31.12.20

Tíuvefurinn óskar ykkur gleðilegs árs

 


Vefstjóri Tíuvefsins óskar ykkur gleðilegs árs og þakkir fyrir liðið.


Tvöhundruð fimmtíu og fimm greinar setti ég inn á Tíuvefinn í ár sem er reyndar ekki alveg rétt því það var bara fyrir árið 2020.   
Heimsóknir á vefsíðuna eru komnar yfir 150 þúsund og eru þær mun fleiri á facebookvefnum.

Ég reyndar gerði miklu meira en það því ég setti helling af greinum inn á hin árin aftur í tíman á vefnum. Mikið til stolið efni frá fortíðinni en eitthvað annað með.

Ég vona að þið hafið haft gaman af greinunum eins og ég hafði gaman af því að safna þeim. 

Njótið nýja ársins 
Kv Víðir #527
  



Þríhjólin sem Bandaríkin bönnuðu.

Honda ATC in the air
Hver man ekki eftir Honda og Kawasaki þríhjólunum sem streymdu til landsins áður en fjórhjólabyltingin kom.

Já skemmtileg tæki en þau voru nú frekar í valtari kantinum.... og margir fóru ekki heilir frá þeim.

Tvö stk. af Hondu gerð eru inn á Mótorhjólasafni tilbúin til uppgerðar spurningin er bara hefur einhver áhuga á að gera svona upp? 


Auglýsingar á heimasíðu Tíunnar 2021


 Nú er árið liðið og þá byrjar nýtt auglýsingaár hjá okkur.
Tían hefur undanfarin ár selt auglýsingar á Tíusíðuna www.tian.is gegn vægu gjaldi og eitt ár í senn.

Ef þið hafið áhuga á að auglýsa á tíuvefnum þá hafið endilega samband við vefstjóra í tian@tian.is


Við höfum undanfarið haft trygga auglýsendur KTM og JHM-Sport , Nitró , Kalda og fleiri, en við getum bætt við nokkrum hólfum. 

Gjaldið er mjög hóflegt fyrir árið og  er síðan með yfir 150 þúsund heimsóknir á síðustu þremur árum ,, og er það bara brot af þeim heimsóknum sem Facebooksíðan okkar fær ásamt instagram og Twitter...

Tían er sennilega einn virkasti Mótorhjólaklúbbur landsins og er sennilega með flottasta félagsheimili á norðurlöndunum og víðar, þ.e. Mótorhjólasafn Íslands. sem geymir hátt í hundrað stórkosleg mótorhjól.

Landsmót Bifhjólamanna verður haldið í sumar í Húnaveri og meðlimir klúbbsins eru að halda mótið.

 Svo auglýsendur endilega hafið samband tian@tian.is

kv Vefstjóri

Frá Torginu á Akureyri

30.12.20

Ísland of lítið fyrir mótorhjólið (2014)


 HÚN ER NÝKOMIN ÚR ÞJÁLFUNARBÚÐUM ALÞJÓÐAMÓTORHJÓLASAMBANDSINS, SÉRSTÖKUM STAÐ TIL ÞESS AÐ EFLA KONUR TIL AÐ KEPPA Í ALÞJÓÐLEGUM MÓTORHJÓLAKEPPNUM. HÚN STEFNIR Á AÐ MÓTORHJÓLAKEPPNI Á SPÁNI Í SUMAR. KARLAR OG KONUR KEPPA SAMAN Á JAFNRÆÐISGRUNDVELLI.

Ég var um fimm ára gömul þegar ég byrjaði að hjóla, á reiðhjóli,“ segir Nína K. Björnsdóttir og brosir. „Ég fór strax að stökkva í gryfjum og þau voru ófá skiptin sem pabbi þurfti að sjóða saman hjólið mitt. Síðar fékk ég BMX-hjól og hjólaði aðallega með strákunum, það voru ekkert voðalega margar stelpur sem voru á þeirri tegund af hjólum en ég var bara orðin sjúk í allt sem tengdist hjólum sem krakki.“ Nína var svo 15 ára þegar hún komst í tæri við skellinöðru. „Fyrst hjólaði ég bara á nöðrunni sem þáverandi kærastinn minn átti, en fljótlega keypti ég mér mína eigin. Stuttu seinna var kominn tími á bifhjólaprófið og þá fékk maður strax réttindi á stórt hjól, hvaða mótorhjól sem er, en það er ekki svo núna.“
   Hún segir aðspurð að það hafi ekki verið svo margar stelpur í þessu. „Ég þekktir engar. Ég er ekki þessi félagslynda týpa og sótti ekki í hinn dæmigerða mótorhjólafélagsskap eins og Sniglana, ég var bara í þessu á mínum forsendum með vinum mínum í Garðabæ.“

Æfir sig til að verða betri ökumaður

Nína segir erfitt að lýsa því hvað sé svona heillandi við mótorhjólasportið. „Það er að sumu leyti hraðinn, en hér heima er hámarkshraðinn svo lágur að það er afar lítill hluti af sportinu. En það er gott að vera einn með sjálfum sér og útiveran skorar hátt. Það er til dæmis frábært þegar illa liggur á manni að setja hjálminn á hausinn og fara út að hjóla.“
   Mótorhjólakonan segir aðstöðuleysið gera það að verkum að mjög erfitt sé að stunda sportið hérlendis. „Hér eru til dæmis engar lokaðar brautir sambærilegar við þessar erlendis, þar sem hægt er að æfa sig og ná betri árangri sem ökumaður og jafnvel æfa sig undir erlendar alþjóðlegar keppnir.“ Í kjölfar stofnunar götuhjóladeildar Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar árið 2007 varð skammvinn breyting þar á. „Tvær helgar það sumar fékkst leyfi til að loka Rauðhelluhverfinu, sem þá var bara malbikaður vegur og nokkrir ljósastaurar, og búa til akstursbraut. Það var frábært veður og fullt af fólki sem mætti og æðisleg stemning. En því miður dugði sælan aðeins þær tvær helgar því í framhaldinu hélt uppbygging iðnaðarhverfisins áfram.
   Ég var í stjórn deildarinnar í nokkur ár þrátt fyrir að þekkja engan í upphafi, en kynntist fullt af góðu fólki sem hefur þennan sama áhuga á akstursíþróttum á mótorhjólum. Í dag er notað akstursíþróttasvæði félagsins (gamla rallýkrossbrautin) sem er lítill hringur sem hægt er að æfa sig á. Því má eiginlega líkja við tækniæfingar. Þar hittist hópur mótorhjólafólks tvisvar í viku yfir sumarið. Æfingarnar hjálpa manni, eins og ég hef áður sagt, að verða betri og öruggari ökumaður, einmitt vegna þess að þarna getur maður lent í óvæntum aðstæðum eins og úti í umferðinni en við miklu öruggari aðstæður. Við erum ekki stór þrýstihópur, en þessi svæði eru alveg nauðsynleg, þ.e. að það þarf að vera til gott æfingasvæði til að bæta færni. Þetta svæði mætti nýta í svo margt, t.d. í kennslu í akstri bíla, mótorhjóla og fleiri ökutækja. Þar sem fólk getur bætt kunnáttu sína í öruggu umhverfi, með eða án leiðsagnar, án þess að leggja annað fólk eða umhverfi sitt í hættu.

Hjólar á kappaksturbraut á Spáni

Það kom að því að Ísland yrði of lítið fyrir Nínu og mótorhjólið. „Ég eyði öllum mínum peningum og tíma í mótorhjól,“ segir þessi 37 ára gamla móðir. „Ég keypti mér fyrir nokkrum árum í félagi við annan mótorhjól sem er geymt á Almeria á Spáni og þangað fer ég a.m.k. tvisvar á ári og keyri á lokuðum brautum.“ Nína er einmitt nýkomin frá Almeria en nú tók hún þátt í þjálfunarbúðum Alþjóðamótorhjólaráðsins, á hennar heimavelli. „Ég fékk þar BMW S1000RR-hjól, þriggja milljóna króna hjól,“ segir hún og brosir og gefur í skyn að það hafi ekki verið neitt slor. „Þetta var 4 km braut. Við mættum klukkan níu á morgnana og hjóluðum til fjögur með kennara en bæði á undan og eftir var líkamsrækt.“ Það hefur nú ekki verið neitt mál fyrir Nínu en hún er margfaldur Íslandsmeistari í handknattleik. „Ég sá það í þessum þjálfunarbúðum að ég var alveg á pari við þær sem voru hálfatvinnumenn.

    Mig langar því mikið að reyna mig í keppnum erlendis en það kostar fé og ég verð því að leita eftir styrkjum. Þetta eru yfirleitt ekki kynjaskiptar keppnir, það keppa konur og karlar saman á jafnræðisgrundvelli, þetta er bara spurning um hversu góður ökumaður þú ert. Ég er núna um páskana að fara til Almeria á Spáni og keppa í fyrsta sinn, þar eru aðallega Bretar og Hollendingar í keppninni, og hlakka til að sjá hvar ég stend. Ég stefni ekki á atvinnumennsku, en ég veit ég get bætt mig helling og stefni á að keppa oftar en einu sinni áður en ég verð of gömul. Ég veit að ég á talsvert inni og vona að ég geti sagt barnabörnunum mínum frá ferlinum þegar þar að kemur,“ segir hún og brosir.
   Hún viðurkennir að kappakstursumhverfið sé almennt ekkert sérlega kvenvænt. „Það eru tiltölulega fáar konur að hjóla á svona keppnisbrautum, þar er alltaf talað um allt í karlkyni og karlmenn eiga það til ýmist að verða mjög fúlir eða hissa þegar þeir sjá að stelpa stakk þá af.“ Hún segir samt að almennt hafi konum sem keyra mótorhjól fjölgað mjög. „Þær eru farnar að stunda þetta sport, oft með makanum. Hjón njóta þess að fara út að hjóla saman.“
   Ertu áhættufíkill? „Nei, þetta er allt undir góðri stjórn,“ segir hún Nína, sem þeysist hratt um á mótorfák. 


Morgunblaðið 16.3.2014
Unnur H. Jóhannsdóttir
uhj@simnet.is

29.12.20

Æili sé gaman að vera lögga ? (1990)

 


Tæplega tvö þúsund manns heimsóttu lögregluna á Akureyri á lögregludeginum sem haldinn var á sunnudag. 

Þrjátíu starfandi lögreglumenn tóku á móti forvitnum gestum og fræddu þá um starfsemina, en tækjabúnaður lögreglunnar var til sýnis í sérstöku tjaldi við stöðina. Þeir lögreglumenn sem ekki voru á vakt gáfu vinnu sína. Öll börn sem þess óskuðu fengu að bregða sér á bak mótorhjóli lögreglunnar þar sem tekin var af þeim mynd, en lögreglumaðurinn sem annaðist myndatökuna stóð í ströngu; tók alls um fjögur hundruð myndir. Þá fengu börnin einnig lögreglumerki sem þau nældu í barminn.

Morgunblaðið 16 okt 1990

23.12.20

Jólkveðja frá Sniglunum

Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglar, óskar bifhjóla-landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Þessi fjórða mynd herferðarinnar er Auðunn Pálsson, framkvæmdarstjóri.
Hans skilaboð eru; Ég sé þig, sérð þú mig? , sem eru tvíbent því við sjáum kannski ekki jólasveininn, en hann sér okkur 🙂
Með jólahjólakveðju
Sniglar

22.12.20

Nýtt fyrirtæki í bænum (Akureyri)

 Oft verða hugmyndir af veruleika og það sýndu félagarnir Trausti og Valur í haust er þeir stofuðu fyrirtækið www.sorptunna.is


Báðir eru þeir áhugasamir mótorhjólamenn  (Tíufélagar) og var viðtal við Val í föstudagsþættinum á N4 á dögunum.

Flott gert strákar.


19.12.20

Á Hondu C90 yfir Kanada um hávetur í 20-30 stiga frosti.

Að fara á mótorhjóli yfir Kanada þykir kannski ekki tiltökumál, en að gera það um miðjan vetur í miklu frosti búa í tjaldi og undir miklu áreiti frá Lögreglunni það er annað mál :) 

Þetta gerðu Ed og Rachel á C90 Hondunum sínum og lentu þau meðal annars í því að þau máttu ekki keyra í gegnum Quebec af því að þau voru á nagladekkjum ...

Fyrri Hluti 

Seinni hluti

Umferða átak Snigla 2020

 

13.12.20

1250cc á ísnum fyrir sunnan

 1250 cc Mótorhjól á ísdekkjum er örugglega upplifun út af fyrir sig.

Förum nokkra hringi með Ólafur Arnar Hjartarson Nielsen sem prufaði þetta á dögunum ásamt föður sínum Hjörtur L Jónsson.

4.12.20

Norðlensk Hjólamenning.

Tían Bifhjólaklúbbur Norðuramts
(Jæja Sniglafréttir á pappír eru komnar út og þá hlýt ég að geta birt greinina sem ég skrifaði í málgangnið).


Hvar hittast hjólamenn á Akureyri:
 Olís og Ráðhústorg. Eru yfirleitt söfnunarstaðirnir.

Á Akureyri voru mótorhjólin komin af stað um leið og fystu snjóa leysti.
Vorið var reyndar í svalari kantinum eftir snjóþungan vetur, en hjólarar margir hverjir létu sig samt hafa það og óku á þurru malbiki milli snjóruðninga lengi fram á vorið.
Covid setti einnig svip sinn á vorið en það virtist ekki há hjólamönnum mikið þeir héldu bara tveggja metrareglunni að mestu og hjóluðu milli kaffihúsa og sveitarfélaga í góðviðrisdögum í sumar.


1. mai hópkeyrsla 

Var plönuð á Akureyri af Tíunni eins og alltaf en út af Covid varð að fella hana niður. Í staðinn var bara farið út að hjóla helgina eftir og fór góður hópur í frábæra dagsferð austur fyrir heiði til Húsavíkur og um innsveitir Aðaldals.

Svo þegar róaðist um í Covid-ástandinumí sumar þá auglýsti Tían hópkeyrslu og fór hún fram 13 júní.
Hún var vel heppnuð, frábært veður og mikið af hjólum allstaðar af landinu.
Okkur fannst reyndar frekar dræm mæting heimamanna að þessu sinni. En túrinn var þrælskemmtilegur.
Tekinn var útsýnistúr um Akureyri og vakti það talsverða athygli bæjarbúa að sjá glæsta fylkingu mótorhjóla fara um bæinn.
Síðan var lengri leiðin í Lundskóg í Fnjóskadal tekin um Víkurskarð og svolgrað í sig veitingum þar, og þaðan var farið í gegnum Vaðlaheiðargöng og á Mótorhjólasafnið þar sem flestir löbbuðu hring þar inni.
Einhver hluti hópsins ætlaði svo að næra sig á Greifanum um kvöldið en daginn eftir var fjölskyldugrillhittingur hjólamanna og fjölskyldna þeirra í Kjarnaskógi í boði Tíunnar, og þar gátu aðkomuhjólarar kýlt í belginn áður en þeir keyrðu heim á leið eftir skemmtilega helgi.



Samstöðufundur við vegagerðina í lok júní.

Eftir hryllilegt mótorhjólaslys á Kjalarnesi skammt frá Hvalfjarðargöngunum þar sem tveir mótorhjólmenn létust og þótti sannað að að ástæðan væri sleipur nýlagður vegkafli, þá tóku mótorhjólamenn hér norðanlands að sjálfsögðu þátt í samstöðufundi með Sniglunum og heimsóttum höfuðstöðvar Vegagerðarinnar á Akureyri á sama tíma og mótorhjólamenn fyrir sunnan heimsóttu vegagerðina fyrir sunnan. Um 30 hjól mættu þar og mótmæltu með reyndar frekar stuttum fyrirvara.

Landsmót 

Spennan varðandi landsmót var gríðarleg þar sem ekki var vitað hvort við ættum halda mótið.

En það kom svo í ljós að það mátti og var landsmótið haldið að Laugarbakka í Miðfirði (rétt hjá Hvammstanga) og var þetta hin besta skemmtun.



Að segja frá landsmóti í stuttu máli er ekki hægt ,,,,
Nema bara segja Þetta var geðveikt gott mót og það er vitað að norðanmenn halda líka næsta mót í Húnaveri.


Hjóladagar Tíunnar eru stærsti viðburður hjólmanna á Akureyri


Það var sannarlega glaumur og gleði þessa helgina hjá okkur á Hjóladögum Tíunnar.

Dagskráin riðlaðist aðeins hjá okkur vegna veðurfarsins, en við slepptum spyrnunni upp á braut út af því, en við héldum Bjórkvöld um kvöldið á Mótorhjólasafninu með lifandi tónlist þar sem Trausti og Baldur héldu uppi fjörinu. Stóð gleðin fram á nótt og var mjög gaman.

Upp úr hádeginu á laugardeginum hafði stytt upp rigningunni og safnaðist í hópkeyrslu á Ráðhústogi. Ekinn var skemmtilegur hringur um bæinn og inn fjörðinn sem endaði svo á Mótorhjólasafninu, þar sem snæddir voru hamborgarar öllum að kostnaðarlausu og var þar einnig hoppukastali fyrir börnin.

Um kvöldið var svo slegið upp þvílíkri veislu í Sal Náttúrulæknigafélagsins þar sem hjólafólk víða að, þó mest heimamenn, skemmtu sér með mat og drykk fram á nótt.

Sérstakar þakkir til Sigríður Dagnýar, Formanns Tíunnar. Gunna , Þau svo sannarlega láta hlutina gerast.

Svo auðvitað Trausti og Baldur sem sáu um spilamensku bæði kvöldin þið stóðuð ykkur frábærlega.
Rúnar Eff tók nokkur lög, og Villi Vandræðaskáldi kom með sitt skemmtiatriði og ætlaði þakið að rifna af húsinu þvílík var skemmtunin hjá honum.

Pokerrun


Síðastliðin 3 ár hefur Tían haldið Pokerrun í ágúst.

Í ár var Pokerrun 3ja árið í röð hjá Tíunni og var það nokkuð vel heppnað.
Fyrstu tvö árin var þetta alvöru hjólatúr, 300km eða svo en í ár var ákveðið að stytta túrinn aðeins og var hann aðeins 160km rúntur.

Þátttakendur drógu spil í hverju stoppi til að mynda pókerhönd í lok ferðarinnar, og átti Sigurður Traustason á Suzuki GXSR 750 bestu spilin þegar uppi var staðið, en hann fékk röð frá ási og niður.
Hann sjálfur kunni ekkert í póker svo þetta kom honum virkilega á óvart þegar niðurstaðan kom í ljós. (Pókerkunnátta er ekki nauðsynleg í Pókerrun).
Fékk hann glæsilegan bikar og í honum var þáttökugjöld allra sem tóku þátt í pókerruninu en þeir sem lentu í öðru og þriðja sæti fengu líka verðlaun í sárabætur frá Bike Cave í Reykjavík.


Lokaorð:

Við lifum á undarlegum tímum, Covidfaraldur heldur heimsbyggðinni í hálfgerði gíslingu, en samt náðum við að halda viðburði sumarsins.
Við vorum heppinn að geta haldið Landsmót og ekki var það verra að það heppnaðist svona gríðalega vel. Reyndar heppnaðist það svo vel að við munum halda næsta landsmót líka 2021 og það í mekku okkar hjólamanna "Húnaveri" . Svo neglið niður fyrstu helgina í júlí, því þið þurfið að mæta á Landmót Bifhjólamanna á næsta ári. en eins og þið vitið þá byrjaði landsmót sem Landsmót Snigla og eiga þeir alltaf Landsmót í okkar hjörtum.

Viðburðir Tíunnar Bifhjólaklúbbs Norðuramts eru allir auglýstir á heimssíðu klúbbsins www.tian.is og erum við einnig á Facebook, Instagram og Twitter.

Kv. Víðir #527

1.12.20

Mótorhjólaferð um Suður-Afríku

 


Þegar ljóst varð í byrjun vetrar að okkar feðgum, Grími Axelsysni og Axel Eiríkssini, ásamt félögum í BMW- mótorhjólaklúbbi Íslands, stóð til boða að taka þátt í þaulskipulagðri mótorhjólaferð um Suður-Afríku með þýsku vinafélagi okkar var bara eitt svar-- við látum okkur ekki vanta.

Mikill undirbúningur liggur að baki slíkri ferð, bæði varðandi leyfi, útbúnað, alla tilhögun ferðarinnar og gistingu. Menn eru sammála um að maður þarf að vera í góð formi líkmalega. Einnig þarf að gæta þess að fá sprautur við hinum ýmsu framandi sjúkdómum og að tryggingar séu í lagi svo fátt eitt sé nefnt og allt þarf þetta að gerast tímanlega.

Ekki má gleyna að sækja um og hafa meðferðis alþjóðlegt ökuskírteini sem Félag íslenskra bifreiðaeiganda sér um útgáfu á með sinni alkunnu lipurð og þjónustulund. Við Íslendingarnir héldum nokkra undirbúningsfundi. Á þeim stilltum við saman strengi, útdeildum verkum, fórum yfir öryggisatriði, tryggingamál og hvað hver og einn ætti að taka með af hinu og þessu sem er mikilvægt að hafa með í ferðalag sem þetta og þegar ýmislegt getur farið úrskeiðis.

Sjö glaðir meðlimir úr BMW-mótorhjólaklúbbi Íslands mættu í Leifstöð að morgni dags þann 20.febrúar síðastliðinn. Flogið var til London og þaðan í 14 klukkustundir í beinu næturflugi til Höfðaborgar.
Á flugvellinum í Höfðaborg biðu hermenn okkar farþegana með hitamæla að vopni til að fyrirbyggja að Covid-19 snit væru að berast til landsins. Allir sluppu í gegn með eðlilegan líkamshita og því gaf fátt hindrað ævintýrið sem var að hefjast.

Þátttakendur voru alls 32 á BMW-mótorhjólum, ásamt tveimur Suður afrískum fararstjórum á mótorhjólum og trússbíll sem flutti birgðir af vatni, varahlutum sjúkragræjum og auka mótorhjól. Hjólin voru ný eða mjög nýleg og flest af

29.11.20

Captain America Mótorhjólið

 

Captain America Chopperinn úr Easy Rider

Þetta er líklega frægasta hjól heimsins.

 Og fyrst núna eftir nærri hálfa öld er verið að viðurkenna hugmyndasmiði og smiði hjólsins. Við erum auðvitað að tala um hjólið sem Peter Fonda hjólaði á í myndinni Easy Rider árið 1969. En myndin sýndi ágætlega hvernig rugli Amerísk ungmenni voru í á þessum árum. Hjólið kom  á viðurkennt uppboð nýlega, þá komu fram ýmsar upplýsingar um það sem ekki voru kunnar fyrir, og opnaði líka augu fólks fyrir því hversu áhugaverðar hugmyndir um breytingar og smíði hjóla frá þessum tíma.

Úr Kvkmyndinni Easy Rider
 Peter Fonda og Dennis Hopper

Hjól sem staðfest er, að er Captain America hjólið kom til uppboðshaldara í október síðstliðinn í Hollywood. Fljótlega var tilkynnt að hjólið hefði selst á 1.35 milljón dollara (c.a 180 milljónir íslenskra króna) sem með öllum gjöldum hefðu verið 1.6 miljón dollarar eða (212.5 miljónir ísl.) en það virðist sem salan hafi gegnið til baka.    
(svo það er kannski enn til sölu ef þið hafið enn áhuga )(innslag frá þýðanda).

Í þessari grein ætlum við ekki að upplýsa um allt það sem hægt er að Googla heldur nýju upplýsingarnar sem komu upp við þetta tækifæri.

Við ætlum ekki heldur að eyða plássi í allar vangavelturnar sem hafa komið fram á síðustu 50 árum, en stutta sagan er sem sagt að það voru smíðuð tvö Captain America hjól sem Peter Fonda var á og  tvö Billy bike sem leikarinn og leikstjórinn Dennis Hopper var á.

Sagan segir að einhverntímann eftir að búið var að taka myndina upp '68, en áður enn hún var sýnd '69 hafi einhver brotist inn hjá umsjónarmanni hjólanna sem var stunt leikari Peters og stolið þremur þeirra, en annað af Captain America hjólinu var krassað í lok myndarinnar svo það var skilið eftir. Slátrið af því var gefið einum af leikurum myndarinnar Dan Haggerty. Sagan segir að hann hafi endurbyggt hjólið ( meira að segja er talað um að hann hafi gert annað eins, en við látum aðra um að tala um það).

Það sem er aðdáunarvert, sérstaklega fyrir þá sem elska gömul hjól og sögu þeirra og virðingu fyrir þeim sem smíðuðu þau, er að Fonda skrifaði bréf til uppboðshaldaranna í nóvember eftir að hjólið fékk alla þessa athygli eina ferðina enn. Í bréfinu hrósaði Fonda hugmyndasmiðnum í hástert og uppljóstraði 46 árum eftir  að hjólið ver smíðað hver það var.

Þessi uppljóstrun kom ekki alveg öllum á óvart því auðvitað hafa alvöru grúskarar komist að þessu fyrir löngu, einn þeirra Paul d'Orleans, hann komst að því að Cliff Vaughs og Ben Hardy hefðu verið hugmyndasmiðir hjólanna. En þetta var sem sagt ekki gert opinbert fyrr en með bréfi Fonda.

Það hefur allt verið opinvert að hjólin voru keypt fyrir lítinn pening af lögregluembætti í Los Angeles á uppboði, en hvernig þau urðu að frægustu hjólum heims var alltaf á huldu.  Ýmsar getspár voru við hafðar, eina var sú að Fonda hefði sjálfur gert þau, önnur að Haggerty hefði gert þau, en í bréfinu uppljóstrar Fonda að Cliff hafi algjörlega séð um málið. Hann segir í bréfinu ,, við Dennis erum honum svo þakklátir, við vissum ekki einu sinni að hægt væri að kaupa ódýr hjól á uppboði af löggunni". ,,Með undraverðum hætti ( að okkar Dennis mati) keypti hann 4 hjól á 500$ stykkið og hannaði og smíðaði þau svo fyrir 1250$ stykkið, við vorum hæstánægðir með þá Ben. Og svo gerðu þeir bara tvö af hverju eins og ekkert væri".

Fonda víkur líka að í bréfi sínu að Cliff hafi verið rekinn úr verkefninu og þar með aldrei fengið ,,kredit" fyrir hönnunina og smíðinni. ,,En það er ekki of seint að uppljóstra um þátt þeirr Cliffs og Bens fyrir þessi einstöku hjól sem áttu stórann þátt í frægð myndarinnar''.

Billy bike

En hverjir voru Cliff og Ben?  

Ben rak mótorhjólaumboð í LA en Cliff átti sér áhugamál að smiða Choppera. ,,Gallinn við þá var að þeir voru báðir African-Americans, það gerði meira segja rebelum eins og Fonda og Dennis erfitt um vik að opinbera þá, því rasismi var enn mikið við líði á sjötta áratugnum. (vegna þessa hættu þeir meðal annars við að láta mótorhjólagegni með svörtum bikerum koma við í myndinni eins og til stóð.)

Ben var mjög þekktur meðal mótorhjólamanna, Sérstaklega svartra, en líf Cliffs var enn áhugaverðara, hann var framarlega í réttindabaráttu svartra og gerði heimildarmyndir um öryggi mótorhjólafólks í umferðinni.

Ben dó 1994 án þess að hljóta nokkurn tíma viðurkenningu fyrir hans þátt í smíði hjólanna. en Cliff lifir enn og d'Orleans fékk hann í liðs við sig þegar hann skrifaði bókina ,,The Chopper, The Real story'' Þar er öll sagan sögð.

Stolið og staðfært úr blaði AMCA af Dagrúnu #1
Úr Blaðinu Hallinn 2015

Skráðu þig á póstlistann hjá Tíunni og fáðu mótorhjólafréttir

28.11.20

Buell / Cannondale = Budale



 Buell götuhjól og Cannondale torfæruhjól sameinuð í eitt.

Einar "Malboro" Ragnarson er þekktur í mótorhjólaheiminum á Íslandi sem frumlegur mótorhjólasmiður og hefur hann smíðað nokkur afar áhugaverð hjól.

Eitt af þeim er Budale sem er einhverskona samtíningur tveggja ólíkra hjóla í eitt.

Hjólið sem um ræðir er upphaflega af gerðinni Buel Firebolt XB9 árg 2005 sem Einar fékk í pörtum og þar sem vantaði annann framdemparann fór hann að finna út hvað hann gæti notað í staðinn, og datt þá í hug að breyta hjólinu í off road ferðahjól.

Einar tók sem sagt framenda af Cannondale krossara og setti á hjólið tók svo afturgaffalinn og lengdi hann, það var eftir prufuaktstur sem það var ákveðið því hjólið var ókeyrandi með orginal afturgaffalinn eftir að krossgaffalinn var kominn að framan.

Drifbúnaði þufti líka að breyta og varð reimdrifbúnaðinn að fara og var sett keðja í staðinn og afturfelga af Buell Raceing 1125R racehjóli.
 Einnig var skipt út barkakúplingu og sett vökvakúpling.
Ljósfering og mælaborð voru færð upp um uþb. 7,5 sentimetra og petalabrakket færð niður fyrir þægilegri ásetu.

Einnig var unnið eitthvað í innspítingunni til að auka aflið á lægri snúning. 

Útkoman 
Að sögn Einars þá heppnaðist faratækið bara mjög vel.  "Er bara alger draumur.    Akstureigineikarnir er ágætir og virkar vel á slóðum en það er engin torfærugræja enda of þungt til þess".

"Ég stefni á að setja betri bremsur og breiðara framdekk á það til að gera það enn betra sagði Einar að lokum "

Myndir og efni   
Hallinn 2015

Skráðu þig á Póstlista Tíunnar og ekki missa af neinu í hjólunum.

25.11.20

Fyrsta mótorhjólið hans Heidda endurheimt úr steypufangelsi eftir 50 ár

Tommi og Jón Dan ásamt fleirum . Endurheimtu í dag gamalt mótorhjól sem af einhverjum ókunnum ástæðum var steypt inn í stiga á gömlu húsi á eyrinni á Akureyri í dag. 
Tommi mölvar vegginn sem hjólið var á bakvið

Hjólið er líklega af gerðinni
Göricke Bielefeld Domino (ILO-FP-50 1955 

Hjólið er víst fyrsta mótorhjólið sem Heiðar Þ Jóhannsson (Heiddi #10) átti og er af gerðinni Göricke Bielefeld. 

  Hann gaf það vini sínum Þórarinn Sigurbjörnsyni hjólið árið 1967 en þá var Heiddi 14 ára en Þórarinn 11 ára. En þá bjó Þórarinn í húsinu sem hjólið var steypt inn í.  Svo flutti hann úr bænum, og svo þegar hann kom að vitja hjólsins þá var búið að steypa hjólið inni með öllu sem því fylgdi.

Göricke Bielefeld
50cc
Ekki er vitað hvers vegna hjólið var steypt inni.

Húsið sem brann í fyrra er ónýtt , og nýttu safnmenn sér tækifærið og fengu að hirða hjólið sem slapp við brunan í steinkistunni sinni.

Hjólið komið inn á safn.

Heimildir og myndir af frétt Ruv í kvöld.

22.11.20

Síðasta keppni ársins í MotoGP fór fram í dag.


Portugalinn Miguel Olivera var á heimavelli í dag þegar hann vann sína aðra keppni í Motorgp í dag á KTM.

Hann var algerum sérflokki í dag leiddi keppnina frá upphafi og stakk strax af og hélt svo bara 4-5 sekunda forskoti þar til keppninni lauk.

Nýkrýndur heimsmeistarinn hætti keppni.

Suzuki  ökumamaðurinn Joan Mir var ekki að finna sig í Portugal í dag og hættu báðir ökumenn Suzuki liðsins keppni eftir bilanir í hjólunum.  Það kostaði Suzuki liðið sæti í keppni framleiðanda því Ducati sigraði keppni framleiðanda þetta árið eftir góð úrslit í dag.

Baráttan í dag stóð aðalega um annað sætið enda beindust myndavélarnar aðalega að þeim, því  Jack Miller sem ekur Ducati hélt sér í þriðja sætinu nánast alla keppnina þar til í lokin þar sem laumaði sér framúr Franco Morbidelli (Yamaha) sem hafði verið með annað sætið frá upphafi.

Þriðja sætið dugði Franco Morbidelli (Yamaha) til að verða annar í heildarstigum eftir heimsmeistaranum Joan Mir (Suzuki)

Topp 3 í dag.

1Portugal Miguel OliveiraKTM 
2Australia Jack MillerDucati3.193
3Italy Franco MorbidelliYamaha3.298

 
Lokastaðan




Ný hjól 2021

2021 er skammt undan og því fylgja að sjálfsögðu ný mótorhjól.
Hér er að líta á nokkur þeirra sem eru á boðstólnum.


BMW S 1000 R

2021 BMW S 1000 R 

 
Í fyrra fékk raceútgáfan af BMW S1000RR
mikla uppfærslu en í ár verður það nakta útgáfan sem fær hressingu frá hönnuðunum og er þetta flotta hjól útkoman.
5 kg léttara en það var og 165 hestöfl, með aflkúrfuna talsvert neðar en raceútgáfan. Það vantar allavega ekki aflið. nánar...

Honda CB1000R

Honda CB1000R

Honda Breytti sínu hjóli líka talsvert,
ný subframe og aðrar útlitsbreytingar eins og á framljósi og hlífar voru gerðar minni,
143 hestöfl ættu alveg að vera nóg en Honda hefir ekki verið í neinu hestaflastríði við aðra framleiðendur heldur vilja gera notendavæn mótorhjól með samt fullt af afli. nánar..


Yamaha MT-09

Yamaha MT-09

Hér ber að líta 3 cylindar 890 Rúmsentimetra jól frá Yamaha.
Frá fyrri árgerð þá er búið að stækka mótorinn um 43cc og mótorhúsið stækkað með tilheyrandi breytingum á insvolsi mótors.
Hraðskiptir sem hjálpar við snöggar gírskiptingar hefur m.a. verið bætt við en hjólið og margar aðrar breytingar voru gerðar á þessu hjóli sem má sjá,,,
meira .....



Langen 
  LANGEN 
TWO STROKE FIRST LOOK: STREET-LEGAL V-TWIN!

Hér ber að líta tvígengishjól frá Langen.
mótorinn er V2 tvígengis og er ekki nema 250cc með beinni inspítingu
Ekki láta fá kúbik samt blekkja því aflið er samt 75 hestöfl og virkilega öðruvísi cafe racer hér á ferðinni ef þú vilt vera öðruvísi.
Hægt er að forpanta þessa græju en verðmiðinn er ekki nema 28000 pund,,, sem reiknast sem góðar fimm miljónir íslenskar,,, og þá áttu eftir að koma því til íslands. og það kostar sitt ,, svo ef þig vantar að losa þig við fullt af pening og vera töff , þá skalltu panta þér eitt svona . meira.....

Benelli Leoncino

Benelli Leoncino

B
enelly heldur upp á 100 ára afmælið sitt og hér er eitt af hjólunum sem þeir bjóða upp á.
Mótorinn á þessum caffiracer er 500cc 47 hestöfl.
Annað krúttlegt hjól sem er örugglega fínt í snattið í borginni. Verðmiðinn er 6199 $ sem losar líklega vel yfir miljón hér á landi.  meira....


(Við látum þig vita ef eitthvað er um að vera hjá klúbbunum.)


17.11.20

Rafmagnsreiðhjól frá Harley-Davidson

Harley-Davidson hefur kynnt til sögunnar rafmagnsreiðhjól undir merki Serial 1, sem er fyrirtæki innan Harley-Davidson Company. Hjólið ber samt merki HarleyDavidson á afturgafflinum og ber þess merki að sækja hönnun sína til fyrsta Harley-Davidson mótorhjólsins sem kom fram á sjónarsviðið árið 1903.

Fyrsta mótorhjól Harley-Davidson var einfaldlega kallað Serial one innan fyrirtækisins, sem var bara lítill skúr á þessum tíma, svo að nafnið á rafhjólamerkinu er sterk tilvísun líka.
 Nú, 117 árum síðar, kynna lykilstarfsmenn innan Harley-Davidson þetta rafhjól sem byggt var á síðustu vikum, sem einstakt eintak. Það virðist þó vera byggt á grunni frumgerða rafmagnsreiðhjóla sem Harley-Davidson hefur verið að þróa og sýnd voru á EICMA sýningunni árið 2019. Það sem er sérstakt við nýja hjólið er hversu mikið af útliti sínu það sækir í fyrsta mótorhjólið. Dekkin eru hvít eins og á 1903 mótorhjólinu og hnakkurinn er gamaldags gormahnakkur klæddur brúnu leðri. Loks er drifið á hjólinu brún reim í stað keðju, sem eitt og sér er sterk tilvísun í gamla hjólið sem dreif afturdekkið með brúnni leðurreim. Loks er mótorinn sjálfur í grindinni, í stað miðju afturfelgunnar eins og vinsælt er í rafhjólum. 
Hvort að þetta fallega rafhjól nái í sýningarsali Harley Davidson er ekki sagt í tilkynningu frá Serial 1, en vorið 2021

Njáll Gunnlaugsson
6. nóvember 2020
 https://www.frettabladid.is/


16.11.20

Aldrei að kaupa gamalt hjól á Íslandi !


Að eiga og reka eldra (gamalt) mótorhjól sem getur verið góð skemmtun og er það nær oftast. Þegar ég segi gamalt þá svona allavega eldra en 25-30 ára gamalt hjól, en ef miðað er við tollareglur þá þarf hjólið að vera 40 ára gamalt til að teljast fornhjól !! En hverjum langar virkilega að eiga gamalt mótorhjól, eru það ekki bara rykfallnir eldri borgarar sem nenna ekki að hjóla heldur bara vilja “dudda” sér í skúrnum við lagfæringar og dásama gömlu góðu dagana (uss er þetta satt).

Ekki er mikið framboð af gömlum hjólum hér á landi, en alltaf af og til koma auglýsingar um gömul hjól til sölu og þá nær oftast tilbúin til uppgerðar eða smá lagfæringar sem “fylgja” kaupum. Verð þessar gömlu hjóla er yfirleitt ekki hátt ef miðað er við vinsæl gömul hjól erlendis. En yfirleitt ef auglýst er gamalt hjól hér á landi sem hefur verið gert upp á nokkuð góðan máta og eigandi vill fá sæmilegt verð fyrir gripinn, segjum t.d. Hondu CB750 árg. 1972 með jafnvel orginal pústkerfi og eigandi vill fá sanngjarnt verð t.d. kr. 1.700.000, þá segja “áhugasamir” ha hva er ekki í lagi hjá þér þetta er 45 ára gamalt dót og bæta við ég hélt að svona 2-3 hundruð þúsund væri sanngjarnt fyrir svona gamalt dót !!

Síðan koma sögur um hin ýmsu verð á Ebay og hvað þetta sé ódýrt þar og ekkert mál að flytja þetta inn fyrir brot af ásettu verði þessarar okur Hondu !! Alveg hárétt það er hægt að fá Hondur, Yamma og já jafnvel Súkkur á frábæru verði þarna í útlandinu. Þau líta virkilega vel út á ljósmyndum og sögð lítið notuð (sérstaklega frá USA), jafnvel sagt að orginal hjólbarðar séu enn undir “flottu” græjunni (það eru bara hetjur sem nota 40+ ára gamla hjólbarða !!).

Svo var það þessi sem vildi alls ekki kaupa þessa CB Hondu á þessu líka okurverði ! Sér á Ebay eins hjól auglýst fyrir litla 6000 dollara sagt í toppstandi og ekið aðeins 7000 mílur, semsagt varla búið að tilkeyra það. Mótor sagður alveg orginal, orginal lakk á bensíntank, sem og pústkerfi, felgur, demparar, pakkdósir, pakkningar og já: Toppgræja. Græjan er keypt miðað við ljósmyndir og sölusögu seljanda á Ebay. Nú er að flytja flotta hjólið heim sem keypt var í miðríkjum USA til austurstrandarinnar, það kostar hugsanlega milli 300-500 dollara, nú þar sem þetta er svo flott hjól, þá er keyptur kassi á 150 dollara (ódýr). Síðan er það flutningurinn heim, sem getur verið frá 100-200 þúsund a.m.k. En hvað hjólið var svo ódýrt= Heim komið á gjalda um kr. 860.000 sem er frekar lágt reiknað af höfundi, en uss nær ekkert nálægt þessu okurverði kr. 1.700.000 !!

Dagurinn er runninn upp og CB 750 Hondan er komin til landsins og það er ekki eftir neinu að bíða, greiða gjöld af þessu eðalhjóli. Þetta er fornhjól (40 ára og eldra) er með 13% vörugjöld og síðan vsk uppá 24%. Hjólið er komið heim fyrir ca. 1.200.000 !! Eigandinn brosir útað eyrum komin með hjólið heim fyrir bara ekkert, já það munar 500 þúsundum á þessu hjóli og “okurgræjunni” sem auglýst var, eigandi þess hjóls ætlaði að reyna að græða helling !!

Kassinn með fornhjólinu er fluttur heim með lyftubíl og kostar ekki nema 12 þús (ja svart) að flytja græjuna heim. Nýi eigandinn getur ekki beðið að rífa upp kassann, já honum líður eins og litlu barni á jólunum sem komið er í yfirspennu að bíða eftir öllum pökkunum !! Kassinn er rifin í tætlur með aðstoð góðs vinar. Og þarna loksins eftir smá áreynslu þá sér nýi eigandinn flottu CB Honduna sem honum hafði dreymt um í mjög mörg ár. Og það renna “gleðitár” niður vanga hans, svipað og þegar foreldrar eignast fyrsta barnið (uss er þetta ekki mótorhjólasaga !!!). En hve andskotinn, djölfulsins, helvítis, drullusokkar þarna í USA (annað sem sagt var er ekki hægt að skrifa þar sem börn gætu lesið þetta !!): Segir nýi alsæli eigandinn um nýju ódýru CB Honduna sína !!

Semsagt: Lakkið á þessum 45 ára bensíntank er “aðeins” upplitað og örfáar rispur, hliðarhlífar já þær fara í ruslatunnuna, teinar og felgur sem voru eins nýtt á ljósmyndum enda orginal fara í endurvinnsluna, eitthvað hefur mótor látið á sjá líka, vinurinn sem hjálpaði við rif á kassa bendir á framdempara og segir: Jæja nýjar bakkdósir þarf þarna og “fallegu” demparapípurnar fara eflaust til himnaríkis “hendu” dóts !! En hvernirg skildi nú einn fallegasti hluti fyrsta “súperbikesins” vera þ.e.a.s. pústkerfið sem einnig var sagt orginal: Það er haugryðgað og eflaust frábært í neftóbak en ekki mikið annað. Skoðun heldur áfram og brosið fallega sem myndaðist við kaup á þessu “ódýra” hjóli er fölnað eins og lauf að hausti (skáldlegur!!).

En nú er komið að því sem öllu máli skiptir að setja græjuna í gang, náð er í bensín á brúsa, geymir virðist allavega ekki orginal, olía er nóg á mótor þó svört sé, sést líka á botni kassans að eitthvað hefur lekið af olíu (samt ekki breti). Nýi eigandinn þrýstir á konutakkann (rafstart) og það heyrast einhver hljóð sem svona er eins og þegar þú hristir máldós með nöglum í. Hjólið fer í gang eftir nokkrar tilraunir með innsog og án innsogs, það gengur ekki á öllum, svo kemur líka svona fallega blár reykur frá þessari flottu græju og það batnar ekki eftir því sem hjólið hitnar, nei það bara versnar. Brosið er nú horfið með öllu og vinurinn sem fylgst hefur með þessu öllu, reynir að hughreysta nýja eigandann og segir: Það fást allir varahlutir í þessi hjól hjá David Silver í Englandi, góð verð hjá honum hef ég heyrt !!!

Nýi eigandinn hugsar, nei hann getur ekki hugsað því taugakerfið er hrunið, vonbrigðin eru svo mikil, hann horfir á vin sinn og segir: Þú segir ekki nokkrum manni frá þessu, þetta er flott hjól miðað við verð og það er lítið mál að gera græjuna upp, ég verð ekki lengi að koma þessu í alveg orginal stand, þetta eru bara smáaurar, já uss eitt til tvöhundruð þúsund kall og hjólið verður eins og nýtt. Nýi eigandinn heldur áfram að sannfæra sjálfan sig og smá saman fer taugakerfið í samt lag (í bili) og hann haldur áfram: Þetta verður meiriháttar gaman að geta gert þetta upp sjálfur, þó ég hafi nú aldrei snert á svoleiðis áður, þá er ég góður smiður, fæ mér bara svona leiðbeiningabækur og skoða jútúbe, lítið mál skal ég segja þér !!

Þegar hér er komið við sögu þá eru liðin nær tvö ár og þarna stendur CB 750 Hondan, eins og ný, það þarf sólgleraugu til að horfa á þetta glæsilega hjól, já þvílík fegurð. Lakkið, allt nýsprautað, meira segja grind, krómið nær allt nýtt króm, meira segja felgur með ryðfríum teinum, álið pólerað, mótor málaður ja sá hluti sem mála átti. Nýir afturdemparar, allt nýtt í framdempurum, nýtt rafkerfi (virðist sem USA mús hafi smakkað á orginalinu), nýr hraðamælir sem og snúningshraðamælir, sætið endurklætt af þeim besta í Kópavogi, nýtt pústkerfi (sem var á við siglingu með skemmtiferðaskipi í 14 daga í verði !!), mótor var tekin upp af toppmanni með mikla reynslu, blöndungum var ekki hægt að bjarga, ja svona má lengi telja. En hvað með það þetta var bara gaman þó nær öllu vinna hafi verið keypt út, þá hafði nýi eigandinn lært mikið við það að skrúfa í sundur allt sem hann gat, þó sumir hafi ekki verið ánægðir því það gleymdist að merkja hluti og engar ljósmyndir eða minnismiðar skrifaðir, en svona læra menn ekki satt.

Hvað kostar nýja CB 750 Hondan ?? Nýi eigandinn segir að það skipti engu máli, hann hafi fengið þetta á fínu verði, flest frá Davið Silver (sem keypti sér nýjan Bens) en örfáa hluti af Ebay. Vinnulaun fyrir málningarvinnu sem og uppgerð á mótor fékkst á fínu verði (svart !!). Sumir segja að nýi eigandinn af flottu CB Hondunni geti í raun hafa keypt þrjár eins og sú sem auglýst var á okurverðinu tveim árum fyrr !! Það skiptir engu máli ekki rétt svo lengi sem nýi eigandinn er ánægður, hann hefði aldrei látið plata inná sig Hondu á okurverði !!!

Höfundur er með enga reynslu af ofangreindu, en er reyndar með uppgert gamalt hjól til sölu á OKURVERÐI !!!

Fengið af vef Gaflara 2017