Hvað gera ferðamaður sem hefur gaman af því að hjóla og mótorhjólamaður sem hefur yndi af því aðferðast? Þeir taka saman höndum og setja á laggirnar ferðaskrifstofu sem sérhæfir sig í ferðamennsku á mótorhjólum. Það gerðu alltént bræðurnir Sverrir og Haukur Þorsteinssynir hjá Blue Mountain Adventure Tours, nýlegu fyrirtæki sem hefur sérstöðu í ferðaþjónustu á Íslandi. Grunnurinn í starfi ferðaskrifstofunnar er að skipuleggja mótorhjólaferðir um landið og þegar hún efndi til hópferðar í Landmannalaugar á dögunum þurfti ekki að segja Árna Sæberg, ljósmyndara Morgunblaðsins, það tvisvar. Hann skellti sér með.
Framsækið fyrirtæki
Bræðurnir segja Blue Mountain framsækið fyrirtæki sem leggi sig fram við öll verkefni, stór sem smá og bjóði uppá fjölbreytta þjónustu tengda mótorhjólum og annarri ferðamennsku. Farið er í styttri og lengri ferðir um landið, frá sólarhring og upp í viku. Hámarksfjöldi í hverri ferð er átta manns og bíll fer í humátt á eftir hópnum. „Það er nauðsynlegt til að geyma búnað og vistir, auk þess sem menn geta þurft að hvíla lúin bein. Flestir útlendingar sem leita til okkar hafa mikla reynslu af hjólum en oftar en ekki bara á malbiki. Malarvegirnir eru því talsverð viðbrigði.“Blue Mountain er ekki bara ferðaskrifstofa, bræðurnir reka einnig verslun og verkstæði í Rofabænum. Sérhæfa sig í vörum sem aðrir eru ekki með, t.d. dekkjum á ferðahjól. Þá er Blue Mountain með útleigu mótorhjóla ásamt kennslu í motocrossi, enduro o.fl.
Spurðir hvaðan ferðadellan komi svara bræðurnir einum rómi: „Þetta er allt pabba að kenna.“ Faðir þeirra, Þorsteinn Hjaltason, Dossi, er gamall frumkvöðull í ferðamennsku á Íslandi og mun hafa smitað syni sína fjóra af bakteríunni. Grunur leikur á að þeir hafi smitað hann til baka, en Þorsteinn keypti sitt fyrsta mótorhjól 63 ára gamall. Nú, tíu árum síðar, er hann kominn á nýjan Harley. Mótorhjól og náttúra eiga ekki samleið í huga allra en bræðurnir leggja áherslu á, að þeir séu náttúruunnendur sem ferðist um landið sitt með virðingu og aðdáun. „Við ökum ekki utan vega eða slóða og skiljum ekki eftir okkur ummerki þar sem við höfum verið. Gerist þess þörf lögum við eftir okkur hjólförin,“ segir Haukur og bætir við að mengun og skemmdir af þeirra völdum sé mun minni en af völdum trukkanna sem flytja erlenda ferðamenn á fjöll.
Náttúra, álfar og tröll
Sverrir segir ferðir á vegum Blue Mountain ekki bara snúast um hjól. Þvert á móti snúist þær ekki síður um mat, náttúru, álfa, tröll og sögu landsins. Sverrir lauk MBA-námi frá HR í vor og hefur fjölbreytta menntun á bakinu, er m.a. menntaður matreiðslumaður og lætur sig ekki muna um að töfra fram dýrindis málsverði fyrir samreiðarfólk sitt, kvölds og morgna. „Í mínum huga snýst þetta fyrst og fremst um að hitta fólk og njóta lífsins. Gera sér glaðan dag. Það er ekkert skemmtilegra en að sjá brosið á vörum fólksins eftir velheppnaða ferð.“Hann segir viðbrögðin hafa farið fram úr væntingum. „Fólk hefur upp til hópa verið mjög ánægt með þjónustuna og upplifunina í heild. Þannig vildi einn þýskur viðskiptahópur skila afslættinum sem við veittum honum. Svo ánægður var hann,“ segir Sverrir en bætir við að hann hafi ekki tekið við fénu. „Samningur er samningur.“