16.11.20

Aldrei að kaupa gamalt hjól á Íslandi !


Að eiga og reka eldra (gamalt) mótorhjól sem getur verið góð skemmtun og er það nær oftast. Þegar ég segi gamalt þá svona allavega eldra en 25-30 ára gamalt hjól, en ef miðað er við tollareglur þá þarf hjólið að vera 40 ára gamalt til að teljast fornhjól !! En hverjum langar virkilega að eiga gamalt mótorhjól, eru það ekki bara rykfallnir eldri borgarar sem nenna ekki að hjóla heldur bara vilja “dudda” sér í skúrnum við lagfæringar og dásama gömlu góðu dagana (uss er þetta satt).

Ekki er mikið framboð af gömlum hjólum hér á landi, en alltaf af og til koma auglýsingar um gömul hjól til sölu og þá nær oftast tilbúin til uppgerðar eða smá lagfæringar sem “fylgja” kaupum. Verð þessar gömlu hjóla er yfirleitt ekki hátt ef miðað er við vinsæl gömul hjól erlendis. En yfirleitt ef auglýst er gamalt hjól hér á landi sem hefur verið gert upp á nokkuð góðan máta og eigandi vill fá sæmilegt verð fyrir gripinn, segjum t.d. Hondu CB750 árg. 1972 með jafnvel orginal pústkerfi og eigandi vill fá sanngjarnt verð t.d. kr. 1.700.000, þá segja “áhugasamir” ha hva er ekki í lagi hjá þér þetta er 45 ára gamalt dót og bæta við ég hélt að svona 2-3 hundruð þúsund væri sanngjarnt fyrir svona gamalt dót !!

Síðan koma sögur um hin ýmsu verð á Ebay og hvað þetta sé ódýrt þar og ekkert mál að flytja þetta inn fyrir brot af ásettu verði þessarar okur Hondu !! Alveg hárétt það er hægt að fá Hondur, Yamma og já jafnvel Súkkur á frábæru verði þarna í útlandinu. Þau líta virkilega vel út á ljósmyndum og sögð lítið notuð (sérstaklega frá USA), jafnvel sagt að orginal hjólbarðar séu enn undir “flottu” græjunni (það eru bara hetjur sem nota 40+ ára gamla hjólbarða !!).

Svo var það þessi sem vildi alls ekki kaupa þessa CB Hondu á þessu líka okurverði ! Sér á Ebay eins hjól auglýst fyrir litla 6000 dollara sagt í toppstandi og ekið aðeins 7000 mílur, semsagt varla búið að tilkeyra það. Mótor sagður alveg orginal, orginal lakk á bensíntank, sem og pústkerfi, felgur, demparar, pakkdósir, pakkningar og já: Toppgræja. Græjan er keypt miðað við ljósmyndir og sölusögu seljanda á Ebay. Nú er að flytja flotta hjólið heim sem keypt var í miðríkjum USA til austurstrandarinnar, það kostar hugsanlega milli 300-500 dollara, nú þar sem þetta er svo flott hjól, þá er keyptur kassi á 150 dollara (ódýr). Síðan er það flutningurinn heim, sem getur verið frá 100-200 þúsund a.m.k. En hvað hjólið var svo ódýrt= Heim komið á gjalda um kr. 860.000 sem er frekar lágt reiknað af höfundi, en uss nær ekkert nálægt þessu okurverði kr. 1.700.000 !!

Dagurinn er runninn upp og CB 750 Hondan er komin til landsins og það er ekki eftir neinu að bíða, greiða gjöld af þessu eðalhjóli. Þetta er fornhjól (40 ára og eldra) er með 13% vörugjöld og síðan vsk uppá 24%. Hjólið er komið heim fyrir ca. 1.200.000 !! Eigandinn brosir útað eyrum komin með hjólið heim fyrir bara ekkert, já það munar 500 þúsundum á þessu hjóli og “okurgræjunni” sem auglýst var, eigandi þess hjóls ætlaði að reyna að græða helling !!

Kassinn með fornhjólinu er fluttur heim með lyftubíl og kostar ekki nema 12 þús (ja svart) að flytja græjuna heim. Nýi eigandinn getur ekki beðið að rífa upp kassann, já honum líður eins og litlu barni á jólunum sem komið er í yfirspennu að bíða eftir öllum pökkunum !! Kassinn er rifin í tætlur með aðstoð góðs vinar. Og þarna loksins eftir smá áreynslu þá sér nýi eigandinn flottu CB Honduna sem honum hafði dreymt um í mjög mörg ár. Og það renna “gleðitár” niður vanga hans, svipað og þegar foreldrar eignast fyrsta barnið (uss er þetta ekki mótorhjólasaga !!!). En hve andskotinn, djölfulsins, helvítis, drullusokkar þarna í USA (annað sem sagt var er ekki hægt að skrifa þar sem börn gætu lesið þetta !!): Segir nýi alsæli eigandinn um nýju ódýru CB Honduna sína !!

Semsagt: Lakkið á þessum 45 ára bensíntank er “aðeins” upplitað og örfáar rispur, hliðarhlífar já þær fara í ruslatunnuna, teinar og felgur sem voru eins nýtt á ljósmyndum enda orginal fara í endurvinnsluna, eitthvað hefur mótor látið á sjá líka, vinurinn sem hjálpaði við rif á kassa bendir á framdempara og segir: Jæja nýjar bakkdósir þarf þarna og “fallegu” demparapípurnar fara eflaust til himnaríkis “hendu” dóts !! En hvernirg skildi nú einn fallegasti hluti fyrsta “súperbikesins” vera þ.e.a.s. pústkerfið sem einnig var sagt orginal: Það er haugryðgað og eflaust frábært í neftóbak en ekki mikið annað. Skoðun heldur áfram og brosið fallega sem myndaðist við kaup á þessu “ódýra” hjóli er fölnað eins og lauf að hausti (skáldlegur!!).

En nú er komið að því sem öllu máli skiptir að setja græjuna í gang, náð er í bensín á brúsa, geymir virðist allavega ekki orginal, olía er nóg á mótor þó svört sé, sést líka á botni kassans að eitthvað hefur lekið af olíu (samt ekki breti). Nýi eigandinn þrýstir á konutakkann (rafstart) og það heyrast einhver hljóð sem svona er eins og þegar þú hristir máldós með nöglum í. Hjólið fer í gang eftir nokkrar tilraunir með innsog og án innsogs, það gengur ekki á öllum, svo kemur líka svona fallega blár reykur frá þessari flottu græju og það batnar ekki eftir því sem hjólið hitnar, nei það bara versnar. Brosið er nú horfið með öllu og vinurinn sem fylgst hefur með þessu öllu, reynir að hughreysta nýja eigandann og segir: Það fást allir varahlutir í þessi hjól hjá David Silver í Englandi, góð verð hjá honum hef ég heyrt !!!

Nýi eigandinn hugsar, nei hann getur ekki hugsað því taugakerfið er hrunið, vonbrigðin eru svo mikil, hann horfir á vin sinn og segir: Þú segir ekki nokkrum manni frá þessu, þetta er flott hjól miðað við verð og það er lítið mál að gera græjuna upp, ég verð ekki lengi að koma þessu í alveg orginal stand, þetta eru bara smáaurar, já uss eitt til tvöhundruð þúsund kall og hjólið verður eins og nýtt. Nýi eigandinn heldur áfram að sannfæra sjálfan sig og smá saman fer taugakerfið í samt lag (í bili) og hann haldur áfram: Þetta verður meiriháttar gaman að geta gert þetta upp sjálfur, þó ég hafi nú aldrei snert á svoleiðis áður, þá er ég góður smiður, fæ mér bara svona leiðbeiningabækur og skoða jútúbe, lítið mál skal ég segja þér !!

Þegar hér er komið við sögu þá eru liðin nær tvö ár og þarna stendur CB 750 Hondan, eins og ný, það þarf sólgleraugu til að horfa á þetta glæsilega hjól, já þvílík fegurð. Lakkið, allt nýsprautað, meira segja grind, krómið nær allt nýtt króm, meira segja felgur með ryðfríum teinum, álið pólerað, mótor málaður ja sá hluti sem mála átti. Nýir afturdemparar, allt nýtt í framdempurum, nýtt rafkerfi (virðist sem USA mús hafi smakkað á orginalinu), nýr hraðamælir sem og snúningshraðamælir, sætið endurklætt af þeim besta í Kópavogi, nýtt pústkerfi (sem var á við siglingu með skemmtiferðaskipi í 14 daga í verði !!), mótor var tekin upp af toppmanni með mikla reynslu, blöndungum var ekki hægt að bjarga, ja svona má lengi telja. En hvað með það þetta var bara gaman þó nær öllu vinna hafi verið keypt út, þá hafði nýi eigandinn lært mikið við það að skrúfa í sundur allt sem hann gat, þó sumir hafi ekki verið ánægðir því það gleymdist að merkja hluti og engar ljósmyndir eða minnismiðar skrifaðir, en svona læra menn ekki satt.

Hvað kostar nýja CB 750 Hondan ?? Nýi eigandinn segir að það skipti engu máli, hann hafi fengið þetta á fínu verði, flest frá Davið Silver (sem keypti sér nýjan Bens) en örfáa hluti af Ebay. Vinnulaun fyrir málningarvinnu sem og uppgerð á mótor fékkst á fínu verði (svart !!). Sumir segja að nýi eigandinn af flottu CB Hondunni geti í raun hafa keypt þrjár eins og sú sem auglýst var á okurverðinu tveim árum fyrr !! Það skiptir engu máli ekki rétt svo lengi sem nýi eigandinn er ánægður, hann hefði aldrei látið plata inná sig Hondu á okurverði !!!

Höfundur er með enga reynslu af ofangreindu, en er reyndar með uppgert gamalt hjól til sölu á OKURVERÐI !!!

Fengið af vef Gaflara 2017