29.4.10

Krefjandi keppni


Sniglarnir halda keppni í hjólafimi í fjórða sinn í ár. Njáll Gunnlaugsson, ökukennari og í umferðarnefnd Sniglanna, segir keppnina vera bæði skemmtilega og krefjandi.
„Allir sem eru með mótorhjólapróf geta tekið þátt,“ segir Njáll. „En fyrstir koma, fyrstir fá.“ Pláss er fyrir um 25 manns í keppninni, en enn sem komið er hafa einungis konur skráð sig. „Karlarnir eru yfirleitt seinni til, en þeir tínast inn smám saman,“ segir hann. Keppnin í hjólafiminni snýst meðal annars um grein sem er kölluð snigl.
Hún snýst ekki um að keppa við klukkuna heldur færni
og tækni á mótorhjóli. „Þeim mun meiri tíma sem þú færð í sniglinu, þeim mun fleiri stig færðu,“ segir Njáll. „Þetta snýst um að keyra 10 metra vegalengd á sem lengstum tíma án þess að setja fæturna niður. Allt yfir hálfa mínútu er nokkuð gott.“ Íslandsmetið í Snigli er 1 mínúta og 15 sekúndur, en það er 16 metra vegalengd. Keppt verður í öðrum greinum þar sem úrslitin ráðast á tíma og tækni, en refsistig verða gefin fyrir villur í brautinni. Keppt verður á Suzuki 125 Vanvan-hjóli. „Það er létt og gott hjól til þess að tryggja jafnræði í keppninni,“ segir Njáll. „En það verða áhorfendur og kannski er aðalhindrunin fyrir keppendurna að láta ljós sitt skína fyrir framan annað fólk.“