8.1.19

Kaupir KTM Ducati?

Forstjóri mótorhjólaframleiðandans KTM, Stefan Peirer, lét hafa eftir sér nýlega í viðtali að KTM hefði fullan hug á því að yfirtaka Ducati sem nú heyrir undir Volkswagen Group en er í umsjá Audi. 


Mjög lengi hafa sögusagnir verið uppi þess efnis að Volkswagen Group muni selja Ducati, ekki síst í kjölfar dísilvélasvindlsins og fjárþurrðar VW vegna þess. Svo mikill virðist áhugi KTM að það veltur bara á vilja Volkswagen Group til sölu Ducati hvort af þessari yfirtöku verður. Stefan Peirer segir að Ducati sé Ferrari mótorhjólanna og að hann hafi í raun sterk tilfinningatengsl við Ducati-mótorhjól og gæti því einkar vel hugsað sér að bæta ítalska merkinu við sístækkandi mótorhjólaframleiðslu KTM.

Úr 6.000 hjólum í 265.000 

Forstjórinn tók við forstjórastöðu KTM árið 1992, fyrir heilum 26 árum og hefur breytt fyrirtækinu úr framleiðenda 6.000 mótorhjóla í 265.000 hjóla framleiðanda. Fyrir fimm árum keypti KTM mótorhjólamerkið Husqvarna af BMW og á það hluta af framleiðsluaukningunni. Stefan segir að Volkswagen Group geri sér hugsanlega ekki grein fyrir því erfiða ástandi sem blasi við Ducati vegna hertra mengunarreglna, en að KTM hafi einmitt búið sig vel undir þær miklu breytingar sem verða þurfi á drifrásum mótorhjóla. Hann segir að Volkswagen Group sé með hugann við rafmagnsvæðingu bíla sinna og enn að kljást við afleiðingar dísilvélasvindlsins og hafi því hugsanlega ekki lagt mikla áherslu á að uppfylla mengunarstaðla Ducati-hjólanna til framtíðar. Nú er bara að sjá hvort Volkswagen Group sé tilbúið að láta Ducatimerkið frá sér og bæta í budduna í leiðinni, en að minnsta kosti er áhugasamur kaupandi til staðar


https://timarit.is/files/43563949#search=%22m%C3%B3torhj%C3%B3l%22