30.7.10

BJÖRGÓLFUR THOR Á MÓTORHJÓLAHÁTÍÐ




Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir fór á mikla mótorhjólahátíð sem haldin var í bænum Sturgis í miðríkjum Bandaríkjanna í fyrra. Myndir frá hátíðinni sýna Björgólf afslappaðan í góðra vina hópi og þeysandi um á Indian-mótorhjóli. Tveir starfsmenn Björgólfs, Orri Hauksson og Sigurður Ólafsson, voru með í för. Björgólfur Thor á hlut í mótorhjólaframleiðandanum Indian og hafa Orri og Sigurður unnið þar fyrir hann.


Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir fór á mótorhjólahátíð í Sturgis í Suður-Dakóta í Bandaríkjunum í ágúst í fyrra. Þetta sýnir ljósmyndasyrpa af fjárfestinum sem DV hefur undir höndum. Myndasyrpan sýnir Björgólf Thor í áður óþekktu ljósi, klæddan í þægileg hversdagsföt, með alls kyns skartgripi og skraut á sér auk þess sem hann sést liggjandi í tjaldi með sælusvip. Björgólfur virðist því vera töluvert alþýðlegri en almennt hefur verið talið. Með Björgólfi Thor í för voru tveir af starfsmönnum hans sem hafa unnið fyrir hönd fjárfestisins í tengslum við eignarhlut hans í bandaríska mótorhjólafyrirtækinu Indian. Starfsmennirnir heita Orri Hauksson, sem er fyrrverandi aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar og stjórnarformaður Skjás eins, og Sigurður Ólafsson, sem lengi hefur unnið fyrir Björgólf Thor. Björgólfur keypti á sínum tíma hlut í Indian-fyrirtækinu sem er með höfuðstöðvar í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Mótorhjólafyrirtækið er að mestu í eigu breska verðbréfafyrirtækisins Stellican Limited sem er með höfuðstöðvar í London. Indian framleiðir lúxusmótorhjól. Afar líklegt verður að teljast að ferð þeirra félaga til Bandaríkjanna, sem og vera þeirra í Sturgis, tengist að einhverju leyti eignarhlut Björgólfs Thors í Indian-mótorhjólaframleiðandanum. Á einni myndinni sjást þeir sitja í tjaldi sem merkt er Indianhjólunum og virðist óþekktur maður í Indian-bol vera að útskýra eitthvað fyrir þeim. Björgólfur er hugsi á myndinni og skartar stígvélum sem virðast vera úr forláta skinni.


Kannski voru þeir jafnvel staddir í Sturgis til að prófa glæsilega Indian-hjólið sem Björgólfur sést á tvívegis á myndunum.

Kannski voru þeir jafnvel staddir í Sturgis til að prófa glæsilega Indian-hjólið sem Björgólfur sést á tvívegis á myndunum. Á einni þeirra er fjárfestirinn skælbrosandi eins og honum finnist ekkert betra í þessum heimi en að þeysa um á mótorfák. Aftan á hjólinu á báðum myndunum er Orri Hauksson sem er ekki síður ánægður á annarri myndinni. Myndirnar eru táknrænar fyrir samband yfir- og undirmanns; Björgólfur er við stjórnvölinn en Orri flýtur með og lætur að stjórn. Björgólfur undir stýri, fúlskeggjaður, grófur og karlmannlegur á meðan


Orri situr fyrir aftan Björgólf Thor og heldur sér í bílstjórann, töluvert nettari, sléttari og fínlegri. En áhugaverðasta myndin er þó sennilega myndin af Björgólfi í tjaldinu þar sem hann liggur og lygnir aftur augunum með sælusvip á andlitinu. Flestir hefðu líklega haldið að Björgólfur Thor gisti aldrei í tjaldi heldur aðeins á fínum hótelum með herbergisþjónustu og handklæðahitara. En honum virðist líka það vel að kúldrast á vindsæng á jörðinni undir þunnum tjaldhimni í raka eða stækju. Orri er við hlið hans sem fyrr. Maður gæti jafnvel séð Björgólf fyrir sér á þjóðhátíð í Eyjum, í gamalli hettupeysu og pollagalla með brúsa fullan af blandi og sprútti um hálsinn, syngjandi trallalla í brekkusöngnum með Árna Johnsen eða Róbert Marshall. Hann virðist svo mannlegur á myndunum. Þar liggur sennilega fréttagildi þeirra: Björgólfur gistir í tjaldi.  

DV 2010