11.9.13

Mótorhjólafólk var duglegt að heimsækja Siglufjörð í sumar



Það var ósjaldan sem maður heyrði drunur í mótorhjólum í sumar.


Bæði stórir og litlir hópar af hjólafólki kom við á Sigló. Mikið af erlendu hjólafólki lagði leið sína í fjörðinn og það er greinilegt að Siglufjörður er kominn á kortið þegar um mótorhjólaferðir er að ræða og ósjaldan sá maður mótorhjól fyrir utan Gistiheimilið Hvanneyri.

Ég náði þessum myndum í sumar af mótorhjólafólki sem kom við á
Sigló og tók einn bryggjurúnt áður en þau lögðu af stað úr bænum.

11.09.2013 | 13:30 | Jón Hrólfur Baldursson

26.8.13

Hjóluðu yfir hálendið án aðstoðar

Vinkonurnar Lilja Hermannsdóttir og Hilde Hundstuen kynntust í gegnum mótorhjólasportið fyrir þónokkru síðan. Hugmyndin að fara yfir hálendi Íslands á Enduro-hjólum kviknaði hjá þeim í hversdagslegu spjalli. Tveimur dögum seinna voru þær komnar með styrktaraðila og lagðar af stað. 

Þær Lilja Hermannsdóttir og Hilde Hundstuen hafa nýlokið rúmlega 400 kílómetra langri hjólaferð yfir hálendi Íslands. Þær hófu ferð sína frá Hrauneyjum að kvöldi til og hjóluðu fyrsta legginn í svarta myrkri. „Ég hafði aldrei hjólað svona yfir nótt áður en það var alveg rosalega gaman. Maður sér  ekkert nema veginn, horfir í geislann og hjólar,“ segir Lilja.
Þær hjóluðu yfir í Nýjadal og fengu þar inni yfir nótt. Næsta dag hjóluðu þær Dyngjufjallaleið yfir í Dreka og síðasta daginn að Kárahnjúkum og þaðan fóru þær á Egilsstaði. En hvernig dettur tveimur konum í hug að fara út í svona leiðangur. „Okkur finnst kannski ekki skipta svo miklu máli að við séum stelpur. Miklu frekar að við gerum þetta á gamla og erfiða mátann og nýtum okkur ekki trússbíl og öll hugsanleg þægindi sem oftast eru í svona ferðum. Þetta var í rauninni  persónuleg áskorun að fara bara tvær og redda okkur. Þetta var rosalega erfitt en líka alveg rosalega gaman,“ segir Hilde.

 Vilja fá fleiri stelpur í sportið 

Þegar þær eru inntar eftir því hvað hafi heillað þær mest á þessari leið segja þær að hraunbreiðan á milli Nýjadals og Dreka hafi verið áhrifaríkust. „Það er algjörlega ævintýralegt að keyra þar yfir,“ segir Lilja. „Maður er svo nátengdur náttúrunni þegar maður hjólar og kynnist landinu sínu svo vel,“ bætir Hilde við. Þó að þær vilji ekki gera mikið úr því að þær hafi farið tvær  konur saman viðurkenna þær að ferð þeirra og framkvæmd geti verið mikil hvatning fyrir aðrar konur sem deila áhugamáli þeirra. „Við viljum auðvitað alltaf fá fleiri stelpur í þetta sport. Fyrst þegar við sögðum frá því sem við ætluðum að gera  fundum við svolítið fyrir því að fólk fannst við ekki átta okkur á því hvað við værum að fara út í en svo eftir á hefur sama fólk verið að hrósa okkur,“ segir Hilde.

Fjölskylduvæn íþrótt

 Hilde hefur verið á götuhjóli frá átján ára aldri en Lilja uppgötvaði sportið árið 2008. Þær kynntust í gegnum hjólamennskuna en þetta var þeirra fyrsta ferð þar sem þær fóru bara tvær saman. „Ég hafði lengi haft áhuga á að hjóla áður en ég byrjaði, svo ákvað ég loksins að drífa í þessu og fékk mér götuhjól. Ég var búin að vera með prófið í þrjá eða fjóra daga þegar ég fór hringinn í kringum landið. Ég hef farið ótal ferðir um landið síðan og nú er öll fjölskyldan í þessu,“ segir Lilja og Hilde tekur við. „Þetta er mjög fjölskylduvænt sport. Stelpan mín tekur þátt í því með mér að gera við og gera upp hjól.“

Nýir draumar vakna þegar gamlir rætast

 Hildi átti sér lengi tvo drauma, annars vegar að eignast hermannahjól með hliðarvagni og hins vegar að smíða sér „streetfight“ hjól. Nú hefur hún látið báða þá drauma rætast en segir þá aðeins nýja drauma taka við. „Næst langar mig að hjóla í Himalaya eða Perú.“ Þessi ferð var bara byrjunin hjá okkur. Þetta var aðeins okkar fyrsta ferð af mörgum,“ bætir Lilja við. Lilja segist ekki hafa nokkurn áhuga á að taka þátt í keppnum. Hún vill miklu fremur vinna persónulegra sigra og ná markmiðum sem hún setur sér sjálf. Þegar þær eru spurðar hvort allir geti hjólað svara þær nánast samhljóða játandi. „Maður þarf bara að hafa mikla trú á sjálfum sér en um leið að taka skynsamlegar ákvarðanir,“ segir Lilja. „Já og maður þarf auðvitað að vera í réttum útbúnaði og fylgjast vel með veðurspá,“ segir Hilde. Þær Lilja og Hilde vilja koma þökkum áleiðis til styrktaraðilanna Ormsson, Átaks, Rafstillingar og JHM. Einnig vilja þær þakka 4x4, Slóðavinum, Torfærudeildinni hjá Hjólavinum, Valkyrjum og öðrum sem hafa haldið utan um slóða á hálendinu.  „Við eigum svo fallegt land og okkur ber að ganga vel um það. Við erum öll að vinna að sama
markmiði, að fara vel með landið okkar og njóta þess,“ segir Hilde.

Signý Gunnarsdóttir 
signy@mbl.is

16.8.13

Seldu húsið til að skoða heiminn

Seldu allt Rocky og Paula ætla að vera á ferð
um heiminn næstu misseri. Hér eru þau við Louise-
vatn í Kanada.     Mynd: Rocky Vachon
Rocky Vachon og Paula Fatioa fóru í heimsreisu á mótorhjól

Fengu höfðinglegar móttökur í Reykjanesbæ

 Ég lít ekki svo á að við séum strandaglópar á Íslandi. Maður er strandaglópur ef maður er á stað sem maður vill ekki vera á,“ segir Kanadamaðurinn Rocky Vachon. Hann kom ásamt kærustu sinni, Paulu Fatia, til Íslands á mánudaginn í síðustu viku. Þau urðu fyrir því óláni, þegar þau komu til Íslands
frá Bandaríkjunum, að afgreiðsla á mótorhjólinu þeirra tafðist hjá tollayfirvöldum í Ameríku. Þau höfðu gert ráð fyrir að bíða í nokkra daga eftir hjólinu en sú bið lengist um viku, hið minnsta.
Rocky og Paula, 35 og 33 ára, tóku saman fyrir um þremur árum. Þau höfðu bæði hug á að leggja land undir fót, eða hjól, og skoða heiminn. Einu ári eftir að þau kynntust hafði Paula selt húsið sitt og jafnaði þá upphæð sem Rocky hafði safnað sér. Þau hættu bæði í vinnunni og settust upp á hjólið.
Þau óku frá heimabæ sínum, Hamilton í Ontario-héraði í Kanada í ágúst 2011. „Við fórum vestur Kanada, í gegnum Vancouver og þaðan yfir til Bandaríkjanna,“ segir Paula um upphaf ferðalagsins. „Við ferðuðumst um Bandaríkin, fórum þaðan til Mexíkó, Belís og svo Gvatemala,“ heldur hún áfram. Þegar þau nálguðust suðurhluta Ameríku, eftir 146 ferðadaga og 25 þúsunda kílómetra akstur, tók ferðalagið á mótorhjólinu óvæntan endi. Flutningabíll þröngvaði þeim út af veginum og þau höfnuðu ofan í skurði – eiginlega á kaf í skolp. Þau sluppu bæði ómeidd en hjólið skemmdist töluvert og varð óökuhæft.

Lærði að gera við hjólið 

Rocky, sem er menntaður rafmagnsverkfræðingur, hófst strax handa við að endurbyggja hjólið og skipuleggja framhald ferðarinnar. Hann segist ekkert hafa  kunnað þegar hann byrjaði að skrúfa það í sundur og panta varahluti. Hann tók myndir af hverju  skrefi og setti allar skrúfur og bolta í poka sem hann merkti. „Ég er ekki bifvélavirki en ég get næstum því kallað mig það eftir þetta,“ segir hann og hlær. „Það er gott að þekkja hjólið þegar eitthvað kemur upp á. Ég kunni ekki að gera við dekk þegar ég byrjaði en núna get ég bjargað mér með flest. Ég reyni að gera allt sjálfur,“ segir hann. Þau fóru aftur af stað í byrjun sumars og hafa verið á ferðalagi um Kanada í næstum 70 daga og ferðuðumst um austurhluta Kanada, Nýfundnaland  og Labrador. Því næst flugu þau til Íslands.

Boðið í bústað

 Rocky og Paula njóta nú íslenska  sumarsins, þó megnið af farangri þeirra, auk fararskjótans, vanti. Þau hafa verið tiltölulega heppin með veður. Fyrstu nóttina gistu þau við Keflavíkurflugvöll en næsta dag húkkuðu þau sér far í Reykjanesbæ, þar sem þau komust í verslun og nettengingu. „Við erum með fötin okkar og tjaldið. Það er nóg í bili,“ segir hann af því æðruleysi og þeirri gleði sem einkennir fas þeirra beggja.
Á föstudaginn hittu þau Gylfa Jón Gylfason, fræðslustjóra í Reykjanesbæ, fyrir utan ráðhúsið í bænum þar sem þau höfðu tjaldað. Gylfi Jón bauð þeim í mat og í kjölfarið að dvelja í sumarhúsi hans að Hafurbjarnarstöðum, á milli Garðs og Sandgerðis, þar til þau fá hjólið í hendurnar. Þau eru hæstánægð með þá gestrisni. Gylfi Jón hefur sýnt þeim Reykjanesið og þau hafa meðal annars skoðað Gunnuhver, vinsælan ferðamannastað við Reykjanesvita. Þá fengu þau lánaðan bíl hjá heimamanni til að fara í dagsferð að Gullfossi og Geysi.

Flækingar 

Rocky og Paula halda úti skemmtilegri vefsíðu þar sem fylgjast má með ferðalagi þeirra. „Not all those who wander are lost“ eru einkennisorð  vefsíðunnar. Á íslensku gæti það útlagst sem: Flækingar eru ekki alltaf villtir. Tilvitnunin er úr Hringadróttinssögu en slóð vefsíðunnar er einmitt www.notallthosewhowanderarelost.ca Rocky tekur myndir og Paula skrifar texta um það sem á daga þeirra drífur á ferðalaginu. Þar má meðal annars sjá nákvæmt sundurliðað yfirlit yfir eyðsluna á ferðalaginu, en á ferð þeirra um Ameríku eyddu þau að jafnaði sem jafngildir 6.600 krónum á dag. Þau spara mjög við sig í mat og gistingu enda tjalda þau yfirleitt utan hefðbundinna tjaldstæða. „Stundum komumst við ekki í sturtu svo dögum skiptir,“ segir Paula og hlær. „Núna veit ég hvernig það er að vera skítugur hjólreiðamaður (e. dirty biker).“

Sigur Rós í uppáhaldi 

Þau stefna á að vera tvær til þrjár vikur á ferðalagi um Ísland eftir að þau fá hjólið. Þau hafa merkt við marga staði sem þau ætla að heimsækja hér, en Rocky er mikill aðdáandi  hljómsveitarinnar Sigur Rósar. Hann féll fyrir landinu þegar hann sá heimildamyndina Heima, um  tónleikaferðalag sveitarinnar um Ísland. Þau Rocky og Paula áætla að ferðast þar til peningurinn  klárast. „Við ætlum næst til Danmerkur, með Norrænu, og svo sunnar, þegar fer að hausta. Við ætlum í haust til Portúgal, þar sem Paula fæddist og á fjölskyldu sem hún þekkir lítið. Hún hefur ekki komið þangað frá því hún var þriggja ára,“ útskýrir Rocky. „Fjölskylda mín býr í Portúgal og Frakklandi. Ég þekki þau ekki en hef hitt suma einu sinni, fyrir löngu síðan. Það verður gaman að hitta þau,“ bætir Paula við. Þau gera ráð fyrir að verja vetrinum í Portúgal og hyggja á að heimsækja Marokkó líka. Þegar fer að vora ætla þau að færa sig norðar á bóginn og heimsækja Sviss og Ítalíu, hið minnsta. „Okkur langar að fara til Egyptalands, aka með Nílarfljótinu og heimsækja Jórdaníu. Við verðum svo að sjá til hvort hægt verður að fara til Tyrklands og Alsír en aðstæður í þeim löndum verða að ráða því,“ segir Rocky. Hann hefur að auki reynt að sannfæra kærustu sína um að heimsækja Pakistan og Íran, en til Íran langar Rocky mikið að koma, sérstaklega norðurhéraðanna. „Ég er enn að reyna að sannfæra hana …“ „Við sjáum til,“ grípur hún fram í og hlær. Þau ætla að láta veðrið ráða för, svolítið eins og Íslendingar. „Við förum heim þegar við erum annaðhvort orðin leið hvort á öðru eða blönk.“

Finna frið á hjólinu 

Þau viðurkenna aðspurð að það geti tekið á að vera saman á ferðalagi allar sólarhringinn, svo vikum og mánuðum skiptir. Stundum kastist svolítið í kekki. „Við erum  stundum spurð hvers vegna við notum ekki hljóðnema til að tala saman þegar við erum á mótorhjólinu,“ segir Paula en segir að það komi ekki til greina. „Við notum tímann á hjólinu til að hugsa og vera út af fyrir okkur,“ segir Rocky. „Þó við sitjum þétt saman þá eru þetta einu stundirnar sem við fáum frið hvort fyrir öðru. Það skiptir máli,“ segir hann og Paula tekur í sama streng.
Þau segja að mótorhjólið veiti þeim mikið frelsi. Þau geti skoðað staði sem aðrir þurfa jeppa til að komast á. Hjólið komist vegi sem smábílar komist ekki. „Þetta er eins og jeppi á tveimur hjólum – þannig komumst við lengra og getum séð meira en ef við værum á bílaleigubíl,“ segir Rocky en bætir við að Paula verði svolítið hrædd ef vegirnir eru mjög slæmir. Hugmyndin kviknaði í Taívan Fyrir um tíu árum var Rocky að vinna við enskukennslu í skóla í Taívan, til að eiga fyrir háskólanámi. Hann keypti sér vespu og fór að aka um strendur landsins. Það var þá sem hann fékk þá flugu í höfuðið að ferðast um heiminn á mótorhjóli. Hugmyndin var nokkur ár í gerjun og undirbúningi. Eftir  háskólanám fékk hann vinnu sem gaf vel. En vinnan átti ekki við hann. „Ég þoldi ekki vinnuna og gat ekki hugsað mér að sitja á bak við skrifborð næstu 30 árin. Svo kynntist ég Paulu og sagði henni frá því hvað mig langaði að gera,“ útskýrir Rocky. Paula segir að hana hafi líka langað til að ferðast en í fyrstu hafi hugmyndin um að gera það á mótorhjóli verið fráleit. Honum hafi þó fljótt tekst að sannfæra hana um ágæti þess að ferðast um á mótorhjóli. „Ég féll fyrir stöðunum sem hann ætlaði að heimsækja,“ segir hún. Húsið seldist og þau drifu sig af stað, eins og fram hefur komið. Paula
segist þó stundum sakna heimahaganna, fjölskyldunnar og kattanna sinna, sem eru 13 og 17 ára. Þeir eru í pössun hjá bróður hennar og móður og heyra má að hún óttast að hitta þá ekki aftur. „Kettir geta alveg náð 20 ára aldri,“ segir Rocky til hughreystingar.

Dagblaðið Vísir 16.08.2013






21.7.13

Hjóladagar 2013

Mótor­hjóla­menn komu sam­an á Ak­ur­eyri um helg­ina þar sem dag­skrá Hjóla­daga hófst á fimmtu­dag­inn. Í gær var markaðstorg á Ráðhús­torg­inu og bens­ínilm­ur­inn var í loft­inu þar sem nokkr­ir leður­klædd­ir of­ur­hug­ar gáfu hressi­lega í þrauta­keppn­inni.

mbl | 21.7.2013

12.7.13

Hjóladagar á Akureyri

Tían, Bifhjólaklúbbur Norðurlands, mun halda sína árlegu Hjóladaga á Akureyri dagana 17.–19. júlí. Þar verður sem fyrr þrautabraut, hjólaspyrna, Útimarkaður, grill og sýning á mótorhjólum ásamt því að minningarakstur um Heiðar Jóhannsson verður farinn.
Hjóladagar hafa farið stækkandi ár frá ári og eru nú að verða aðalsamverutími allra íslenskra hjólamanna. Upplýsingar og dagskrá Hjóladaga má finna á heimasíðu Tíunnar,
www.tian.is

23.5.13

Skoðunardagur Tíunnar og Frumherja

Við vildum bara minna á skoðunardaginn okkar hjá Frumherja sem er núna laugardaginn 25. maí (næstkomandi laugardag) frá kl 10-14. Greiddir félagar fá 60% afslátt af skoðunargjaldi þennan dag, og einnig verða grillaðar pylsur á boðstólnum fyrir gesti :-)

Vonumst til að sjá sem flesta félaga!

Með bestu kveðju
Tían - Bifhjólaklúbbur Norðuramts

22.5.13

Með kaffi í blóðinu


Það er í góðum fé­lags­skap á sveita­hót­el­inu Hrauns­nefi í Borg­ar­f­irði sem maður fer að velta fyr­ir sér hvers­kon­ar snilld­ar­grip­ur Moto Guzzi V7 hjólið er. Fyr­ir fram­an und­ir­ritaðan er góm­sæt­ur ham­borg­ari á diski og góðir fé­lag­ar. En í koll­in­um er akst­ur­inn frá Reykja­vík á þess­um létta ít­alska kaffireiser sem sjálf­ur er ein­mitt góður fé­lagi.

Reynsluakst­ur­inn hófst í Reykja­vík deg­in­um áður og strax bauð mótor­hjólið af sér góðan þokka. Það er sam­dóma álit þeirra sem hafa séð hjólið að Moto Guzzi V7 sé ekta og dæmi­gert mótor­hjól, svona hjól eins og ung­ling­ur myndi teikna ef hann væri beðinn um að teikna mótor­hjól. Moto Guzzi V7 er lágt og lip­urt að sjá, V-vél­in er skemmti­leg á að líta og kaffireiser sætið stíl­hreint. Tankur­inn mátu­lega vold­ug­ur og mæla­borðið og fram­ljósið lát­laust. Útlits­lega er Moto Guzzi V7 því skóla­bók­ar­dæmi um mótor­hjól.
Strokkasin­fón­ía í hæsta gæðaflokki
En það leyn­ir þrátt fyr­ir það á sér í mörgu til­liti. Vél­in er ekki sér­lega stór eða öfl­ug, 744 cc og 48 hest­öfl. En það hve þýð vél­in er skipt­ir veru­legu máli og hún skil­ar sínu mjög skemmti­lega. Hún er snögg upp á snún­ing og í raun ger­ir þessi hóg­væra en þýða vél manni kleift að nýta allt aflið sem mótor­hjólið hef­ur án þess að brjóta hraðaregl­ur. Það þýðir að akst­ur á þessu hjóli inn­an­bæjar er gríðarlega skemmti­leg­ur vegna þess að það er svo mikið að ger­ast.

jólið purr­ar á rauðu ljósi og á grænu er smellt í fyrsta og gjöf­inni snúið, ann­ar fylg­ir rétt á eft­ir og svo þriðji og jafn­vel fjórði – allt inn­an marka skyn­sem­inn­ar og með adrenalín­flæði í öf­ugu hlut­falli. All­an tím­ann má heyra strokkasin­fón­íu í hæsta gæðaflokki úr tvö­földu púst­kerf­inu – með skemmti­leg­um bak­spreng­ing­um og smell­um þegar slegið er af gjöf­inni.

Lip­ur­leiki hjóls­ins er framúrsk­ar­andi. Stýrið er mátu­lega breitt og akst­ursstaðan er góð en það verður þó að segj­ast eins og er að hjólið er ef­laust í minnsta lagi fyr­ir þá sem eru yfir 185 á hæð. Á móti kem­ur að hjólið er ákaf­lega skemmti­legt í hönd­un­um á fær­um öku­manni og hrekk­laust byrj­and­an­um. Það er til að mynda hægt að losa aft­ur­dekkið í akstri án þess að auka púls hjart­ans – svo góð stjórn er á hjól­inu sem sker sig í gegn­um beygj­ur fyr­ir­hafn­ar­laust.

Skyn­sam­leg­ur pakki

En Ísland er ekki bara inn­an­bæjar og í þjóðvega­akstri býður hjólið af sér góðan þokka. Það þolir ekki mik­inn mótvind hins­veg­ar, til þess er það of létt og vél­in þarf þá að rembast ör­lítið. Fjöðrun­in er hins­veg­ar þokka­leg á þjóðvega­hraða á mis­góðum veg­um lands­ins og lítið mál var að fara í mátu­lega lang­ferð úr borg­inni og að Bif­röst í Borg­ar­nesi. Þó væri skyn­sam­legt að hafa í huga að fjöðrun­in er frem­ur slagstutt og mjúk sem þýðir að hún get­ur slegið sam­an á mestu ójöfn­un­um. Kaffireiser­inn er samt vel til þess að þeysa á milli kaffistaða, jafn­vel þótt sér­stak­lega vel sé lagt í vega­lengd­ina.

Moto Guzzi V7 er í raun nokkuð skyn­sam­leg­ur pakki. Hjólið er loft­kælt eins og svo mörg önn­ur mótor­hjól, vel smíðað og sam­sett, ræður yfir góðum brems­um og af­skap­lega þýðum gír­kassa. Þá er það ótví­ræður kost­ur að hjólið er með drifskafti og því þarf ekki að hafa nein­ar áhyggj­ur af sliti í keðju eða hvim­leiðu viðhaldi. Það er ágætt pláss fyr­ir farþega, alla­vega fyr­ir styttri ferðir og óvænt­ur plús var sá að bæði virt­ist eldsneytis­eyðsla hjóls­ins vera mjög lít­il og eins er tankur­inn stór. Það má því bú­ast við því að hægt sé að aka tölu­vert langt á milli fyll­inga, kannski jafn­vel 400 kíló­metra. Senni­lega hjálp­ar þyngd hjóls­ins því á flest­um sviðum því það er ekki nema um 180 kíló.

Á rétt­um for­send­um

Í stuttu má segja að þessi lipri kaffireiser fangi full­kom­lega feg­urð sjö­unda ára­tug­ar­ins í mótor­hjól­um með allri tækni og þæg­ind­um nú­tím­ans.

Hin ít­ölsku Moto Guzzi mótor­hjól eru sjald­gæf á Íslandi og það er kom­inn tími til að land­inn skoði eitt­hvað annað en hið dæmi­gerða og aug­ljósa þegar kem­ur að mótor­hjól­um. Mótor­hjól snú­ast auðvitað um stíl og skemmt­un – þau ættu allra síst að velj­ast á sömu for­send­um og vísi­tölu­bíll­inn. Fyr­ir þá sem líta á mótor­hjól sem fulln­ustu lífs­stíls­ins ætti þessi lipri kaffireiser að passa full­kom­lega.

ingvar.orn.ingvars­son@gmail.com

Kost­ir

Spar­neytið, lip­urt, rekstr­ar-hag­kvæmni drifskafts­ins og sí­gilt út-lit

Gall­ar

Helst til slagstutt fjöðrun, hjólið get­ur virkað lítið und­ir há-vöxnu fólki
Morg­un­blaðið | 22.5.2013 

19.5.13

SPESSI LJÓSMYNDAÐI MÓTORHJÓLAMENNINGU Í MIÐRÍKJUM BANDARÍKJANNA

„Þetta er svo mikil Ameríka“ 

ÉG KOMST INN Í ÞENNAN HÓP OG KYNNTIST MENNINGUNNI INNAN FRÁ,“ SEGIR LJÓSMYNDARINN SPESSI. SÝNING Á LJÓSMYNDUM HANS AF BANDARÍSKUM MÓTORHJÓLAKÖRLUM VERÐUR OPNUÐ Í LJÓSMYNDASAFNI REYKJAVÍKUR OG ER Á DAGSKRÁ LISTAHÁTÍÐAR.


Þegar maður vinnur svona verkefni verður maður að sýna ákveðið hlutleysi og ekki setja sig í neitt dómarasæti. Manni er treyst. Fólkið fann að ég hef áhuga á þessari mótorhjólamenningu, og ég varð á vissan hátt hluti af henni,“ segir Spessi ljósmyndari, Sigurþór Hallbjörnsson, um sýninguna Nafnlaus hestur sem hann opnar í Ljósmyndasafni Reykjavíkur á laugardag klukkan 13. Sýningin er á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík.
Á sýningunni eru ljósmyndir á mótorhjólaköppum sem Spessi myndaði á árunum 2011 og 2012 en þá var hann búsettur í Kansas í Bandaríkjunum og myndaði þar í kring – á einhverju fátækasta svæði Bandaríkjanna. Hann segir markmiðið hafa verið í senn að skrá og veita innsýn í þennan sérstaka menningarkima, sem hann hefur sökkt sér í. Ásamt Bergsteini Björgúlfssyni kvikmyndagerðarmanni vinnur hann nú einnig að heimildakvikmynd um mótorhjólameninguna,  „bækerana“ eins og þeir eru kallaðir þessir karlar sem bruna um þjóðvegina og mörgum stendur ógn af, enda sumir þeirra bendlaðir við sitthvað misjafnt.
Spessi er einn kunnasti ljósmyndari landsins, þekktur fyrir afgerandi hlutlægan stíl hvort sem hann sýnir fólk eða staði; margir þekkja bækur hans Bensín og Location. Hann segir þetta verkefni hafa legið í loftinu í mörg ár, allar götur síðan hann sá kvikmyndina Easy Rider í London árið 1979 í London. „Fyrsta mótorhjólið eignaðist ég árið 1986, svo tók ég mér hlé en upp úr aldamótunum fékk ég mér Harley Davidson-hjól og öðlaðist mikinn áhuga á þessum kúltúr. Mér fannst hann spennandi og langaði að kynna mér betur hvaðan hann kemur,“ segir hann.

 „Þeir hafa lifað lífinu“ 

Áhuginn gat ekki annað en leitt Spessa til Bandaríkjanna – „í upphafi er þetta amerísk menning,“ segir hann. Í byrjun árs 2008 lét Spessi sérsmíða fyrir sig  mótorhjól í Las Vegas og þegar það var tilbúið um vorið flaug hann út og ók á því á mótorhjólahátíð í SuðurDakóta, og svo áfram suður til Memphis í Tennessee. „Á þessum tíma ákvað ég að gera  portrettbók um mótorhjólamenn,“ segir hann. Kunningi hans stakk upp á því að hann gerði samtímis heimildamyndina um þessa menningu. Síðan hefur verkefnið þróast og Spessi ákvað að hann þyrfti að dvelja um tíma vestanhafs, í nábýli við eigendur mótorhjólanna stóru. „Ég endaði í Kansas þar sem konan mín fór í skóla sem skiptinemi – og það var hárrétti staðurinn! Þetta er svo mikil Ameríka
„Þessi mynd er tekin þegar sonurinn var að
snúa  heim eftir átta ár  í fangelsi.
Fjölskylda og vinir biðu hans á mótorhjólaverkstæðinu.
Það var hjartnæm stund. Daginn eftir fékk hann nýtt
Harley-mótorhjól,“ segir Spessi.
og menning mótorhjólamannanna þar svo rótgróin og óspillt. Ég kynntist „bækerafjölskyldu“; pabbinn er sjötugur og hefur hjólað í hálfa öld, synir hans eru allir á mótorhjólum og vinirnir líka, þessir flottu gömlu kallar.
Þeir hafa lifað lífinu,“ segir Spessi og hlær, enda hefur hann heyrt hjá þeim margar sögur. „Ég komst inn í þennan hóp og kynntist menningunni innan frá, kjarnanum, á meðan ég hef venjulega horft utan frá í öðrum verkefnum sem ég hef unnið með myndavélinni.“

„Eins og þjóðflokkur“

 Í þessum nýjum myndum Spessa segir hann ákveðinn samruna þeirrar hlutlægu nálgunar sem hann er þekktastur fyrir og hefðbundinnar heimildaljósmyndunar, ljósmyndafrásagna eins og þekktar eru úr eldri tímaritum.
„Þetta verkefni sver sig í ætt við mín fyrri en nálgunin er líka klassísk; þetta krafðist annarrar nálgunar en ég er vanur. Þetta er mjög sjónræn menning.  mótorhjólamennirnir eru eins og þjóðflokkur. Tilfinningin er að allir „bækerar“ séu vinir. Gömlu karlarnir segja mér að hvort sem menn voru í klúbb eða ekki þá héldu þeir saman. Þótt þessir menn eigi fjölskyldur snýst allt um mótorhjólamenninguna; ef einhver deyr þá er farið á mótorhjólunum í útförina. Það þykir virðingarvottur.“
Rætur þessarar mótorhjólamenningar eru raktar aftur Kaliforníu árið 1947 og þetta voru gjarnan uppgjafahermenn sem áttu bágt með að aðlagast hinu daglega lífi að nýju. Spessi segir þá hafa stofnað klúbba sem séu að vissu leyti byggðir upp eins og herdeildir og þeir flökkuðu um eins og kúrekar í villta vestrinu, nema hjólin komu í stað hesta. Þessa sögu mun Spessi segja í heimildakvikmyndinni. Og auk þess að hafa mikinn áhuga á þessari menningu, menningu sem sumir fyrirlíta og aðrir óttast, þá segist Spessi hafa samúð með henni. Og hann gerir ekki mikið úr því að hún spretti víða upp úr fátækt, eymd og fáfræði. „
Vissulega er nokkur fátækt en margir þessara karla stunda sína vinnu og þeir eru alls ekki allir í einhverjum klúbbum. Þetta er heillandi heimur,“ segir Spessi.

Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is
 http://timarit.is
19.05.2013

14.5.13

Með fjandann í fingrunum


   Ökuþórinn Friðjón Veigar Gunnarsson 



Friðjón Veigar Gunnarsson eða Fíi eins og hann er kallaður af vinum sínum er listamaður af nýju kynslóðinni. Hans pensill er lítil sprautubyssa sem í daglegu tali kallast airbrush út af því að það er ekki til gott íslenskt orð yfir þetta fyrirbæri. Pappírinn er hins vegar frekar óvenjulegur hverju sinni,
en það eru bílar og mótorhjól og þá venjulega ekki af verri endanum. Friðjón hefur verið að sprauta fyrir þónokkra hérna heima en ekki síður erlendis og hefur farið þónokkrum sinnum á síðustu tveimur árum til Skandinavíu að sprauta. Hann er á leiðinni út aftur næsta föstudag og bílablaðið heyrði aðeins í honum vegna þess.


Vinsæll í verkefni á Vestur-Jótlandi 


„Ég er að fara til Varde sem er á VesturJótlandi að mála flotta bíla og mótorhjól. Þetta hafa mest verið mótorhjólaverkefni en síðast þegar ég var þarna málaði ég górillu aftan á bíl sem tilheyrði vinsælli vefsíðu. Í framhaldinu fer ég á NorðurJótland þar sem ég á að mála bíl og tvö mótorhjól en það er hjá aðila sem ég vann hjá þegar ég bjó þarna úti. Ég er búinn að fara nokkrum sinnum þarna út, fór tvisvar í fyrra og málaði sjö hjól í fyrra skiptið. Í seinna skiptið tók ég þátt í Mosten Raceday en þar vorum við þrír málarar með tjald og vorum að sprauta allan tímann. Ég
tók þátt í keppni í hittifyrra í Kaupmannahöfn sem endaði einmitt með því að ég fékk hringingu frá þeim í Varde um að koma og vinna nokkur verkefni fyrir þá.“ Friðjón Veigar hefur mest lært af sjálfum sér þegar kemur að sprautuninni en hann tók þó eitt námskeið hjá Craig Fraiser þegar hann kom hingað fyrst. Fraiser hefur haldið fjögur námskeið hérlendis, en hann kom hingað fyrst 2008.
„Ég hef haft nóg af krefjandi verkefnum sem hafa neytt mann til að gera prófanir og að kafa ofan í hlutina. Það eru margir sem eru að sprauta bara út af því að þeir hafa gaman af því. Það eru samt ekki
margir sem gefa sig út í þetta hérlendis en þetta er að verða vinsælt eins og tattúið. Þetta er reyndar ekki eins endanlegt og tattúið en ég hef verið að fikta aðeins við það líka. Menn eru að mála allt frá einföldum hauskúpum upp í myndir sem eru eins og ljósmyndir með réttu tækninni. Þú þarft bara að kunna að teikna og skyggja og restin er að læra handbragðið og trikkin.“

Langar í snargeðveikt mótorhjól 

Þegar Friðjón var spurður út í draumaverkefnið var svarið fljótt að koma. „Það væri eitthvert snargeðveikt og risastórt, sérsmíðað mótorhjól sem ég fengi að mála nákvæmlega eins og ég myndi vilja það. Mér finnst mest gaman að vinna með mótorhjólin þótt það væri auðvitað gaman að fá að gera einn Pick-up eða trukk. Mótorhjólin bjóða upp á miklu fínni myndir því maður sér ekki heilu bílana sem eru málaðir eins og hjólin eru máluð. Maður getur opnað flóðgáttir illskunnar á þau ef svo
má segja. Sumir nota litla myndvarpa til að kasta mynd á hjólið til að mála eftir en ég vil heldur gera sem mest fríhendis, það er mikið skemmtilegra,“ segir Friðjón. Hann hefur úr mörgum verkefnum að velja á næstunni hérlendis og er meðal annars að fara að mála vélarhlíf á flottum TransAm. „Ég er að vinna í geðveikum Kaffireiser og einnig skilrúm í kaffihús og var að klára einn mótorhjólahjálm þannig að verkefnin eru fjölbreytt. Annars er ég búinn að vera í fæðingarorlofi í vetur og hef ekki náð að sinna máluninni sem slíkri í nokkra mánuði,“ segir Friðjón sem er með Fésbókarsíðu sem heitir  Fjandinn, airbrush og tattoo.

14.05.2013
njall@mbl.is

13.5.13

Xavier á sigló



Þegar ég keyrði niður aðalgötuna á þriðjudaginn síðasta(semsagt 7. maí) sá ég mótorhjól fyrir utan gistiheimilið Hvanneyri. Það var svolítið sérstakt að sjá mótorhjól á þessum tíma(hjól sem ég vissi að var alveg pottþétt túristahjól).


Sá sem á hjólið heitir Xavier De Somer. Hann er á hringferð um Ísland. Og á mótorhjóli!! Þetta er æðislegt. Mig langar í svona hjól.

Daginn áður en ég hitti hann, semsagt á mánudaginn, sama dag og hann kom til Siglufjarðar var alveg hin sæmilegasta hríð og hin albezta snjóblinda. Þetta er sko alvöru sagði hann. Að vera að djöflast á mótorhjóli svona yfir háveturinn og það á Siglufirði.

Xavier er frá Belgíu og er búin að keyra um fleiri lönd á mótorhjólinu. Hjólið er KTM og er hann alveg í skýjunum með það. Hann sagði að það væri mjög gott í snjó(reyndar hló hann á eftir).

Ég fékk að taka nokkrar myndir hjá honum og svo fékk ég líka leyfi til að setja myndbönd sem hann hefur sett á youtube inn á vefinn hjá okkur. Góða skemmtun.
Myndband.
Reykjavík - Akureyri
http://www.youtube.com/watch?v=V42JI299XWw

Myndband
Ferð sem hann fór í til Marakkó.
http://www.youtube.com/watch?v=9aOoNTrlNDY










http://www.siglo.is/ 2013