Um tuttugu manna hópur ætlar að fara með fimmtán mótorfáka til Skotlands í vor og hjóla þar um í tíu daga.
Að eiga svona hjól og ferðast á því er ákveðinn lífsstíll. Þessu sporti fylgir svo mikið frelsi, útivera og góður félagsskapur,“ segja þeir Guðmundur Björnsson læknir og Axel Eiríksson úrsmíðameistari, en þeir eiga báðir glæsta mótorfáka af BMW-gerð. Þeir eru félagar í BMW-hjólaklúbbi Íslands og ætla ásamt nokkrum félögum sínum úr þeim klúbbi að leggja upp í hjólaferð í Skotlandi í vor.
„Það er mikil tilhlökkun í hópnum enda gengur ferðin undir nafninu „Unstoppable“ eða óstöðvandi.
Við erum rúmlega tuttugu manns sem leggjum upp í þessa ferð í lok apríl. Flestir senda hjólin sín í gámum til Bretlands með Samskipum en einhverjir ætla að leigja sér hjól úti.
Við fljúgum til London en þaðan tökum við rútu til Grimsby og skoðum eitthvað af flottum stöðum í leiðinni. Síðan hjólum við í tíu daga um Skotland og munum leggja 2.500 kílómetra að baki, sem jafngildir því að fara tvisvar sinnum kringum Ísland. Við hjólum öll af stað saman en svo skiptum við okkur í smærri hópa
því það ætla ekki allir að gera það sama. Fólk verður að hafa sitt frelsi til að fara og sjá það sem það hefur áhuga á. Við leggjum áherslu á að allir séu sjálfstæðir í svona hjólaferð. En við ætlum að hittast þrisvar sinnum allur hópurinn.
“ Meiri hluti ferðalanganna er karlar en þó munu fjórar konur slást í för. Þær verða farþegar aftan á hjá körlum sínum og kallast því hnakkaskraut.
Kynnum Ísland í leiðinni
Til stendur að hjóla um norðursvæði Skotlands og meðal annars ætlar hópurinn að sigla út í eyjarnar
Harris og Lewis og hjóla þar. „Við verðum á þannig vegum að hámarkshraði verður í lægra lagi sem er gott því þá njótum við náttúrunnar betur. Við hjólum um skosku hálöndin, skoðum kastala, gamla bæi og fleira áhugavert. Og það má vel vera að við leyfum okkur að smakka alvöru skoskt maltviskí,“ segja þeir félagar og líta sposkir hvor á annan.
Svona hjólaferð í útlandinu má nýta til margs og meðal annars ætla sumir að nota tækifærið og fá að stinga hjólum sínum í samband við bilunargreingatölvu, en slík tölva er ekki til hér á landi. „Við ætlum líka að kynna ferðalagið okkar vel og landið okkar Ísland sem hagkvæman kost fyrir hjólaferðalög, en mikill fjöldi BMW-hjóla kemur með Norrænu til Íslands árlega, þar sem útlendingar ferðast á þeim um landið okkar.
Við verðum í viðtali hjá Grimsby Telegraph í byrjun ferðar og einnig verðum við í myndatöku hjá Evning News í Edinborg og í Glasgow Daily Times. Við erum búnir að selja auglýsingar á töskurnar okkar, svo við verðum hjólandi auglýsingar fyrir Samskip, Bluemountain.is og Icelandair, sem eru styrktaraðilar okkar.“
Kraftmikil flaggskip
Flest hjólin í ferðinni eru svokölluð GS-hjól, en þau eru gerð til þess að aka bæði á malbiki sem og utanvegar á malarvegum. Þessi flaggskip eru þung og kraftmikil hjól sem fara upp í 100 kílómetra hraða á þremur sekúndum. Og þau er hægt að keyra á yfir 200 km hraða á klukkustund. „En það er sjaldnast sem við leyfum okkur að aka á slíkum hraða. Það er eitthvað sem maður prófar, en ekki
sá hraði sem við hjólum á almennt. Hjólið er um 200 kíló og enginn vill detta og verða undir því. Við höfum vissulega dottið, rifbrotnað og puttabrotnað.“
Litlir kóngar elskir að vélum
Guðmundur á tvö hjól, eitt á Íslandi og annað úti í Bandaríkjunum, en hann hefur átt mótorhjól frá því hann var 13 ára og játar fúslega að hann sé með hjólabakteríuna.
Mótorhjóladellan virðist vera þó nokkuð karllæg því flestir félagar hér á landi í BMW-klúbbnum eru karlkyns. „Ætli það sé ekki alveg óhætt að játa að flestir þeirra sem eigi svona hjól séu litlir kóngar,“ segja þeir Guðmundur og Axel og bæta við að menn sem eigi svona hjól séu vissulega elskir að vélum. „Þetta eru vel smíðaðir hlutir og fallega gerðir.Svo er það líka ánægjan að vera með tæki og tól sem fylgja þessu, eins og til dæmis GPS-staðsetningartækin en þau auðvelda okkur að rata á rétta blettinn í útlandinu til að hitta hina í
hópnum.“
Dverggeiturnar trufluðu
Fyrsta GS-BMW-hjólið kom fyrir sjö árum hingað til lands en núna eru þau orðin um eitt hundrað. Þetta eru vönduð og tæknilega mjög fullkomin hjól og þau fara vel með knapann sem situr þau.
„Einmitt þess vegna eru þetta vinsælustu hjólin í heimreisum og safaríferðum,“ segir Guðmundur
sem hefur hjólað mikið bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Hluti af klúbbfélögunum fór til Þýskalands fyrir tveimur árum og þá voru þeir að læra að hjóla í torfærum.
„Þá þurftum við að standa á hjólunum og vorum í raun að dansa við hjólið, það var mjög skemmtilegt. Við hjóluðum yfir hóla og hæðir, í fjárgötum og í sandi og vissulega duttum við stundum af baki, en það er partur af þessu. Axel datt til dæmis af því hann var að horfa á dverggeitur. Maður má ekki gleyma sér,“ segir Guðmundur og hlær.
„Við fórum í sumar í nokkrar ferðir hérlendis, ýmist dagsferðir eða lengri ferðir. Meðal annars fórum við á Vestfirði, hringveginn og í Jökulheima við Vatnajökul og í kringum Þórisvatn. Það var heilmikil svaðilför og auðvitað er mest gaman þegar eitthvað óvænt kemur upp á, þá verður þetta ævintýr. En við leggjum mikið upp úr því að fara ekki útfyrir slóða, við höfum engan áhuga á því að skemma landið.“
Morgunblaðið 8.2.2010www.bmwhjol.is