Það er í góðum félagsskap á sveitahótelinu Hraunsnefi í Borgarfirði sem maður fer að velta fyrir sér hverskonar snilldargripur Moto Guzzi V7 hjólið er. Fyrir framan undirritaðan er gómsætur hamborgari á diski og góðir félagar. En í kollinum er aksturinn frá Reykjavík á þessum létta ítalska kaffireiser sem sjálfur er einmitt góður félagi.
Reynsluaksturinn hófst í Reykjavík deginum áður og strax bauð mótorhjólið af sér góðan þokka. Það er samdóma álit þeirra sem hafa séð hjólið að Moto Guzzi V7 sé ekta og dæmigert mótorhjól, svona hjól eins og unglingur myndi teikna ef hann væri beðinn um að teikna mótorhjól. Moto Guzzi V7 er lágt og lipurt að sjá, V-vélin er skemmtileg á að líta og kaffireiser sætið stílhreint. Tankurinn mátulega voldugur og mælaborðið og framljósið látlaust. Útlitslega er Moto Guzzi V7 því skólabókardæmi um mótorhjól.
Strokkasinfónía í hæsta gæðaflokki
En það leynir þrátt fyrir það á sér í mörgu tilliti. Vélin er ekki sérlega stór eða öflug, 744 cc og 48 hestöfl. En það hve þýð vélin er skiptir verulegu máli og hún skilar sínu mjög skemmtilega. Hún er snögg upp á snúning og í raun gerir þessi hógværa en þýða vél manni kleift að nýta allt aflið sem mótorhjólið hefur án þess að brjóta hraðareglur. Það þýðir að akstur á þessu hjóli innanbæjar er gríðarlega skemmtilegur vegna þess að það er svo mikið að gerast.
jólið purrar á rauðu ljósi og á grænu er smellt í fyrsta og gjöfinni snúið, annar fylgir rétt á eftir og svo þriðji og jafnvel fjórði – allt innan marka skynseminnar og með adrenalínflæði í öfugu hlutfalli. Allan tímann má heyra strokkasinfóníu í hæsta gæðaflokki úr tvöföldu pústkerfinu – með skemmtilegum baksprengingum og smellum þegar slegið er af gjöfinni.
Lipurleiki hjólsins er framúrskarandi. Stýrið er mátulega breitt og akstursstaðan er góð en það verður þó að segjast eins og er að hjólið er eflaust í minnsta lagi fyrir þá sem eru yfir 185 á hæð. Á móti kemur að hjólið er ákaflega skemmtilegt í höndunum á færum ökumanni og hrekklaust byrjandanum. Það er til að mynda hægt að losa afturdekkið í akstri án þess að auka púls hjartans – svo góð stjórn er á hjólinu sem sker sig í gegnum beygjur fyrirhafnarlaust.
Skynsamlegur pakki
En Ísland er ekki bara innanbæjar og í þjóðvegaakstri býður hjólið af sér góðan þokka. Það þolir ekki mikinn mótvind hinsvegar, til þess er það of létt og vélin þarf þá að rembast örlítið. Fjöðrunin er hinsvegar þokkaleg á þjóðvegahraða á misgóðum vegum landsins og lítið mál var að fara í mátulega langferð úr borginni og að Bifröst í Borgarnesi. Þó væri skynsamlegt að hafa í huga að fjöðrunin er fremur slagstutt og mjúk sem þýðir að hún getur slegið saman á mestu ójöfnunum. Kaffireiserinn er samt vel til þess að þeysa á milli kaffistaða, jafnvel þótt sérstaklega vel sé lagt í vegalengdina.Moto Guzzi V7 er í raun nokkuð skynsamlegur pakki. Hjólið er loftkælt eins og svo mörg önnur mótorhjól, vel smíðað og samsett, ræður yfir góðum bremsum og afskaplega þýðum gírkassa. Þá er það ótvíræður kostur að hjólið er með drifskafti og því þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af sliti í keðju eða hvimleiðu viðhaldi. Það er ágætt pláss fyrir farþega, allavega fyrir styttri ferðir og óvæntur plús var sá að bæði virtist eldsneytiseyðsla hjólsins vera mjög lítil og eins er tankurinn stór. Það má því búast við því að hægt sé að aka töluvert langt á milli fyllinga, kannski jafnvel 400 kílómetra. Sennilega hjálpar þyngd hjólsins því á flestum sviðum því það er ekki nema um 180 kíló.
Á réttum forsendum
Í stuttu má segja að þessi lipri kaffireiser fangi fullkomlega fegurð sjöunda áratugarins í mótorhjólum með allri tækni og þægindum nútímans.Hin ítölsku Moto Guzzi mótorhjól eru sjaldgæf á Íslandi og það er kominn tími til að landinn skoði eitthvað annað en hið dæmigerða og augljósa þegar kemur að mótorhjólum. Mótorhjól snúast auðvitað um stíl og skemmtun – þau ættu allra síst að veljast á sömu forsendum og vísitölubíllinn. Fyrir þá sem líta á mótorhjól sem fullnustu lífsstílsins ætti þessi lipri kaffireiser að passa fullkomlega.
ingvar.orn.ingvarsson@gmail.com
Kostir
Sparneytið, lipurt, rekstrar-hagkvæmni drifskaftsins og sígilt út-litGallar
Helst til slagstutt fjöðrun, hjólið getur virkað lítið undir há-vöxnu fólki
Morgunblaðið | 22.5.2013