15.9.11

Létt mótorhjól í smalamennsku


  Í Bændablaðinu þann 18. ágúst sl. var auglýst mótorhjól sem „nýjung í smalamennsku“. Létt klifurhjól, tætir ekki upp gróður, umhverfisvænt. Með þessari auglýsingu opnaðist heit umræða um smalamennsku á vélknúnum tækjum og utanvegaakstur.Flest mótorhjól eiga ekkert erindi í smalamennsku

Ég er á þeirri skoðun að motocrossmótorhjól eigi ekkert erindi í smalamennsku þar sem gróður er. Þau eru sérsmíðuð keppnistæki til aksturs á motocross-brautum, en öðru gegnir með svo kölluð enduro-hjól, sem eru aðeins mýkri, en samt í flestum tilfellum óhentug til smalamennsku. Það er því vissulega fagnaðarefni ef þessi klifurhjól geta verið notendavæn í smölun og alltaf ber að fagna
nýjungum. Af hverju mættu bændur ekki nýta sér nýjustu tækni eins og aðrir? Mér fannst ég knúinn til að kanna málið. Ég hafði samband við umboðið og bað Kristján eiganda þess að lána mér hjólið til prufuaksturs við smalamennsku. Hann varð við bón minni og lánaði mér hjólið, fór ég með það í
Húnavatnssýsluna á kerru og smalaði í tvo daga

Sætislaus Sherco
Mótorhjólið heitir Sherco, er með 272cc tvígengismótor og kemur með götuskráningu, þannig að það
má keyra í almennri umferð. Fyrri daginn fór ég á því keyrandi (standandi alla leiðina) 20 km fram
á Grímstunguheiði í Öldumóðuskála þar sem bændur voru að leggja upp í smalamennsku. Ég kynnti mig fyrir gangnaforingjanum og spurði hvort hann hefði einhver not fyrir mig. Hann svaraði: Það fer einn á sexhjóli niður slóðann hjá Refkelsvatni, fylgdu honum og hann segir þér hvað þú átt að gera. Ég fór vegslóðann á eftir sexhjólinu, rétt eins og hundur sem fylgir húsbónda sínum. Ég reyndi að gera eins og mér var sagt, en mér var ætlað að smala blautasta svæðið á leiðinni niður heiðina á milli tveggja vatna þar sem illfært er gangandi, ríðandi eða á sexhjóli.

Markaði ekki í jarðveginn
Sennilega kom það mér mest á óvart hvað hjólið hafði lítið fyrir þessu og rann þarna ofan á jarðveginum án þess að marka neitt í jörðina, nema hvað grasið lagðist á hliðina rétt á meðan ekið var yfir það, ekki eitt spól og engin drulla. Þegar ég var kominn yfir labbaði ég til baka til að færa sönnur á þetta með mynd. Í þeim göngutúr held ég að hafi markað meira eftir mig og mína hörðu skó en klifurhjólið á fínmunstruðum, mjúkum dekkjunum.

Erfitt að geta ekki setið
Eftir um 70 km akstur fyrri daginn hafði ég eytt rétt innan við fimm lítrum af bensíni. Seinni daginn
smalaði ég fjallshlíð hjá bónda sem ég þekki í Vatnsdalnum og hlíðin er brött, enda heitir fjallið Brattafjall. Hjólið skilaði mér upp og niður hlíðina með lítilli fyrirhöfn, á aðeins einum stað sá ég u.þ.b. meters kafla þar sem ég hafði beygt harkalega og rifið upp mosa, en stærstu mistökin hjá mér í þessum prufuakstri voru að ég æfði mig ekkert á hjólinu fyrir þessa smalamennsku og vitandi það
að geta ekki sest niður á hjólinu var ég ekki í neinu líkamlegu formi til að gera það sem ég gerði þessa helgi á Sherco-klifurhjólinu. Sherco-hjólið gat einfaldlega gert miklu meira heldur en ég gat.

Sporar minna en hross
Tvímælalaust mæli ég með þessu hjóli til smalamennsku og er það mitt mat að hjólið skemmi minna en maður með þrjá hesta. Sama hver fer um landið, það verða alltaf eftir spor og er þá ekki eðlilegt að nota þann fararmáta sem sporar minnst út?
Lokaorð mitt er að auglýsingin stenst;  þetta er umhverfisvænasta hjól sem ég hef keyrt. Mér tókst með mikilli lagni að tæta upp einn meter af mosa með því að gera það á ferð í beygju, hjólið er svo létt að það markar varla í jörð. Sherco-hjólið sem ég prófaði kostar 1.100.000 krónur en nánari
upplýsingar um hjólið má finna á vefsíðunni www.mxsport.is.


Kostir:
Létt (69 kg), kraftmikið, lágvært, götuskráning, mjúk dekk, gott í gang, eyðir litlu (í vinnu einum lítra á klukkutíma), hátt undir lægsta punkt, æðislegt leiktæki (finnst mér allavega).

Ókostir:
Tel að flestir byrjendur vildu hafa sæti (tiltölulega lítið mál að útbúa festingu fyrir reiðhjólahnakk á hjólið en þetta hjól sem ég prófaði er meira keppnistæki í klifuríþróttum, en til eru svipuð hjól með sætum), það þarf að æfa sig á hjólinu fyrir smalamennsku (ég er að drepast úr strengjum), mæli ekki
með hjólinu fyrir þyngri menn en 90 kg (persónulegt mat).


Bændablaðið 
 15. september 2011

23.8.11

Haustógleði 2011

Jæja gott fólk, þá er komið að því.
 Haustógleði Tíunnar verður haldin laugardaginn 8. október.

 Nú í lok hjólavertíðarinnar er tilvalið að hittast, borða og hafa gaman saman. Í ár verður Haustógleðin haldin í Vélsmiðjunni og opnar húsið kl 19:00 og hefst borðhaldið um kl 20.

Verð á Ógleðina er 2500kr fyrir greidda félagsmenn en 3500kr fyrir aðra gesti.
 Söng- og dansolíu verður hver að koma með fyrir sig.
 Eftir matinn verða síðan ýmsar uppákomur og lifandi tónlist þar sem allir ættu að geta dansað af sér ra***atið. Og nú er spurt: hvernig fer ég að því að skrá mig á þessa frábæru skemmtun?

 Svarið er einfalt: Þú sendir tölvupóst á tian@tian.is og málið er dautt. Síðasti dagur til að skrá sig er fimmtudagurinn 6. október.

 Með haustkveðju, Óli Pálmi #208

15.7.11

Hér er allt gert af ástríðuMargir glæstir mótorfákar eru á götum Akureyrar um þessa helgi því þar standa yfir Hjóladagar 2011.

Jóhann Freyr Jónsson tekur þátt í þeim, bæði sem einstaklingur og safnstjóri Mótorhjólasafns Íslands.


Spyrnt verður á sporthjólum, hippum, fornhjólum, krossurum og vespum á Akureyri síðdegis í dag að afloknum hópakstri í Samgönguminjasafnið að Ystafelli. Hvort tveggja er á dagskrá  Hjóladaga 2011 sem lýkur með veislu og dansleik í Sjallanum á morgun með Sniglabandinu og Myrká.

Mótorhjólaklúbburinn Tían heldur utan um Hjóladagana. Tían er líka hollvinafélag  Mótorhjólasafns Íslands sem var opnað á Akureyri í byrjun sumars og á mörg fágæt hjól og fjölda mynda. „Hér eru hjól sem erfitt er að finna í dag og eru í raun einstök,“ segir safnvörðurinn Jóhann Freyr og bendir á eitt sem innan við tíu eintök eru til af í heiminum og annað með  framleiðslunúmerið 9 af þeim 60 sem framleidd voru í sérútgáfu árið 1975. 

Mótorhjólasafnið var byggt í minningu Akureyringsins Heiðars Þ. Jóhannssonar sem lést sumarið 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi. Hann hafði dreymt um að opna safn enda átti hann mörg merkileg hjól og hluti tengda þeim og sérstök deild er helguð gripum hans.

„Bræður Heiðars hafa líka verið rausnarlegir við okkur og flutt inn mörg sjaldgæf hjól til að gefa safninu. Hér er allt gert af ástríðu,“ tekur Jóhann Freyr fram og segir sýningargripina til dæmis handpússaða með Mjallarbóni.

Sjá www. motorhjolasafn.is 

gun@frettabladid.is
Fréttablaðið 15.07.2011

8.7.11

Dagskrá Hjóladaga 2011

Fimmtudagur 14. júlí
Hittst á Ráðhústorgi kl 19:30. Hópakstur þaðan sem endar á Mótorhjólasafni Íslands. Hjóladagar 2011 settir. Vöfflur og lifandi tónlist.

Föstudagur 15. júlí
Hittst á Ráðhústorgi kl 12:30. Hópakstur í Ystafell þar sem samgönguminjasafnið verður skoðað.
Hjólaspyrna á svæði Bílaklúbbs Akureyrar þar sem keppt verður í mörgum flokkum, s.s. sporthjólum, hippum, fornhjólum, krossurum, vespum, o.fl. Dagskráin hefst kl 18:00 á svæði Bílaklúbbsins. Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á ba@ba.is, en skráningu líkur miðvikudaginn 13. Júlí kl 23:59. Það sem fram þarf að koma er nafn ökumanns, tegund hjóls, flokkur og upplýsingar um akstursíþróttafélag. Allar nánari upplýsingar er að finna á www.ba.is

Laugardagur 16. júlí
Dagskrá hefst á Ráðhústorgi kl 13:00. Þar mun fara fram keppni í þrautabraut á hjólum, pylsuát, o.fl. Markaðstorg verður á staðnum þar sem fjöldi aðila verða með mótorhjólatengdar vörur til sölu og kynnis. Swap-meet verður einnig á staðnum og hvetjum við fólk til að taka til í skúrnum hjá sér og mæta með dót sem það þarf að losna við. Umsjónaraðili verður með swap-meet og fólk þarf því aðeins að mæta með vöruna og verðhugmynd og mun umsjónaraðilinn sjá um að selja vöruna 
Um kvöldið verður síðan slegið upp heljarinnar veislu í Sjallanum þar sem svangir gestir hjóladaga geta gætt sér á grilluðum kræsingum. Þar verður einnig verðlaun afhent fyrir hjólaspyrnuna og Hjóladögum 2011 síðan formlega slitið. Hljómsveitin Sniglabandið mun síðan halda uppi stemningu fram á rauða nótt. Verð í matinn með dansleik er 5000 kall. Húsið opnar fyrir matargesti kl 20:00 en fyrir dansþyrsta ballgesti opnar á miðnætti.

7.7.11

Hetja sem ríður um héruð 2011


Njáll ökukennari við nýju Triumph hjólin sem mótorhjólaleigan
hans Biking Viking var að fá.

Njáll Gunnlaugsson skrifar bækur og kennir á vélhjól

Upphaflega fór ég í ökukennsluna til að kenna á mótorhjól en í dag kenni ég líka á fólksbíla,“ segir Njáll Gunnlaugsson, ökukennari og bifhjólamaður. Árið 1998 byrjaði Njáll að kenna á mótorhjól og hefur sinnt því í þrettán ár. Áhugi hans á mótorhjólum hófst snemma á unglingsárunum. „Mótorhjólaáhuginn byrjaði með skellinöðru og svo kaupi ég fyrsta götuhjólið mitt tvítugur og þá var ekki aftur snúið. Fyrst var ég að leika mér á Honda MB og MT sem ég fékk hjá vinum mínum á unglingsárunum og síðan þróaðist þetta út í götuhjólin.“ Njáll segir að frá því hann fékk sér sitt fyrsta
hjól hafi hann alltaf átt mótorhjól. „Ég keypti mér í vetur fyrsta hjólið sem ég átti og ætla að gera það upp á næstu mánuðum en það er kawasaki GPz 550 Þá fjárfesti ég líka í Honda MB svona til gamans og til að rifja upp gamla og góða tíma. Það hjól er nú komið til systursonar míns sem er að taka sínu fyrstu skref á mótorhjóli“

BMW í uppáhaldi

„Ætli það séu ekki að verða 30 til 40 hjól sem ég hef átt yfir ævina. Við hjónin eigum í dag 12 hjól og síðan rek ég mótorhjólaleigu og er með kennsluhjól þar að auki,“ segir Njáll og bætir við að BMW-hjól séu í miklu uppáhaldi hjá sér. „Ég er búinn að eiga og á nokkur BMW-hjól og hef gaman af þeim. Þeir kunna að smíða skemmtileg og flott mótorhjól og þau eru oft hátæknivædd með  skemmtilegum nýjungum.“ Gífurleg aukning á sölu mótorhjóla var um miðjan síðasta áratug í uppsveiflunni en eftir hrun hefur sala á hjólum dregist verulega saman. „Þegar mest var í  uppsveiflunni voru flutt inn nærri 1.500 hjól á ári en í fyrra voru flutt inn 150 hjól. Nýliðun er því minni í dag,“ segir Njáll sem bætir við að mikil sprenging hafi verið í sölu á rafmagnsvespum og augljóst að fólk sé að leita að ódýru farartæki til að komast á milli staða. „Rafmagnsvespurnar eru flokkaðar í sama flokk og reiðhjól ef þær komast ekki yfir 25 km á klukkustund. Menn hafa ekki gert ráð fyrir þessu og það vantar reglur um þetta og jafnvel stíga og annað, bæði fyrir hjól og vespur. Þetta er viðvarandi vandamál á Íslandi í dag. Sá fjöldi sem nú er kominn á rafmagnsvespu getur þó
seinna meir skilað sér á götuhjólin og þannig stækkað flóruna og aukið nýliðun í mótorhjólaheiminum.“


Með mótorhjólið í forgangi

Þó Njáll kenni hvoru tveggja á mótorhjól og fólksbíl er ekki hægt að segja annað en að hann hafi mótorhjólið í forgangi. Þau eiga hug hans allan. „Ég hef lengi safnað gömlum myndum af
mótorhjólum og svo vatt þetta upp á sig og endaði á því að ég gaf út bók um 100 ára sögu mótorhjólsins á Íslandi,“ segir Njáll sem seldi Mótorhjólasafni Íslands upplag af bókinni vel
undir kostnaðarverði til að styrkja byggingu safnsins á Akureyri. „Ég þekkti vel til Heidda, sem safnið er meðal annars reist til minningar um og Jóa, sem rekur safnið. Mér fannst því rétt að styrkja safnið með þessum hætti.“ Bókin, sem heitir Þá riðu hetjur um héruð – 100 ára saga mótorhjólsins á Íslandi, er til sölu hjá Mótorhjólasafni Íslands og er skemmtilegt ágrip um sögu mótorhjólsins á Íslandi.

Ímyndin um hörkutólið 

Það loðir oft við mótorhjólin ímyndin af uppreisnarseggjum í leðurjökkum að þeysast um götur borgarinnar á ógnarhraða. „Það er svo mikil gróska í mótorhjólamenningunni í dag. Það eru allir á mótorhjóli, hvort sem það er ráðherra eða ruslakall. Þegar það eru svona margir á mótorhjólum þá eru alltaf til einhverjir sem vilja greina sig frá fjöldanum, hvort sem fólk gerir það með hjólunum eða klúbbnum sem það er í. Þannig er nú bara mannlífið,“ segir Njáll sem telur að hluti af  ýmyndarvandanum sé ekki síst umfjöllun í fjölmiðlum sem einblíni oftar á slæmu hlutina. Njáll segir vélhjólamenn almennt vera meðvitaða um umferðaröryggi, hvort sem það snýr að þeim sjálfum eða öðrum. „Við í Sniglunum förum á hverju vori út á göturnar til að minna fólk á mótorhjólin á vegunum
og auðvitað líka til að bæta ímyndina.Við keyrum umferðarátak á hverju ári og erum til að mynda í góðu samstarfi við vegagerðina um betra vegumhverfi fyrir mótorhjólafólk, en árangur þessa samstarfs má sjá með tilraunavegriðum á Hafnarfjarðarveginum og mun sjást enn frekar í framtíðinni.“
vilhjalmur@mbl.is
Morgunblaðið
7.7.2011

Eiga hátt í Hundrað Mótorhjól

Lesa greinina HQ PDF

25.6.11

Skutlast í hringferð um landið á hjólunum

Skutlurnar, eini kvenbifhjólaklúbbur landsins, lögðu af stað á mótorhjólum sínum í gær í hringferð um landið. Í hópnum eru um 40 konur en í hringferðina að þessu sinni tóku þær maka sína með og hópurinn því allstór.


Skutlurnar, eini kvenbifhjólaklúbbur landsins, lögðu af stað á mótorhjólum sínum í gær í hringferð um landið. Í hópnum eru um 40 konur en í hringferðina að þessu sinni tóku þær maka sína með og hópurinn því allstór.
Margar Skutlur aka um á Harley Davidson-hjólum en annars eru hjólin af ýmsum tegundum og gerðum. Lagt var af stað frá Shell við Vesturlandsveg í blíðviðri í gærmorgun. Klúbburinn var stofnaður árið 2005 og hefur meðlimum fjölgað jafnt og þétt. Stofnfélagar voru 14 en félagsmenn eru orðnir hátt í 30 talsins. Nálgast má upplýsingar um klúbbinn á www.skutlur.is.
— Morgunblaðið/Ernir