11.2.95

„Mikið vildi ég að ég ætti gamla mótorhjólið mitt ennþá"

Matthías Bjarnson, alþingismaður Vestfirðinga og fyrrum mótorhjólamaður:



Matthías Bjarnason alþingismaður er einn þeirra sem sæmdur hefur verið heiðursfélagatign í Vélhjólafélagi gamlingja. Hann átti breskt Rudge
Special mótorhjól, sem ungur maður á Ísafirði í byrjun seinna stríðs. Hann fékk hjólið á  stríðsárunum með fiskflutningaskipi frá Fleetwood.

„Ég vann þá sem skrifstofumaður við útgerð og var í miklum kontakt við menn hjá fyrirtæki sem hét Boston Deepsea Company og einn kunningi minn þar útvegaði mér þetta hjól. Það var pínulítið notað en afskaplega fallegt og kraftmikið," segir Matthías.  Matthías er aldursforseti Alþingis, en hann er fæddur 1921.
En hvernig kom til að hann varð heiðursfélagi í gamlingjaklúbbnum?
„Eftir að bókin Járnkarlinn kom út hafa þessir ágætu menn séð mynd af mér á mótorhjóli, en ég stundaði með mikilli prýði þennan akstur ásamt nokkrum vinum mínum vestra snemma í síðasta stríði," segir Matthías. „Þessir heiðursmenn sendu mér ákaflega vinsamlegt bréf og tilkynntu mér að ég hefði verið kjörinn heiðursfélagi í mótorhjólaklúbbi gamlingja.
Þeir sendu mér stórt og mikið heiðursmerki með bréfinu, sem ég gladdist mjög yfir að fá.
Það rifjar upp fyrir manni þetta uppátæki sem ég stundaði í þónokkurn tíma, en mikið vildi ég að ég ætti ennþá gamla mótorhljólið mitt."
Matthías seldi mótorhjólið eftir nokkur ár og hefur alltaf saknað þess.
„Ég mundi vilja gefa stórfé fyrir það ef ég vissi af því einhversstaðar ennþá sæmilega heilu," segir hann.
 Mótorhjól voru ekki algeng á Ísafirði á stríðsárunum, en Matthías segir að þó hafi 5-7 strákar átt hjól. Matthías og félagar voru ekkert frábrunir mótorhjólamönnum í dag, þeir kepptu í hraðakstri hver við annan og fóru þá ekki alltaf mjög varlega.
„Það var oft kappakstur og heyrðist hátt í þessum mótorhjólum. Við vorum oft ekki par vinsælir á ísafirði þegar við vorum á hjólunum seint að kvöldi eða í byrjun nætur. Maður er að álása ungum mönnum í dag, en það verð ég að viðurkenna að það var ekki farið af sumum okkar mjög varlega, en svo urðu menn fullorðnir og þá fór ég að vera skaplegri í akstrinum," segir Matthías Bjarnason, alpingismaður og heiðursfélagi í mótorhjólaklúbbi gamlingja.