22.5.13

Með kaffi í blóðinu


Það er í góðum fé­lags­skap á sveita­hót­el­inu Hrauns­nefi í Borg­ar­f­irði sem maður fer að velta fyr­ir sér hvers­kon­ar snilld­ar­grip­ur Moto Guzzi V7 hjólið er. Fyr­ir fram­an und­ir­ritaðan er góm­sæt­ur ham­borg­ari á diski og góðir fé­lag­ar. En í koll­in­um er akst­ur­inn frá Reykja­vík á þess­um létta ít­alska kaffireiser sem sjálf­ur er ein­mitt góður fé­lagi.

Reynsluakst­ur­inn hófst í Reykja­vík deg­in­um áður og strax bauð mótor­hjólið af sér góðan þokka. Það er sam­dóma álit þeirra sem hafa séð hjólið að Moto Guzzi V7 sé ekta og dæmi­gert mótor­hjól, svona hjól eins og ung­ling­ur myndi teikna ef hann væri beðinn um að teikna mótor­hjól. Moto Guzzi V7 er lágt og lip­urt að sjá, V-vél­in er skemmti­leg á að líta og kaffireiser sætið stíl­hreint. Tankur­inn mátu­lega vold­ug­ur og mæla­borðið og fram­ljósið lát­laust. Útlits­lega er Moto Guzzi V7 því skóla­bók­ar­dæmi um mótor­hjól.
Strokkasin­fón­ía í hæsta gæðaflokki
En það leyn­ir þrátt fyr­ir það á sér í mörgu til­liti. Vél­in er ekki sér­lega stór eða öfl­ug, 744 cc og 48 hest­öfl. En það hve þýð vél­in er skipt­ir veru­legu máli og hún skil­ar sínu mjög skemmti­lega. Hún er snögg upp á snún­ing og í raun ger­ir þessi hóg­væra en þýða vél manni kleift að nýta allt aflið sem mótor­hjólið hef­ur án þess að brjóta hraðaregl­ur. Það þýðir að akst­ur á þessu hjóli inn­an­bæjar er gríðarlega skemmti­leg­ur vegna þess að það er svo mikið að ger­ast.

jólið purr­ar á rauðu ljósi og á grænu er smellt í fyrsta og gjöf­inni snúið, ann­ar fylg­ir rétt á eft­ir og svo þriðji og jafn­vel fjórði – allt inn­an marka skyn­sem­inn­ar og með adrenalín­flæði í öf­ugu hlut­falli. All­an tím­ann má heyra strokkasin­fón­íu í hæsta gæðaflokki úr tvö­földu púst­kerf­inu – með skemmti­leg­um bak­spreng­ing­um og smell­um þegar slegið er af gjöf­inni.

Lip­ur­leiki hjóls­ins er framúrsk­ar­andi. Stýrið er mátu­lega breitt og akst­ursstaðan er góð en það verður þó að segj­ast eins og er að hjólið er ef­laust í minnsta lagi fyr­ir þá sem eru yfir 185 á hæð. Á móti kem­ur að hjólið er ákaf­lega skemmti­legt í hönd­un­um á fær­um öku­manni og hrekk­laust byrj­and­an­um. Það er til að mynda hægt að losa aft­ur­dekkið í akstri án þess að auka púls hjart­ans – svo góð stjórn er á hjól­inu sem sker sig í gegn­um beygj­ur fyr­ir­hafn­ar­laust.

Skyn­sam­leg­ur pakki

En Ísland er ekki bara inn­an­bæjar og í þjóðvega­akstri býður hjólið af sér góðan þokka. Það þolir ekki mik­inn mótvind hins­veg­ar, til þess er það of létt og vél­in þarf þá að rembast ör­lítið. Fjöðrun­in er hins­veg­ar þokka­leg á þjóðvega­hraða á mis­góðum veg­um lands­ins og lítið mál var að fara í mátu­lega lang­ferð úr borg­inni og að Bif­röst í Borg­ar­nesi. Þó væri skyn­sam­legt að hafa í huga að fjöðrun­in er frem­ur slagstutt og mjúk sem þýðir að hún get­ur slegið sam­an á mestu ójöfn­un­um. Kaffireiser­inn er samt vel til þess að þeysa á milli kaffistaða, jafn­vel þótt sér­stak­lega vel sé lagt í vega­lengd­ina.

Moto Guzzi V7 er í raun nokkuð skyn­sam­leg­ur pakki. Hjólið er loft­kælt eins og svo mörg önn­ur mótor­hjól, vel smíðað og sam­sett, ræður yfir góðum brems­um og af­skap­lega þýðum gír­kassa. Þá er það ótví­ræður kost­ur að hjólið er með drifskafti og því þarf ekki að hafa nein­ar áhyggj­ur af sliti í keðju eða hvim­leiðu viðhaldi. Það er ágætt pláss fyr­ir farþega, alla­vega fyr­ir styttri ferðir og óvænt­ur plús var sá að bæði virt­ist eldsneytis­eyðsla hjóls­ins vera mjög lít­il og eins er tankur­inn stór. Það má því bú­ast við því að hægt sé að aka tölu­vert langt á milli fyll­inga, kannski jafn­vel 400 kíló­metra. Senni­lega hjálp­ar þyngd hjóls­ins því á flest­um sviðum því það er ekki nema um 180 kíló.

Á rétt­um for­send­um

Í stuttu má segja að þessi lipri kaffireiser fangi full­kom­lega feg­urð sjö­unda ára­tug­ar­ins í mótor­hjól­um með allri tækni og þæg­ind­um nú­tím­ans.

Hin ít­ölsku Moto Guzzi mótor­hjól eru sjald­gæf á Íslandi og það er kom­inn tími til að land­inn skoði eitt­hvað annað en hið dæmi­gerða og aug­ljósa þegar kem­ur að mótor­hjól­um. Mótor­hjól snú­ast auðvitað um stíl og skemmt­un – þau ættu allra síst að velj­ast á sömu for­send­um og vísi­tölu­bíll­inn. Fyr­ir þá sem líta á mótor­hjól sem fulln­ustu lífs­stíls­ins ætti þessi lipri kaffireiser að passa full­kom­lega.

ingvar.orn.ingvars­son@gmail.com

Kost­ir

Spar­neytið, lip­urt, rekstr­ar-hag­kvæmni drifskafts­ins og sí­gilt út-lit

Gall­ar

Helst til slagstutt fjöðrun, hjólið get­ur virkað lítið und­ir há-vöxnu fólki
Morg­un­blaðið | 22.5.2013