27.9.03

Mótorhjólasýningin í Mílanó 2003

Intermot-mótorhjólasýningin í Mílanó er haldin á hverju hausti og þar keppast framleiðendur við að kynna hjól næsta árs. 

Sýningin í ár var engin undantekning á því og þótti fjölbreytt miðað við frekar einhæfar sýningar síðustu ár. Mestar framfarir hingað til hafa orðið í torfæruhjólum en framleiðendur eru aftur farnir að veita götuhjólum þá athygli sem þau þurfa. Einnig var meira um það en áður að framleiðendur sýndu tilraunahjól og margar frumlegar hugmyndir eru þar á ferðinni.

Mótorhjól með „tvöfaldan persónuleika

 " Kawasaki frumsýndi nýja módellínu á mótorhjólasýningunni í Mílanó í vikunni en það sem kom mest á óvart frá þeim var nýtt tilraunahjól sem hugsanlega fer fljótlega í framleiðslu. Hjólið, sem var sýnt blaðamönnum síðastliðinn miðvikudag, heitir ZZR-X og er með „tvöfaldan persónuleika" ef svo má að orði komast. Með nokkrum einföldum aðgerðum má breyta hjólinu úr sporthjóli í ferðahjól með töskum og sæti fyrir tvo. Vindkúpan er þá einfaldlega stækkuð með því að smella framlengingu á hana. Hjólið er með einföldum afturgaffli og láréttum framgaffli, líkt og í Yamaha GTS 1000 hjólinu.



KTM með alvöru götuhjól næsta sumar

   KTM frumsýndi nýtt götuhjól á Intermot-mótorhjólasýningunni í Mílanó í síðustu viku. Hjólið kallast Duke 990 og fer í framleiðslu og kemur strax næsta sumar á markað. Vélin er sama LC8 vélin og úr Adventure 950 hjólinu en er tjúnuð upp í 122 hestöfl í götuhjólinu. Vélin er mjög létt, aðeins 58 kíló sem er um 20% minna en nokkur samkeppnisaðili getur boðið upp á að sögn talsmanna KTM-verksmiðjanna. Þar af leiðandi er hjólið sjálft líka létt og er þurrvigt þess aðeins 179 kíló. Króm-Moly grindin í hjólinu er til dæmis aðeins 9 kíló.

Nýtt GSX-R 750 hjól frá Suzuki 

   Suzuki kom mörgum á óvart á mótorhjólasýningunni í Mílanó með því að frumsýna nýtt GSX-R 750 sporthjól. Suzuki er því eini framleiðandinn til að halda áfram að framleiða 750 hjól eftir að hætt var að keppa í þeim flokki í Superbike-heimsmeistarakeppninni. Nýja hjólið, sem kemur á markað á næsta ári, ætti þó að freista margra því að það er aðeins 163 kíló og skilar 148 hestöflum sem er nóg til að keppa við Rl eða Fireblade 1000 hjólin.

27.SEPTEMBER 2003
DV BÍLAR 

24.9.03

Sem fugl á flugi

KÓPAVOGSKLERKUR: „Ég er ekki með hjóladellu af því það
 sé svo „kúl" að vera prestur á vélhjóli heldur af því
það er svo æðislegt að hjóla," segir sr Íris
segir séra Íris Kristjánsdóttir um mótorhjólaakstur 

Þótt íslendingar séu orðnir vanir því
að sjá konur í prestaskrúða er ekki
jafnalgengt að sjá kvenprest í mótorhjólaskrúða. En
sr. Íris Kristjánsdóttir,

klerkur í Hjallakirkju, á einn slíkan. 

Sr. íris er nýlega búin að taka mótorhjólapróf en á eftir að kaupa sérhjól. Fær bara eitt lánað til að láta mynda sig á en vill alls ekki vera með prestakraga á myndinni. „Mótorhjóladellan kemur mínum prestskap
ekkert við," segir hún, ákveðin.
Kveðst fyrst og fremst líta á mótorhjólaaksturinn sem tómstundagaman en telur þó ekki útilokað að hún hjóli í vinnuna á sumrin þegar hún hafi fjárfest í viðeigandi farartæki. „Ekki vegna þess að það sé eitthvað „kúl" að vera prestur á mótorhjóli heldur af því að það er svo æðislegt að hjóla," segir hún brosandi og heldur áfram. „Ég heyrði konu segja það í sjónvarpinu nýlega að þetta væri það næsta sem maður kæmist þeirri tilfinningu að vera fugl á flugi og mér finnst það mjög góð lýsing.
Maður er svo frjáls og frír og fær náttúruna beint í æð. Ég fæ mikið út úr því og mitt ráð til fólks sem langar að læra á hjól er: Látið drauminn rætast."


Létu vindinn leika um hárið

Sr. íris er fædd og uppalin í Keflavík, yngst þriggja systkina. Hún kveðst hafa kynnst mótorhjólum á
unglingsárunum þegar vinkona hennar fékk skellinöðrupróf. Þær stöllur hafi þá vasast svolítið á hjóli
og látið vindinn leika um sítt hárið.

Þá kviknaði aftur þessi unaðslega frelsistilfinning sem fylgir því að
vera á hjóli og ég lofaði sjálfri mér því að láta gamlan draum rætast
og taka mótorhjólapróf. 

Það var svo starfsbróðir hennar úr nágrannaprestakallinu í Digranesi sem smitaði hana að nýju. „Hann er með algera mótorhjólabakteríu," segir hún og upplýsir að eftir námsferð sem prestarnir í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra fóru til Danmerkur í fyrra hafi þrír leigt sér mótorhjól í Þýskalandi og hjólað svolítið um. „Þá kviknaði aftur þessi unaðslega frelsistilfinning sem fylgir því að vera á
hjóli og ég lofaði sjálfri mér því að láta gamlan draum rætast og taka mótorhjólapróf. Það efndi ég núna í sumar," segir hún brosandi.


Fékk yfir sig gusu

Þótt ekki sé skylda að æfa mótorhjólaakstur á malarvegum til undirbúnings prófs, að sögn írisar, þá var hún látin reyna sig við slíkar aðstæður. „Það gilda önnur lögmál á mölinni, til dæmis í sambandi við hemlun, fyrir utan það að á malarvegi geta menn átt á hættu að lenda f grjótkasti ef þeir mæta bíl," segir hún. Pollarnir geta líka verið varasamir,  bæði á bundnu slitlagi og óbundnu. Því fékk hún að kynnast í ökuprófinu því að þann dag var stórrigning og rok. „Það getur verið slæmt að lenda
í djúpum hjólförum, fullum af vatni, og því hélt ég mig úti í kantinum en stór trukkur keyrði samhliða mér og sendi yfir mig þvílíka gusu. Þetta er bara nokkuð sem maður þarf að venjast hér á landi," segir hún hetjulega.


Bara fyrir gangstera

Þegar prófið var í höfn var næsta skref hjá írisi að kaupa sér leðurgalla og hanska. Enn á hún eftir að fá sér hjálm og endurskoða skóeignina. „Maður þarf að vera í góðum uppháum skóm," segir hún. Þegar múnderingunni er líkt við prestsskrúða brosir hún af kristilegu umburðarlyndi og segir rólega: „Skrúði prestanna við athafnir er auðvitað með sérstökum hætti og ákveðnar reglur gilda í þeim
efnum en um mótorhjólaklæðnað gilda lika ákveðnar reglur vegna þess að hann er ekilsins eina vörn ef eitthvað kemur fyrir." Hún þegir um stund, segir svo: „Þetta var það sem fólkinu mínu datt
fyrst af öllu í hug þegar ég sagði því hvað ég væri að bralla, að það væri svo hættulegt að vera á mótorhjóli og svo fékk ég að heyra að mótorhjólaakstur væri bara fyrir gangstera. Fólk gerir sér ákveðna mynd af mótorhjólafólld, að það sé á bilinu 20-30  ára, algerir brjálæðingar sem spæna
um götur á ofsahraða. En það er bara misskilningur."


Má ekki lána

Íris viðurkennir að íslenska vegakerfið sé ekki sérlega vel hannað fyrir hjól auk þess sem napurri vindar næði vissulega hér en sunnar í álfunni. íslendingar séu líka frekar óvanir mótorhjólum á vegunum og eigi til að stressast sé hjól fyrir aftan þá. „Þetta er ólíkt því sem gerist víða erlendis. Hér á landi eru engar hjólaleigur eins og þar tíðkast og reglurnar hér eru þannig að þótt maður sé
með próf má maður ekki fá lánað hjól hjá öðrum. Ég verð að eiga mitt hjól og má ekki lána það. Eftír því sem ég best veit tengist þetta tryggingamálum. Ég veit ekki hversu strangt löggan tekur á brotum á þessum reglum en ef eitthvað kemur fyrir er maður í vondum málum. Ég vil þó taka fram að ég hef hugsað mér að vera afar löghlýðin í þessum efhum og hefja ekki mótorhjólaferilinn fyrr en ég hef sjálf eignast tryllitækið!"


Mikill kostnaður

Úr því að minnst er á tryggingar kemur kostnaður af hjólaútgerð til tals og Íris segir nauðsynlegt að gera fjárhagsáætlun strax í byrjun því að allt hangi þetta saman. „Það er ekki nóg að borga prófið og hjólið því að klæðnaðurinn getur kostað um 150 þúsund," segir hún. Næsta mál hjá henni er að huga að hjólakaupunum. Hún gerir ekki mikið með þá bráðsnjöllu tillögu blaðamanns að afla fjár til kaupanna með því að ganga um með söfnunarbauk í kirkjunni. Kveðst annaðhvort ætla að athuga
markaðinn í haust, þegar notuð og ný hjól séu hvað ódýrust, eða bíða með það til næsta sumars og fara þá til Þýskalands, kaupa hjól og keyra um í Evrópu.


Er sporttýpa

Sr. Íris lýsir tvenns konar hjólatýpum fyrir fáfróðri blaðakonunni, Racer og Chopper. „Racer-hjól eru
hraðaksturshjól og komast mjög hratt. Íslenska vegakerfið býður ekki upp á að slík hjól séu nýtt tíl hins ýtrasta. Þess vegna eru Chopper-hjól algengari hér, nokkurs konar Harley Davidson týpur, sem eru ekki eru ætluð fyrir mikinn hraðakstur þrátt fyrir að vera mjög kraftmikil. Á þeim situr maður sperrtur með fætur fram á við og nýtur útsýnisins. Racer hjólin eru mun hærri og menn halla sér
fram á þeim þegar miklum hraða er náð." Sjálf kveðst hún vera dálítil „Racer-týpa" en á endanum fái hún sér sennilega bara afslappað tæki.  „Ég er ekkert að fara að brjóta reglur hér í umferðinni og ganga fram af fólki heldur fyrst og fremst að njóta þess að vera á hjóli og ferðast á því um landið að sumri til. Það er allt öðruvísi að keyra mótorhjól en bíl þótt nákvæmlega sömu reglur gildi í umferðinni. Maður er ekki lokaður inni í járnkassa heldur útí í guðsgrænni náttúrunni - það er góð tilfinning!"
 gun@dv.is
Dagblaðið Vísir
24.SEPTEMBER 2003

20.9.03

Stærsta mótorhjól landsins afhent 2003


Stærsta mótorhjól landsins afhent


Honda-umboðið Bernhard hf. í Vatnagörðum afhenti í síðustu viku eitt stærsta og best búna mótorhjól landsins. Hjólið er af gerðinni Goldwing, árgerð 2003, og er með sex strokka, 1,8 lítra vél, þeirri stærstu í fjöldaframleiddu hjóli í dag.
Eigandinn heitir Kristinn Georgsson og býr hann á Siglufirði. Þess má til gamans geta að það eru einungis tvö slík hjól á íslandi og eru þau bæði á Siglufirði. Hitt hjólið var selt þangað árið 2001 og eigandi þess heitir Steinn Elmar Arnason. Eru þeir báðir í vélhjólaklúbbnum Smaladrengir og aka meðlimir þess klubbs flestir á Honda-hjólum og innan þeirra raða er til dæmis Honda Valkyrja og fleiri Goldwing-hjól. Hjólið er vel búið, með hljóðtækjum og samskiptabúnaði milli ökumanns og farþega, fjarstýrðum samlæsingum á töskum og margt fleira. Að sögn Hlyns Pálmasonar, sölumanns hjá Bernhard hf., kostar hjól eins og þetta 2.990.000 kr.

NG
DV bílar
20.09.2003


17.9.03

Á Matchless árgerð 1946 yfir hálendið (2003)

Þeir eru margs konar farkostirnir sem ferðast er á yfir hálendi Íslands.
Einn sá óvenjulegasti sást uppi á Kili í sumar.Auðunn Arnórsson ræddi við eiganda 73* ára mótorhjóls. (ártal uppært til 2019)*

EINN góðan laugardag í ágúst síðastliðnum, reyndar svolítið blautan,ráku vegfarendur um Kjöl upp stór augu, því það sem fyrir augu þeirra bar var óvenjuleg sjón: Farkostur eins ferðalangsins var 57 ára gamalt mótorhjól, nánar tiltekið Matchless G 80, árgerð 1946. Ökumaðurinn,

12.9.03

Íslandsmótið í þolakstri:

Lokakeppnin við Kolviðarhól

AKSTURSÍÞRÓTTIR Lokakeppnin í þolakstri (Enduro) fer fram á laugardag. Keppt verður á um 10
kílómetra langri braut á og við gömlu túnin í landi Kolviðarhóls. Í Meistaradeild Íslandsmótsins
verður keppt í tveimur umferðum sem hvor um sig stendur yfir í 90 mínútur. Keppendur fá klukkustundar hlé milli umferða en fyrri umferðin hefst um klukkan 10 en sú seinni um klukkan 14.30.
Keppni í Baldursdeild, móti þeirra  sem vilja keppa sér til ánægju, hefst laust fyrir klukkan 13.
Einar Sigurðarson hefur forystu í Meistaradeildinni með 370 stig en Viggó Viggósson hefur 327 stig. Einar og Viggó eru þeir einu sem hafa orðið Íslandsmeistarar í þolakstri síðan keppni um þann titil hófst árið 1998.
Í keppni liða er KTM Racing team efst, Honda Neonsmiðjan er í öðru sæti og Keppnislið JHM Sport í því þriðja. ■

10.9.03

Ágrip af sögu JAWA-mótorhjólsins tékkneska


Jawa CZ 356, 175 cc, árgerð 1957. Dæmigert Jawa
-mótorhjól frá 6. áratug síðustu aldar.

JAWA? Hvað er nú það?


Ólafur Th. Ólafsson, framhaldsskólakennari á Selfossi, hefur kynnt sér sögu JAWA-mótorhjólanna tékknesku og á sjálfur tvo slíka gripi. Ólafur fjallar hér um sögu JAWA.


Árið 1929 hóf Tékkinn Frantisek Janecek að smíða mótorhjól. Fyrstu hjólin voru með eins cylindra, 500 cm³ fjórgengis mótor með toppventlum. Janecek hafði samvinnu við þýsku mótorhjólaverksmiðjurnar Wanderer og kom fyrrnefndur mótor frá þeirri verksmiðju. Þar var líka komið nafnið á framleiðsluna; JA, fyrstu tveir stafirnir í nafni Janeceks og WA, fyrstu tveir stafirnir í nafni Wanderer verksmiðjunnar - JAWA! Næstu árin var þetta hjól framleitt og einnig hjól með 750 cm³ mótor, ætlað fyrir hliðarvagna.


Fljótlega upp úr 1930 hóf Janecek að gera tilraunir með hjól með eins cylindra tvígengismótor. Hann hóf samstarf við Bretann G.W. Patchett, frægan mótorhjólahönnuð og mótorcrosskappa, sem kom til Tékkóslóvakíu með 175 cm³ tvígengismótor. Frantisek Janecek hóf að framleiða hjól með þessum mótor og urðu þau fljótlega langvinsælustu hjólin í Tékkóslóvakíu. Um þetta leyti hætti líka JAWA-verksmiðjan að framleiða stóru hjólin; 500 og 750 cm³. Framleiddi þó í nokkur ár á eftir hjól með 350 cm³ tvígengisvél og síðan fjórgengisvél.


Einnig framleiddi verksmiðjan létt hjól, JAWA Robot, með 98 cm³ eins cylinders tvígengismótor. Á þessu hjóli voru mótorblokkin og gírkassinn sambyggð, en það var algjör nýlunda á þessum tíma, en er alþekkt núna. Hámarkshraði þessa hjóls var 65 km/klst og það vó ekki nema 49 kíló.


JAWA Pérák

Öll mótorhjól frá JAWA-verksmiðjunni voru á þessum tíma með sama litnum; kirsuberjarauð og var liturinn oft bara kallaður Jawarautt.

Framleiðsla JAWA stöðvaðist í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar. Þjóðverjar höfðu nýverið ráðist inn í Tékkóslóvakíu og verksmiðjan var látin framleiða flugvélamótora og ýmis farartæki fyrir þýska herinn. Nýjustu JAWA-frumgerðunum hafði verið komið undan rétt áður en nasistarnir komu og allt til ársins 1944 voru gerðar í skúmaskotum, (m.a. í hlöðum út til sveita), tilraunir með ný hjól og aðallega það hjól sem strax eftir stríðið varð einhver þekktasta framleiðsla verksmiðjunnar: JAWA Pérák, hjól með eins cylinders 250 cm³ tvígengismótor, stimpilþvermál 65 mm, slaglengd 75 mm. Mótorinn og gírkassinn, fjögurra gíra voru í einni blokk. Nýlunda þótti sjálfvirk kúpling. Handkúplingin var aðeins notuð þegar ekið var af stað; ekki þurfti að kúpla þegar skipt var milli gíra. Útbúnaður þessi hefur verið á JAWA-mótorhjólunum allt til þessa dags.

Árið 1948 hófst líka framleiðsla á hjólum sem voru með sömu grind og Pérák-hjólin, en með tveggja cylindra vél. Sá mótor hefur sífellt verið endurbættur og á undirritaður einmitt hjól með nýjustu gerð hans.

Nauðsynlegt var á þessum stríðstímum að geta prufukeyrt mótorana. Hjólin voru máluð í stríðslitum og límd á þau þýsk DKW- eða BMW-merki. Ótrúlegt var hvað Tékkunum tókst að halda þessum tilraunum leyndum. Þó náðu nasistarnir einum aðalmanni JAWA og skutu hann að loknum árangurslausum yfirheyrslum. Að stríðinu loknu var fátt um ný mótorhjól í Evrópu og strax árið 1946 komu fyrstu JAWA 250 Pérák-hjólin á markaðinn og urðu strax mjög vinsæl.

Um 1948 voru JAWA-verksmiðjurnar - eins og nærri má geta þjóðnýttar - og JAWA-mótorhjól urðu ein af mikilvægustu útflutningsvörum Tékkóslóvakíu. Þáverandi ráðamenn þjóðarinnar höfðu vit á að hrófla ekki við verksmiðjunum. Einnig voru gerðar tilraunir með fjórgengismótora og framleitt 500 cm³ hjól frá 1952 til 1958. Svo voru líka á markaðinum 125 og 175 cm³ hjól. Til að fara fljótt yfir sögu er rétt að benda á heimasíðuna www.jawamania.cz , en þar má sjá mjög gott yfirlit yfir framleiðslu JAWA mótorhjólanna allt til þessa dags. Árum saman framleiddu JAWA-verksmiðjurnar líka hjól með nafninu CZ. Á meðal þeirra voru víðfræg Enduro-hjól og krossarar og margir sigrar unnir á þeim tækjum.

Við þær breytingar sem urðu þegar austurblokkin hrundi skapaðist talsverð óvissa varðandi JAWA-verksmiðjurnar - JAWA Moto. Samkvæmt einum ágætum JAWA-manni breskum, var ekki vitað á tímabili, hver ætti verksmiðjurnar! Þær eru - eins og lengst af hefur verið - í borginni Tynec nad Sásavou, 35 km fyrir sunnan Prag. Verksmiðjan framleiðir í dag margar gerðir mótorhjóla, léttra hjóla og skellinaðra. Má þar nefna fimm gerðir af hjólum með 350 cm³ vél, tvær 50 cm³, önnur þeirra fjórgengis, eina 100 cm³ fjórgengis og tvær gerðir með 125 cm³ einnig fjórgengis. Nýjasta framleiðslan er hjól með 650 cm³ fjórgengis Rotax Bombardier-mótor. Verksmiðjan, JAWA Moto í Tynec nad Sásavou er um þessar mundir að fullkomna heimasíðu sína og bíður JAWA áhugafólk spennt eftir henni.

JAWA-umboð á Íslandi


Samkeppnin við japönsku hjólin hefur verið hörð, en forráðamenn JAWA Moto eru bjartsýnir og tékkneskur iðnaður var alla tíð víðfrægur - þegar hann fékk að blómsra í eðlilegu umhverfi. Má í því sambandi minna á uppgang Skoda-bílanna, sem ekki er síður að þakka tékkneskum tæknimönnum en Volkswagen. Sagt er að starfsmaður hjá Skoda hafi sagt, þegar Volkswagen tok við rekstrinum: "Loksins fengum við almennilegt efni til að vinna úr." Eru ekki einmitt tékkneskar Skoda-túrbínur í einhverjum raforkuverum hér á landi? Þess má geta að í Tékklandi er líka önnur JAWA verksmiðja - JAWA Divisov. Sú framleiðir eingöngu speed-hjól.


Í öllum Evrópulöndum, Bandaríkjunum og mörgum S-Ameríkulöndum (undirritaður fékk netpóst frá einum JAWA-manni í Brasilíu um daginn!) eru JAWA-klúbbar. Ef til vill er full ástæða til að stofna klúbb hér á landi. Fræðast má um allt þetta nánar með því einfaldlega að slá inn á leitarvef orðin JAWAmotorcycles. Síðast þegar ég prófaði þetta, komu upp 4.980 staðir til að skoða.


Nýlega varð til umboð fyrir JAWA á Íslandi. Umboðsmaður er Jens R Kane, Grenibyggð 23, 270 Mosfellsbæ. Þjónustuverkstæði er SPINDILL á Ártúnshöfða. 
Umboðsmaður fékk nýlega til landsins tvö kynningarhjól; Endurohjól 350 cm³ og skellinöðru 50 cm³. Glæsilegir gripir! Þau eru til sýnis hjá Bílamiðstöðinni á Ártúnshöfða. Ég undirritaður á tvö JAWA-hjól. Annars vegar er það JAWA 250 Pérák, 1948 módel, (JAWA-rautt !), og hins vegar JAWA 350 Chopper, 2001 módel. 
Tékkar framleiða víðfræga hliðarvagna fyrir mótorhjól; VELOREX. Freistandi er að fá sér einn slíkan við Chopperinn! Ég setti í gamla hjólið elektróníska kveikju, en hana fékk ég frá fyrirtæki í Berlín, MZ-BVertriebs GmbH - www.mz-b.de , en það sérhæfir sig í varahlutum í mótorhjól, sérstaklega í rafkerfið. Þar fást ótrúlegustu hlutir!


Undirritaður er félagi í JAWA & CZ Owners Club of Great Britain and Eire og hefur oft sótt þangað góð ráð. Klúbbur sá heldur í júní á næsta ári upp á 50 ára afmælið. Læt ég nú þessari lauslegu samantekt lokið að sinni, en þeim, sem áhuga hafa á að kynna sér málið betur, er velkomið að hafa samband við undirritaðan á netfangið
oligyda@simnet.is.

Morgunblaðið
10. september 2003 

1.9.03

Á íslenskri krá í Flórída

Björn Viggósson og Hallveig Björnsdóttir

 Harley Davidson

Það var nú hrein tilviljun að við fórum í þessa ferð,“ segir Björn Viggósson, framkvæmdastjóri Kerfisþróunar, þegar hann er spurður um mótorhjólaferð sem hann og eiginkona hans, Hallveig Björnsdóttir, fóru í fyrir skömmu. „Ég var í bílnum að hlusta á útvarpið þegar ég heyrði auglýstan kynningarfund í Harley Davidson búðinni varðandi Harley Davdison mótorhjólaferð til Bandaríkjanna. Ég fór á fundinn og skráði okkur í ferðina sem SBK í Keflavík skipulagði." Tilefni ferðarinnar var 100 ára afmæli Harley Davidson og áætluð heimsókn á Bikefest í Daytona Beach, en þar er tvisvar á ári haldin hátíð mótorhjólafólks. „Í þetta sinn voru þarna um 100.000 mótorhjól og 300.000 manns samankomin og allskonar hjól þó mest bæri á Harley Davidson,“ segir Björn. „Ég á sjálfur Hondu Shadow sem er álíka stórt og Harley Davidson hjólin en við leigðum okkur öll HD hjól þarna úti.“

Hópurinn tilbúinn til brottfarar.           /Myndir: Björn Viggósson

Furðuhjól


 Björn segir mörg furðuhjólin hafa verið á svæðinu og gaman að sjá þau. „Þarna var farið í eins konar skrúðgöngu eða hjólagöngu og haldin mikil hátið en Flórída er mjög sérstakt hvað það varðar að þar er mótorhjólamekka heimsins ef hægt er að orða það svo. Þarna gilda ákveðnar umgengnisreglur og til að mynda var yfirleitt alveg óhætt að skilja við dótið sitt hvar sem maður var í ferðinni, það var látið í friði. Hjólin og það sem að þeim sneri var umræðuefnið og greinilegt að þarna voru menn og konur í sérstökum heimi, hjólaheimi.“ Hópurinn íslenski skemmti sér hið besta og í hringferð sem farin var, urðu þau fyrir óvæntri upplifun þegar þau hittu fyrir íslenska krá. „Við fórum hringferð á hjólunum um Flórídaskagann og á leiðinni frá Daytona til Orlando stoppuðum við í litlu þorpi, einhvers staðar „in the middle of nowhere“ eins og kanarnir segja og þar sáum við skilti sem á stóð: „The Frosty Mug, Icelandic pub“ svona eins og maður sér oft skilti þar sem ferskar krár eru kynntar. Þetta reyndist vera krá rekin af tveim íslenskum systrum. Kráin hafði reyndar valdið svolitlu uppnámi þegar hún varstofnuð, enda hafði það ekki tíðkast þarna að vera með slíkt. Nú er hún aðal aðdráttaraflið í bænum og nágrenni. í þessari hringferð fórum við meðal annars yfir Everglades fenjasvæðin en það er gríðarlega sérstakt. Þarna er grunnt vatn yfir allan miðskagann og við fórum á svifnökkvum í skoðunarferðir og gátum klappað krókódílum - svona ef einhver hefði áhuga.“

Með sælubros á vör 


Björn segir ferðina hafa verið einstaklega vel heppnaða og telur víst að slikar ferðir verði farnar áfram, líkt og golfferðir og skíðaferðir. Fararstjórar voru þeir Hafsteinn Emilsson hjólaáhugamaður og hvatamaður að ferðinni og Einar Steinþórsson frá SBK ferðaskrifstofunni í Keflavík. „Það eru margir með þetta áhugamál og ekki vafamál að þeir munu grípa fegins hendi að fara í heimsókn til Mekka Harley Davidson,“ segir Björn að lokum.
Frjáls Verslun 

1.9.2003