„Hingað til hefur ekki fundist sú málning sem gefur almennilegt grip, sérstaklega ekki í bleytu. Ef þessi bleika málning er svona góð, þá gefur auga leið að hún fari í allar vegmerkingar í framtíðinni,“ segir mótorhjólamaður sem hefur áhyggjur af slysahættu í bleiku slaufunni við Bústaðaveg.
Bleika umferðarslaufan var máluð í tilefni af árvekni- og fjáröflunarátaki Krabbameinsfélagins og var það gert með heimild Vegagerðar og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Minna veggrip fyrir mótorhjól
Strax eftir að umferðarslaufan var máluð bleik höfðu Sniglarnir, hagsmunasamtök mótorhjólafólks, samband við lögreglu og Vegagerð til að lýsa áhyggjum sínum af framkvæmdinni, þar sem margir telja að veggripið geti minnkað fyrir mótorhjól.
Vegagerðin brást við í dag með því að viðnámsmæla götuna. Samkvæmt þeirri mælingu uppfyllir málningaryfirborðið þær kröfur sem gerðar eru til viðnáms malbiks. Engu að síður kom Vegagerðin upp skilti við byrjun afreinarinnar, sem varar við mögulegri hálku.
Sniglarnir biðja enn sína liðsmenn um að fara varlega um svæðið og Vegagerðin tekur undir það á Facebook og bendir jafnframt á að hjólafólk geti valið aðra leið.
Renna oft í vegmerkingunum
Hjörtur L. Jónsson mótorhjólamaður bendir á að öll málning á götunum, þ.e.a.s hvítu línurnar sem notaðar eru til vegmerkingar, séu hættulegar mótorhjólamönnum enda sé málningin í eðli sínu sleip.
„Það hafa ófáir mótorhjólamenn skutlast á hausinn á þessum línum. Mörg slys sem verða þegar menn missa stjórn á hjólinu við gatnamót er mótorhjólamönnum sjálfum að kenna því þeir gá ekki að sér þegar þeir taka af stað og skransa á línunum,“ segir Hjörtur.
Hann bendir jafnframt á að á akstursæfingasvæðum, eins og t.d. á Akureyri, séu útbúnar sérstakar brautir til að æfa akstur í hálku og þar sé hálkan einfaldlega búin til með því að þekja brautina málningu.
Hjörtur segir þetta sérlega slæmt þar sem beygjan í slaufunni sé mótorhjólamönnum varasöm fyrir á 20-30 metra kafla, því hjólin halli út úr beygjunni og þar á sama stað sé járnhlemmur um metra frá kantinum.
„Þeir segjast núna hafa gert einhverjar bremsumælingar í nótt, en ég er ekki tilbúinn að kyngja því. Ég hefði nú viljað að þetta hefði verið prófað á smákafla áður en öll gatan var máluð. Málefnið er æðislegt, framtakið frábært, myndin úr lofti er ofboðslega flott og allt eftir því. En ekkert af þessu er flott ef það verður slys. Ég vona bara að það komi ekki til þess.“
Bleik umferðarslaufa séð úr lofti
Bleikar götur í skjóli myrkurs
Mbl.is
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/10/04/hafa_ahyggjur_af_bleika_litnum/