8.9.10

Ferðast á fornum fararskjóta


  •  Færeyingur á ferð um landið á 65 ára mótorhjóli
Færeyingurinn Finn Jespersen hefur alla tíð haft mikinn áhuga á öllu sem viðkemur gömlum mótorhjólum. Þegar hann frétti af því að vinur hans, Hjörtur Jónasson frá Selfossi, hefði keyrt yfir Kjöl á Matchless-mótorhjóli árgerð 1946 fyrir nokkrum árum ákvað Finn að halda á vit ævintýranna á Íslandi á einu þriggja fornhjóla sinna af Nimbus-gerð. Síðastliðna viku hefur Finn því ferðast um landið á 65 ára gömlu mótorhjóli, smíðuðu við lok síðari heimsstyrjaldarinnar.
 Finn á þrjú Nimbus-hjól en hin hjólin tvö sem hann skildi eftir heima í Færeyjum voru smíðuð árin 1936 og 1939 þannig að hjólið sem hann ferðast á í sumar er unglambið í safninu. Finn hefur í mörg ár starfað fyrir Samskip í Kollafirði í Færeyjum þannig að það þarf ekki að koma blaðamanni á óvart hversu góða íslensku hann talar. „Ég hef gaman af því að tala við áhafnirnar. Íslenska og færeyska eru eiginlega sama málið,“ segir hann á kjarnyrtri íslensku. 
Finn kom til landsins á þriðjudag fyrir viku með Norrænu og keyrði frá Seyðisfirði til Vopnafjarðar, kom við í Reykjahlíð við Mývatn og heimsótti Húsavík og Akureyri. Þá var hann í Reykjavík og á Selfossi fyrir helgina auk þess að aka Kjölinn sem var aðaltakmark ferðarinnar. Tók sú ferð tíu tíma. Allt í allt segist hann hafa farið um tvö þúsund kílómetra á hjólinu góða. 

Gömul hjól smíðuð til að endast 

Er ekkert mál að ferðast slíkar vegalengdir á hálfsjötugu mótorhjóli? „Nei, nei, það skiptir engu máli,“ segir Finn glaður í bragði.  „Maður tekur því bara rólega og fer ekki á meira en 60-70 kílómetra hraða. Hjólið er í góðu lagi ennþá!“ Nimbus-hjólin þurfa ekki mikið viðhald að sögn Finns. „Það þarf bara að skipta um olíu við og við,“ segir hann. Hann hefur átt hjólið sem hann ferðast á um landið í sex ár og segir öll hjólin sín þrjú vera eins og ný. „Öll gömul mótorhjól voru vel byggð og til þess að endast. Það er ekki eins og í dag þar sem ný mótorhjól duga kannski í tíu ár og ekki mikið meira en það,“ segir Finn. 
Á ferð sinni um landið fannst Finn mest til sundlauganna koma. „Það er ótrúlegt að sjá þrjátíu stiga heitt vatn úti undir beru lofti. Svo þótti mér merkilegt að sjá öskuna úr gosinu í vor á Akureyri. Í Færeyjum sáum við líka ösku en ekki svona mikla,“ segir Finn sem heldur heim á leið í kvöld með Norrönu. 
Morgunblaðið 08.09.2010Kjartan Kjartansson
kjartan@mbl.is

30.7.10

BJÖRGÓLFUR THOR Á MÓTORHJÓLAHÁTÍÐ




Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir fór á mikla mótorhjólahátíð sem haldin var í bænum Sturgis í miðríkjum Bandaríkjanna í fyrra. Myndir frá hátíðinni sýna Björgólf afslappaðan í góðra vina hópi og þeysandi um á Indian-mótorhjóli. Tveir starfsmenn Björgólfs, Orri Hauksson og Sigurður Ólafsson, voru með í för. Björgólfur Thor á hlut í mótorhjólaframleiðandanum Indian og hafa Orri og Sigurður unnið þar fyrir hann.


Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir fór á mótorhjólahátíð í Sturgis í Suður-Dakóta í Bandaríkjunum í ágúst í fyrra. Þetta sýnir ljósmyndasyrpa af fjárfestinum sem DV hefur undir höndum. Myndasyrpan sýnir Björgólf Thor í áður óþekktu ljósi, klæddan í þægileg hversdagsföt, með alls kyns skartgripi og skraut á sér auk þess sem hann sést liggjandi í tjaldi með sælusvip. Björgólfur virðist því vera töluvert alþýðlegri en almennt hefur verið talið. Með Björgólfi Thor í för voru tveir af starfsmönnum hans sem hafa unnið fyrir hönd fjárfestisins í tengslum við eignarhlut hans í bandaríska mótorhjólafyrirtækinu Indian. Starfsmennirnir heita Orri Hauksson, sem er fyrrverandi aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar og stjórnarformaður Skjás eins, og Sigurður Ólafsson, sem lengi hefur unnið fyrir Björgólf Thor. Björgólfur keypti á sínum tíma hlut í Indian-fyrirtækinu sem er með höfuðstöðvar í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Mótorhjólafyrirtækið er að mestu í eigu breska verðbréfafyrirtækisins Stellican Limited sem er með höfuðstöðvar í London. Indian framleiðir lúxusmótorhjól. Afar líklegt verður að teljast að ferð þeirra félaga til Bandaríkjanna, sem og vera þeirra í Sturgis, tengist að einhverju leyti eignarhlut Björgólfs Thors í Indian-mótorhjólaframleiðandanum. Á einni myndinni sjást þeir sitja í tjaldi sem merkt er Indianhjólunum og virðist óþekktur maður í Indian-bol vera að útskýra eitthvað fyrir þeim. Björgólfur er hugsi á myndinni og skartar stígvélum sem virðast vera úr forláta skinni.


Kannski voru þeir jafnvel staddir í Sturgis til að prófa glæsilega Indian-hjólið sem Björgólfur sést á tvívegis á myndunum.

Kannski voru þeir jafnvel staddir í Sturgis til að prófa glæsilega Indian-hjólið sem Björgólfur sést á tvívegis á myndunum. Á einni þeirra er fjárfestirinn skælbrosandi eins og honum finnist ekkert betra í þessum heimi en að þeysa um á mótorfák. Aftan á hjólinu á báðum myndunum er Orri Hauksson sem er ekki síður ánægður á annarri myndinni. Myndirnar eru táknrænar fyrir samband yfir- og undirmanns; Björgólfur er við stjórnvölinn en Orri flýtur með og lætur að stjórn. Björgólfur undir stýri, fúlskeggjaður, grófur og karlmannlegur á meðan


Orri situr fyrir aftan Björgólf Thor og heldur sér í bílstjórann, töluvert nettari, sléttari og fínlegri. En áhugaverðasta myndin er þó sennilega myndin af Björgólfi í tjaldinu þar sem hann liggur og lygnir aftur augunum með sælusvip á andlitinu. Flestir hefðu líklega haldið að Björgólfur Thor gisti aldrei í tjaldi heldur aðeins á fínum hótelum með herbergisþjónustu og handklæðahitara. En honum virðist líka það vel að kúldrast á vindsæng á jörðinni undir þunnum tjaldhimni í raka eða stækju. Orri er við hlið hans sem fyrr. Maður gæti jafnvel séð Björgólf fyrir sér á þjóðhátíð í Eyjum, í gamalli hettupeysu og pollagalla með brúsa fullan af blandi og sprútti um hálsinn, syngjandi trallalla í brekkusöngnum með Árna Johnsen eða Róbert Marshall. Hann virðist svo mannlegur á myndunum. Þar liggur sennilega fréttagildi þeirra: Björgólfur gistir í tjaldi.  

DV 2010

24.7.10

Umferðardeild í fimmtíu ár

Til staðar fyrir ökumennina





  • Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu heldur kaffisamsæti fyrir umferðardeildina
  • Lögreglumótorhjólin eru hluti af umferðinni og gera löggæsluna sýnilegri
Þann 16. júní 1960 var tilkynnt stofnun sérstakrar umferðardeildar lögreglunnar í Reykjavík og er deildin því 50 ára um þessar mundir. Við stofnun sína hafði deildin 8 mótorhjól til umráða, jafnmörg eftirlitshverfum borgarinnar, og tvo lögreglubíla. Afmælisins verður minnst í dag á lögreglustöðinni við Hverfisgötu þar sem haldið verður kaffisamsæti fyrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn deildarinnar, um 120 manns, og farið yfir söguna í máli og myndum. Í dag heitir deildin umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og eru um 28 menn starfandi í deildinni sem hefur það aðalhlutverk að fylgjast með allri umferð á höfuðborgarsvæðinu, fylgjast með ökuhraða og að umferðarreglur séu virtar. Þá eru viðbrögð við ölvunarakstri stór þáttur í starfi deildarinnar, auk þess sem umferðardeildin kemur að vettvangi umferðarslysa á svæðinu. Þá stýrir deildin umferð og lokunum í tengslum við hátíðir, skrúðgöngur og opinberar heimsóknir á höfuðborgarsvæðinu..
   Árni Friðleifsson varðstjóri í umferðardeild segir stöðuna á umferðarmálum borgarinnar nokkuð góða og tölur sýni að slysum hafi farið fækkandi á svæðinu síðustu ár. „En við erum mjög áfjáðir í að lækka þá tölu enn meira. Við höfum komið að mörgum slysum og banaslysum í gegnum tíðina, sem eru svo mikill mannlegur harmleikur, að við eflumst stöðugt í starfinu. Hvert slys sem við getum komið í veg fyrir er mikill sigur fyrir okkur.“ Umferðardeildin hefur yfir að ráða 14 mótorhjólum, 2 lögreglubílum og einum ómerktum myndavélabíl. Árni segir mótorhjólaáhuga samofinn deildinni, lögreglumenn sem hafi áhuga á mótorhjólum, akstri ökutækja og umferðarmenningu safnist í umferðardeildina.

 „Starfið byggist á því að menn séu á bifhjólum og flestir sem hafa verið starfandi hér eiga sjálfir mótorhjól,“ segir Árni og bætir við að mótorhjólin virki mjög vel í baráttunni fyrir bættri umferðarmenningu þar sem löggæslan sé mjög sýnileg. „Við getum nálgast ökumenn á annan hátt en bílar, það er öðruvísi yfirferð á hjólunum í umferðinni. Starfið felst í að vera þarna úti og grípa inn í ef eitthvað bjátar á og vera til staðar fyrir ökumennina.“  


Ingibjörg Rósa Björnsdóttir 
ingibjorgrosa@mbl.is

29.4.10

Krefjandi keppni


Sniglarnir halda keppni í hjólafimi í fjórða sinn í ár. Njáll Gunnlaugsson, ökukennari og í umferðarnefnd Sniglanna, segir keppnina vera bæði skemmtilega og krefjandi.
„Allir sem eru með mótorhjólapróf geta tekið þátt,“ segir Njáll. „En fyrstir koma, fyrstir fá.“ Pláss er fyrir um 25 manns í keppninni, en enn sem komið er hafa einungis konur skráð sig. „Karlarnir eru yfirleitt seinni til, en þeir tínast inn smám saman,“ segir hann. Keppnin í hjólafiminni snýst meðal annars um grein sem er kölluð snigl.
Hún snýst ekki um að keppa við klukkuna heldur færni
og tækni á mótorhjóli. „Þeim mun meiri tíma sem þú færð í sniglinu, þeim mun fleiri stig færðu,“ segir Njáll. „Þetta snýst um að keyra 10 metra vegalengd á sem lengstum tíma án þess að setja fæturna niður. Allt yfir hálfa mínútu er nokkuð gott.“ Íslandsmetið í Snigli er 1 mínúta og 15 sekúndur, en það er 16 metra vegalengd. Keppt verður í öðrum greinum þar sem úrslitin ráðast á tíma og tækni, en refsistig verða gefin fyrir villur í brautinni. Keppt verður á Suzuki 125 Vanvan-hjóli. „Það er létt og gott hjól til þess að tryggja jafnræði í keppninni,“ segir Njáll. „En það verða áhorfendur og kannski er aðalhindrunin fyrir keppendurna að láta ljós sitt skína fyrir framan annað fólk.“ 

Steypuhrærivél aftur að mótorhjóli



Í litlum bílskúr við Háaleitisbrautina hefur Grímur Jónsson vélsmiður unnið við að gera upp afar fágætt mótorhjól síðustu misserin.

Hjólið er af gerðinni Henderson, sem er amerískt hjól framleitt á árunum 1912-1931. Hendersonhjólin voru með 4ra strokka toppventlavél og þóttu fullkomin á sinni tíð. Þessi gerð hjólsins var smíðuð stuttu eftir að Ignaz Schwinn keypti Henderson-fyrirtækið 1917. Hjólin voru framleidd í Detroit til að byrja með en Schwinn flutti framleiðsluna til Chicago. Þar voru þau framleidd ásamt Excelsior-mótorhjólunum þar til Schwinn hætti framleiðslu mótorhjóla 1931. Hönnuður hjólsins, William Henderson, hélt reyndar áfram  framleiðslu 4ra strokka mótorhjóls
undir merkinu ACE sem var keypt af Indian.

UMBOÐIÐ Á AKUREYRI

Ingólfur Esphólín flutti hjólið til landsins en hann bjó á Akureyri. Hvort hjól Gríms sé árgerð 1918
eða 1919 er erfitt að segja með vissu. Hjólið er með bókstafinn Z í verksmiðjunúmeri sem segir að það sé 1919-árgerð en Espholin Co. byrjaði að auglýsa mótor-reiðhjól 11. október 1918 í blaðinu Íslendingi. Hið rauða „X“ er í merkinu á hjólinu, en það var á DeLuxe-útgáfunni árið 1918.
Líklegt má telja að aðeins eitt Henderson-hjól hafi ratað til landsins. Það bar fyrst númerið RE-408 þegar það var í eigu Sigurðar I. Hannessonar í Ánanaustum á árunum fyrir seinna stríð en fékk númerið R-1103 árið 1937. Hjólið er svo afskráð 12. september 1938 eftir tveggja áratuga notkun.

FANNST Á BROTAJÁRNSHAUG

Grímur frétti fyrst af hjólinu þegar honum var sagt frá mótor sem líklega væri af mótorhjóli og stóð í  vélsmiðju Héðins í Reykjavík. Þetta var árið 1963. Þannig komst hann á sporið og eftir smá eftirgrennslan kom í ljós að grindin og fleira úr hjólinu var enn í gömlum brotajárnshaug í Ánanaustum. Vélin hafði verið tekin úr hjólinu á uppgangsárum seinni heimsstyrjaldarinnar til að nota í steypuhrærivél. Hún hafði svo brætt úr einum stimpli og aldrei farið í hjólið aftur. Grímur byrjaði  á uppgerðinni fyrir næstum tveimur áratugum og smíðaði þá stimpla í hjólið. Þá þurfti að steypa aftur þar sem þeir fyrri voru alsettir eitlum vegna of lítils kolefnis í steypunni. Endurgerð hjólsins hófst svo ekki fyrir alvöru fyrr en 2007. Grímur keypti annan Henderson-mótor nánast sömu gerðar úr flugvél og notaði meðal annars stimpilstangir úr honum. Grímur sá hins vegar sjálfur um að smíða ventlastýringar, stimpla, stimpilhringi, stimpilbolta, ventlagorma og ýmsar fóðringar í gömlum rennibekk í skúrnum hjá sér. Einnig rétti hann af grindina og smíðaði smáhluti í hjólið og ryðbætti bretti og fleira. Þurfti Grímur að leita víða áður en hann fékk rétt hnoð í brettin en þau fundust í gamalli skúffu í Blikksmiðju Reykjavíkur

Í GANG EFTIR 70 ÁR

Þótt Grímur hafi endursmíðað stóran hluta hjólsins sjálfur aðstoðaði Kristinn Sigurðsson hann við að finna hluti sem margir komu að utan. Gjarðir í hjólið komu frá Bandaríkjunum sem og rafkerfi en gúmmí í handföng og fótborð frá Kanada. Í Póllandi fannst sérfræðingur í gerð hnakka fyrir þessar gerðir mótorhjóla og olíuþykktarmælirinn kom alla leið frá Ástralíu. Grímur fékk aðstoð völundar að nafni Guðni Ingimundarson við að magna upp magnetuna í hjólinu og stilla hana ásamt blöndungi fyrir gangsetningu. Guðni er ekki óvanur endursmíði gamalla véla enda hefur hann gert upp margar bátavélar frá fyrri tíð. Loks var hjólið sprautað hjá Sigurði í Bílsetrinu í Mosfellsbæ. 
Fyrsta púst vélarinnar var á gólfinu í skúrnum við Háaleitisbrautina en fyrir rúmum þremur vikum var mótorinn prufukeyrður og stilltur fyrir suður í Garði og hafði þá ekki verið gangsettur í sjö áratugi. Henderson-hjólið er nánast fullgert þótt enn sé eftir að smíða og laga fáeina hluti. Það verður frumsýnt almenningi á Burnout-sýningunni í Kauptúni um komandi helgi.
NG.
Fréttablaðið 29.04.2010