29.11.04

Íslenskt mótorhjólafólk er gott

Bókin hans Njáls heitir Þá riðu hetjur um héruð - 100 ára saga mótorhjólsins á Íslandi.
Þar er byrjað á sögu fyrsta hjólsins og síðan fjallað um þau sem á eftir komu. Meðal annars er þar kafli um herinn, annar um lögregluna og þriðji um mótorhjólaklúbba, til dæmis hinn fjölmenna skellinöðruklúbb Eldingu sem æskulýðsráð stóð fyrir og margir þjóðkunnir menn voru í á sínum ungdómsárum.
 Njáll brosir góðlátlega þegar hann er spurður í kerksni hvort mótorhjólagengin séu að reyna að bæta ímynd sína með þessari bók og svarar: "Íslenskt mótorhjólafólk hefur yfirleitt haft á sér jákvæðan stimpil enda er það gott fólk." Njáll er búinn að safna efni um mótorhjól síðan um 1990, bæði sögum og myndum og á gagnagrunni í tölvunni geymir hann upplýsingar um 2.000 íslensk hjól.
Hann varð umsjónarmaður Sniglafrétta árið 1993 og hefur síðan skrifað óslitið um mótorhjól í dagblöð og tímarit. "Það stóð alltaf til að gefa út bók en ég sló því á frest því ég hafði ekki fundið út hver var tegund fyrsta hjólsins sem kom til Íslands 1905. Það var ekki fyrr en ég komst í kynni við sérfræðinga í Danmörku að það kom í ljós og með þessari bók er hulunni svipt af þeim leyndardómi," segir Njáll og sýnir mynd af slíku hjóli. Upplýsir líka að það hafi verið Þorsteinn Klemens, bílstjóri fyrsta bílsins á Íslandi, sem flutti hjólið inn. Mörg fleiri frækin hjól koma við sögu í bókinni og margir fræknir mótorhjólamenn. Til dæmis var það einn slíkur sem fór fyrstur á vélknúnu farartæki yfir Kjöl og náðist meira að segja á mynd nærri Gullfossi að þeirri ferð lokinni. Sú mynd prýðir hina nýju bók eins og rúmlega 200 aðrar sem margar hverjar eru að birtast á prenti í fyrsta sinn

9.11.04

Mótorhjólafólk - gæðablóð eða glæpamenn?

 

Mótorhjólafólk hefur stundum verið litið hornauga. Svartur leðurgallinn þykir ógnvekjandi og drunur vélfákanna láta þungt í eyrum. Endurteknar uppákomur í flugstöðinni og meint tengsl íslenskra hjólaklúbba við erlend glæpasamtök hafa skyggt enn frekar á ímynd hjólafólks.

Áhugafólki um bifhjól og bifhjólaakstur er ekki skemmt yfir tíðum fregnum af aðgerðum yfirvalda gegn erlendum mótorhjólaklúbbum. Félögum í norrænu samtökunum Hog Riders var meinuð innganga í landið fyrir helgi og því borið við að þeir væru á sakaskrá og af þeim stafaði hætta. Sama var uppi á teningnum í desember þegar níu norskir Vítisenglar reyndu að komast inn í landið og enn árið 2002 þegar nítján dönskum Vítisenglum var snúið við í gættinni.
Það fer fyrir brjóstið á heiðvirðu íslensku bifhjólafólki að það skuli tengt, beint og óbeint, við slíka erlenda hópa. Meginþorri þess hefur ekkert til saka unnið. Það hefur hins vegar brennandi áhuga á mótorhjólum og þykir fátt betra en að bruna eftir malbikinu og finna hestöflin krauma í klofinu. Það er þó ekki út í bláinn að harðsvíruð glæpasamtök á Norðurlöndunum séu tengd við Ísland og íslenska mótorhjólaklúbba. Liðsmenn þeirra hafa jú reynt að komast til landsins til að hitta Íslendinga sem eiga sér þá heitu ósk að fá inngöngu í erlendu klúbbana. Og þó að íslenskir fylgismenn erlendu samtakanna þvertaki  fyrir glæpastarfsemi erlendra vina sinna er það óumdeild skilgreining íslenskra yfirvalda og einmitt á þeim forsendum er þeim meinaður aðgangur.
 Nú um helgina öðlaðist vélhjólaklúbburinn Hrollur þann sess að verða reynslufélag innan Hog Riders. Næsta skref er svo full aðild. Hermt hefur verið að Fáfnir hafi hug á að fá sambærilega stöðu innan Vítisengla en það ferli er mun skemmra á veg komið. Fyrsta skrefið er að gerast stuðningsaðilar, þá fylgisveinar og loks reynslufélag áður en aðild fæst.

 Góðir strákar í Hrollli 

Baldvin Jónsson er formaður Sniglanna, bifhjólasamtaka lýðveldisins. Hann segir umrædd mál skaða mótorhjólafólk og vildi heldur vera laus við svona uppákomur. „Mér finnst algjör óþarfi að hengja sig á erlenda mótorhjólaklúbba. Þeir sem það gera verða hvorki stærri né merkilegri fyrir vikið,“ segir Sniglaformaðurinn. Hann ítrekar að umræðan hafi neikvæð áhrif á ímynd bifhjólafólks og tekur skýrt fram að Sniglarnir standi ekki á bak við komur þessara manna, þar séu aðrir á ferðinni. „Við styðjum þetta alls ekki en getum auðvitað ekki bannað þetta.“ Baldvin segir óvíst hvað framtíðin beri í skauti sér nú þegar Hog Riders hafi skotið rótum á  Íslandi en býst ekki við neinu misjöfnu, ekki í bráð í það minnsta. „Ég er ekki hræddur við þetta og ekki hræddur um að strákarnir sem gengu í Hog Riders um helgina eigi eftir að leiðast út í eitthvað  misjafnt því það eru góðir strákar.“ Hann fullyrðir jafnframt að þess sé langt að bíða að hér muni íslenskur Vítisengill ganga um í fullum skrúða, „það verður að minnsta kosti ekki næstu árin,“ segir Baldvin.
 Eftir því sem næst verður komist eru sextán klúbbar mótorhjólamanna starfræktir í  landinu, misfjölmennir og misvirkir eins og gengur. Hrollur er fámennt félag með aðsetur við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði og hlaut um helgina reynsluaðild að Hog Riders. Haft er eftir Gunnari Hafþóri Eymarssyni Hrollsmanni í DV í gær að þeir séu fjölskyldumenn og mótorhjólin séu þeirra  hobbí. Orðrétt segir hann einnig:„Við erum ekki þekktir fyrir neitt dóp og í þessum partíum sem við höfum farið í úti eru menn að drekka og ef það er eitthvað dóp í gangi er enginn að veifa því.“
Fáfnir er að sama skapi fámennur félagsskapur en höfuðstöðvarnar eru í Kaplahrauni í Hafnarfirði.
Fáfnismenn hafa verið tengdir Vítisenglum og sagðir langa til að ganga í þau alræmdu samtök.  Nafnkunnustu Fáfnismennirnir eru Jón Trausti Lúthersson, Brynjólfur Þór Jónsson og Sverrir Þór Einarsson. Haft hefur verið eftir Brynjólfi í Fréttablaðinu að Vítisenglar séu stór og virt samtök og lögleg þar sem þau starfi. Hann sagði það ekki trufla fyrirætlanir Fáfnismanna þó Vítisenglar væru bendlaðir við glæpi enda aldrei fallið dómur á sjálf samtökin. Einstakir félagsmenn hafa hins vegar hlotið dóma og sumir þunga. Fáfnir starfaði framan af í Grindavík en fluttist á höfuðborgarsvæðið fyrir nokkru.

Hinir 

Í Óskabörnum Óðins voru eitt sinn ungir og reiðir menn sem vildu ekki lúta stjórn annarra og stofnuðu því sitt eigið félag. Þeir hafa elst og reiðin runnið af þeim og lítið fer fyrir starfseminni. Óskabörn Óðins hafa útibú í Danmörku og helgast það af því að nokkrir félagsmenn fluttust utan og stofnuðu þar deild.
  DMFÍ stendur fyrir Drullumallarafélag Íslands og eru félagsmenn áhugasamir um torfæruakstur en eiga einnig götuhjól. Nokkur félög eru bundin við landsvæði og má þar nefna Erni á Suðurnesjum, Postula á Suðurlandi, Smaladrengi á Siglufirði og víðar á Norðurlandi og Rafta í Borgarfirði.
 Í Berserkjum eru menn sem allir eru að gera upp Harley Davidson-mótorhjól  og HOG er félagsskapur Harley-eigenda og starfar í tengslum við Harley-umboðið á Íslandi.
Hvítabirnir eru lausbeislaður félagsskapur en aðalfundur er haldinn einu sinni á ári og þá á landsmóti Snigla. Er þess vandlega gætt að fundurinn standi ekki nema í eina klukkustund. Í Varúlfana fá þeir einir inngöngu sem lifa eftir 12 spora kerfinu og Vélhjólafjelag gamlingja er félagsskapur fólks á  öllum aldri sem á gömul hjól. Engar upplýsingar fengust um starfsemi Mjölnis í Keflavík.
bjorn@frettabladid.is
9.11.2004

3.6.04

Husqvarna sigraði á Klaustri


Um síðustu helgi var eitt allra stærsta akstursíþróttamót landsins haldið á Kirkjubæjarklaustri. Um 400 keppendur frá 4 löndum komu saman til að keppa í þolakstri á torfæruhjólum en áætlað er að í heild hafi hátt í tvö þúsund manns mætt á svæðið. Bjarni Bærings fylgdi straumnum á Klaustur og gerir hér mótinu skil.

Þessi árlega þolaksturskeppni fer þannig fram að öllum keppendum er raðað upp á ráslínu, sitjandi á torfæruhjólum sínum með dautt á vél. Þegar flaggað er til leiks ræsa keppendur vélarnar og þeysa af stað á 17 kílómetra langri braut sem lögð er í stóran hring um landslag svæðisins, sem samanstendur af gígóttu graslendi í bland við gljúpan sand og hvasst hraun. Ekið er í 6 klukkustundir samfleytt og sá sigrar sem flesta hringi ekur. Auk einstaklingsflokks er keppt í tvímenningsflokki en þá skiptast tveir ökumenn á að keyra.

Um 400 keppendur mættu til leiks

Mótið fór fram í landi Efri-Víkur við Kirkjubæjarklaustur. Kjartan Kjartansson, kennari á  Kirkjubæjarklaustri, á veg og vanda að þessu alþjóðlega móti sem fór nú fram fjórða árið í röð. Um 400 keppendur frá 4 löndum mættu til leiks, en vel á annað þúsund manns sóttu svæðið, nutu veðurblíðunnar og fylgdust með sleitulausri 6 tíma baráttu.

Svíaslagur um forystuna

Yamaha-liðið með þá Micke Frisk frá Svíþjóð og Brent Brush frá Bandaríkjunum innanborðs tók
strax forystu og leiddi keppnina framan af. Micke var að keppa í sitt þriðja skipti en Brent hefur einu
sinni áður keppt á Klaustri. Husqvarna-liðið, skipað Svíanum Anders Eriksson og Bretanum Tony
Marshall, fylgdi fast á eftir, gaf Yamaha-liðinu aldrei færi á að komast frá þeim og náði forystu á köflum. Þriðja parið sem blandaði sér í baráttuna samanstóð af þeim Ed Bradley frá Bretlandi og Einari Sverri Sigurðarsyni á KTM.

Tryggði sigurinn í síðasta hringnum 

Heimir Barðason er ekki kallaður Lopi
að ástæðulausu, enda keppir hann
jafnan í þéttprjónaðri lopapeysu.
Hart var barist á hverri sekúndu og slegist um aksturslínuna í hverri beygju allar þær sex klukkustundir sem keppnin stóð yfir. Þegar kom að lokahringnum höfðu Micke og Brent 10 sekúndna forystu á Anders og Tony. Brent var lurkum laminn eftir harða byltu og Micke varð því að keyra síðustu 3 hringina sjálfur. Micke þurfti að taka örstutt eldsneytishlé og Anders nýtti sér það til að taka forystuna. Anders, sem hefur verið atvinnuökumaður hjá Husqvarnaliðinu síðustu 9 ár og á að baki 7 heimsmeistaratitla í þolakstri, keyrði lokahringinn af miklu öryggi og leyfði engum að ógna sigrinum. Dauðuppgefinn kláraði Micke keppnina í 2. sæti, töluvert á eftir Anders, og Ed Bradley og Einar Sigurðarson áttu 3. sætið nokkuð öruggt.

Mbl 03.06.2005

31.3.04

Nýjustu motocrosshjólin mætast í risareynsluakstri


Suzuki /Honda og Yamaha

Kawasaki /TM og KTM
Leiksviðið er Vestmannaeyjar, líklega best þekktar sem átakasvæði óvæginna náttúruafla, nema hvað að þessu sinni eru átökin af mannanna völdum. Við erum
að tala um stærsta reynsluakstur sinnar tegundar á Íslandi þegar leidd voru saman öll nýjustu motocrosshjólin í létt- og millivigtarflokki.

Umsjón með prófinu og höfundur greinar er Þórir Kristinsson. 

Þennan flokk skipa Honda CRF 250,nýjasta útspil Hondu sem fjallað var um í Bílum fyrr í vetur. Yamaha YZF 250 sem hefur verið nokkuð einrátt í þessum flokki frá árinu 2001 en hefur nú fengið
harða samkeppni. Suzuki RMZ og Kawasaki KXF 250, sem einnig hafa sést á síðum Bíla og eru eineggja tvíburar enda afrakstur samstarfs Suzuki og Kawasaki og því í raun sama hjólið að litnum undanskildum. Þótt ekki hafi verið kostur á að reyna fjórgengishjól frá KTM og TM eiga þeir sína fulltrúa í þessum hópi í formi öflugra 125cc tvígengishjóla og höfðum við þau með í þessum  reynsluakstri enda keppa þau í sama flokki. Hins vegar mega menn búast við að sjá ný og öflug fjórgengishjól rúlla af færibandinu frá þessum framleiðendum í náinni framtíð.
Reynsluaksturinn fór fram á motocrossbraut þeirra Vestmannaeyinga, sendinni eldfjallabraut sem sannarlega á engan sinn  líka í heiminum, og vil ég fá að þakka kærlega fyrir afnotin af henni og eins þeim er hjálpuðu til við að gera allt þetta mögulegt. Til að fá sem besta og breiðasta innsýn inn í þennan fríða flokk hjóla fékk ég til liðs við mig þá Heimi Barðason, gamlan ref í hjólabransanum, og Reyni Jónsson, fyrrverandi Íslandsmeistara í motocrossi og án efa einn af okkar bestu ökumönnum í dag. Eftir átök dagsins, þar sem öll hjólin voru reynd til hins ýtrasta, settumst við niður og bárum saman bækur okkar. Sumt fór alveg eins og okkur grunaði. Annað kom algerlega á óvart.

Suzuki RMZ250 og Kawasaki KXF250


Samvinna Kawasaki og Suzuki hefur nú litið dagsins ljós og senda verksmiðjurnar í fyrsta skipti fjórgengishjól inn í létt/millivigtarflokkinn sem hafa hlotið nöfnin KXF og RMZ.
Verkaskiptingin var þannig að Suzuki hannaði vélina og Kawasaki smíðaði grindina og fjöðrunina (Kayaba). Fjöðrunin er fín en við fundum fyrir smáóstöðugleika á ferð. Ekkert alvarlegt þó. Hjólin tvö eru þau sömu fyrir utan lögun og lit á plasti hjólsins. Að sitja á hjólunum er þægilegt enda hjólin grönn og nett í laginu. Mjög hávöxnum mönnum mun þó finnast fulllítið bil frá sæti niður á
standpetala sem gerir sitjandi stöðu ansi samankreppta. Sneiða má hjá þessu með hærra sæti og hærra stýri hjálpar líka með standandi stöðu. Vélin skilar snörpu afli alveg upp úr neðsta vinnslusviði og það gerir það að verkum að hjólið er létt og skemmtilegt í akstri og hentar vel á brautir sem hafa þröngar beygjur og stutta aðkeyrslu upp á stökkpalla. Stjórntæki hjólsins eru afar vel heppnuð og er t.a.m. kúplingin líklega sú besta í þessum flokki hjóla. Við höfum heyrt töluvert um vandamál sem  tengjast ofhitnun á þessum hjólum en getum með góðri samvisku sagt að ekkert slíkt kom upp þennan
dag í erfiðri sand- og vikurbraut þeirra Eyjamanna. Helsti ókostur þessara hjóla er e.t.v. sá að töluvert
var um titring frá vél upp í stýri og skrifast það líklega á að engin jafnvægisstöng (counterbalancer) er í þessum hjólum. Þetta fyrsta ár RMZ/ KXF lofar góðu. Hjólin eru vel smíðuð og heildarmyndin afar vel heppnuð. Suzuki-umboðið í Hafnarfirði selur RMZ og kostar það 790.000 staðgreitt. KXF fæst hjá versluninni Nitro og kostar 780.000 staðgreitt.

Honda CRF 250 

Honda hefur ekki farið sér óðslega í því að koma þessu hjóli á markað og eytt gríðarlegum tíma í hönnun og rannsóknarvinnu. Útkoman er hjól sem er eins og smækkuð mynd af stóra bróður, CRF 450, sem getur ekki boðað annað en gott. CRF 250 skilar góðu afli, frábærum aksturseiginleikum, góðri fjöðrun og góðri endingu. Nokkurn veginn allt sem  skiptir máli. Það er gaman að horfa á Honduna, hún er falleg og setur nýja álgrindin stóran svip á hjólið. Vélin er fjögurra ventla og ólík hinum hjólunum að því leyti að hún og gírkassinn hafa tvö aðskilin smurkerfi, sem á að skila betri smurningu. Það sem einkennir þetta hjól er að það virðist alltaf vera nægt afl og tog til staðar og hjólið er ekki viðkvæmt fyrir því í
hvaða gír maður er þegar gefið er inn. Honda kemur með Showa-fjöðrun sem reyndist vel við flestar  aðstæður hvort sem það var yfir gróf  þvottabretti eða í lendingu eftir stökk. Stöðugleiki hjólsins var einnig með ágætum. Eins og með RMZ og KXF er bilið frá sæti niður í standpetala fulllítið fyrir menn sem eru yfir 191cm á hæð og gerir sitjandi stöðu pínulítið óþægilega. En með fullri sanngirni er ekki annað hægt en að ausa þetta hjól lofi. Það gerir e.t.v. ekkert langbest; það hefur ekki kraftmestu vélina eða bestu fjöðrunina. En það gerir hins vegar allt mjög vel og ekkert illa og er því á heildina litið líklega besta hjólið í þessum flokki. Ef eitthvað má finna að hjólinu er það líklega að það skilar
Hvað Fannst þeim
sínu svo vel og örugglega að ökumaðurinn verður helst til værukær og latur. Honda CRF kostar 823.000 staðgreitt og fæst í Hondaumboðinu Vatnagörðum.

 Yamaha YZF 250

 Yamaha hefur farið með tögl og hagldir í þessum flokki allt frá því það sendi fyrst frá sér YZF250 árið 2001. Síðan þá hefur hjólið fengið lítilsháttar andlitslyftingu ár hvert og fyrir 2004 var megináherslan lögð á að létta hjólið enn frekar og má nefna að standpetalarnir og fremra púströrið eru úr titanium. Yamaha hefur einka leyfi á 5 ventla vél sinni en ólíkt öðrum hjólum er olíuforðinn fyrir hana geymdur í grind hjólsins. Miðað við önnur hjól skilar Yamaha-vélin mestu og bestu togi á miðju og hæsta vinnslusviði. Á lágsnúning er Jamminn þokkalegur, maður þarf dálítið að gæta að því í hvaða gír maður er og e.t.v. að hjálpa til og snuða á kúplingunni á köflum til að ná inn aflinu. En þegar komið er hærra í vinnslusviðið fara hlutirnir að gerast fyrir alvöru og þegar hraðinn er orðinn mikill er hjólið konungur í ríki sínu. YZF kemur með 48mm Kayaba-fjöðrun sem virkar mjög svo vel og gersamlega  étur upp allar þær hindranir sem verða á vegi hjólsins. Hjólið er afar stöðugt á ferð og beinlínis kallar á að því sé ekið hratt. Stjórntæki hjólsins eru þokkaleg, þó ekki eins góð og á hinum hjólunum sem hafa töluvert betri  bremsur og léttari kúplingu. Þar sem þetta er í fyrsta skipti sem Yamaha fær samkeppni í þessum stærðarflokki fjórgengishjóla er líklegt (og vonandi) að þeir í Japan bretti upp ermarnar og geri kúplinguna léttari og bremsurnar betri fyrir næsta ár. Það er dálítið gamaldags tilfinning að sitja á hjólinu, það er langt og sumum þykir það of breitt um miðjuna. Þrátt fyrir nokkra galla og harða samkeppni frá öðrum er YZF enn í dag mikil keppnisgræja og mjög áreiðanlegt hjól. Hjólið kostar 825.000 staðgreitt og fæst hjá Arctic Trucks/Yamaha.

KTM 125SX

 Fyrir um 10 árum tóku fáir KTM alvarlega, en í dag er öldin önnur. KTM hefur stimplað sig rækilega inn sem framleiðandi og vitna sölutölur og meistaratitlar um það. Fyrir þá
sem ekki vita keppa 125cc tvígengishjól í sama flokki og 250cc fjórgengishjól og má sjálfsagt deila um sanngirni þess. Þó má benda á að besti ökumaðurinn í ameríska supercrossinu í þessum flokki  (sem sýnt er á sjónvarpsstöðinni Sýn) heitir James Stewart og tekur 125cc tvígengishjól fram yfir öflugri fjórgengishjól. Tvígengishjólin hafa ýmsa kosti sem fjórgengishjólin hafa ekki. Þau skila
snarpara afli og eru léttari og meðfærilegri í akstri en fjórgengishjólin. Hönnun KTM er engu lík, maður bara finnur það um leið og maður sest á hjólið. Mótorinn er afar öflugur og þótt munurinn á KTM 125 og stærri hjólunum sé nokkur er í raun ótrúlegt hversu lítið hann gaf stærri hjólunum eftir í  sandinum. Bremsur, gírkassi og fjöðrun virkuðu alveg eins og vera skyldi en það var helst á þeim
köflum þar sem maður kom hjólinu á sæmilega ferð að það fannst fyrir óstöðugleika. Það er svo sem ekkert nýtt af nálinni en KTM-eigendur hafa komist fyrir það með því að setja stýrisdempara á hjólin. Stjórntæki  hjólsins eru til fyrirmyndar og frambremsa þess er með eindæmum góð.Í beinum samanburði vantar KTM 125SX auðvitað nokkurt afl til að standa jafnfætis 250cc hjólunum, sérstaklega upp brekkur og í djúpum sandi. En fyrir unglinga er erfitt að ímynda sér skemmtilegra og betra hjól. Það 125cc hjól sem slær KTM 125SX við má vera fjári gott. Hjólið kostar 698.900 stgr og fæst hjá versluninni Moto/KTM.

TM 125


 Ítalir hafa verið þekktir fyrir að smíða hasta og hraðskreiða bíla og þetta hjól ber nokkurn keim af því. Hjólið er létt og fremur meðfærilegt og má e.t.v. segja að þetta hjól komi eins og harðkjarnakeppnisgræja beint út úr umboðinu. En þarf það að vera gott? Svarið er já og nei. Þegar maður kaupir TM er maður fyrst og fremst að fá keppnishjól hlaðið dýrum búnaði, s.s. vökvakúplingu, álstýri og Öhlins-fjöðrun svo lítið eitt sé nefnt. Fyrir marga er þetta hjól hins vegar ansi hast og fjöðrunin nokkuð stíf. Við stilltum fjöðrunina reyndar upp á nýtt og við það lagaðist hjólið töluvert en var samt í stífari kantinum fyrir okkar smekk. Vinnslusvið þessa hjóls er ágætt, aflið kemur ansi snöggt inn og krefst TM því meiri nákvæmni og athygli ökumanns og  fyrirgefur minna en hin hjólin í reynsluakstrinum. Stjórntæki hjólsins virka vel og glussakúplingin er ljómandi góð og hjólið er fallegt á að horfa. E.t.v. er stærsta takmörkun þessa hjóls að það er ekki fyrir hvern sem er. Það hefur góða aksturseiginleika en þú þarft að vera afar góður ökumaður til að skilja þá og geta nýtt þá til fulls. Það geta bæði Viggó Viggósson og Kári Jónsson vitnað um en þeir eru í hópi okkar bestu ökumanna og keyra báðir á TM með góðum árangri. TM 125 fæst hjá  JHM sport og kostar 723.900 staðgreitt.

Að lokum

 Þegar upp er staðið er ekkert eitt hjól sem skarar fram úr öðrum en ef það er eitthvert hjól sem stendur fetinu framar en önnur verður Hondan fyrir valinu enda gerir hún flest vel og mun falla stórum hópi ökumanna í geð. Það sem kemur þó til með að vega þungt þegar menn velja sér hjól er verð, varahlutaþjónusta og persónulegt álit hvers og eins því öll þessi hjól bera það með sér að geta lent á verðlaunapalli í motocrossi í sumar.
Morgunblaðið 31.03.2004