3.6.04

Husqvarna sigraði á Klaustri


Um síðustu helgi var eitt allra stærsta akstursíþróttamót landsins haldið á Kirkjubæjarklaustri. Um 400 keppendur frá 4 löndum komu saman til að keppa í þolakstri á torfæruhjólum en áætlað er að í heild hafi hátt í tvö þúsund manns mætt á svæðið. Bjarni Bærings fylgdi straumnum á Klaustur og gerir hér mótinu skil.

Þessi árlega þolaksturskeppni fer þannig fram að öllum keppendum er raðað upp á ráslínu, sitjandi á torfæruhjólum sínum með dautt á vél. Þegar flaggað er til leiks ræsa keppendur vélarnar og þeysa af stað á 17 kílómetra langri braut sem lögð er í stóran hring um landslag svæðisins, sem samanstendur af gígóttu graslendi í bland við gljúpan sand og hvasst hraun. Ekið er í 6 klukkustundir samfleytt og sá sigrar sem flesta hringi ekur. Auk einstaklingsflokks er keppt í tvímenningsflokki en þá skiptast tveir ökumenn á að keyra.

Um 400 keppendur mættu til leiks

Mótið fór fram í landi Efri-Víkur við Kirkjubæjarklaustur. Kjartan Kjartansson, kennari á  Kirkjubæjarklaustri, á veg og vanda að þessu alþjóðlega móti sem fór nú fram fjórða árið í röð. Um 400 keppendur frá 4 löndum mættu til leiks, en vel á annað þúsund manns sóttu svæðið, nutu veðurblíðunnar og fylgdust með sleitulausri 6 tíma baráttu.

Svíaslagur um forystuna

Yamaha-liðið með þá Micke Frisk frá Svíþjóð og Brent Brush frá Bandaríkjunum innanborðs tók
strax forystu og leiddi keppnina framan af. Micke var að keppa í sitt þriðja skipti en Brent hefur einu
sinni áður keppt á Klaustri. Husqvarna-liðið, skipað Svíanum Anders Eriksson og Bretanum Tony
Marshall, fylgdi fast á eftir, gaf Yamaha-liðinu aldrei færi á að komast frá þeim og náði forystu á köflum. Þriðja parið sem blandaði sér í baráttuna samanstóð af þeim Ed Bradley frá Bretlandi og Einari Sverri Sigurðarsyni á KTM.

Tryggði sigurinn í síðasta hringnum 

Heimir Barðason er ekki kallaður Lopi
að ástæðulausu, enda keppir hann
jafnan í þéttprjónaðri lopapeysu.
Hart var barist á hverri sekúndu og slegist um aksturslínuna í hverri beygju allar þær sex klukkustundir sem keppnin stóð yfir. Þegar kom að lokahringnum höfðu Micke og Brent 10 sekúndna forystu á Anders og Tony. Brent var lurkum laminn eftir harða byltu og Micke varð því að keyra síðustu 3 hringina sjálfur. Micke þurfti að taka örstutt eldsneytishlé og Anders nýtti sér það til að taka forystuna. Anders, sem hefur verið atvinnuökumaður hjá Husqvarnaliðinu síðustu 9 ár og á að baki 7 heimsmeistaratitla í þolakstri, keyrði lokahringinn af miklu öryggi og leyfði engum að ógna sigrinum. Dauðuppgefinn kláraði Micke keppnina í 2. sæti, töluvert á eftir Anders, og Ed Bradley og Einar Sigurðarson áttu 3. sætið nokkuð öruggt.

Mbl 03.06.2005