Færeyingurinn Finn Jespersen hefur alla tíð haft mikinn áhuga á öllu sem viðkemur gömlum mótorhjólum. Þegar hann frétti af því að vinur hans, Hjörtur Jónasson frá Selfossi, hefði keyrt yfir Kjöl á Matchless-mótorhjóli árgerð 1946 fyrir nokkrum árum ákvað Finn að halda á vit ævintýranna á Íslandi á einu þriggja fornhjóla sinna af Nimbus-gerð. Síðastliðna viku hefur Finn því ferðast um landið á 65 ára gömlu mótorhjóli, smíðuðu við lok síðari heimsstyrjaldarinnar.
Finn á þrjú Nimbus-hjól en hin hjólin tvö sem hann skildi eftir heima í Færeyjum voru smíðuð árin 1936 og 1939 þannig að hjólið sem hann ferðast á í sumar er unglambið í safninu. Finn hefur í mörg ár starfað fyrir Samskip í Kollafirði í Færeyjum þannig að það þarf ekki að koma blaðamanni á óvart hversu góða íslensku hann talar. „Ég hef gaman af því að tala við áhafnirnar. Íslenska og færeyska eru eiginlega sama málið,“ segir hann á kjarnyrtri íslensku.
Finn kom til landsins á þriðjudag fyrir viku með Norrænu og keyrði frá Seyðisfirði til Vopnafjarðar, kom við í Reykjahlíð við Mývatn og heimsótti Húsavík og Akureyri. Þá var hann í Reykjavík og á Selfossi fyrir helgina auk þess að aka Kjölinn sem var aðaltakmark ferðarinnar. Tók sú ferð tíu tíma. Allt í allt segist hann hafa farið um tvö þúsund kílómetra á hjólinu góða.
Gömul hjól smíðuð til að endast
Er ekkert mál að ferðast slíkar vegalengdir á hálfsjötugu mótorhjóli? „Nei, nei, það skiptir engu máli,“ segir Finn glaður í bragði. „Maður tekur því bara rólega og fer ekki á meira en 60-70 kílómetra hraða. Hjólið er í góðu lagi ennþá!“ Nimbus-hjólin þurfa ekki mikið viðhald að sögn Finns. „Það þarf bara að skipta um olíu við og við,“ segir hann. Hann hefur átt hjólið sem hann ferðast á um landið í sex ár og segir öll hjólin sín þrjú vera eins og ný. „Öll gömul mótorhjól voru vel byggð og til þess að endast. Það er ekki eins og í dag þar sem ný mótorhjól duga kannski í tíu ár og ekki mikið meira en það,“ segir Finn.
Á ferð sinni um landið fannst Finn mest til sundlauganna koma. „Það er ótrúlegt að sjá þrjátíu stiga heitt vatn úti undir beru lofti. Svo þótti mér merkilegt að sjá öskuna úr gosinu í vor á Akureyri. Í Færeyjum sáum við líka ösku en ekki svona mikla,“ segir Finn sem heldur heim á leið í kvöld með Norrönu.
Morgunblaðið 08.09.2010Kjartan Kjartansson
kjartan@mbl.is
kjartan@mbl.is