28.10.18

Aldrei hætta að þora!

Kristján Gíslason er breyttur maður og sér heiminn í öðru ljósi eftir að hann fór einn í tíu mánaða ferðalag umhverfis hnöttinn á mótorhjóli. Hvarvetna var honum tekið með kostum og kynjum. Bók um ferðalagið kom út í vikunni og í næsta mánuði verður heimildarmynd frumsýnd á RÚV. 


Hann stóð á tímamótum; kominn á miðjan aldur, hafði selt fyrirtækið sitt og langaði að upplifa eitthvað nýtt og skemmtilegt. Sautján ára hafði hann farið sem skiptinemi til Bandaríkjanna og minntist þess tíma með mikilli hlýju. Er meira að segja ennþá í góðu sambandi við fólkið sem hann bjó hjá, sína aðra fjölskyldu. Það var stórkostlegt ár, mesta upplifun lífsins, og hann velti fyrir sér hvernig hann gæti endurupplifað þá sælu. Að fara aftur sem skiptinemi kom þó tæplega til greina enda viðbúið að erfitt yrði að finna fjölskyldu sem tekur við 58 ára gömlum manni.

Þá frétti Kristján Gíslason af vini sínum sem hafði í hyggju að fara á mótorhjóli umhverfis hnöttinn ásamt tveimur félögum sínum. „Mér fannst það stórkostleg hugmynd og varð strax ástarskotinn. Þetta ætlaði ég að gera,“ rifjar Kristján upp. „Mér datt í hug að slást í hópinn með þeim en það hentaði ekki. Í staðinn bað ég annan vin minn að koma með mér og hann sagði strax já. Ég fann hins vegar að áhugi hans var ekki eins mikill og hjá mér, þannig að ég setti honum afarkosti um áramótin 2013-14. Og þá sagði hann nei. Var ekki tilbúinn í svona langt og strangt ferðalag um framandi slóðir. Mín viðbrögð voru þau að hann væri búinn að lesa of mikið af neikvæðum fréttum á netinu.“ 

Heljarstökk aftur á bak

Kristján lét þetta ekki slá sig út af laginu; ákvað í staðinn að fara bara einn. Seinna hættu raunar þremenningarnir við sína ferð og þegar vinur hans leitaði hófanna um samflot hafnaði Kristján því; hann væri búinn að ákveða að fara einn og við það miðaðist allur undirbúningur.  
Vinir og vandamenn hleyptu almennt brúnum þegar hann kynnti áform sín fyrir þeim en studdu hann. Það á til dæmis við um eiginkonu hans til fjörutíu ára, Ásdísi Rósu Baldursdóttur. „Ef þetta er það sem þú vilt þá skaltu gera það,“ sagði hún. Stuðningur er eitt, hvatning annað og hana fékk Kristján frá föður sínum, Gísla Kristjánssyni, sem þá var 89 ára. „Á sjötugsafmæli sínu, sem haldið var á Hótel Örk, kvaddi pabbi sér hljóðs á sundlaugarbakkanum áður en hann fór heljarstökk aftur á bak út í laugina. Mælti svo þegar hann kom upp úr: „Aldrei hætta að þora!“ Mikið til í því hjá honum. Auðvitað á að gæta skynsemi en í öllum bænum látið ekki hræðsluna koma í veg fyrir að þið fáið það sem þið getið út úr lífinu. Það er alla vega mitt mottó.“
Við tók átta mánaða undirbúningur, þar sem Kristján skipulagði leiðina sem hann vildi fara, fékk tilheyrandi sprautur, sótti um vegabréfsáritanir, lærði hjálp í viðlögum og skellti sér á sjálfsvarnarnámskeið hjá Mjölni, svo dæmi sé tekið. Hann tryggði sig líka fyrir mannráni, svo fjölskyldan fengi alltént bætur sneri hann ekki aftur. Allur er varinn góður. 

Ferðamaður á mótorhjóli 

Kristján þurfti líka að læra sitthvað um fararskjótann, BMW 800 GSA, til dæmis að gera við helstu hugsanlega kvilla, en öfugt við það sem margir lesendur gætu haldið þá var hann alls ekki vanur mótorhjólamaður. „Biddu fyrir þér. Ástríðuhobbíið mitt var alltaf golf, ég var kominn niður í eins stafs tölu í forgjöf, en eftir að ég fékk brjósklos árið 2012 þurfti ég að leggja kylfurnar á hilluna. Þá þurfti ég að finna mér nýtt hobbí og Guðmundur Ragnarsson vinur minn stakk upp á þessu. Hjólið heillaði mig strax upp úr skónum en ég lít samt ekki á mig sem mótorhjólamann, heldur ferðamann á mótorhjóli. Þetta er frábær ferðamáti.“

 Kristján lagði í’ann í ágúst 2014 og gerði ráð fyrir að ferðalagið tæki fjóra mánuði. Mánuðirnir urðu á endanum tíu og hann hafði þá lagt 48.000 kílómetra í 36 löndum og fimm heimsálfum að baki. Sleppti Afríku í þessari lotu. „Ég ætlaði að taka stöðuna í Malasíu, hvort ég færi beint til Bandaríkjanna þaðan eða til Ástralíu; báðar leiðir eru viðurkenndar í hringferðinni. Niðurstaðan var sú að fara niður Indónesíu og þaðan til Ástralíu, Suður- og Mið-Ameríku áður en endað var í Bandaríkjunum.“
 Það sem Kristján óttaðist mest á ferðalaginu var að skilja hjólið eftir og eiga á hættu að því yrði stolið. Þá hefði hann ekki aðeins tapað fararskjóta sínum, heldur líka öllum búnaðinum. Fyrir vikið vék hann helst ekki frá því og svaf til dæmis með það inni í tjaldinu þegar hann þurfti að sofa þar. Þessi strategía gafst vel og hjólið skilaði sér alla leið í mark.
Enda þótt Kristján ferðaðist einn var hann aldrei einmana á þessu ferðalagi; fólk dróst hvarvetna að honum. Bæði segir hann hjólið hafa virkað eins og segulstál á innfædda, þar sem hann kom, fólk sé víðast hvar óvant svona stórum hjólum, auk þess sem hann sjálfur var augljóslega kominn um langan veg. „Ég fann fyrir mikilli nánd við mannfólkið allt frá upphafi til enda ferðar. Fjölmargir gáfu sig á tal við mig, bæði vegna forvitni en ekki síður til að bjóða fram aðstoð sína. Það er raunar stærsta upplifunin í þessu öllu saman; að fólk er gott. 99,9% allra sem ég hafði samskipti við voru stórkostleg; greiðvikin og elskuleg.“

Yndislegt fólk í Íran 

Hann nefnir Íran sem dæmi. „Fyrirfram var ég svolítið smeykur við að fara þangað inn enda heyrum við Vesturlandabúar yfirleitt bara neikvæðar fréttir þaðan. Þegar á reyndi var veruleikinn allur annar; yndislegra fólki hef ég ekki kynnst. Á fjórtán dögum fékk ég tíu heimboð eða boð um að fara út að borða. Í eitt skiptið borgaði meira að segja bláókunnugt fólk fyrir mig á veitingastað. Án þess að ég hefði svo mikið sem hitt það. Þegar ég bað um reikninginn var einfaldlega búið að greiða hann. Það var mikil lexía að þetta umdeilda land skyldi vera uppfullt af gæsku og gestrisni.“
 Ferðalangurinn er raunar með skilaboð til fjölmiðla. „Ég hef verið hugsi yfir því hversu brenglaða mynd ég hafði af heiminum áður en ég lagði af stað í þetta ferðalag. Og er örugglega ekki einn um það. Við megum ekki trúa öllu sem sagt er í fréttum. Þar ræður hið neikvæða gjarnan ríkjum og hefur mjög auðveldlega mengandi áhrif. Í þessum skilningi virka fréttir eins og óbeinar reykingar og með þeim hætti erum við auðvitað að takmarka lífsgæði okkar. Við verðum að leggja meiri áherslu á það jákvæða í þessari tilveru og hefja okkur upp yfir dægurþras, lífið er alltof stutt fyrir neikvæðni. Við lifum í stórkostlegum heimi.“
Hann heldur áfram með þessa pælingu. „Talandi um fjölmiðla þá ætti það að vera hluti af námi sérhvers blaðamanns að fara á mótorhjóli umhverfis hnöttinn. Ég skal lána fyrsta blaðamanninum mitt hjól.“     Hann hlær.
  „Að öllu gríni slepptu þá er lífið eins og myndabók. Viljum við bara sjá fyrstu myndina eða viljum við fletta áfram? Viljum við jafnvel láta aðra fletta fyrir okkur og ráða þannig hvað við sjáum?“

Meðal fólksins á dekkinu 

Tilgangurinn var vitaskuld ekki að taka út stjórnarfar í löndunum sem hann sótti heim, þvert á móti leitaðist Kristján við að tengjast fólkinu sjálfu. Finna hjartsláttinn á hverjum stað fyrir sig. Uppleggið var að halda sig sem mest utan alfaraleiðar, þannig sneiddi hann að mestu hjá stórborgum og ferðamannastöðum, fyrir utan perlur á borð við Taj Mahal, sem glæpsamlegt hefði verið að sleppa.
   „Ég hef lifað góðu lífi, er fjárhagslega sjálfstæður og vanur lúxus af ýmsu tagi en lagði þetta þveröfugt upp, gisti ekki á 4 eða 5 stjörnu hótelum heldur gistiheimilum og meðal fólksins. Sumar nætur svaf ég í tjaldi. Þeir sem hafa lítil ráð upplifa á margan hátt sterkari tengsl og tilfinningar en þeir sem meira hafa milli handanna og svona vil ég framvegis ferðast; meðal fólksins á dekkinu. Ég er oft spurður hvar ég hafi séð mestu hamingjuna á leiðinni og svara því til að það hafi verið í fátækustu héruðunum sem ég heimsótti. Ég kann ekki skýringu á þessu en er það ekki gömul saga og ný að fátækt þjappi kynslóðunum saman?“
    Hann hefur í þessu sambandi sögu eftir áströlskum hjónum sem hann kynntist í Myanmar. Þau höfðu verið í Úsbekistan og hitt þar gamla konu sem orðin var einmana vegna þess að hún bjó ekki nógu nálægt dóttur sinni og fjölskyldu hennar. Þess vegna tók hún sig upp og flutti nær henni – heila 300 metra.
„Þetta leiðir hugann að því hvort stofnanavæðingin sé ekki komin úr böndunum á Vesturlöndum,“ veltir Kristján fyrir sér. „Ég veit það ekki fyrir víst en leyfi mér að efast um að elliheimili séu yfirhöfuð til í Asíu.“ 

Útúrdúr til Óman 

Enda þótt grunnstefið hefði verið samið áður en lagt var af stað stóðst Kristján ekki mátið að spila annað veifið eftir eyranu. Sem dæmi má nefna að eftir að hann kynntist manni frá Óman í ferju frá Íran til Dúbaí ákvað Kristján, þvert á fyrri plön, að heimsækja manninn. „Ég keyrði yfir 500 kílómetra til hans og átti fína daga í Óman. Við erum ennþá í góðu sambandi,“ segir hann.
Tengsl mynduðust víðar. Sonur Kristjáns, Baldur Kristjánsson ljósmyndari, hjólaði með honum í tvær vikur í Suður-Ameríku og í Santiago, höfuðborg Síle, gaf maður sig á tal við feðgana vegna þess að honum leist svona ljómandi vel á hjólið. Samtalið gat af sér matarboð heima hjá manninum og þar kom í ljós að hann sér ekki sólina fyrir Ólafi Arnalds tónlistarmanni og börnin hans vita allt um Sigur Rós og Of Monsters and Men. Já, Ísland er víða.
   Úr varð vinátta. „Tengsl hljóta alltaf að myndast á svona ferðalagi en vegna þessara aðstæðna, sem ég hef lýst, þá er eins og þau límist betur. Það gaf þessu ennþá meira gildi.“
Af þessum 48.000 km voru aðeins um 800 km skilgreindir sem átakasvæði af einhverju tagi. Það var í Indlandi, Mexíkó og Kólumbíu. „Ég lenti ekki í neinu í Mexíkó en fann þar eigi að síður fyrir mestu ógninni, þegar ég keyrði framhjá nýlegum yfirgefnum húsum og bensínstöðvum. Þarna berast eiturlyfjahringir á banaspjót. Sama er uppi á teningnum í Kólumbíu. Í nágrannaríkinu Hondúras eru 90 á hverja 100.000 íbúa myrtir á ári hverju. Það væri eins og að 300 morð yrðu framin á Íslandi á ári. Stríð vegna eiturlyfja eru mesta vá sem við stöndum frammi fyrir í heiminum í dag og löngu tímabært að gripið sé í taumana.“

Eltur uppi á Indlandi 

Það var þó víðsfjarri, eða í Indlandi, sem Kristján fann fyrir mestri hræðslu. Hann kom þá að kvöldlagi að þorpi sem heitir Mao. Ók í gegn en fann fljótlega að bifreið veitti honum eftirför. Í stað þess að freista þess að stinga hana af nam Kristján staðar til þess að ökumaðurinn gæti borið upp erindið. Um vingjarnlegan mann var að ræða sem benti Kristjáni á að hann hefði hunsað eftirlitsskyldu við komuna í þorpið sem einmitt væri ætluð ferðamönnum. Skæruliðar eru með umsvif þar um slóðir og ekki óhætt að ferðast án verndar. Nokkuð sem Kristjáni var ekki kunnugt um.
  Ökumaðurinn ráðlagði Kristjáni að snúa við og gefa sig fram um morguninn. Í millitíðinni bauð hann ferðalanginum gistingu á heimili sínu sem Kristján þáði. Daginn eftir sinnti Kristján eftirlitsskyldunni og fékk í framhaldinu herfylgd yfir á öruggt svæði.
  Veður var með ýmsu móti á leiðinni en þegar Kristján er spurður hvar verst hafi viðrað kemur svarið ofurlítið á óvart: Texas. Hann var þar í maímánuði og fellibylur sá þá ástæðu til að ganga yfir ríkið á skítugum skónum. Til allrar hamingju fékk Kristján í tæka tíð skilaboð í símann sinn um að leita skjóls en veðurhamurinn varð ofboðslegur. 

Fann styrk í bæninni

 Á tíu mánaða ferðalagi um framandi lönd eru menn að vonum mikið einir með hugsunum sínum og Kristján staðfestir að margt hafi farið gegnum hugann, ekki síst í strjálbýli og eyðimörkum.
„Ég viðurkenni fúslega að það reyndi á mig að vera einn með sjálfum mér inni í hjálminum og mér til undrunar fór ég smám saman að leita í bænina. Ég hafði alveg mína barnatrú áður en ég lagði af stað, eins og við flest, en bænin hafði ekki verið stór hluti af mínu lífi. Þarna byrjaði ég að leita í hana og fann strax að hún færði mér styrk. Bænin virkaði og hafði sálarleg áhrif. Úr varð ákveðinn heilunartími, þetta ferðalag varð minn Jakobsvegur. Fyrir vikið sneri ég heim trúaðri en ég var þegar ég lagði upp í ferðalagið. Ekki nóg með það, ég hef líka meiri auðmýkt gagnvart lífinu. Hvernig gat skaparinn búið til alla þessa fegurð?“
Það hafði líka djúpstæð áhrif á Kristján að faðir hans féll frá meðan á miðju ferðalagi stóð. Maðurinn sem hvatti hann mest til dáða.
„Ég kom heim í tíu daga til að kveðja pabba og viðurkenni að það var erfitt að klára ferðalagið eftir það. Ég dreif mig þó af stað aftur enda hefðu það verið svik við pabba að klára ekki ferðina.“

Bók og heimildarmynd

 Kristján lauk ferðalaginu í Bandaríkjunum og kom meðal annars í fyrsta skipti til New Orleans. Það var mikil upplifun, ekki síst þegar tónar fóru að flæða um stræti þessarar miklu tónlistarborgar. „Það hafði mikil áhrif á mig, ekki síst vegna þess að ég hafði ekki hlustað mikið á tónlist í ferðinni. Listir eru ómissandi hluti af tilveru okkar.“
   Kristján flaug heim frá Boston 17. júní 2015 og féll í faðm fjölskyldu og vina, samtals um sjötíu manns, yfir dögurði á heimili sínu. „Það var yndisleg stund og gott að koma heim – sem breyttur maður.“
   Kristján tók ekki aðeins mikið af myndum í ferðinni, ljósmyndum og hreyfimyndum, hann hélt líka dagbók, samtals 500 blaðsíður. Hann gleðst yfir því framtaki í dag enda „er ótrúlegt hversu mörgu maður gleymir. Dagbókin var í senn ferða- og sálufélagi á leiðinni.“ Þetta efni er grunnurinn að bók sem kom út í vikunni og heimildarmynd sem gerð hefur verið um ferðalagið.
   Bókina, Hringfarann, skrifar Helga Guðrún Johnson upp úr dagbókarfærslum Kristjáns en hún er í stóru broti, ríkulega myndskreytt. „Þetta er mjög persónuleg bók,“ segir Kristján. „Hún er ekki bara uppgjör við þetta ferðalag, heldur líf mitt í heild. Þroskasaga miðaldra manns. Ég er mjög einlægur þarna og það hefur fært mér mikinn styrk,“ segir hann en bókin kemur einnig út á ensku undir heitinu Sliding Through.
  Heimildarmyndina gerði Sagafilm og verður hún sýnd í þremur hlutum í Ríkissjónvarpinu í nóvember og desember. 

Innkoman í styrktarsjóð

Kristján gefur bókina út sjálfur og stóð straum af kostnaði við gerð heimildarmyndarinnar. Öll innkoma af hvoru tveggja rennur óskipt í styrktarsjóð sem Kristján og eiginkona hans hafa sett á laggirnar og er ætlað er að sporna við eiturlyfjaneyslu ungs fólks.
   „Þetta er svo persónulegt allt saman að ég gat ekki hugsað mér að hafa tekjur af þessu; það væri eins og að selja sjálfan sig,“ útskýrir Kristján. „Þannig að þetta varð niðurstaðan. Ég var minntur rækilega á eyðileggingarmátt eiturlyfja á ferðalaginu en þess utan á ég tvo gamla vini sem orðið hafa fíkninni að bráð. Þetta stendur mér því nærri.“ Hægt er að panta bókina á þar til gerðri heimasíðu, hringfarinn.is.

Frúin slæst í för

 Kristján lét ekki staðar numið eftir heimsreisuna – og nú er eiginkona hans komin á hjólið með honum. Í vor fóru þau yfir Bandaríkin þver og endilöng, köstuðu mæðinni í viku áður en þau héldu til Rússlands og fleiri ríkja í Austur-Evrópu. Sáu meðal annars alla leiki Íslands á HM. Enduðu svo í Þýskalandi.
    Í haust lá svo leiðin í gegnum fleiri Evrópuríki til Grikklands en þeirri ferð lauk fyrir rúmri viku. „Næsta vor ætlum við til Ísraels og ég er búinn að segja konunni að ég sé líka á leiðinni til Suður-Afríku. Lítist henni ekki á það er henni frjálst að hoppa af,“ segir hann sposkur á svip.

„Við erum bæði sest í helgan stein og þetta er okkar hlutverk í dag. Okkar lífstíll.“  



MBL 28.10.2018
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is