14.5.13

Með fjandann í fingrunum


   Ökuþórinn Friðjón Veigar Gunnarsson Friðjón Veigar Gunnarsson eða Fíi eins og hann er kallaður af vinum sínum er listamaður af nýju kynslóðinni. Hans pensill er lítil sprautubyssa sem í daglegu tali kallast airbrush út af því að það er ekki til gott íslenskt orð yfir þetta fyrirbæri. Pappírinn er hins vegar frekar óvenjulegur hverju sinni,
en það eru bílar og mótorhjól og þá venjulega ekki af verri endanum. Friðjón hefur verið að sprauta fyrir þónokkra hérna heima en ekki síður erlendis og hefur farið þónokkrum sinnum á síðustu tveimur árum til Skandinavíu að sprauta. Hann er á leiðinni út aftur næsta föstudag og bílablaðið heyrði aðeins í honum vegna þess.


Vinsæll í verkefni á Vestur-Jótlandi 


„Ég er að fara til Varde sem er á VesturJótlandi að mála flotta bíla og mótorhjól. Þetta hafa mest verið mótorhjólaverkefni en síðast þegar ég var þarna málaði ég górillu aftan á bíl sem tilheyrði vinsælli vefsíðu. Í framhaldinu fer ég á NorðurJótland þar sem ég á að mála bíl og tvö mótorhjól en það er hjá aðila sem ég vann hjá þegar ég bjó þarna úti. Ég er búinn að fara nokkrum sinnum þarna út, fór tvisvar í fyrra og málaði sjö hjól í fyrra skiptið. Í seinna skiptið tók ég þátt í Mosten Raceday en þar vorum við þrír málarar með tjald og vorum að sprauta allan tímann. Ég
tók þátt í keppni í hittifyrra í Kaupmannahöfn sem endaði einmitt með því að ég fékk hringingu frá þeim í Varde um að koma og vinna nokkur verkefni fyrir þá.“ Friðjón Veigar hefur mest lært af sjálfum sér þegar kemur að sprautuninni en hann tók þó eitt námskeið hjá Craig Fraiser þegar hann kom hingað fyrst. Fraiser hefur haldið fjögur námskeið hérlendis, en hann kom hingað fyrst 2008.
„Ég hef haft nóg af krefjandi verkefnum sem hafa neytt mann til að gera prófanir og að kafa ofan í hlutina. Það eru margir sem eru að sprauta bara út af því að þeir hafa gaman af því. Það eru samt ekki
margir sem gefa sig út í þetta hérlendis en þetta er að verða vinsælt eins og tattúið. Þetta er reyndar ekki eins endanlegt og tattúið en ég hef verið að fikta aðeins við það líka. Menn eru að mála allt frá einföldum hauskúpum upp í myndir sem eru eins og ljósmyndir með réttu tækninni. Þú þarft bara að kunna að teikna og skyggja og restin er að læra handbragðið og trikkin.“

Langar í snargeðveikt mótorhjól 

Þegar Friðjón var spurður út í draumaverkefnið var svarið fljótt að koma. „Það væri eitthvert snargeðveikt og risastórt, sérsmíðað mótorhjól sem ég fengi að mála nákvæmlega eins og ég myndi vilja það. Mér finnst mest gaman að vinna með mótorhjólin þótt það væri auðvitað gaman að fá að gera einn Pick-up eða trukk. Mótorhjólin bjóða upp á miklu fínni myndir því maður sér ekki heilu bílana sem eru málaðir eins og hjólin eru máluð. Maður getur opnað flóðgáttir illskunnar á þau ef svo
má segja. Sumir nota litla myndvarpa til að kasta mynd á hjólið til að mála eftir en ég vil heldur gera sem mest fríhendis, það er mikið skemmtilegra,“ segir Friðjón. Hann hefur úr mörgum verkefnum að velja á næstunni hérlendis og er meðal annars að fara að mála vélarhlíf á flottum TransAm. „Ég er að vinna í geðveikum Kaffireiser og einnig skilrúm í kaffihús og var að klára einn mótorhjólahjálm þannig að verkefnin eru fjölbreytt. Annars er ég búinn að vera í fæðingarorlofi í vetur og hef ekki náð að sinna máluninni sem slíkri í nokkra mánuði,“ segir Friðjón sem er með Fésbókarsíðu sem heitir  Fjandinn, airbrush og tattoo.

14.05.2013
njall@mbl.is