Seldu allt Rocky og Paula ætla að vera á ferð um heiminn næstu misseri. Hér eru þau við Louise- vatn í Kanada. Mynd: Rocky Vachon |
Fengu höfðinglegar móttökur í Reykjanesbæ
Ég lít ekki svo á að við séum strandaglópar á Íslandi. Maður er strandaglópur ef maður er á stað sem maður vill ekki vera á,“ segir Kanadamaðurinn Rocky Vachon. Hann kom ásamt kærustu sinni, Paulu Fatia, til Íslands á mánudaginn í síðustu viku. Þau urðu fyrir því óláni, þegar þau komu til Íslandsfrá Bandaríkjunum, að afgreiðsla á mótorhjólinu þeirra tafðist hjá tollayfirvöldum í Ameríku. Þau höfðu gert ráð fyrir að bíða í nokkra daga eftir hjólinu en sú bið lengist um viku, hið minnsta.
Rocky og Paula, 35 og 33 ára, tóku saman fyrir um þremur árum. Þau höfðu bæði hug á að leggja land undir fót, eða hjól, og skoða heiminn. Einu ári eftir að þau kynntust hafði Paula selt húsið sitt og jafnaði þá upphæð sem Rocky hafði safnað sér. Þau hættu bæði í vinnunni og settust upp á hjólið.
Þau óku frá heimabæ sínum, Hamilton í Ontario-héraði í Kanada í ágúst 2011. „Við fórum vestur Kanada, í gegnum Vancouver og þaðan yfir til Bandaríkjanna,“ segir Paula um upphaf ferðalagsins. „Við ferðuðumst um Bandaríkin, fórum þaðan til Mexíkó, Belís og svo Gvatemala,“ heldur hún áfram. Þegar þau nálguðust suðurhluta Ameríku, eftir 146 ferðadaga og 25 þúsunda kílómetra akstur, tók ferðalagið á mótorhjólinu óvæntan endi. Flutningabíll þröngvaði þeim út af veginum og þau höfnuðu ofan í skurði – eiginlega á kaf í skolp. Þau sluppu bæði ómeidd en hjólið skemmdist töluvert og varð óökuhæft.
Lærði að gera við hjólið
Boðið í bústað
Rocky og Paula njóta nú íslenska sumarsins, þó megnið af farangri þeirra, auk fararskjótans, vanti. Þau hafa verið tiltölulega heppin með veður. Fyrstu nóttina gistu þau við Keflavíkurflugvöll en næsta dag húkkuðu þau sér far í Reykjanesbæ, þar sem þau komust í verslun og nettengingu. „Við erum með fötin okkar og tjaldið. Það er nóg í bili,“ segir hann af því æðruleysi og þeirri gleði sem einkennir fas þeirra beggja.Á föstudaginn hittu þau Gylfa Jón Gylfason, fræðslustjóra í Reykjanesbæ, fyrir utan ráðhúsið í bænum þar sem þau höfðu tjaldað. Gylfi Jón bauð þeim í mat og í kjölfarið að dvelja í sumarhúsi hans að Hafurbjarnarstöðum, á milli Garðs og Sandgerðis, þar til þau fá hjólið í hendurnar. Þau eru hæstánægð með þá gestrisni. Gylfi Jón hefur sýnt þeim Reykjanesið og þau hafa meðal annars skoðað Gunnuhver, vinsælan ferðamannastað við Reykjanesvita. Þá fengu þau lánaðan bíl hjá heimamanni til að fara í dagsferð að Gullfossi og Geysi.
Flækingar
Sigur Rós í uppáhaldi
Þau stefna á að vera tvær til þrjár vikur á ferðalagi um Ísland eftir að þau fá hjólið. Þau hafa merkt við marga staði sem þau ætla að heimsækja hér, en Rocky er mikill aðdáandi hljómsveitarinnar Sigur Rósar. Hann féll fyrir landinu þegar hann sá heimildamyndina Heima, um tónleikaferðalag sveitarinnar um Ísland. Þau Rocky og Paula áætla að ferðast þar til peningurinn klárast. „Við ætlum næst til Danmerkur, með Norrænu, og svo sunnar, þegar fer að hausta. Við ætlum í haust til Portúgal, þar sem Paula fæddist og á fjölskyldu sem hún þekkir lítið. Hún hefur ekki komið þangað frá því hún var þriggja ára,“ útskýrir Rocky. „Fjölskylda mín býr í Portúgal og Frakklandi. Ég þekki þau ekki en hef hitt suma einu sinni, fyrir löngu síðan. Það verður gaman að hitta þau,“ bætir Paula við. Þau gera ráð fyrir að verja vetrinum í Portúgal og hyggja á að heimsækja Marokkó líka. Þegar fer að vora ætla þau að færa sig norðar á bóginn og heimsækja Sviss og Ítalíu, hið minnsta. „Okkur langar að fara til Egyptalands, aka með Nílarfljótinu og heimsækja Jórdaníu. Við verðum svo að sjá til hvort hægt verður að fara til Tyrklands og Alsír en aðstæður í þeim löndum verða að ráða því,“ segir Rocky. Hann hefur að auki reynt að sannfæra kærustu sína um að heimsækja Pakistan og Íran, en til Íran langar Rocky mikið að koma, sérstaklega norðurhéraðanna. „Ég er enn að reyna að sannfæra hana …“ „Við sjáum til,“ grípur hún fram í og hlær. Þau ætla að láta veðrið ráða för, svolítið eins og Íslendingar. „Við förum heim þegar við erum annaðhvort orðin leið hvort á öðru eða blönk.“Finna frið á hjólinu
Þau viðurkenna aðspurð að það geti tekið á að vera saman á ferðalagi allar sólarhringinn, svo vikum og mánuðum skiptir. Stundum kastist svolítið í kekki. „Við erum stundum spurð hvers vegna við notum ekki hljóðnema til að tala saman þegar við erum á mótorhjólinu,“ segir Paula en segir að það komi ekki til greina. „Við notum tímann á hjólinu til að hugsa og vera út af fyrir okkur,“ segir Rocky. „Þó við sitjum þétt saman þá eru þetta einu stundirnar sem við fáum frið hvort fyrir öðru. Það skiptir máli,“ segir hann og Paula tekur í sama streng.
Dagblaðið Vísir 16.08.2013