Það má með sanni segja að dagurinn í dag sé merkilegur hjá meðlimum Vélhjólafjelags Gamlingja.
Á þessum degi árið 1993 var félagið stofnað og tvítugsafmæliþess verður fagnað með sérstökum hætti.
Annað kvöld hefst yfirgripssýning á hjólum félagsmanna í Reykjavík Motor Center og þar eru fá hjól yngri en þrjátíu áraog mörg mun eldri en það. Sum þeirra eru þau einu sinnar tegundar á landinu.
Um þrjátíu manns eru í Vélhjólafjelagi gamlingja. Þetta er félagsskapur þeirra sem áhuga hafa á gömlum vélhjólum og best er að þeir sem óska eftir inngöngu í félagið séu, eins og leiðtogi félagsins orðar það, annað hvort komnir til vits eða ára, þó ekki sé verra að uppfylla hvort tveggja. Elsti félaginn er fæddur árið 1930 og hefur fyrir vikið fengið heiðursnafnbót. Sir Emil Kristjánsson er því heiðursfélagi í þessum virðulega félagsskap og sömuleiðis leiðtoginn, Dagrún Jónsdóttir, sem ber titilinn lafði. Konur hafa alltaf verið virkar í félaginu og hafa oft verið fleiri en núna. Í dag eru þær þrjár. 30 manns en 120 hjól Það er með eindæmum ótrúlegt að þessi rúmlega þrjátíu manna hópur eigi samanlagt um 120 gömul vélhjól. Fjörutíu þeirra hjóla verða á afmælissýningunni sem hefst kl. 21 annað kvöld að Kleppsvegi 152. Hún stendur til klukkan 16 á sunnudag og er aðgangur ókeypis. Elsta gangfæra hjólið á sýningunni er Harley Davidson DL750 frá árinu 1931 og er það í toppstandi. Sömuleiðis verður á sýningunni annað Harley Davidson sem verið er að gera upp en það er frá árinu 1925. Segja má að félagarnir hafi unnið mikið og gott starf í að varðveita og í raun bjarga gömlum hjólum frá skemmdum. Sum hafa verið flutt inn en mörg hafa fundist á hinum ýmsu stöðum á landinu, eins og Harley Davidson DL750 sem fannst í Reykhólasveit og var verulega farið að láta á sjá, grindin í bútum en vél og gírkassi nothæf ásamt framgaffli og fleiri hlutum.
Fjöldi merkra gripa verður á sýningunni og eru þeir jafnvel þeir einu sinnar tegundar á landinu. Sum hjólin eru að sama skapi fágæt á heimsvísu. Dæmi um slíkt hjól er Suzuki RE5 sem er með Wankel vél og var framleitt á árunum 1974-1976. Ítalski hönnuðurinn Giorgetto Giugiaro á heiðurinn af útliti hjólsins. Það er afar fá gætt, aðeins til um 6000 slík hjól í heiminum.
Sýningin sem opnuð verður annað kvöld er frábrugðin því sem Vélhjólafjelag gamlingja hefur áður gert til að sýna hjólin. Reynt hefur verið að hafa hjólin til sýnis á Árbæjarsafni einhvern dag sumars. Eins og segir á vef Sniglanna er Vélhjólafjelag gamlingja svo gamaldags að það er ekki með sína eigin vefsíðu og er vel hægt að afsaka það.
Gamlingjar á ferðinni
Sem fyrr segir er þetta enginn unglingaklúbbur og eiga félagsmenn það sammerkt að vera með ólæknandi og óbilandi vélhjóladellu. Svo svæsna að þeir leita út fyrir landsteinana til að finna hjól sem uppfylla skilyrði alvöru gamlingjahjóla. Því leggja félagar sig fram við að ná í einstök eintök,endursmíða eða gera þau upp. En þeir láta ekki þar við sitja því hjólin eru notuð. Einkunnarorð Vélhjólafjelags gamlingja eru „Gamlinginn skoðar steininn“, því í þessu félagi er hraðinn ekki aðalmálið heldur er ekið hægt í ferðum um landið til að hægt sé að skoða það og njóta í leiðinni.
Malín Brand
malin@mbl.is
30.10.2013
30.10.2013