30.10.13

Meðlimir komnir til vits eða ára



Það má með sanni segja að dagurinn í dag sé merkilegur hjá meðlimum Vélhjólafjelags Gamlingja.
Á þessum degi árið 1993 var félagið stofnað og tvítugsafmæliþess verður fagnað með sérstökum hætti.
Annað kvöld hefst yfirgripssýning á hjólum félagsmanna í Reykjavík Motor Center og þar eru fá hjól yngri en þrjátíu áraog mörg mun eldri en það. Sum þeirra eru þau einu sinnar tegundar á landinu. 

Um þrjátíu manns eru í Vélhjólafjelagi gamlingja. Þetta er félagsskapur þeirra sem áhuga hafa á gömlum vélhjólum og best er að þeir sem óska eftir inngöngu í félagið séu, eins og leiðtogi félagsins orðar það, annað hvort komnir til vits eða ára, þó ekki sé verra að uppfylla hvort tveggja. Elsti félaginn er fæddur árið 1930 og hefur fyrir vikið fengið heiðursnafnbót. Sir Emil Kristjánsson er því heiðursfélagi í þessum virðulega félagsskap og sömuleiðis leiðtoginn, Dagrún Jónsdóttir, sem ber titilinn lafði.
Konur hafa alltaf verið virkar í félaginu og hafa oft verið fleiri en núna. Í dag eru þær þrjár. 30 manns en 120 hjól Það er með eindæmum ótrúlegt að þessi rúmlega þrjátíu manna hópur eigi samanlagt um 120 gömul vélhjól. Fjörutíu þeirra hjóla verða á afmælissýningunni sem hefst kl. 21 annað kvöld að Kleppsvegi 152. Hún stendur til klukkan 16 á sunnudag og er aðgangur ókeypis. Elsta gangfæra hjólið á sýningunni er Harley Davidson DL750 frá árinu 1931 og er það í toppstandi. Sömuleiðis verður á sýningunni annað Harley Davidson sem verið er að gera upp en það er frá árinu 1925. Segja má að félagarnir hafi unnið mikið og gott starf í að varðveita og í raun bjarga gömlum hjólum frá skemmdum. Sum hafa verið flutt inn en mörg hafa fundist á hinum ýmsu stöðum á landinu, eins og Harley Davidson DL750 sem fannst í Reykhólasveit og var verulega farið að láta á sjá, grindin í bútum en vél og gírkassi nothæf ásamt framgaffli og fleiri hlutum.
Fjöldi merkra gripa verður á sýningunni og eru þeir jafnvel þeir einu sinnar tegundar á landinu. Sum hjólin eru að sama skapi fágæt á heimsvísu. Dæmi um slíkt hjól er Suzuki RE5 sem er með Wankel vél og var framleitt á árunum 1974-1976. Ítalski hönnuðurinn Giorgetto Giugiaro á heiðurinn af útliti hjólsins. Það er afar fá gætt, aðeins til um 6000 slík hjól í heiminum.
 Sýningin sem opnuð verður annað kvöld er  frábrugðin því sem Vélhjólafjelag gamlingja hefur áður gert til að sýna hjólin. Reynt hefur verið að hafa hjólin til sýnis á Árbæjarsafni einhvern dag sumars. Eins og segir á vef Sniglanna er Vélhjólafjelag gamlingja svo gamaldags að það er ekki með sína eigin vefsíðu og er vel hægt að afsaka það. 

Gamlingjar á ferðinni

Sem fyrr segir er þetta enginn unglingaklúbbur og eiga félagsmenn það sammerkt að vera með ólæknandi og óbilandi vélhjóladellu. Svo svæsna að þeir leita út fyrir landsteinana til að finna hjól sem uppfylla skilyrði alvöru gamlingjahjóla. Því leggja félagar sig fram við að ná í einstök eintök,
endursmíða eða gera þau upp. En þeir láta ekki þar við sitja því hjólin eru notuð. Einkunnarorð  Vélhjólafjelags gamlingja eru „Gamlinginn skoðar steininn“, því í þessu félagi er hraðinn ekki  aðalmálið heldur er ekið hægt í ferðum um landið til að hægt sé að skoða það og njóta í leiðinni.
Malín Brand
malin@mbl.is
30.10.2013

Milliak­reina­akst­ur á mótor­hjóli leyfi­leg­ur eða ekki?


 Hug­takið milliak­reina­akst­ur eða það sem kallað er er­lend­is Filter­ing eða Lane splitt­ing er svo nýtt að ekk­ert nýti­legt nafn er til fyr­ir það á ís­lensku.



Milliak­reina­akst­ur á mótor­hjóli er að keyra milli ak­reina, til þess að kom­ast fram fyr­ir um­ferð halda ef­laust flest­ir. Sann­leik­ur­inn er þó sá að í þéttri stór­borg­ar­um­ferð get­ur það að keyra milli ak­reina verið tals­vert ör­ugg­ara fyr­ir mótor­hjólið. Ástæðurn­ar eru nokkr­ar, eins og til dæm­is sú staðreynd að mótor­hjólið hef­ur lengri línu fyr­ir fram­an sig til að bregðast við held­ur en ef það er milli tveggja bíla. Útsýnið verður líka betra svo að sá sem er á mótor­hjól­inu sit­ur er fljót­ari að bregðast við aðstæðum. Ekki má held­ur gleyma því að mótor­hjólið tef­ur þannig ekki fyr­ir ann­arri um­ferð og létt­ir frek­ar á henni. En skyldi mega þetta alls staðar og þá til dæm­is á Íslandi? Í sjálfu sér er ekk­ert í um­ferðarlög­un­um sem bann­ar þetta sér­stak­lega.

Sam­kvæmt gild­andi um­ferðarlög­um seg­ir í 41. grein að eigi megi aka bif­hjóli sam­hliða öðru öku­tæki. Sam­kvæmt 22. grein um­ferðarlag­anna frá 1987 er ekki heim­ilt að aka fram úr öðru öku­tæki á eða við gatna­mót, en til­tekið í und­ir­máli að ákvæðið eigi ekki við um akst­ur fram úr reiðhjóli eða léttu bif­hjóli. Að lok­um seg­ir um­ferðarmerkið sem bann­ar framúrakst­ur að það eigi við öku­tæki, nema tví­hjóla öku­tæki, þar á meðal bif­hjól. Þrátt fyr­ir greinagóðar lýs­ing­ar á akstri á ak­rein­um í um­ferðarlög­um er ekk­ert sem bann­ar þar akst­ur á milli ak­reina. Ökumaður skal þó, áður en hann skipt­ir um ak­rein eða ekur á ann­an hátt til hliðar, ganga úr skugga um að það sé unnt án hættu eða óþarfa óþæg­inda fyr­ir aðra. Sama er, ef ökumaður ætl­ar að stöðva öku­tæki eða draga snögg­lega úr hraða þess.

Víða leyft í Evr­ópu
Nokkr­ar borg­ir í Evr­ópu, Jap­an og Kali­forn­íu­ríki hafa leyft milliak­reina­akst­ur mótor­hjóla með lög­um eða reglu­gerðum. Sum ríki í Banda­ríkj­un­um eins og Utah og Nebraska hafa þó bannað það sér­stak­lega, en þá aðeins fyr­ir mótor­hjól.

Þeir sem hafa orðið vitni að um­ferðinni eins og hún er í Par­ís eða Barcelona á há­anna­tíma skilja bet­ur hvernig akst­ur mótor­hjóla milli ak­reina er nauðsyn­leg­ur. Þar þykir sjálfsagt að mótor­hjólið fái að aka milli ak­reina í þéttri borg­ar­um­ferðinni eða inni í fjölak­reina hring­torgi. Í Barcelona er bein­lín­is gert ráð fyr­ir að mótor­hjól og létt bif­hjól geti ekið milli bíla á ljós­um og komið sér fyr­ir á sér­stöku svæði rétt fyr­ir gatna­mót­in.

Að mati stjórn­ar Bif­hjóla­sam­taka lýðveld­is­ins, Snigla, er orðið tíma­bært að þessi mál séu skoðuð hér­lend­is með um­ferðarör­yggi bif­hjóla­fólks í huga. Ei­rík­ur Hans Sig­urðsson, öku­kenn­ari og í vara­stjórn Snigla, hef­ur sterk­ar skoðanir á þessu máli. „Þetta er mál sem löngu er tíma­bært að hreyfa við hér á landi. Ég hef aldrei skilið hvers vegna það fer svona í taug­arn­ar á hér­lend­um öku­mönn­um bíla ef mótor­hjól fer fram fyr­ir þá við gatna­mót. Ég varð fyr­ir því sum­arið 2010 þegar ég hjólaði gæti­lega á milli bíla sem biðu við gatna­mót Kringlu­mýr­ar­braut­ar og Suður­lands­braut­ar að einn ökumaður bíls í h.m. í röðinni gerði sér lítið fyr­ir og reyndi að loka fyr­ir mig með því að sveigja til vinstri að næsta bíl. Það varð til þess að hliðartask­an vinstra meg­in á hjól­inu straukst við hægra aft­ur­horn bíls­ins við hliðina. Af þessu urðu eng­ar skemmd­ir, en svona hegðun seg­ir hvernig sum­ir hugsa okk­ur þegj­andi þörf­ina. Ég hef einnig orðið fyr­ir því að menn sendi mér putt­ann eða aki flaut­andi á eft­ir mér. Þegar maður hjól­ar í Suður-Evr­ópu leggja öku­menn bíla sig fram um að maður kom­ist á milli bíla sem eru að bíða við gatna­mót og jafn­vel breikki bilið á milli bíla á ferð í um­ferð svo mótor­hjól­in eigi greiða leið á milli þeirra. Að þessu þarf að vinna. Það þarf einnig að kynna það fyr­ir al­menn­ingi að mótor­hjól sem fer fram fyr­ir er að létta á um­ferðinni en ekki að tefja hana,“ seg­ir Ei­rík­ur Hans.

njall@mbl.is
Bíl­ar | Morg­un­blaðið | 30.10.2013 | 

Elsta mótorhjólið er Harley frá 1931 (2013)

Dagrún Jónsdóttir mótorhjólabóndi
Oddsparti 
Dagrún Jónsdóttir, mótorhjólabóndi á Oddsparti í Þykkvabæ flutti til Þykkvabæjar fyrir átta árum.

Hún er í óða önn að gera upp hús þar og hyggst opna mótorhjólasafn Þykkvabæjar. „Húsið hefur verið notað sem ballsalur, en þar ætlum við
að hafa sýningarsalinn.
Það var fullt af hljómsveitum sem spiluðu hérna í sumar.“ Dagrún vill ekkert gefa upp um hvenær safnið verður opnað og segir mörg verkefni vera eftir.

 Bak við húsið sem mun hýsa safnið er stórt tún með hlöðnum veggjum utan um eldstæði. „Hérna er tjaldsvæði sem við rekum fyrir mótorhjólafólk og tökum eingöngu á móti hópum.“

Meðeigandi Dagrúnar að svæðinu er Einar „Marlboro“.Þau hafa nú þegar sankað að sér rúmlega 30 hjólum og er það elsta frá 1931.
gunnardofri@mbl.is
Morgunblaðið  30.10.2013

8.10.13

Gátu lækkað iðgjöld­in


Gátu lækkað iðgjöld­in á „hipp­un­um“   (úr stærri grein)

Mik­il mótor­hjóla­della magnaðist upp á Íslandi í góðær­inu og marg­ir létu langráðan draum ræt­ast um að kaupa sér mótor­fák. Þessi mikla fjölg­un mótor­hjóla­öku­manna skapaði þrýst­ing á og svig­rúm fyr­ir trygg­inga­fé­lög­in að bjóða hag­kvæm­ari trygg­ing­ar en lengi vel höfðu bif­hjóla­trygg­ing­ar þótt sér­deil­is dýr­ar.

Ein­ar seg­ir ekki hægt að greina að dregið hafi úr mótor­hjóla­áhug­an­um en TM end­ur­skoðaði fyr­ir nokkr­um árum hjá sér bif­hjóla­trygg­ing­ar með það að mark­miði að meta áhættu af meiri ná­kvæmni og skila viðskipta­vin­um sann­gjarn­ara verði. Útkom­an var mjög áhuga­verð:

„Við gát­um t.d. lækkað iðgjöld­in á „hipp­un­um“ svo­kölluðu enda leiddu töl­ur okk­ar í ljós að á þeirri gerð hjóla var slysa­hætt­an minni. Hins veg­ar kom skýrt í ljós að breyt­inga var þörf á iðgjöld­um mótorkross-hjóla þar sem slysa­hætt­an er mik­il enda hjól­in til þess gerð að skoppa og spana um keppn­is­braut­ir og mal­ar­hauga.“

Dýr­ar trygg­ing­ar á bif­hjól­um seg­ir Ein­ar að komi til vegna þess að hvert slys á hjóli geti verið mjög kostnaðarsamt. „Ef ökumaður bif­hjóls lend­ir í byltu og brýt­ur t.d. viðbein eða ökkla hleyp­ur slysa­kostnaður­inn á millj­ón­um króna. Ef ársiðgjöld­in eru t.d. 60.000 kr. þá sést að það þarf stór­an hóp iðgjalda­greiðenda til að standa und­ir tjón­inu og örfá slys til viðbót­ar geta orðið til þess að þessi titekni trygg­inga­flokk­ur er rek­inn með miklu tapi.“

Morgunblaðið   8.10.2013

https://www.mbl.is/bill/domar/2013/10/08/abyrgur_akstur_skilar_ser_i_laegri_idgjoldum/