9.4.15

Á döfinniHér að neðan er að finna upplýsingar um fundi og viðburði Tíunnar vor og sumar 2015.
ATH! þessar upplýsingar eru settar fram með fyrirvara um breytingar, fylgist því vel með1. maí kl. 13: Hópakstur um Akureyri. Mæting á Ráðhústorgi kl. 12.30

6. maí kl. 20: Almennur félagsfundur

16. maí kl. 9-13: Skoðunardagur Tíunnar og Frumherja á Akureyri

16. maí kl. 17.30: Aðalfundur Tíunnar á Mótorhjólasafni Íslands
ATH! aðeins þeir sem hafa greitt félagsgjöld Tíunnar 2015 geta greitt atkvæði og tekið þátt í fundinum sem og starfi Tíunnar. Að venju verður hægt að greiða félagsgjöldin á staðnum, tökum ekki kort - cash only

16. - 19. júlí: Hjóladagar 2015Eftir aðalfund tekur við sumardagskrá Tíunnar og þá verða almennir félagsfundir haldnir vikulega, á miðvikudagskvöldum kl. 19.30 á Mótorhjólasafni Íslands nema annað verði auglýst sérstaklega. Fyrsti almenni félagsfundur sumarsins verður því haldinn 20. maí að öllu óbreyttu.Stjórn Tíunnar vill svo benda félagsmönnum/konum sínum á að fylgjast einnig með á facebooksíðu klúbbsins https://www.facebook.com/tianbifhjolaklubbur 

31.3.15

Ökuþórinn |Spessi ljósmyndari


Orðinn fyrirsæta fyrir BMW-mótorhjól

  Risastórt auglýsingaspjald með mynd af Spessa prýddi bás BMW á MC-messunni í Noregi í vetur. Það verður ekki mikið stærra en þetta. Hjólið sem Spessi á í dag flutti hann inn frá Bandaríkjunum þar sem það var smíðað.

Sigurþór Hallbjörnsson, betur þekktur sem Spessi ljósmyndari, er mótorhjólamaður af lífi og sál. Hann er þekktur fyrir að aka um á Harley-Davidson-mótorhjólum og er mikill áhugamaður um þær gerðir mótorhjóla.
Sigurþór Hallbjörnsson, betur þekktur sem Spessi ljósmyndari, er mótorhjólamaður af lífi og sál. Hann er þekktur fyrir að aka um á Harley-Davidson-mótorhjólum og er mikill áhugamaður um þær gerðir mótorhjóla. Það vakti því athygli þegar hann fór að birtast víða sem fyrirsæta fyrir BMW-mótorhjól í vetur, bæði í netheimum og á sýningum erlendis. Blaðamanni bílablaðsins lék forvitni á að vita hvernig þetta verkefni kom til og kíkti því í stúdíóið hans Spessa og settist niður með honum ásamt einum kaffibolla.
„Það var haft samband við mig þegar ég var á leiðinni í gönguferð á Strandir og var að fara yfir Djúpið þegar hringt var í mig,“ sagði Spessi og glotti. „Það var sagt að ég þyrfti að koma í prufu eftir tvo daga. Ég sagðist ekki geta það en sendi henni tengil á trailerinn á mótorhjólamyndinni sem ég er að gera. Svo hverf ég bara í sex daga en þegar ég kem aftur er málið bara þannig að þeir vilja endilega fá mig. Þegar ég kem í bæinn fer ég beint niður á Loftleiðir þar sem BMW-fólkið var búið að koma sér fyrir. Ég mætti þarna á Harley-Davidson-hjólinu mínu og vakti sú innkoma talsverða athygli þar sem þau sátu öll í kaffi þegar ég kom. Þeir voru þarna mættir með tvo flutningabíla, annan með mótorhjólum og hinn með göllum og þá sá ég að það var alvara í þessu verkefni.“

Spessi við fyrsta stóra hjólið sitt
 Kawasaki Z650 1980 módel
Harley-vinirnir ekki hrifnir fyrst

Spessi er um þessar mundir að vinna að heimildarmynd um rótgróna Harley-Davidson-töffara í Bandaríkjunum og þessir vinir hans þar voru nú ekkert hrifnir af þessu fyrst þegar þeir fréttu þetta. „Þegar ég sagði þeim að ég fengi borgað fyrir þetta kom nú annað hljóð í strokkinn. Konseptið var það að sagan átti að vera raunveruleg og þess vegna þurfti fyrirsætan að vera bæði ljósmyndari og mótorhjólamaður. Þeir voru um leið að kynna nýja R1200 GS-hjólið með Boxer-mótornum. Eins og mér fannst þessi Boxer-mótor hrikalega ljótur í gamla daga þegar Skúli Gautason mætti á BMW-hjólinu sínu, þá gæti ég alveg hugsað mér að eiga svona hjól í dag. Það er nefnilega einhver karakter við þessi hjól í dag og þá sérstaklega gömlu hjólin. Nýi NineT-kaffireiserinn þeirra er líka ferlega flottur að mínu mati.“

Byrjaði að hjóla kringum 1970

Hjólið sem Spessi keyrir í dag er eiginlega ekki Harley-mótorhjól, því að mótorinn er frá S&S; þótt hann sé upphaflega Harley-Davidson-mótor. Grindin og annað er sérsmíðað eftir náunga sem heitir Paul Stewart og átti fyrst að vera í Bobber-stíl. Sá náungi varð sjötti í heimsmeistarakeppni mótorhjólasmiða 2006. „Ég átti fyrst skellinöðru þegar ég var 14 ára, í kringum 1970,“ sagði Spessi þegar við spurðum hann út í hvenær hann byrjaði mótorhjólaferilinn. „Síðan tók lífið við með sínum refilstigum, en þegar ég kom til baka úr því kom áhuginn á því að fá sér mótorhjól aftur. Þá fékk ég mér Kawasaki Z650 1981 módel sem ég var á í nokkur ár. Ég hafði alltaf áhuga á að fá mér Harley og álpaðist inná bíómynd í London árið 1980 sem hét Easy Rider. Það var bara opinberum fyrir mér að sjá þessi hjól þar. Það var samt eins og fjarlægur draumur að maður gæti fengið sér þannig hjól. Ég fékk mér svo Virago-mótorhjól sem minnti á Harley í útliti en það seldi ég svo þegar ég fór í nám, en draumurinn var alltaf til staðar. Löngu seinna var ég að gera auglýsingu fyrir SS-pylsur uppi í Litlu-Kaffistofu. Þá fór ég á stúfana að finna fólk í það og byrjaði leitina í umboðinu. Það endaði svo með því að ég fór aftur í umboðið og keypti mér loksins Harley-mótorhjól sem ég hef verið á síðan,“ sagði Spessi að lokum.
njall@mbl.is
Njáll Gunnlaugsson

17.3.15

Götur borgarinnar hættulegar fyrir mótorhjólamenn: „Menn þurfa að hífa sig upp af rassgatinu“


„Menn þurfa að hífa sig upp af rassgatinu“


„Þetta er beinlínis lífshættulegt fyrir okkur, þó þetta sé vissulega slæmt fyrir þá sem aka um á bifreiðum,“ segir Njáll Gunnlaugsson, vélhjólakennari, sem var gestur í þættinum Í bítið á Bylgjunni þar sem hann ræddi um akstursskilyrði vélhjólamanna í borginni.

Götur borgarinnar eru margar hverjar illa farnar eftir veðurfarið á landinu undanfarna mánuði.

Tvöfalda þarf það fjármagn sem árlega er veitt í viðhald gatna á höfuðborgarsvæðinu. Ástand vega í Reykjavík hefur sjaldan verið eins slæmt og því ljóst að það mun taka langan tíma að bæta úr ástandinu.

Sjá einnig: Slæmt ástand vega í Reykjavík: Tvöfalt fjármagn þurfi svo ástandið verði ásættanlegt
„Þessar holur eru bara allstaðar núna, ekki bara á umferðaþungum götum. Sem betur fer eru frekar fá mótorhjól komin út á göturnar núna. Ég þekki einn sem hefur hjólað allan veturinn. Það er ákveðið vandamál hversu litlum peningum er eytt í þetta blessaða gatnakerfi. Menn þurfa að hífa sig upp af rassgatinu og fara sinna þessum hlutum.“

Sjá einnig: Göturnar grotna niður
Njáll segir það vera næsta skref að kenna nemendum sínum að sveigja í kringum holur í staðinn fyrir keilur.
Stefán Árni Pálsson 
17. mars 2015

10.3.15

Góugleði aflýst

Vegna dræmrar þátttöku er búið að aflýsa Góugleðinni sem átti að vera laugardaginn 14. mars nk.

27.2.15

Góugleði

Jæja gott fólk

Góugleði verður haldin 14. mars næstkomandi í Lóni v. Hrísalund. Húsið opnar kl 21 og kostar litlar 2.500 kr inn (skemmtun og ball), tökum EKKI kort en "beinharðir" seðlar vel þegnir.

Þema kvöldsins er "hattar og höfuðskraut" og er jafnvel mögulegt að frumlegasta höfuðskrautið fái verðlaun
smile emoticon


Skráning er hafin á tian@tian.is, hlökkum til að sjá ykkur
smile emoticon

15.2.15

Á fjögur hundruð mótorhjól á Stokkseyri

Hjálmar Sigurðsson Safnari

Hjálmar Sigurðsson á Stokkseyri á sér sérstakt áhugamál því hann safnar mótorhjólum, þó ekki alvöru hjólum því þetta eru allt leikfangamótorhjól.


Hjálmar og kona hans búa í Eyjaseli 6 á Stokkseyri þar sem mótorhjólasafnið er í einu herberginu. Þetta eru rúmlega fjögurhundruð hjól á ýmsum gerðum, sem Hjálmar hefur safnað síðustu fimm árin.

„Þetta er bara mitt áhugamál, ég safna bara öllum hjólum,“ segir Hjálmar. Hann á mikið af Harley Dawson, hjólum, nokkur lögreglumótorhjól og meira að segja Spidermann mótorhjól.

Þrátt fyrir að hann sé komin yfir fimmtugt þá lætur hann það ekki stoppa sig enda gefur söfnunin honum mikið.

„Það er bara gaman af þessu, þetta er það sem ég hrærist og lifi í, ég er mótorhjólamaður og verð það alveg þar til að ég dey. Það er eins og þeir segja Bretarnir, þegar ég hætti að geta hjólað á tvíhjólinu þá set ég þriðja hjólið undir, ég get þá bara hjólað lengur.“ Hjálmar er með mótorhjólaskegg. „Já, já, það fylgir þessu, það er nú bara þannig, maður lifir bara í þessu og ég er bara eins og ég er,“ segir Hjálmar.

Hann segist ætla að halda áfram að safna mótorhjólum og þiggur fleiri ef einhver á. „Já, já, ég þigg alveg í safnið hérna, ef fólk á þau niður í geymslu eða einhversstaðar annarsstaðar, þá þigg ég hjólin, ég get alveg borgað pínulítinn pening fyrir þess vegna,“ segir hann.
Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar  15. febrúar 2015
visir.is

27.1.15

Netfangalisti og Góugleði

Jæja gott fólk, okkur vantar upplýsingar um e-mail hjá þó nokkrum félagsmönnum okkar. Í þessari viku verður því sendur út prufu-póstur til þeirra sem eru á póstlistanum okkar, þeir félagsmenn/konur sem hafa ekki fengið póst frá Tíunni 1.febrúar næstkomandi en vilja fá póst í framtíðinni, eru vinsamlega beðnir um að senda upplýsingar á tian@tian.is.

Svo verður Góugleði haldin 14. mars 2015 ef næg þátttaka fæst - nánari upplýsingar um það koma síðar en endilega takið daginn frá :)