12.6.12

Hjólafólk tók örfoka land í fóstur


 „Já, vorið 2009 byrjuðum við með Hekluskógum,“ sagði Hjörtur L. Jónsson, formaður Ferða- og útivistarfélagsins Slóðavina sem fengu á dögunum styrk frá Pokasjóði vegna uppgræðsluverkefnis klúbbsins í nágrenni Sultartangalóns, innan Hekluskóga.

Hópurinn hefur plantað í kringum Vaðöldu í fyrrum farvegi Tungnaár. Í sumar er hópurinn að vinna að uppgræðslu og skógrækt á svæðinu fjórða árið í röð. Slóðavinir hafa plantað um 4.000 plöntum við Vaðöldu frá 2009 og dreift um þremur tonnum af áburði á svæðinu.

Kjarninn var í Vélhjóla- og íþróttaklúbbnum

„Í rauninni kemur mikill hluti Slóðavina úr Vélhjóla- og íþróttaklúbbnum og var kannski styrkasta stoð klúbbsins. Stór kjarni af þessum hópi var að vinna með Vélhjóla- og íþróttaklúbbunum í smá gróðurmálum í kringum Bolaöldu, beint á móti Litlu kaffistofunni þar sem borinn var áburður, plantað og fleira. Það var gert svolítið mikið af því árin 2006-2008,“ sagði Hjörtur.

Hann segir að þeir sem hafi verið að ferðast og í frístundaakstri, en ekki í keppni hafi fengið orðið minni þjónustu hjá klúbbnum og menn hafi því séð að þeim væri jafnvel betur borgið í nýjum félagsskap. Upp frá því hafi Ferða- og útivistarklúbburinn Slóðavinir verið stofnaður.

Upphafið má rekja til ársins 2001

„Vélhjóla- og íþróttaklúbburinn byrjaði 2001 í gróðurtilraunum í tengslum við keppnishald. Ég stýrði því og hef alltaf verið inni á þessari línu að ekki bara taka heldur að maður þurfi líka að gefa,“ sagði Hjörtur.

Hjörtur segir að með þessi nái hópurinn bæði að ferðast um landið og njóta útivistar. Hann segir að oft sé bæði um að ræða hjólaferðir fyrir og eftir gróðursetningu. „Svona gróðursetningar taka ekkert voðalega langan tíma ef það er samvinna. Þannig að það er hægt að ná fínum hjólatúr á undan eða eftir,“ sagði Hjörtur.

„Svo bara sá maður árangurinn, hvað hann var mikill og vitandi það að svæðið væri svo miklu miklu stærra heldur en Slóðavinir koma nokkurn tíma til með að ráða við og ekkert of margir voru að ganga til liðs við Hekluskóga, og eftir hrun hafa menn frekar verið að fjarlægast þá og standa ekki við gefin loforð, hef ég heyrt, datt mér þá í hug að bjóða götuhjólafólki að koma að þessu líka af því að það er malbikaður vegur alla leiðina,“ sagði Hjörtur.

Fimm vélhjólafélög auk Slóðavina stunda gróðursetningu á svæðinu

„Það gekk upp og það voru þarna fimm félög sem vildu prufa þetta og líka sem bara rúnt í leiðinni, stoppa þarna í tvo tíma, dreifa áburði og gróðursetja. Það var ekki málið. Eina sem þarf nauðsynlega að gera fyrir þann hóp er að sturta þremur bílhlössum þarna í bílkantinn svo þau komist út af veginum. Því það er hættuleg umferð þarna,“ sagði Hjörtur.

Aðspurður um hversu lengi verkefnið muni standa sagði hann: „Vonandi bara um aldur og ævi, en götuhjólaklúbbunum var boðið að taka þátt í verkefninu í þrjú ár og vonandi verður það þróað áfram og fleiri aðilum boðið að koma að verkefnum.“

Verkefnið sem hér um ræðir hefur fengið heitið „Mótorhjólaskógur“ og vélhjólaklúbbarnir sem taka þátt eru: Bifhjólasamtök Lýðveldisins Sniglar, BMW Íslandi, Ernir Suðurnesjum, Skutlur Kvennaklúbbur, HOG chapter Iceland Harley Davidson eigendur og Ferða-og útivistarfélagið Slóðavinir. Mótorhjólaskógurinn var formlega opnaður 19. maí síðastliðinn, þó ennþá vanti nokkuð upp á að svæðið fái skógarásýnd, enda byrjað í svörtum vikursandi. Plantað var um 2.000 trjáplöntum á opnunardegi og þremur tonnum af áburði dreift.

Hver hópur hefur afmarkað svæði meðfram veginum inn á Sprengisand nokkru austan við brúna yfir Þjórsá við Sultartangavirkjun. Hver reitur er 500*500 metrar. Slóðavinir eru þó áfram með sinn reit við Vaðöldu.

Árangurinn mjög góður

Hjörtur segir árangurinn vera góðan. „Við plöntuðum 25 plöntum í tilraunareit vorið 2009 og í fyrravor voru 18 ennþá lifandi, enda ef maður stingur niður skóflu og mokar holu þá er mold þarna niður á 10-20 sentimetrum. Það liggur bara vikur þarna yfir eftir Heklugos.“

Á meðfylgjandi myndum frá Slóðavinum má sjá árangurinn af verkum Slóðavina auk vinnu annarra vélhjólaklúbba við gróðursetningu og uppgræðslu.

28.5.12

Mótor­hjóla­menn fjöl­menntu í messu


Mótor­hjóla­menn fjöl­menntu í messu



Það var tals­vert annað yf­ir­bragð yfir messu í Digra­nes­kirkju í kvöld en venju­lega, en þar fór fram svo­kölluð mótor­hjóla­messa. Í kirkj­unni voru leður­klædd­ir mótor­hjóla­menn og utan við kirkj­una var röð glæsi­legra mótor­hjóla.

Mótor­hjóla­messa hef­ur verið hald­in í Digra­nes­kirkju síðustu ár. Séra Gunn­ar Sig­ur­jóns­son er áhugamaður um mótor­hjól, en hann átti frum­kvæði að þess­um mess­um.

Í frétta­til­kynn­ingu frá Digra­nes­kirkju seg­ir að mess­an sé al­vöru messa, með pré­dik­un og alt­ar­is­göngu. „Það er ekk­ert slegið af í helgi­hald­inu, þó svo um­búnaður­inn sé sveipaður létt­leika og prest­arn­ir (sem verða að vera mótor­hjóla­fólk) eru bún­ir sama klæðnaði.“  Leður og Gor­etex sé því „viðeig­andi” klæðnaður.

Mótor­hjóla­mess­an er einnig sam­starfs­verk­efni Þjóðkirkju og Hvíta­sunnu­kirkj­unn­ar og hafa prest­ar frá báðum þess­um kirkju­deild­um ann­ast helgi­hald.

Mótor­hjóla­mess­an hófst í Digra­neskirkju árið 2006 þegar 115 manns komu til messu á 55 vélfák­um. Mótor­hjóla­mess­unni hef­ur auk­ist fylgi milli ára. Árið 2007 komu 240 manns á 170 hjól­um. Árið 2008 yf­ir­fyllt­ist kirkj­an (sem tek­ur 320 manns) með 380 ridd­ur­um göt­unn­ar á 230 fák­um. Ári síðar (2009) komu 402 mótor­hjóla­menn í messu þannig að þetta stefn­ir í stórviðburð á þessu ári enda löngu búið að sprengja allt rými sem ann­ars hæf­ir fyr­ir venju­leg­ar mess­ur.

 mbl | 28.5.2012 | 21:56 | 








23.4.12

MÓTORHJÓL ER SJÁLFSAGÐUR HLUTUR


Verslunin Nítró er með umboð fyrir Kawasaki-vélhjól og selur úrval aukabúnaðar og fylgihluta. Nýlega opnaði Nítró verslun í Garðabæ. Áhugi almennings á mótorhjólum hefur aukist síðustu árin.

Verslunin Nítró er með umboð fyrir Kawasaki-vélhjól og býður upp á mikið úrval aukabúnaðar og fylgihluta fyrir eigendur mótorhjóla og fjórhjóla. Nýlega opnaði Nítró glæsilega verslun í rúmgóðu og björtu húsnæði í Kirkjulundi 17 í Garðabæ. Ragnar Ingi Stefánsson, sölustjóri hjá Nítró, segir nýja húsnæðið rúmgott og skemmtilegt þar sem viðskiptavinir geti nú skoðað mikið úrval hjóla og fylgihluta í þægilegu umhverfi. „Fyrst og fremst erum við umboðsaðili fyrir Kawasaki-hjól af öllum stærðum og gerðum, auk þess höfum við umboð fyrir sæþotur frá Kawasaki. Znen-vespurnar hafa verið áberandi á götunum en vinsældir þeirra hafa verið miklar síðustu árin. Einnig er Nítró með umboðið fyrir HiSun-fjórhjól frá Kína en þar er verðið sölupunkturinn. Við bjóðum einnig upp á
mikið úrval af göllum, hjálmum, skóm auk vara- og aukahluta fyrir flestar hjólategundir.“
Hann segir áhuga almennings á mótorhjólum hafa aukist mikið undanfarin tíu til fimmtán ár. „Það hefur orðið mikil hugarfarsbreyting meðal Íslendinga á síðasta áratug. Í dag viðurkenna flestir þetta sem sjálfsagðan hlut, að eiga mótorhjól, fjórhjól eða vespu svo dæmi séu tekin. Enda hefur fjöldi vélknúinna hjóla aukist mjög mikið á þessum tíma. Við sjáum það til dæmis á sölutölum yfir vespur en við seljum hundruð vespa á hverju ári sem bæði ganga fyrir bensíni og rafmagni. Vespurnar ná 25 km hraða og þær þarf ekki að skrá né taka próf á og svo bjóðum við öflugri 45 km vespur og enn stærri fyrir þá sem það vilja. “


Öll hefðbundin þjónusta


Ragnar segir þróunina í hugarfari hérlendis vera í sömu átt og víða erlendis. „Það að vera á mótorhjóli þykir bara sjálfsagður hlutur en ekki bara fyrir þröngan hóp fólks. Nú þykir flestum sjálfsagt að ferðast um á vespum, mótorhjólum og fjórhjólum um landið.“ Nítró býður upp á fjölbreytt úrval slithluta í mótorhjól, fjórhjól og farartæki en er einnig með umboð fyrir fleiri þekkt og öflug vörumerki eins og til dæmis Givi-töskur, gler- og veltigrindur. „Við erum auðvitað eina búðin hérlendis sem selur orgínal vara- og slithluti í Kawasaki. Síðan bjóðum við upp á gott úrval vara-, slit- og aukahluta fyrir flest önnur hjólamerki. Hingað geta eigendur flestra hjóla sótt alla hefðbundna
þjónustu.“ Nýjasta tryllitækið hjá Nítró er ZZR 1400 Kawasakimótorhjól sem er hraðskreiðasta mótorhjólið í heiminum í dag að sögn Ragnars. „Um er að ræða 200 hestafla græju frá Kawasaki. Hámarkshraði hjólsins er vel yfir 300 km á klukkustund. Við munum afhenda fyrsta hjólið eftir nokkra daga.“ Viðgerðarþjónusta Nítró er mjög öflug og skipuð góðum og vel þjálfuðum starfsmönnum. „Við verðum með fjóra menn á verkstæðinu í sumar og getum þannig veitt eigendum ólíkra tegunda vélknúinna hjóla, ekki bara Kawasaki-hjóla, úrvalsþjónustu. Að sama skapi erum við með auka- og slithluti fyrir öll merki. Þú kemur bara með hjólið í hús og við græjum málið.“Nánari upplýsingar um vörur Nítró má finna www.nitro.is og á Fésbókinni.
DV 23. apríl 2013

2.4.12

Hjólandi nornir á Norðurlandi




 75 konur mynda MC Nornir     --------    Segjast vel geta kallað sig MC-klúbb


MC Nornir er mótorhjólaklúbbur á Norðurlandi sem samanstendur einungis af konum. Klúbburinn var stofnaður 7. janúar 2009 og í dag eru um 75 meðlimir í honum. „Ég tók mótorhjólapróf árið 2007 og var síðan boðið að ganga í klúbbinn,“ segir Hrönn Arnheiður Björnsdóttir, formaður MC Norna.


Allir velkomnir 

Hrönn segir áhuga sinn á mótorhjólum vera ástæðuna fyrir að hún gekk í klúbbinn. Tilgangur klúbbsins er „að koma konum saman og hafa gaman,“ segir Hrönn. „Ég hef alltaf haft áhuga á mótorhjólum en ég var orðin 36 ára þegar ég tók prófið. Þessi klúbbur er hugsaður sem stuðningur fyrir konur sem hafa kannski áhugann en hafa ekki þorað að taka skrefið til fulls, taka próf og fá sér hjól. Síðan er þetta hugsað sem félagsskapur fyrir konur sem eru með próf og hjól til að koma saman.“ Hrönn segir engin skilyrði önnur fyrir inngöngu en þau að viðkomandi hafi áhuga á mótorhjólum. „Hinar sem eru ekki komnar með próf, koma stundum með okkur í ferðir en eru þá bara á bílum eða sitja aftan á hjólum hjá öðrum. Það eru auðvitað allir velkomnir.“


Æfa sig í þrautabrautum

 MC Nornir leggja mikið upp úr forvörnum og njóta stuðnings ökukennara fyrir norðan sem fer reglulega yfir öryggisatriði með konunum. „Við höfum notið góðs af því að Valdimar Þór Viðarsson ökukennari hefur komið til okkar á sérstökum forvarnardegi og sett upp þrautabraut sem við getum fengið að spreyta okkur á og liðkað okkur aðeins fyrir sumarið. Hann aðstoðar okkur og segir okkur til ef þess þarf. Hann hefur einnig verið með okkur einu sinni í viku í um sex skipti í æfingaakstri og þá förum við í sérstaka braut og fáum að æfa okkur.


Bandarískir kvenhjólaklúbbar fyrirmyndir 

Hrönn segist ekki hafa fundið fyrir fordómum að undanförnu eftir að umfjöllun um MC-klúbba á borð við Hells Angels og Outlaws varð hávær, en segir jafnframt að sumir klúbbar hafi fett fingur út í það að þær kalli sig MC-klúbb, en einhverjir vilja meina að það standi fyrir „Mens Club“. „Það er þessi misskilningur um að MC standi fyrir „Mens Club“, en við höfðum samband við AMA eða American Motorcycle Association og þeir sögðu það að MC stæði bara fyrir „Motorcycle Club“ eða mótorhjólaklúbb. Það má segja að við séum búnar að liggja í heimildavinnu frá 2009. Við vitum því að það eru margir bandarískir kvenmótorhjólaklúbbar sem bera MC í sínu nafni, eru með heilt bakmerki og borga sín félagsgjöld. Við teljum þær vera okkar fyrirmyndir.“ 


Vilja bera heilt bakmerki

 MC Nornir bera armmerki á sínum fatnaði sem er þeirra einkennismerki, það er þó hugur í þeim að taka upp heilt bakmerki. „Við höfum hugsað okkur í ár að móta skýrari stefnu í klúbbnum og taka upp bakmerki, en merki klúbbanna segir til um hvernig klúbburinn er uppbyggður. Heilt merki segir til um að þetta sé selskaps eða fjölskylduklúbbur. Svo eru tveggja búta merki sem getur staðið fyrir ýmiss konar uppbyggingu klúbbsins. Loks eru til þriggja búta merki og það bera þessir hefðbundnu mótorhjólaklúbbar, með ströngu reglunum og inntökuskilyrðunum.“ Að sögn Hrannar bera samtök á borð við Hells Angels einsprósentu merki ásamt þriggja bútamerki, en þetta eins prósentu merki merkir að þeir séu útlagar og skeri sig frá öðrum mótorhjólaklúbbum. „Þá erum við komin í það sem misskilningurinn liggur í því það eru yfirleitt bara „Mens Club“.

 

28.3.12

Norn­ir segj­ast ekki karla­klúbb­ur

Ein­kenn­is­tákn MC.
Norna. Logo/​MC. Norn­ir

Forrmaður MC. Norna sem er mótor­hjóla­klúbb­ur kvenna á Norður­landi er ósáttur við orð Helga Gunn­laugs­son­ar, pró­fess­ors í fé­lags­fræði, á morg­un­verðarfundi Fé­lags­fræðinga­fé­lags Íslands. Þar sagði hann að MC stæði í raun fyr­ir karla­klúbb en ekki mótor­hjóla­klúbb. Formaður­inn seg­ir þetta al­geng­an mis­skilning.





Frétta­vef­ur Morg­un­blaðsins, mbl.is, greindi frá því fyrr í dag að Helgi nefndi á fund­in­um að þó svo skil­greind glæpa­sam­tök á borð við Vít­isengla, Útlag­ana, Bandidos og Mon­g­ols ein­kenndu sig með stöf­un­um MC fyr­ir vél­hjóla­sam­tök (e. motorcycle club) stæðu þeir í raun fyr­ir annað, nefni­lega karla­klúbb (e. mens club). Þá mætti finna mikla og áber­andi kven­fyr­ir­litn­ingu inn­an um­ræddra sam­taka. Kon­ur fengju ekki inn­göngu nema sem fylgi­hlut­ir, svo­nefnt hnakka­skraut, eða sem eign meðlima.

Hrönn A. Björns­dótt­ir, formaður MC. Norna, sendi af þessu til­efni blaðamanni bréf þar sem hún seg­ir Norn­ir hafa staðið í stappi við ansi marg­an karlpen­ing­inn vegna þessa mis­skiln­ings. Hún seg­ir 1% sam­tök, þ.e. glæpa­sam­tök, karla­klúbba en það hafi ekk­ert með MC skamm­stöf­un­ina að gera, sem áfram standi fyr­ir vél­hjóla­sam­tök.

Þá vís­ar hún í færslu sína á sam­fé­lagsvefn­um Face­book þar sem hún árétt­ar þenn­an mis­skiln­ing. „Hvernig ætla þeir þá t.d. að út­skýra all­an þann fjölda af kven-mótor­hjóla­klúbb­um sem hafa MC í nafn­inu sínu í hinni stóru Am­er­íku?“ spyr Hrönn og bæt­ir við að formaður Lands­sam­taka lög­reglu­manna hafi sjálf­ur í viðtali sagst líta svo á.
mbl 28.3.2012