frelsi og svo er þetta persónulega bara drullugaman.“  


Fréttablaðið 5. MAÍ 2020 

4.5.20

Prjónmaskína á Akureyri

Eins og sjá má eru þarna viftur til að hjálpa til við að kæla hjólið.
og öryggisól til að varna því að hjólið fari of langt.
Um þessar mundir eru útskriftir hjá verknámsnemum í Verkmenntaskólanum á Akureyri.
Einn þessara nema Hrannar Ingi Óttarsson smíðaði ansi frumlegt útskriftarverkefni.

Eða eins og hann orðaði það :
Lokaverkefnið mitt í stálsmíði klárt. Margra mánaða vinna sem er búin að vera mjög krefjandi enn verulega skemmtileg. Sáttur með útkomuna og nú verð ég eflaust betri að prjóna á mótorhjóli.

Tían Bifhjólaklúbbur óskar Hrannari innlega til hamingju með þetta glæsilega tæki og hlökkum til að fá að prófa á næstu misserum,  en hann lofar að koma á einhverja af okkar viðburðum og leyfa okkur að skoða og prófa..


Hér að neðan er hægt að sjá hve mikil vinna fór í verkið :
















 Stórglæsilegt hjá Hrannari

1.5.20

Royal Enfield mótorhjól

Royal Enfield mótorhjólin eiga sér 119 ára langa sögu, þar af 57 síðustu árin í Indlandi. 

Í framleiðslunni hefur lengstum verið haldið fast í gamlar hefðir. Það er eiginlega fyrst nú sem talsvert róttækar breytingar eru að eiga sér stað. Nýjar vélar eru komnar til skjalanna í stað gömlu steyptu og þungu vélanna sem hafa verið nánast eins síðust 60 árin. Þær nýju eru bæði eru hljóðlátari auk þess að eyða og menga mun minna en þær gömlu.
Nýju vélarnar eru enn sem fyrr aðeins eins strokks og enn eru þær að rúmtaki annars vegar 350 rúmsm og hins vegar 500 rúmsm. Afl þeirrar síðarnefndu er tæplega 30 hö.  sem kannski þykir ekki mikið. En Royal Enfield hjólin hafa aldrei verið og eru engin tryllitæki. Í byggingu þeirra er öll áherslan á einfaldleika, notagildi og mikla endingu.
Royal Enfield mótorhjólin hafa allt frá því að framleiðslan fluttist til Indlands frá Bretlandi fyrir 57 árum, átt tryggan heimamarkað á Indlandi þrátt fyrir harða samkeppni við japönsk mótorhjól og á seinni árum kínversk.  Sala hjólanna var jöfn og hægt vaxandi þar til nýju vélarnar komu til sögunnar 2010. Þá tók hún 40% stökk upp á við og fór í 74.600 mótorhjól árið 2011. Í framhaldinu er nú unnið að miklum endurbótum og endurnýjun í meginverksmiðjunni í Chennai en að þeim loknum verður hægt að auka framleiðsluna um helming.
Royal Enfield hjólin hafa síðan framleiðslan fluttist frá Bretlandi til Indlands, verið fyrst og fremst framleidd fyrir heimamarkaðinn. Lítilsháttar útflutningur hefur átt sér stað til Evrópu og Bandaríkjanna og fáein Royal Enfield hjól eru meira að segja skráð hér á landi. Á síðasta ári voru seldust einungis 3.200 hjól til annarra landa, en með vaxandi framleiðslu er ætlunin að efla útflutninginn og byggja upp sölu- og þjónustunet í Malasíu og á Filippseyjum og í Þýskalandi og Frakklandi.
04.12.2012

19.4.20

Norton selt til Indlands

 Norton Motorcycles, eitt af frægustu mótorhjólaframleiðendum breta var selt á dögunum til Indlands fyrir 16.milljón pund.
Fyrirtækið fór í greiðslustöðvun í janúar og voru 100 störf þar með í uppnámi.
Fyrirtækið TVS Motor tilkynnti svo að þeir hafi keypt Norton á föstudaginn og vonist þeir til að endurvekja það og stækka.

Norton var stofnað 1898 og er mjög virt merki í mótorsport heiminum.
In a statement, TVS Motor's joint managing director Sudarshan Venu said: "This is a momentous time for us. Norton is an iconic British brand celebrated across the world, and presents us with an immense opportunity to scale globally.
"We will extend our full support for Norton to regain its full glory in the international motorcycle landscape."
He added they would "work closely" with Norton's employees and customers and the company would "retain its distinctive identity" while expanding in to new markets.
Norton Interpol
Norton byrjaði í Birmingham og fór fyrst að smíða mótorhjól 1902 og fór fljótt að keppa í keppnum  m.a. The Isle of Man TT. með ágætum árangri.
Þekktustu mótorhjólin þeirra eru Dominator og Commando, og notaði lögreglan í bretlandi 
Norton Interpol á áttunda áratugnum.
Fornhjólin þerrra eru mjög vinsælir söfnunargripir.
Gangi þeim vel í framtíðinni.

27.3.20

Hópkeyrsla Snigla 2016

Þar sem ekki er útséð með hópkeyrslur ársins.
 Þá er kanski gott að rifja upp þessa hópkeyrslu frá 1 maí 2016 .  Laugarvegurinn fullur af hjólum í rigningu . Samt fín mæting.

Skúrinn
Hringbraut 2016

9.3.20

Á völtum fótum

Árni Jakobsson
Árni Jakobsson var uppalinn Mývetningur sem gerðist bóndi , en missti fljótt heilsuna. Hann gaf út ævisöguna "Á völtum fótum" þar sem þessi mynd er að finna af honum á vélknúnu þríhjóli.

Úrdráttur úr bókinni. Á Völtum fótum (1963)

 Sumarið 1942 fék ég einn góðann veðurdag óvænta heimsókn þriggja góðkunnra Húsvíkinga. Þessir gestir voru frú Auður Aðalsteinsdóttir, Friðþjófur Pálsson símstjóri, maður hennar, og Helgi Kristjánsson, Kjötmatsmaður. Þessi góðu gestir komu færandi hendi, gáfu mér hjólastól eða handsnúið þríhjól. Allmargir Húsvíkingar höfðu skotið saman peningum til að kaupa hjólið, og vissi ég raunar aldrei nema um fáa þeirra, sem hlut áttu að máli. Ég varð allt í senn ,glaður og þakklátur yfir þessari höfðinlegu gjöf.
This invalid carriage was manufactured 
by R.A. Harding (Bath)
Mikill var sá munur að geta hjólað um göturnar í stað þess að dragast áfram á hækjunni og stafnum. Mér fannst næstum því sem ég hefði eignast töfra-klæði, eins og greinir frá í ævintýrum, þegar ég ók um sléttar göturnar. En fljótt þreyttust handleggir mínir og axlir við að knýja hjólið, þar sem á bratta var að sækja. Þurfti ég jafnan hjálp að halda , færi ég upp brekku. Oft gerðust unglingsdrengir til þess óbeðið að hjálpa mér, þegar svo stóð á. Þetta handsnúna hjól notaði ég til ársins 1955.

7.3.20

Ofurhugar reyna við tvö heimsmet á Íslandi

Yonatan og Reid kynntust ýmsu á 15
þúsund kílómetra ferðalagi sínu. 

Aðsend mynd.

Tveir ofurhugar ætla að reyna við tvö heimsmet á rafmagnseinhjóli á Íslandi í sumar. Slógu nýverið heimsmet á rafmótorhjóli með akstri um 48 fylki Bandaríkjanna. Annar þeirra er leiðsögumaður á Höfn og vill setjast að á Íslandi.rafmagnsmótorfákum.

Bandaríski fjallaleiðsögumaðurinn Mike Reid, sem hefur búið á Íslandi í fjögur ár, setti nýverið heimsmet ásamt félaga sínum, Ísraelanum Yonatan Belik. Þeir keyrðu um öll 48 samfelldu fylki Bandaríkjanna á rafmagnsmótorfákum. Þetta er þriðja heimsmet Reids, sem býr á Höfn í Hornafirði, og hyggjast þeir félagar setja tvö til viðbótar á Íslandi á þessu ári.„Þetta var brjálæði. Þetta voru 15 þúsund kílómetrar,“ segir Reid. „Bandaríkin eru svo stór og svo mörg veðrakerfi. Í köldustu veðrunum vorum við orðnir dofnir á höndum og fótum. Ég datt af hjólinu. Fólk hótaði að skjóta okkur. Svona er Ameríka.“
Eitt sinn lentu þeir í stormi í Nýju-Mexíkó, óttuðust ofkælingu og neyddust til að biðja ókunnuga um húsaskjól. Þarna voru stórir hundar og varúðarskilti. „Ég hélt að við yrðum skotnir þegar Yonatan fór

6.3.20

Stærstu hjólin

Í gær birti ég minnsta mótorhjólið í heimi sem hægt var að aka.


Hér í þessu myndbandi ber að líta allt það stærsta....

Margt skrítið í þessum heimi..


1.10.19

Mótorhjól BMW fá M-sportdeild

BMW hefur sótt um einlaleyfi á heitunum
M 1000 RR, M 1300 GS og M 1000 XR.

Bílaáhugamenn þekkja M-sportdeild BMW og þá öflugu bíla sem frá henni koma.


 BMW framleiðir líka mótorhjól og þar á bæ hefur engin M-deild verið til staðar, en það gæti breyst á næstunni. Fyrir nokkrum árum bauð BMW sportlegri útfærslu S 1000 RR hjólsins sem fékk stafina HP4 Race og fór þar brautarhæft hjól með krafta í kögglum. Þetta hjól varð hins vegar lítið annað en tilraun eða markaðstrikk og BMW varð í kjölfarið að endurhugsa innreið sína í sportlegri hluta mótorhjóla og framleiðslu slíkra hjóla. Nú virðist komið svar við því þar sem BMW hefur þegar sótt um einkaleyfi á heitunum M 1000 RR, M 1300 GS og M 1000 XR og því von á góðu fyrir aðdáendur BMW-hjóla.





https://timarit.is/files/43626994#search=%22m%C3%B3torhj%C3%B3l%22

13.9.19

Dindlarnir klárir fyrir sumarið




 Nú eru Dindlarnir , sem er klúbbur mótorhjólafólks í Hafnarfirði, Garðabæ og nágrenni búnir að gera hjólin klár fyrir sumarið eins og undan farin 16 ár. 


 Hist er við Atlandsolíutankana við Kaplakrika, alla þriðjudaga yfir sumarið kl 17:30 þegar veður leyfir.
Valdar eru skemmtilegar akstursleiðir sem taka c.a. 3 klst. Öryggi og varfærni er haft að leiðarljósi, og enginn glannaskapur leyfður, allaf farið eftir settum reglum. Félagsskapurinn er öllu góðu mótorhjólafólki opinn, engin gjöld, bara mæta við Kaplakrikann.
 Myndin af köppunum fjórum, var tekin 2017, en það ár urðu þeir allir 75 ára (300 ára til samans), allt gamlir skólafélagar sem voru saman á skellinöðrunum þegar þeir voru 14-16 ára og halda enn í mótorhjólaáhugann.    Upplýsingar veitir Óli Ársæls 863-5512

3.9.19

Lexmoto mótorhjól.

Skarkali með Lexmoto mótorhjól


Vefverslunin Skarkali.is, sem hefur hingað til sérhæft sig í sölu á Spada-mótorhjólafatnaði, fékk nýverið umboð fyrir sölu á Lexmoto-mótorhjólum á Íslandi. Lexmoto-mótorhjólin eru framleidd í Kína fyrir breska fyrirtækið Llexiter ltd. Fyrirtækið. hefur selt kínversk mótorhjól frá árinu 1997, og því eignast trausta tengiliði hjá kínverskum mótorhjólaframleiðendum. Árið 2009 ákvað Llexiter ltd. að nýta þessi sambönd og láta framleiða fyrir sig mótorhjól undir eigin nafni. Lexmoto hafa verið með söluhæstu hjólum í Bretlandi undanfarin ár, enda búin að geta sér gott orð fyrir áreiðanleika og lágt verð. Einnig hefur Lexmoto unnið til verðlauna í Bretlandi og þar á meðal tvö ár í röð Motocycle franchise of the year, 2018 og 2019.

Yfirbygging í lágmarki 


Lexmoto-hjólin hafa flest 125cc rúmtak og eru A1 ökuprófsskyld, sem er ódýrasta bifhjólaprófið og hægt að eignast frá 17 ára aldri. Þrátt fyrir lítið rúmtak eru þau spræk af stað og geta náð 100-110 km hraða. Þau henta því vel á öllum vegum landsins þar sem einungis er 90 km hámarkshraði á Íslandi. Einnig verða fáanlegar nokkrar 50cc skutlur og skellinöðrur á hagstæðu verði. Öll hjólin koma með tveggja ára ábyrgð. Vefverslunin var opnuð í janúar síðastliðnum en fram til þessa hefur Skarkali selt Spada mótorhjólafatnað. Markmið Skarkala er að halda yfirbyggingu í algjöru lágmarki. Þannig getur verslunin boðið vörur á sérlega hagstæðu verði.

8.1.19

Kaupir KTM Ducati?

Forstjóri mótorhjólaframleiðandans KTM, Stefan Peirer, lét hafa eftir sér nýlega í viðtali að KTM hefði fullan hug á því að yfirtaka Ducati sem nú heyrir undir Volkswagen Group en er í umsjá Audi. 


Mjög lengi hafa sögusagnir verið uppi þess efnis að Volkswagen Group muni selja Ducati, ekki síst í kjölfar dísilvélasvindlsins og fjárþurrðar VW vegna þess. Svo mikill virðist áhugi KTM að það veltur bara á vilja Volkswagen Group til sölu Ducati hvort af þessari yfirtöku verður. Stefan Peirer segir að Ducati sé Ferrari mótorhjólanna og að hann hafi í raun sterk tilfinningatengsl við Ducati-mótorhjól og gæti því einkar vel hugsað sér að bæta ítalska merkinu við sístækkandi mótorhjólaframleiðslu KTM.

Úr 6.000 hjólum í 265.000 

Forstjórinn tók við forstjórastöðu KTM árið 1992, fyrir heilum 26 árum og hefur breytt fyrirtækinu úr framleiðenda 6.000 mótorhjóla í 265.000 hjóla framleiðanda. Fyrir fimm árum keypti KTM mótorhjólamerkið Husqvarna af BMW og á það hluta af framleiðsluaukningunni. Stefan segir að Volkswagen Group geri sér hugsanlega ekki grein fyrir því erfiða ástandi sem blasi við Ducati vegna hertra mengunarreglna, en að KTM hafi einmitt búið sig vel undir þær miklu breytingar sem verða þurfi á drifrásum mótorhjóla. Hann segir að Volkswagen Group sé með hugann við rafmagnsvæðingu bíla sinna og enn að kljást við afleiðingar dísilvélasvindlsins og hafi því hugsanlega ekki lagt mikla áherslu á að uppfylla mengunarstaðla Ducati-hjólanna til framtíðar. Nú er bara að sjá hvort Volkswagen Group sé tilbúið að láta Ducatimerkið frá sér og bæta í budduna í leiðinni, en að minnsta kosti er áhugasamur kaupandi til staðar


https://timarit.is/files/43563949#search=%22m%C3%B3torhj%C3%B3l%22

28.10.18

Aldrei hætta að þora!

Kristján Gíslason er breyttur maður og sér heiminn í öðru ljósi eftir að hann fór einn í tíu mánaða ferðalag umhverfis hnöttinn á mótorhjóli. Hvarvetna var honum tekið með kostum og kynjum. Bók um ferðalagið kom út í vikunni og í næsta mánuði verður heimildarmynd frumsýnd á RÚV. 


Hann stóð á tímamótum; kominn á miðjan aldur, hafði selt fyrirtækið sitt og langaði að upplifa eitthvað nýtt og skemmtilegt. Sautján ára hafði hann farið sem skiptinemi til Bandaríkjanna og minntist þess tíma með mikilli hlýju. Er meira að segja ennþá í góðu sambandi við fólkið sem hann bjó hjá, sína aðra fjölskyldu. Það var stórkostlegt ár, mesta upplifun lífsins, og hann velti fyrir sér hvernig hann gæti endurupplifað þá sælu. Að fara aftur sem skiptinemi kom þó tæplega til greina enda viðbúið að erfitt yrði að finna fjölskyldu sem tekur við 58 ára gömlum manni.

Þá frétti Kristján Gíslason af vini sínum sem hafði í hyggju að fara á mótorhjóli umhverfis hnöttinn ásamt tveimur félögum sínum. „Mér fannst það stórkostleg hugmynd og varð strax ástarskotinn. Þetta ætlaði ég að gera,“ rifjar Kristján upp. „Mér datt í hug að slást í hópinn með þeim en það hentaði ekki. Í staðinn bað ég annan vin minn að koma með mér og hann sagði strax já. Ég fann hins vegar að áhugi hans var ekki eins mikill og hjá mér, þannig að ég setti honum afarkosti um áramótin 2013-14. Og þá sagði hann nei. Var ekki tilbúinn í svona langt og strangt ferðalag um framandi slóðir. Mín viðbrögð voru þau að hann væri búinn að lesa of mikið af neikvæðum fréttum á netinu.“ 

Heljarstökk aftur á bak

Kristján lét þetta ekki slá sig út af laginu; ákvað í staðinn að fara bara einn. Seinna hættu raunar þremenningarnir við sína ferð og þegar vinur hans leitaði hófanna um samflot hafnaði Kristján því; hann væri búinn að ákveða að fara einn og við það miðaðist allur undirbúningur.  
Vinir og vandamenn hleyptu almennt brúnum þegar hann kynnti áform sín fyrir þeim en studdu hann. Það á til dæmis við um eiginkonu hans til fjörutíu ára, Ásdísi Rósu Baldursdóttur. „Ef þetta er það sem þú vilt þá skaltu gera það,“ sagði hún. Stuðningur er eitt, hvatning annað og hana fékk Kristján frá föður sínum, Gísla Kristjánssyni, sem þá var 89 ára. „Á sjötugsafmæli sínu, sem haldið var á Hótel Örk, kvaddi pabbi sér hljóðs á sundlaugarbakkanum áður en hann fór heljarstökk aftur á bak út í laugina. Mælti svo þegar hann kom upp úr: „Aldrei hætta að þora!“ Mikið til í því hjá honum. Auðvitað á að gæta skynsemi en í öllum bænum látið ekki hræðsluna koma í veg fyrir að þið fáið það sem þið getið út úr lífinu. Það er alla vega mitt mottó.“
Við tók átta mánaða undirbúningur, þar sem Kristján skipulagði leiðina sem hann vildi fara, fékk tilheyrandi sprautur, sótti um vegabréfsáritanir, lærði hjálp í viðlögum og skellti sér á sjálfsvarnarnámskeið hjá Mjölni, svo dæmi sé tekið. Hann tryggði sig líka fyrir mannráni, svo fjölskyldan fengi alltént bætur sneri hann ekki aftur. Allur er varinn góður. 

Ferðamaður á mótorhjóli 

Kristján þurfti líka að læra sitthvað um fararskjótann, BMW 800 GSA, til dæmis að gera við helstu hugsanlega kvilla, en öfugt við það sem margir lesendur gætu haldið þá var hann alls ekki vanur mótorhjólamaður. „Biddu fyrir þér. Ástríðuhobbíið mitt var alltaf golf, ég var kominn niður í eins stafs tölu í forgjöf, en eftir að ég fékk brjósklos árið 2012 þurfti ég að leggja kylfurnar á hilluna. Þá þurfti ég að finna mér nýtt hobbí og Guðmundur Ragnarsson vinur minn stakk upp á þessu. Hjólið heillaði mig strax upp úr skónum en ég lít samt ekki á mig sem mótorhjólamann, heldur ferðamann á mótorhjóli. Þetta er frábær ferðamáti.“

 Kristján lagði í’ann í ágúst 2014 og gerði ráð fyrir að ferðalagið tæki fjóra mánuði. Mánuðirnir urðu á endanum tíu og hann hafði þá lagt 48.000 kílómetra í 36 löndum og fimm heimsálfum að baki. Sleppti Afríku í þessari lotu. „Ég ætlaði að taka stöðuna í Malasíu, hvort ég færi beint til Bandaríkjanna þaðan eða til Ástralíu; báðar leiðir eru viðurkenndar í hringferðinni. Niðurstaðan var sú að fara niður Indónesíu og þaðan til Ástralíu, Suður- og Mið-Ameríku áður en endað var í Bandaríkjunum.“
 Það sem Kristján óttaðist mest á ferðalaginu var að skilja hjólið eftir og eiga á hættu að því yrði stolið. Þá hefði hann ekki aðeins tapað fararskjóta sínum, heldur líka öllum búnaðinum. Fyrir vikið vék hann helst ekki frá því og svaf til dæmis með það inni í tjaldinu þegar hann þurfti að sofa þar. Þessi strategía gafst vel og hjólið skilaði sér alla leið í mark.
Enda þótt Kristján ferðaðist einn var hann aldrei einmana á þessu ferðalagi; fólk dróst hvarvetna að honum. Bæði segir hann hjólið hafa virkað eins og segulstál á innfædda, þar sem hann kom, fólk sé víðast hvar óvant svona stórum hjólum, auk þess sem hann sjálfur var augljóslega kominn um langan veg. „Ég fann fyrir mikilli nánd við mannfólkið allt frá upphafi til enda ferðar. Fjölmargir gáfu sig á tal við mig, bæði vegna forvitni en ekki síður til að bjóða fram aðstoð sína. Það er raunar stærsta upplifunin í þessu öllu saman; að fólk er gott. 99,9% allra sem ég hafði samskipti við voru stórkostleg; greiðvikin og elskuleg.“

Yndislegt fólk í Íran 

Hann nefnir Íran sem dæmi. „Fyrirfram var ég svolítið smeykur við að fara þangað inn enda heyrum við Vesturlandabúar yfirleitt bara neikvæðar fréttir þaðan. Þegar á reyndi var veruleikinn allur annar; yndislegra fólki hef ég ekki kynnst. Á fjórtán dögum fékk ég tíu heimboð eða boð um að fara út að borða. Í eitt skiptið borgaði meira að segja bláókunnugt fólk fyrir mig á veitingastað. Án þess að ég hefði svo mikið sem hitt það. Þegar ég bað um reikninginn var einfaldlega búið að greiða hann. Það var mikil lexía að þetta umdeilda land skyldi vera uppfullt af gæsku og gestrisni.“
 Ferðalangurinn er raunar með skilaboð til fjölmiðla. „Ég hef verið hugsi yfir því hversu brenglaða mynd ég hafði af heiminum áður en ég lagði af stað í þetta ferðalag. Og er örugglega ekki einn um það. Við megum ekki trúa öllu sem sagt er í fréttum. Þar ræður hið neikvæða gjarnan ríkjum og hefur mjög auðveldlega mengandi áhrif. Í þessum skilningi virka fréttir eins og óbeinar reykingar og með þeim hætti erum við auðvitað að takmarka lífsgæði okkar. Við verðum að leggja meiri áherslu á það jákvæða í þessari tilveru og hefja okkur upp yfir dægurþras, lífið er alltof stutt fyrir neikvæðni. Við lifum í stórkostlegum heimi.“
Hann heldur áfram með þessa pælingu. „Talandi um fjölmiðla þá ætti það að vera hluti af námi sérhvers blaðamanns að fara á mótorhjóli umhverfis hnöttinn. Ég skal lána fyrsta blaðamanninum mitt hjól.“     Hann hlær.
  „Að öllu gríni slepptu þá er lífið eins og myndabók. Viljum við bara sjá fyrstu myndina eða viljum við fletta áfram? Viljum við jafnvel láta aðra fletta fyrir okkur og ráða þannig hvað við sjáum?“

Meðal fólksins á dekkinu 

Tilgangurinn var vitaskuld ekki að taka út stjórnarfar í löndunum sem hann sótti heim, þvert á móti leitaðist Kristján við að tengjast fólkinu sjálfu. Finna hjartsláttinn á hverjum stað fyrir sig. Uppleggið var að halda sig sem mest utan alfaraleiðar, þannig sneiddi hann að mestu hjá stórborgum og ferðamannastöðum, fyrir utan perlur á borð við Taj Mahal, sem glæpsamlegt hefði verið að sleppa.
   „Ég hef lifað góðu lífi, er fjárhagslega sjálfstæður og vanur lúxus af ýmsu tagi en lagði þetta þveröfugt upp, gisti ekki á 4 eða 5 stjörnu hótelum heldur gistiheimilum og meðal fólksins. Sumar nætur svaf ég í tjaldi. Þeir sem hafa lítil ráð upplifa á margan hátt sterkari tengsl og tilfinningar en þeir sem meira hafa milli handanna og svona vil ég framvegis ferðast; meðal fólksins á dekkinu. Ég er oft spurður hvar ég hafi séð mestu hamingjuna á leiðinni og svara því til að það hafi verið í fátækustu héruðunum sem ég heimsótti. Ég kann ekki skýringu á þessu en er það ekki gömul saga og ný að fátækt þjappi kynslóðunum saman?“
    Hann hefur í þessu sambandi sögu eftir áströlskum hjónum sem hann kynntist í Myanmar. Þau höfðu verið í Úsbekistan og hitt þar gamla konu sem orðin var einmana vegna þess að hún bjó ekki nógu nálægt dóttur sinni og fjölskyldu hennar. Þess vegna tók hún sig upp og flutti nær henni – heila 300 metra.
„Þetta leiðir hugann að því hvort stofnanavæðingin sé ekki komin úr böndunum á Vesturlöndum,“ veltir Kristján fyrir sér. „Ég veit það ekki fyrir víst en leyfi mér að efast um að elliheimili séu yfirhöfuð til í Asíu.“ 

Útúrdúr til Óman 

Enda þótt grunnstefið hefði verið samið áður en lagt var af stað stóðst Kristján ekki mátið að spila annað veifið eftir eyranu. Sem dæmi má nefna að eftir að hann kynntist manni frá Óman í ferju frá Íran til Dúbaí ákvað Kristján, þvert á fyrri plön, að heimsækja manninn. „Ég keyrði yfir 500 kílómetra til hans og átti fína daga í Óman. Við erum ennþá í góðu sambandi,“ segir hann.
Tengsl mynduðust víðar. Sonur Kristjáns, Baldur Kristjánsson ljósmyndari, hjólaði með honum í tvær vikur í Suður-Ameríku og í Santiago, höfuðborg Síle, gaf maður sig á tal við feðgana vegna þess að honum leist svona ljómandi vel á hjólið. Samtalið gat af sér matarboð heima hjá manninum og þar kom í ljós að hann sér ekki sólina fyrir Ólafi Arnalds tónlistarmanni og börnin hans vita allt um Sigur Rós og Of Monsters and Men. Já, Ísland er víða.
   Úr varð vinátta. „Tengsl hljóta alltaf að myndast á svona ferðalagi en vegna þessara aðstæðna, sem ég hef lýst, þá er eins og þau límist betur. Það gaf þessu ennþá meira gildi.“
Af þessum 48.000 km voru aðeins um 800 km skilgreindir sem átakasvæði af einhverju tagi. Það var í Indlandi, Mexíkó og Kólumbíu. „Ég lenti ekki í neinu í Mexíkó en fann þar eigi að síður fyrir mestu ógninni, þegar ég keyrði framhjá nýlegum yfirgefnum húsum og bensínstöðvum. Þarna berast eiturlyfjahringir á banaspjót. Sama er uppi á teningnum í Kólumbíu. Í nágrannaríkinu Hondúras eru 90 á hverja 100.000 íbúa myrtir á ári hverju. Það væri eins og að 300 morð yrðu framin á Íslandi á ári. Stríð vegna eiturlyfja eru mesta vá sem við stöndum frammi fyrir í heiminum í dag og löngu tímabært að gripið sé í taumana.“

Eltur uppi á Indlandi 

Það var þó víðsfjarri, eða í Indlandi, sem Kristján fann fyrir mestri hræðslu. Hann kom þá að kvöldlagi að þorpi sem heitir Mao. Ók í gegn en fann fljótlega að bifreið veitti honum eftirför. Í stað þess að freista þess að stinga hana af nam Kristján staðar til þess að ökumaðurinn gæti borið upp erindið. Um vingjarnlegan mann var að ræða sem benti Kristjáni á að hann hefði hunsað eftirlitsskyldu við komuna í þorpið sem einmitt væri ætluð ferðamönnum. Skæruliðar eru með umsvif þar um slóðir og ekki óhætt að ferðast án verndar. Nokkuð sem Kristjáni var ekki kunnugt um.
  Ökumaðurinn ráðlagði Kristjáni að snúa við og gefa sig fram um morguninn. Í millitíðinni bauð hann ferðalanginum gistingu á heimili sínu sem Kristján þáði. Daginn eftir sinnti Kristján eftirlitsskyldunni og fékk í framhaldinu herfylgd yfir á öruggt svæði.
  Veður var með ýmsu móti á leiðinni en þegar Kristján er spurður hvar verst hafi viðrað kemur svarið ofurlítið á óvart: Texas. Hann var þar í maímánuði og fellibylur sá þá ástæðu til að ganga yfir ríkið á skítugum skónum. Til allrar hamingju fékk Kristján í tæka tíð skilaboð í símann sinn um að leita skjóls en veðurhamurinn varð ofboðslegur. 

Fann styrk í bæninni

 Á tíu mánaða ferðalagi um framandi lönd eru menn að vonum mikið einir með hugsunum sínum og Kristján staðfestir að margt hafi farið gegnum hugann, ekki síst í strjálbýli og eyðimörkum.
„Ég viðurkenni fúslega að það reyndi á mig að vera einn með sjálfum mér inni í hjálminum og mér til undrunar fór ég smám saman að leita í bænina. Ég hafði alveg mína barnatrú áður en ég lagði af stað, eins og við flest, en bænin hafði ekki verið stór hluti af mínu lífi. Þarna byrjaði ég að leita í hana og fann strax að hún færði mér styrk. Bænin virkaði og hafði sálarleg áhrif. Úr varð ákveðinn heilunartími, þetta ferðalag varð minn Jakobsvegur. Fyrir vikið sneri ég heim trúaðri en ég var þegar ég lagði upp í ferðalagið. Ekki nóg með það, ég hef líka meiri auðmýkt gagnvart lífinu. Hvernig gat skaparinn búið til alla þessa fegurð?“
Það hafði líka djúpstæð áhrif á Kristján að faðir hans féll frá meðan á miðju ferðalagi stóð. Maðurinn sem hvatti hann mest til dáða.
„Ég kom heim í tíu daga til að kveðja pabba og viðurkenni að það var erfitt að klára ferðalagið eftir það. Ég dreif mig þó af stað aftur enda hefðu það verið svik við pabba að klára ekki ferðina.“

Bók og heimildarmynd

 Kristján lauk ferðalaginu í Bandaríkjunum og kom meðal annars í fyrsta skipti til New Orleans. Það var mikil upplifun, ekki síst þegar tónar fóru að flæða um stræti þessarar miklu tónlistarborgar. „Það hafði mikil áhrif á mig, ekki síst vegna þess að ég hafði ekki hlustað mikið á tónlist í ferðinni. Listir eru ómissandi hluti af tilveru okkar.“
   Kristján flaug heim frá Boston 17. júní 2015 og féll í faðm fjölskyldu og vina, samtals um sjötíu manns, yfir dögurði á heimili sínu. „Það var yndisleg stund og gott að koma heim – sem breyttur maður.“
   Kristján tók ekki aðeins mikið af myndum í ferðinni, ljósmyndum og hreyfimyndum, hann hélt líka dagbók, samtals 500 blaðsíður. Hann gleðst yfir því framtaki í dag enda „er ótrúlegt hversu mörgu maður gleymir. Dagbókin var í senn ferða- og sálufélagi á leiðinni.“ Þetta efni er grunnurinn að bók sem kom út í vikunni og heimildarmynd sem gerð hefur verið um ferðalagið.
   Bókina, Hringfarann, skrifar Helga Guðrún Johnson upp úr dagbókarfærslum Kristjáns en hún er í stóru broti, ríkulega myndskreytt. „Þetta er mjög persónuleg bók,“ segir Kristján. „Hún er ekki bara uppgjör við þetta ferðalag, heldur líf mitt í heild. Þroskasaga miðaldra manns. Ég er mjög einlægur þarna og það hefur fært mér mikinn styrk,“ segir hann en bókin kemur einnig út á ensku undir heitinu Sliding Through.
  Heimildarmyndina gerði Sagafilm og verður hún sýnd í þremur hlutum í Ríkissjónvarpinu í nóvember og desember. 

Innkoman í styrktarsjóð

Kristján gefur bókina út sjálfur og stóð straum af kostnaði við gerð heimildarmyndarinnar. Öll innkoma af hvoru tveggja rennur óskipt í styrktarsjóð sem Kristján og eiginkona hans hafa sett á laggirnar og er ætlað er að sporna við eiturlyfjaneyslu ungs fólks.
   „Þetta er svo persónulegt allt saman að ég gat ekki hugsað mér að hafa tekjur af þessu; það væri eins og að selja sjálfan sig,“ útskýrir Kristján. „Þannig að þetta varð niðurstaðan. Ég var minntur rækilega á eyðileggingarmátt eiturlyfja á ferðalaginu en þess utan á ég tvo gamla vini sem orðið hafa fíkninni að bráð. Þetta stendur mér því nærri.“ Hægt er að panta bókina á þar til gerðri heimasíðu, hringfarinn.is.

Frúin slæst í för

 Kristján lét ekki staðar numið eftir heimsreisuna – og nú er eiginkona hans komin á hjólið með honum. Í vor fóru þau yfir Bandaríkin þver og endilöng, köstuðu mæðinni í viku áður en þau héldu til Rússlands og fleiri ríkja í Austur-Evrópu. Sáu meðal annars alla leiki Íslands á HM. Enduðu svo í Þýskalandi.
    Í haust lá svo leiðin í gegnum fleiri Evrópuríki til Grikklands en þeirri ferð lauk fyrir rúmri viku. „Næsta vor ætlum við til Ísraels og ég er búinn að segja konunni að ég sé líka á leiðinni til Suður-Afríku. Lítist henni ekki á það er henni frjálst að hoppa af,“ segir hann sposkur á svip.

„Við erum bæði sest í helgan stein og þetta er okkar hlutverk í dag. Okkar lífstíll.“  



MBL 28.10.2018
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

21.6.18

Slys og veikindi urðu kveikjan að rafknúinni samfélagsbyltingu


Skjaldbökurnar, fyrstu rafhjólasamtök landsins, formlega stofnuð í blómabænum Hveragerði 17. júní:




– Ungir sem aldnir, hreyfihamlaðir og heilbrigðir þeysa nú um götur Hveragerðis og hafa gaman af


Í Hveragerði hefur á liðnum misserum verið að myndast skemmtilegt samfélag áhugafólks um rafhjól. Þar er aðalega um að ræða þríhjól sem henta ,jög vel til fjölþættra, nota ekki síst hreyfihömluðum og eldra fólki.  Þá er ungt fólk einnig farið að kaupa slík hjól, enda þykja þau verulega ,,töff". Þannig að þarna er í raun að spretta upp rafknúin samfélagsbylting.
         Svafar Kristinsson hefur leitt þessa vakningu í Hveragerði en hann flutti inn fyrsta rafmagnsþríhjólið frá Kína til eigin nota 2016. Hann segir rafknúin hjól af þessu tagi henta afskaplega vel til ýmissa þarfa og geti líka nýst hestamönnumþar sem enginn hávaði er frá þeim eða mengun sem fælt getir hrossin. Þá gætu þau líka hentað garðyrkjustöðvum, vöruskemmum og sjálfsagt víðar.

Slys og veikindi kveiktu áhugann á rafhjólunum

Svavar segist hafa verið blessunarlega laus við öll líkamleg áföll fram til ársins 2010 en þá tók við fimm ára tímabil þar sem, hann þurfti að takast á við alvarlegan kaláverka á fótum, krabbamein, sem fylgdi skurðaðgerð, geisla- og lyfjameðferð og öllu sem því fylgir, hryggbrot og skömmu fyrir jólin 2015 alvarlegt fótbrot.
      Staðan var þannig að á þessum fimmárum bjó hann við verulega skerta hreyfigetu og var að hluta bundinn við hjólastól. Þetta hafði í sér mikla félagslega einangrun og hann segist hafa verið að öllu leyti háður fjölskyldu og vinum hvað varðar að komast milli staða. Þegar hér var komið var svartsýni og kvíði farið að vera vandamál og margar spurningar vöknuðu um tilgang lífsins og framhald. Hann segist hafa farið að skoða þann möguleika að fá farartæki hjá almannatryggingum, svokallaðar rafskutlur, en um úthlutun þeirra gilda nokkuð strangar reglur bæði hvað varðar úthlutun og hversu hratt þær mega fara. Úr varð að Svavar fór að skoða möguleikann á að flytja inn sjálfur hjól sem hentaði og eftir nokkra leit varð fyrir valinu hjól frá  Tongli Motorcykle í Kína.

Félagsleg einangrun rofin með kaupum á rafknúnu þríhjóli

Í stuttu máli má segja að með tilkomu þessa hjóls hafi hans félagslega einangrun verið að miklu leyti rofin og fór Svavar að geta farið flestar sínar ferðir á eigin forsendum.
Eftir á að hyggja þá sér hann hversumikilvægur þáttur er fyrir fólk sem hefur lent í álíka áföllum í lífinu og þeirra sem vegna aldurs eða glíma við stoðkerfisvandamál að hafa slík farartæki til afnota og í hans huga með ólíkindum að þessi þáttur skuli ekki hafa meira vægi í allri endurhæfingu og þá á hann við hjá því fagfólki sem hann hefur haft samskipti við á þessum árum.
  ,,Það atriði að fólk fari út af heimilinum sínum og njóti þess að fá rigninguna í andlitið eða sólina eftir atvikum er svo mikilvægt þegar verið er að koma fólki af stað út í lífið á nýjan leik eftir áföll og þá skiptir ekki máli endilega hver fyrstu skrefin eru, gangandi eða á hjóli.
Hvernig fólk þróar sína hreyfingu er svo undir hverjum og einum komið en hafa ber í huga að útiveran og það að geta bjargað sér sjálfur er svo mikilv´gt á þessum fyrstu skrefum.
    ,,Mín einangrun var algerlega rofin með þessu," segir Svavar sem fer yfir 90% allra sinna ferða á þessu þríhjóli sínu.  Í þorpum og bæjarfélugu á landsbyggðinni, þar sem yfirleitt er stutt í alla þjónustu, ætti fólk líka í flestum tilfellum að geta látið svona farartæki duga.

Fyrirtæki stofnað um hagkvæm innkaup

Eftir því sem tíminn leið fór áhugi fólks að aukast fyrir þessum ferðamáta. Fólk sá þá möguleika sem Svavar gat nýtt hjólið sitt og út varð að hópur fólks í Hveragerði tók sig saman um innflutning á nokkrum hjólum, sem komu til landsins í lok árs 2016.
    Með þessum hjólum jókst áhuginn enn frekar og í byrjun þessa árs 2018 var ákveðið að stofna félag í kringum innflutning á hjólum sem þessum og fékk Svavar til liðs við sig Sigurjónu Báru Hauksdóttur og eiginmann hennar, Svein Óskar Þorsteinsson, sem eiga og reka fyrirtækið Rafsveinn ehf. í Reykjavík. Sigurjónu kynntist Svavar í endurhæfingu á spítalanum í Stykkilshólmi en þau eru bæði að glíma við stoðkerfisvandamál. Úr varð félagið RHF hjól ehf. Ætlun þeirra var og er að reka félagið með sem allra minnstri yfirbyggingu og sem mest á netinu.  í staðinn vilja þau geta boðið hjól á besta mögulega verði til að gera sem flestum möguleika á að eignast svona farartæki.
   Hjólin flokkast undir léttbifhjól í flokki 1 í Umferðarlögum en þar er aldurstakmark 13 ár og ekki þarf nein sérstök réttindi á hjólin og tryggingar falla undir heimilistrygginguna.

Komast 30 til 40 km á einni hleðslu

,,Það er mín reynsla að það má komast 30 til 40 km á hvessi hleðslu miðað við íslenskar aðstæður.
Hver hleðsla er ein kílówattstund , sem samkvæmt gjaldskrá kostar 15 krónur. í bæjarfélagi eins og Hverarerði getur fólk sparað sér verulegar fjárhæðir með að tileinka sér svona ferðamáta þar se hér er ekki um svo ýkja miklar vegalengdir að ræða en samt  nægilega miklar að oft þar að nota farartæki ef tíminn er knappur eða ferðin í Bónus kallar á burð. Hér getum við auðveldlega farið út í umræðuna um hvernig við getum aukið kaupmáttinn en látum stjórnmálamönnum og verkalýðsleiðtogum eftir þá umræðu,"segir Svavar

Fyrir alla aldurshópa

Hann vill taka fram að hjólin henti öllum aldurshópum.
     ,,Sá yngsti sem hefur fengið hjól hjá okkur er 14 áraog sá elsti er í dag 94 ára og notar hjólið sitt daglega. Ekki má gleyma umhverfisþættinum en eins og öll umræða hefur verið þá er það farið að skipta okkur jarðarbúa verulega miklu máli að draga úr notkun á bensíni og olíu."

Hjólin líka hentug á golfvöllinn

,,Við höfum undanfarið verið að skoða ýmsa aðra möguleika fyrir þessi hjól og létum smíða fyrir okkur festingar fyrir golfpoka eð það í hugaað nota mætti hjólin á golfvelli landsins og sýnist okkur þetta hafi mælst ágætlega fyrir.
      Við sendum myndir af festingunni til framleiðanada hjólanasem sýndi málinum mikinn áhuga en nefndi strax að betra væri að flytja hjólin inn með 1000kW mótor í stað 500kW eins og við höfum ger. Þá hafa hestamenn einnig sýnt hjólunum áhugaþar sem þau eru hljóðlát og fæla ekki hesta með hávaða og ef rétt er farið að þeim. Ég dreg ekki í efa að fleiri hópar sjái sér hag í að nota svona farartæki ég nefni þá t.d. vöruhús, virkjanir og verksmiðjur."

Frumraun líkt og Tomsen-bíllinn

Fyrir ekki svo löngu var umræða um fyrsta bílinn sem kom til landsins í byrjun síðustu aldar, Thomsen-bíllinn. Ekki höfðu þá allir mikla trú á svona farartæki og þótti flestum sinn gráni merkilegri. Ég get h´glega séð okkur og aðra sem eru að flytja inn rafknúin ökutæki í sviðaðri stöðu en þarna mun eins og þá þróunin í framleiðslunni og tíðarandinn hjálpa til. Fólk má ekki vera hrætt við breytingar heldur taka þeimmeð jákvæðu hugarfari og móta með sér afstöðu og þekkingu og reynslu.
    Ég hef oft verið spurður hvers vegna ég ferðast um á svona farartæki og ég hef svarað því til að þessi ferðamáti henti mér afskaplega vel, ég hafi gaman af að hitta fólk, sem ég myndi án efa ekki hitta, a.m.k. jafn oft, ef ég væri á bíl. Fyrir utan það þá sæi ég verulegan fjárhaglegan ávining að nota farartæki sem þessi, ætti meiri pening í buddunni sem gæti farið í aðra skemmtilega hluti en olíu, tryggingar og bifreiðagjöld," segir Svavar Kristinnsson
- Taka tryggingar ekki þátt í kaupum á svona hjólum fyrir hreyfiskerta?
     ,,Sjúkratryggingar hafa verið að kaupa hjól og lána fólki. Á því er þó sá annmarki að gerðar eru kröfur um að hjól fari ekki hraðar en á 10 km hraða á klukustund. Ég er ekki viss um að við förum með okkar hjól inn í þann pakka. Það þyrfti aðbreytaþeim talsvert og ég held að við höldum okkur við hjól sem komast á 25km hraða."

Stofnuðu Skjaldbökurnar, fyrsta rafhjólaklúbb landsins

Þessi vaxandi rafhjólamenning í hveragerði hefur stóraukið samhug fólks sem margt var orðið félagslega einangrað. Nú er þetta fólk farið að hittast reglulega á götum bæjarins.
     Var því svo komið að ákveðið var að stofna rafhjólasamtök Hveragerðis og var það gert með formlegum hætti á þjóðhátiðardegi Íslands , 17. júní. Hlutu þau nafnið Rafhjólaklúbburinn Skjaldbökurnar og er þar í gamansemi verið að höfða til bifhjólasamtakanna Sniglana. Er þetta jafnframt fyrsti rafhjólaklúbburinn á landinu svo vitað sé.  Af þessu tilefni var efnt til hópreiðar rafhjólafólks um Hveragerði á þjóðhátíðardaginn.

Með 500 eða 1.000 watta mótor

Þessi hjól eru samkvæmt lögum ekki skráningarskyld og þurfa því ekki að vera tryggð se, ökutæki. Aldurstakark notenda er einungis 13 ár. Það má því nota þau á gangstéttum, gangstígum og hjólreiðastígum. Þar sem hámarkshraði inn í þorpinu í Hveragerði er yfirleitt ekki nema 30 km, þá eru engin vandkvæði á að nota þessi hjól í umferðinni heldur.
     Mótor þeirra er 500 wött og rafhlaða 4x12volt, eða samtals 48 volt. Hleðslutæki er 10-20 amper og tekur 6-8 klukkustundir að fullhlaða rafhlöðurnar. Hjólið er innsiglað þannig að komast ekki hraðar en á 25km hraða. Á hjólunum eru diska og skála bremsur og mótorbremsa.

Kraftmeiri hjól fyrir golfið og brattari brekkur

Eins og fyrr segir er hægt að fá hjól af þessari tegund með 1000 watta mótor og 60 volta rafhlöðu. Þau henta trúlega betur ef mikið er um brekkur og ef menn ætla að nota þau t.d. í golfið. Þá gætu öflugri hjólin líka hentað betur í mörgum bæjarfélugum úti á landsbyggðinni þar sem byggt er upp í hlíðar.
  Einnig er hægt að fá hjól frá framleiðanda sem komast hraðar en á 25 km hraða, en þá eru þau skráningarskyld og krefjast sértrygginga. Svavar segir það sitt mat að þegar hjólin eru gerð fyrir meiri hraða þá sé sjarminn eiginlega farinn af notkun þeirra og hagkvæmnin ekki eins mikil fyrir þann markhóp sem hann hafi verið að horfa til.

Sveitarfélagið fagnar framtakinu

Eyþór H. Ólafsson verkfræðingur er forseti bæjarstjórnar Hveragerðis. Hann segir þessa innleiðingu rafhjólamenningarinnar í bænum vera mjög gleðilega og skemmtilega.
    ,,Svavar hefur staðið á bak við þetta og fólk tekur þessu mjög vel. Hér eru kjöraðstæður fyrir svona rafhjól, mikið sléttlendi og þægilegt að fara um. Þá er enginn hraðaumferð í gegnum bæinn svo notendur hjólana þurfa ekkert að óttast, enda höfum við markvisst verið að takmarka hér hraðann.
   Það er ekkert hægt að neita því að bærinn er vinsæll hjá fólki sem komið er yfir 55 ára aldur og hlutfall eldri borgara því töluvert hátt. Fyrir þetta fólk eru svona hjól kjörinn ferðamáti og þegar farinn að myndast ákveðin menning í kringum þetta. Það má því segja þetta framtak sé ákveðið samfélagsverkefni og gaman að þetta skuli einmitt gerast hér. Svavar á auðvitað heiðurinn af því . Hér má sjá menn á svona hjólum, eins og Örn Guðmundsson sem hefur verið einn af okkar kjarnamönnum í bæjarfélaginu í gegnum tíðina.
   Svo getur verið að unga fólkið koma meira inn í þetta og rafhjólin verði aðal damgöngumátinn hér innanbæjar," segir Eyþór.  Vísar hann þar m.a. til reynslu íbúa við Miðjarðarhaf og á Kanaríeyjum þar sem skutlur af svipuðu tagi er algengur samgöngumáti.

Rafhjólamenningin gullsígildi 

,,Sveitarstjórinn tekur þessu mjög fagnandi. Þetta er gullsígildi og skapar aukið líf hér við aðalgötu bæjarins og dregur fólk út úr húsunum,"segir Eyþór.



Bændablaðið |  21.6.2018