24.7.10

Umferðardeild í fimmtíu ár

Til staðar fyrir ökumennina





  • Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu heldur kaffisamsæti fyrir umferðardeildina
  • Lögreglumótorhjólin eru hluti af umferðinni og gera löggæsluna sýnilegri
Þann 16. júní 1960 var tilkynnt stofnun sérstakrar umferðardeildar lögreglunnar í Reykjavík og er deildin því 50 ára um þessar mundir. Við stofnun sína hafði deildin 8 mótorhjól til umráða, jafnmörg eftirlitshverfum borgarinnar, og tvo lögreglubíla. Afmælisins verður minnst í dag á lögreglustöðinni við Hverfisgötu þar sem haldið verður kaffisamsæti fyrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn deildarinnar, um 120 manns, og farið yfir söguna í máli og myndum. Í dag heitir deildin umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og eru um 28 menn starfandi í deildinni sem hefur það aðalhlutverk að fylgjast með allri umferð á höfuðborgarsvæðinu, fylgjast með ökuhraða og að umferðarreglur séu virtar. Þá eru viðbrögð við ölvunarakstri stór þáttur í starfi deildarinnar, auk þess sem umferðardeildin kemur að vettvangi umferðarslysa á svæðinu. Þá stýrir deildin umferð og lokunum í tengslum við hátíðir, skrúðgöngur og opinberar heimsóknir á höfuðborgarsvæðinu..
   Árni Friðleifsson varðstjóri í umferðardeild segir stöðuna á umferðarmálum borgarinnar nokkuð góða og tölur sýni að slysum hafi farið fækkandi á svæðinu síðustu ár. „En við erum mjög áfjáðir í að lækka þá tölu enn meira. Við höfum komið að mörgum slysum og banaslysum í gegnum tíðina, sem eru svo mikill mannlegur harmleikur, að við eflumst stöðugt í starfinu. Hvert slys sem við getum komið í veg fyrir er mikill sigur fyrir okkur.“ Umferðardeildin hefur yfir að ráða 14 mótorhjólum, 2 lögreglubílum og einum ómerktum myndavélabíl. Árni segir mótorhjólaáhuga samofinn deildinni, lögreglumenn sem hafi áhuga á mótorhjólum, akstri ökutækja og umferðarmenningu safnist í umferðardeildina.

 „Starfið byggist á því að menn séu á bifhjólum og flestir sem hafa verið starfandi hér eiga sjálfir mótorhjól,“ segir Árni og bætir við að mótorhjólin virki mjög vel í baráttunni fyrir bættri umferðarmenningu þar sem löggæslan sé mjög sýnileg. „Við getum nálgast ökumenn á annan hátt en bílar, það er öðruvísi yfirferð á hjólunum í umferðinni. Starfið felst í að vera þarna úti og grípa inn í ef eitthvað bjátar á og vera til staðar fyrir ökumennina.“  


Ingibjörg Rósa Björnsdóttir 
ingibjorgrosa@mbl.is