25.11.95

Sniglarnir ­ hagsmunasamtök bifhjólafólk

Bifhjólasamtök lýðveldisins

BIFHJÓLASAMTÖK lýðveldisins, Sniglar, voru formlega stofnuð 1. apríl 1984 af tuttugu manna hópi. Nú eru félagsmenn skráðir 982 en það eru u.þ.b. 400 til 500 virkir. Í Sniglunum er fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins allt frá alþingismanni til atvinnuleysingja. En öll eiga þau sameiginlegt áhugamál og það er mótorhjól.

 Hér áður fyrr urðu Sniglar mikið varir við fordóma í sinn garð, fordóma sem voru sprottnir frá bíómyndum þar sem glæpagengin þeysa um á mótorhjólum og gera eitthvað ljótt. En nú tilheyrir þessi hugsunarháttur fortíðinni. Sniglar hafa margoft sýnt það og sannað að þau eru fyrirmyndarfólk. Auðvitað eru skemmd epli inn á milli eins og annars staðar í þjóðfélaginu en svartir sauðir fá ekki inngöngu í samtökin. Inngönguskilyrði eru þau að umsækjandi sé orðinn 17 ára og hafi fengið meðmæli 13 fullgildra Snigla. Umsækjandi í Ungsnigla verður að vera orðinn 15 ára, hafa samþykki forráðamanns ásamt a.m.k. meðmælum 6 fullgildra Snigla. Síðan fer umsóknin fyrir stjórn sem ákveður hvort viðkomandi fær inngöngu.

Innan Snigla er stjórn sem er skipuð 5 fullgildum Sniglum og skipta þeir með sér hlutverkum oddvita, varaoddvita, gjaldkera, ritara og fjölmiðlafulltrúa. Einnig eru þar starfandi nokkrar nefndir.

Tilgangur Snigla er að koma á sem víðtækustu samstarfi bifhjólafólks, gæta hagsmuna þess og bæta aðstöðu til ánægjulegri bifhjólamenningar, t.d. vinna og fylgjast með nauðsynlegum endurbótum á umferðarlögum, kennslureglum, skoðunarmálum, tryggingagjöldum, opinberum gjöldum og öðru er viðkemur bifhjólum. Einnig er lögð áhersla á að stuðla að auknum skilningi á málefnum Snigla og ná sem víðtækustu samstarfi við önnur félög, samtök og einstaklinga hvað varðar meðferð og notkun bifhjóla.

Ýmsar hefðir

Í Sniglunum eru hinar ýmsu hefðir, t.d. 1. maí er árleg hópkeyrsla, 17. júní er árleg ferð á Akureyri, 24. júní er hjóladagur Snigla með alls konar uppákomum. Hvítasunnuhelgina sniglast margir á Lýsuhól, landsmót er alltaf haldið fyrstu helgina í júlí og má segja að það sé fjörmesta ættarmót sem haldið er á Íslandi. Svo er Landmannalaugarferð fyrstu helgina í september. Þangað fara yfirleitt þeir allra hörðustu Sniglar sem til eru. Síðan er farin árleg barnaferð með afkomendur og litla ættingja Snigla.

Sniglar eru virkastir á sumrin en þegar líða tekur á haustið og leggja verður hjólunum er haldin Haustógleði, síðan tekur Vetrarsorgardrykkjan við.

Margir leggjast í dvala yfir veturinn með hjólunum sínum og dunda þar við að smíða, breyta, hreinsa og pússa gripina en gefa sér nú samt tíma til að halda jólahjólaball og árshátíð. Nú, svo er árlegur aðalfundur. Sniglarnir gefa út Sniglafréttir mánaðarlega sem eru fullar af fróðleik, glensi og gamni.

Lesandi góður, þú veist nú ýmislegt um Bifhjólasamtök lýðveldisins, Snigla. Opnir Sniglafundir eru haldnir að Bíldshöfða 14 kl. 20.00 öll miðvikudagskvöld.

Hjóladagurinn verður haldinn hátíðlegur 24. júní

Hjóladagurinn er baráttudagur bifhjólafólks á Íslandi. Með hjóladegi viljum við vekja athygli á veru okkar í umferðinni, sjónarmiðum okkar og baráttumálum.

Sniglar héldu þennan dag hátíðlegan fyrst árið 1990 og hefur hann orðið mjög vinsæll. Dagskrá hjóladagsins nú í ár er á þessa leið: Kl. 15.00 er hópkeyrsla frá Kaffivagninum niður á Granda. Bifhjólafólk sem tekur þátt í keyrslunni mæti kl. 14.00. Hjólað verður um stórborgarsvæðið og endað niðri á Ingólfstorgi kl. 16.00. Þar verða hátíðarhöld sem byrja með setningu og síðan verður einnar mínútu þögn í minningu látinna félaga. Síðan mun Snigill halda tölu og Ólafur Guðmundsson forseti LÍA flytur ræðu, Árni Johnsen flytur ræðu, fulltrúi lögreglustjóra í Reykjavík talar, Valgerður Þ.E. Guðjónsdóttir frá Umferðarráði talar. Tveir mótorhjólamenn segja frá eigin mótorhjólaslysi, Sniglar láta móðan mása og heiðurssnigill 1000 krýndur. Gunni Klútur 58 kemur á óvart og síðan eru dagskrárlok kl. 18.00. Minjagripasala Snigla verður á staðnum. Hvetjum við alla sem áhuga hafa á að skoða glæsta járnfáka og kynna sér sjónarmið okkar að mæta niðri á Ingólfstorgi kl. 16.00.

Bestu kveðjur.
BRYNJA GRÉTARSDÓTTIR,
Snigill nr. 936,
23. júní 1995 

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/208757/

30.8.95

Datt á 160 km hraða

Mótorhjólakappinn Karl Gunnlaugsson flaug
harkalega á hausinn í mótorhjólakeppni  í
Englandi. Hann handarbrotnaði en hjálmur
og hlífðargalli varnaði frekari meiðslum Hvíta
skellan á hjálminum sýnir að hann er ónýtur.

í stórri mótorhjólakeppni á Snetterton kappakstursbrautinni í Englandi


Kall Gunnlaugsson, nýkrýndur íslandsmeistari í kvartmílu, þykist lánsamur að hafa sloppið með handarbrot eftir að hann féll af keppnishjóli sínu í kappaksturskeppni í Englandi. Hann féll af hjólinu á 160 km hraða fyrir framan hóp annarra keppenda ístórri mótorhjólakeppni á Snetterton-kappakstursbrautinni. Hann keppti þar ásamt Þorsteini Marel, sem varð í sjöunda sæti í liðakeppni ásamt tveimur breskum ökumönnum. 

Ég slapp ótrúlega vel og var hræddur í fyrsta skipti í keppni. Ég fór alltof geyst í beygju, missti stjórn áhjólinu og kastaðist í veg fyrir aðra keppendur, sem voru fyrir aftan. Ég var alltof bráður, ætlaði að slá í gegn í fyrsta hring, en flaug í stað þess á hausinn í fyrstu beygju," sagði Karl
Gunnlaugsson í samtali við Morgunblaðið. „Eg lenti á höfðinu og öxlunum og munaði minnstu að ég yrði undir hjólinu, sem var fyrir aftan mig. Svo rann ég 150 metra eftir brautinni og út á grasbala. Ég þorði ekki að hreyfa mig og hugsaði um það hvort ekki væri nú tími til kominn að hætta. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég meiðist í keppni á mótorhjóli. Sem betur fer reyndust meiðslin ekki alvarleg. Ég var með sérstaka axlarpúða og bakpjötu, sem sjálfsagt bjargaði miklu. Á spítala var síðan gert að meiðslunum og ég er með þrjá stálpinna í handarbakinu, þar sem ég brotnaði."
Þrátt fyrir.þetta áfall hyggst Kari keppa í kappakstri í Englandi á næsta ári og í kvartmílu hérlendis. „Þorsteinn stóð sig vel í mótinu úti, var um tima í fjórða sæti, en féll í það sjöunda vegna bilunar í hjólinu. Við eigum alveg erindi erlendis á þolakstursmót, þar sem ekið er samfleytt í sex klukkutíma. Svona óhapp er góð lexía, þótt hún sé sársaukafull. Ég mun ekki æða af stað af sama kappi. Svo sannar þetta nauðsyn þess að vera með góðan öryggisbúnað, hvort sem menn keppa á mótorhjóli eða aka á götunum," sagði Karl.

Morgunblaðið 30.8.1995
http://timarit.is

1.5.95

Ég er ekkert háð því (1995)

Snigill #917 heitir Guðrún Kristín Magnúsdóttir - Guja-  myndlistakona og rithöfundur.

Hún er búin að vera með mótorhjóladellu frá því hún var sautján ára. Amma Lína, sem var þerna á Fossunum, flutti inn mótorhjól handa pabba hennar því hann var mótorhjólagaur.
Guja hætti ung í skóla, þó ekki til að helga sig mótorhjólinu heldur eignaðist hún barn og tók stúdentinn utanskóla.
Var svo heima og gerði upp gömul húsgögn fyrir sjálfa sig og

11.2.95

Klíka með Matta Bjarna sem heiðursfélaga

Vélhjólafélag gamlingja. Nei, þetta er ekki félag aldraðra manna og kvenna á mótorhjólum, þetta er frekar félag manna og kvenna sem aka um á gömlum mótorhjólum.

Félagið er á sínu öðru aldursári. Það er ekki formaður fyrir þessu félagi, heldur einræðisherra, Þröstur Víðisson, sem starfar öllu jöfnu sem símaverkstjóri. í félaginu er þrír heiðursfélagar, Matthías Bjarnason alþingismaður, Guðmundur Ingi Sigurðsson, varðstjóri hjá lögreglunni í Reykjavík, og Bergur Gíslason kaupmaður. Þess utan að gera upp gömul hjól, stendur félagið gjarnan fyrir hópferðum félagsmanna vítt og breitt um landið. Félagið fékk á dögunum 100 þúsund króna styrk frá Reykjavíkurborg til greiðslu á leigu húsnæðis fyrir starfssemi þess.
Tíminn spurði Víði einræðisherra hvernig þessi félagsskapur væri til kominn?
„Félagið er tilkomið vegna áhuga fólks um að varðveita þessi gömlu mótórhjól, grafa þau upp úr skúrum hingað og þangað, gera þau upp og reyna að fara nota þau. Menn voru að pukrast hver í sínu horni með þetta áhugamál sitt, en síðan kynntumst við þegar við vorum úti að keyra hjólin og upp úr því spratt þessi félagsskapur! Þetta eru mest þýsk, bresk og bandarísk hjól, sem voru aðalhjólin þangað til japönsku hjólin komu á markaðinn, því upp frá því fóru flestir aðrir framleiðendur á hausinn, nema Harley Davidson og BMW. Þessi gömlu hjól hafa mikinn sjarma og karakter, eru að mörgu leyfi merkileg og gaman að keyra þau," segir Þröstur einræðisherra.
Það eru 45 félagar í Vélhjólafélagi gamlingja, þar af fjórar konur og eru sumir þessara félaga eru einnig í Sniglunum. Félagskapurinn hefur að sögn Þrastar vakið mikla athygli, sérstaklega á ferðum sínum um landið, þar sem ekið er í fylkingum. „Ég myndi frekar kalla þetta klíku, heldur en félag eins og t.d. Fornbílaklúbbinn. Það er ekkert formlegt félagsstarf í kringum þetta, annað en það að halda hjólunum gangandi og vera í sambandi vegna þess. Ég hef því kallað þetta frekar mótorhjólaklíku því við þekkjumst mjög vel innbyrðis. Inntökuskilyrðin eru þau að eiga og nota gamalt mótorhjól og að vera kominn til vits og ára og er það vandlega metið. Innganga er aðeins veitt á aðalfundi, sem haldinn er einu sinni á ári. Vígslan er formleg, en við höfum haldið henni leyndri og hún einkennist af tómri ánægju. Stjórnarformið í þessari „klíku" er einræði og það er ekkert lýðræði leyft í þessum félagsskap, nema á aðalfundi, sem stendur yfirleitt í einn dag."
Þröstur Víðisson Einræðisherra Gamlingja

Ekkert lýðræðiskjaftæði 

Af hverju einrœðisherra? „Okkur þótti þessi hugmynd mjög góð og gerir allt einfaldara í sniðum. Það þarf því yfirleitt ekkert að vera að þrasa um hlutina. Ekkert lýðræðiskjaftæði, hér er það ég sem ræð. Mjög þægilegt."
Hvert stefnir þessi félagsskapur? 
„Hann stefnir nú svo sem ekkert sérstakt. Hann kannski stefnir að því að halda þessum gömlu hjólum gangandi, nota þau, láta sjá okkur á þeim og ferðast á þeim, sem veitir okkur mikla og óblandna ánægju."


Mótorhjólamenn litnir hornauga

Nú eru það margir sem líta mótorhjólamenn hornauga. Hver er þín tilfinning? 
 „Já það er gamall draugur, sem alltaf er verið að reyna að kveða niður og berjast fyrir bættri ímynd og Sniglarnir hafa áorkað miklu í þeim efnum. Þetta er enginn glæpalýður. Bæði í Sniglunum og þessum félagsskap er fólk úr öllum þjóðfélagsstéttum, sem er að öllu jöfnu hið besta fólk. Við förum með friði hvar sem við komum og höfum haft það á stefnuskrá okkar að leggja okkar af mörkum til góðgerðarmála, ef þess er óskað. Við erum reiðubúnir að styðja þá sem eiga um sárt að binda með því að koma fram og við höfum gert dálítið af því.
 Hverju er um að kenna að þessi ímynd hefur loðað við mótorhjólamenn? 
„Þetta er fyrst og fremst komið úr kvikmyndum. Það er þessi ameríska ímynd, feitir og subbulegir glæpahundar, drekkandi bjór, sem leggja allt í rúst hvar sem þeir koma. í Evrópu er ímynd mótorhjólamanna allt önnur. Þar er mótorhjólið tákn um frjálsræði, þar sem litið er á þá sem eiga mótorhjól sem venjulegt fólk."

 Dálítið tillitsleysi 

Hvernig finnst þér vera farið með  mótorhjólamenn í umferðinni hér á landi? 
„Það er dálítið mikið tillitsleysi gagnvart okkur. Það eru kannski nokkrar skýringar. Hjólin eru tiltölulega lítil í umferðinni og minni en bílar, en það má segja að það sé daglegt brauð í umferðinni að reynt sé að drepa mann. Það er einfalt mál."
Eiga mótorhjólamenn ekki einhverja sök á þessu líka?
„Eg myndi segja að 90% mótorhjólamanna væru tillitsamir og keyri eins og menn. Hins vegar eru þessi 10% sem keyra eins og „bavíanar", en við höldum því fram að mótorhjólamenn verða að keyra betur en aðrir, hreinlega til að komast lífs af. Það kemur fram í skýrslum að langflest slys verða vegna þess að það er ekið á mótorhjólamenn."
Lögreglan hliðholl Hvert er viðhorf lögreglunnar í ykkargarð? 
„Lögreglan er mjög hliðholl okkur og hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að gera okkur auðveldara fyrir. Það er mikill skilningur á okkar málefnum og sem dæmi hefur lögreglan unnið mikið með Sniglunum og þar hefur verið unnið gott starf. Þeir eru náttúrulega mikið sjálfir á mótorhjólum í sínu starfi.

Eiga á annað hundrao gömul hjól

Nú eiga félagar í „Gamlingjunum" mikinn fjölda af gömlum hjólum. Hversu mörg eru hjólin og frá hvaða tíma?
„Við eigum á annað hundrað hjól og þau eru allt frá 1918 og ætli yngsta hjólið sé ekki frá 1975. Elsta hjólið er Henderson hjól, frá 1918 og er með hliðarvagni. Þetta hjól er talið vera annað af tveimur
sem til eru í heiminum í dag, en það var flutt hingað til lands nýtt. Það var kaupmaður að nafn Espolin á Akureyri, en hann var umboðsmaður fyrir. þessi hjól hér á landi. Mér skilst að hann hafi átt hjólið sjálfur og notað það, en það er óuppgert og það þarf nokkuð mikið að gera við það. Þetta er
langelsta hjólið sem við eigum, en síðan eigum við nokkur frá árabilinu 1930-40, nokkur frá '40-50, en önnur eru yngri. 40-50 af þesum hjólum sem við eigum eru kominn í toppstand.
Við höfum verið nokkuð dugleg við að grafa upp þau hjól sem til eru frá þessum tíma, þ.e.a.s. fyrir 1975 og ég geri ekki ráð fyrir að þau séu mörg, sem ekki eru þegar komin í okkar eigu.
Hvers virði eru hjól eins og Henderson hjólið?
„Ég geri ráð fyrir að fulluppgert myndi fást á bilinu tvær til þrjár milljónir króna fyrir það í Bandaríkjunum.

Hjólið eins og meðlimur fjölskyldunnar

Þröstur á sjálfur eitt hjól,  BMW, árgerð 1965, sem er gamalt lögreglumótorhjól og segir hann hjólið ganga fyrir bílnum og í raun á hann ekki bifreið. Hann segist líta á bifreiðina sem tæki til að komast á milli stað, en líkir hjólinu meira við einn meðlim fjölskyldunnar.

Fékk ljúft svarbréf frá Matta Bjarna  En hvernig kemur það til að þeir Matthias Bjarnason, Guðmundur Ingi Sigurðsson og Bergur Gíslason eru gerðir að heiðursfélögum? „Okkur langaði til að hafa heiðursfélaga sem hefðu verið miklir mótorhjólamenn. Matthías var mjög snemma á öldinni farinn að nota mótorhjól. Hann er þekktur maður í þjóðfélaginu og okkur þótti gaman að hafa hann í félagskapnum. Þá langaði okkur að hafa einn lögreglumann í hópnum, því lögreglan rekur mjög sterka mótorhjóladeild og þeir keyra mjög mikið og sjálfur hefur Guðmundur keyrt í áratugi á mótorhjólum. Bergur Gíslason var gerður heiðursfélagi, því hann hafði allt frá blautu barnsbeini verið mjög mikill áhugamaður um mótorhjól. Hann vann í bresku Ariel mótorhjólaverksmiðjunni og hefur enn ódrepandi áhuga á þessu. Þeir hafa eflaust haldið að við værum bilaðir þegar við gerðum þá að heiðursfélögum, en ég ritaði t.d. Matthíasi fallegt bréf og virðulegt, undirritað af einræðisherra. Hann sendi okkur bréf til baka, sem var mjög ljúft svar, þar sem hann þakkaði gott boð."


Verð sjötugur á hjólinu

Vaxtarmöguleikar félags sem þessa. Eru þeir nokkrir?
„Nei. Ég held að þetta verði alltaf lítil klíka, því þetta er það fámennur hópur sem hefur áhuga á þessu. Það verður líka alltaf erfiðara og erfiðara að nálgast gömul hjól, því það eru varla mörg hjól eftir í þessu landi, sem eru ekki í okkar eigu. Það er mjög dýrt að kaupa svona hjól erlendis og flytja þau inn, þannig að vonandi verður þetta alltaf fámenn og góð klíka." Verðurðu ennþá á hjólinu þegar þú stendur á sjötugu? „Já, tvímælalaust og ég hef trú á því að þessi hópur verði saman í þessu meðan meðlimum endist aldur. Þetta er náttúrulega bilun, en er jafnframt tóm ánægja."
Tíminn 11.02.1995
Texti: Pjetur Sigurbsson
Myndir: Gunnar Sverrisson

„Mikið vildi ég að ég ætti gamla mótorhjólið mitt ennþá"

Matthías Bjarnson, alþingismaður Vestfirðinga og fyrrum mótorhjólamaður:Matthías Bjarnason alþingismaður er einn þeirra sem sæmdur hefur verið heiðursfélagatign í Vélhjólafélagi gamlingja. Hann átti breskt Rudge
Special mótorhjól, sem ungur maður á Ísafirði í byrjun seinna stríðs. Hann fékk hjólið á  stríðsárunum með fiskflutningaskipi frá Fleetwood.

„Ég vann þá sem skrifstofumaður við útgerð og var í miklum kontakt við menn hjá fyrirtæki sem hét Boston Deepsea Company og einn kunningi minn þar útvegaði mér þetta hjól. Það var pínulítið notað en afskaplega fallegt og kraftmikið," segir Matthías.  Matthías er aldursforseti Alþingis, en hann er fæddur 1921.
En hvernig kom til að hann varð heiðursfélagi í gamlingjaklúbbnum?
„Eftir að bókin Járnkarlinn kom út hafa þessir ágætu menn séð mynd af mér á mótorhjóli, en ég stundaði með mikilli prýði þennan akstur ásamt nokkrum vinum mínum vestra snemma í síðasta stríði," segir Matthías. „Þessir heiðursmenn sendu mér ákaflega vinsamlegt bréf og tilkynntu mér að ég hefði verið kjörinn heiðursfélagi í mótorhjólaklúbbi gamlingja.
Þeir sendu mér stórt og mikið heiðursmerki með bréfinu, sem ég gladdist mjög yfir að fá.
Það rifjar upp fyrir manni þetta uppátæki sem ég stundaði í þónokkurn tíma, en mikið vildi ég að ég ætti ennþá gamla mótorhljólið mitt."
Matthías seldi mótorhjólið eftir nokkur ár og hefur alltaf saknað þess.
„Ég mundi vilja gefa stórfé fyrir það ef ég vissi af því einhversstaðar ennþá sæmilega heilu," segir hann.
 Mótorhjól voru ekki algeng á Ísafirði á stríðsárunum, en Matthías segir að þó hafi 5-7 strákar átt hjól. Matthías og félagar voru ekkert frábrunir mótorhjólamönnum í dag, þeir kepptu í hraðakstri hver við annan og fóru þá ekki alltaf mjög varlega.
„Það var oft kappakstur og heyrðist hátt í þessum mótorhjólum. Við vorum oft ekki par vinsælir á ísafirði þegar við vorum á hjólunum seint að kvöldi eða í byrjun nætur. Maður er að álása ungum mönnum í dag, en það verð ég að viðurkenna að það var ekki farið af sumum okkar mjög varlega, en svo urðu menn fullorðnir og þá fór ég að vera skaplegri í akstrinum," segir Matthías Bjarnason, alpingismaður og heiðursfélagi í mótorhjólaklúbbi gamlingja.